fimmtudagur, 20. janúar 2011

Sigurganga landsliðsins öðrum til eftirbreytni.

Guðjón Valur Sigurðsson. Enn á ný eru það handboltastrákarnir "okkar", sem rífa mann upp úr svartsýni og drunga hversdagleikans og lyfta huganum til nýrra hæða. Þegar öll sund virðast við það að lokast koma þeir til leiks og minna mann á að það er allt hægt. Baráttuvilji, hæfni og þrek þeirra er aðdáunarvert. Þrátt fyrir mikið mótlæti í kjölfar bankahrunsins undanfarin ár hefur okkur lagst ýmislegt jákvætt til. Almættið sendi okkur makrílinn inn í íslenska lögsögu. Handboltaliðið okkar hefur unnið frækilega sigra undanfarin ár. Meginþættir atvinnulífsins hafa staðist þær hremmingar sem dunið hafa yfir. Auðvitað hefur ýmislegt farið úrskeiðis, sérstaklega hjá þeim sem tefldu djarft og skuldsettu sig of mikið. Ýmsir hafa misst atvinnu sína og enn aðrir séð ástæðu til að leita til annarra landa í leit að vinnu og tækifærum. Æ oftar spyr ég sjálfan mig að því hvernig standi á því að skulum sitja uppi með þessa vesælu ríkisstjórn.Við hljótum að eiga annað og betra skilið. Stjórnin virðist taka vitlausar ákvarðanir í hverju málinu á fætur öðru eða snýst eins og skopparakringla í kringum sjálfa sig. Hvenær skyldum við fá ríkisstjórn sem hugsar vel um grunnstoðir samfélagsins, atvinnulífið og fólkið sem vill lifa hér og starfa? Ég ætla ekki að eyðileggja stemmninguna frekar en maður er farinn að bíða óþreyjufullur eftir "sigrum" á sviði stjórnmálanna. Áfram Ísland.

mánudagur, 3. janúar 2011

Gleðilegt ár.

Gleðilegt ár með þökk fyrir liðið ár. Þetta hafa verið ljúf jól og áramót og liðið ótrúlega fljótt. Það fer ekki milli mála að Facebook hefur tekið mikinn tíma frá þessari bloggsíðu, hvað svo sem verður. Engin áramótaheit voru ákveðin að þessu sinni. Einhver persónuleikaþjálfinn sagði í útvarpsviðtali um daginn að maður ætti að forðast slíkt. Ég ákvað að fara eftir því. Þannig að það getur ef til vill flokkast undir áramótaheit. Hann lagði til að þess í stað færi maður yfir málin í rólegheitum í upphafi ársins. Oft var maður hér með loforð á árum áður. Hætta að reykja var um tíma klassískt loforð en það er á annan áratug síðan maður hætti því. Svo var það áheitið um að hreyfa sig meira. Ég er eiginlega búinn að segja "tjekk" við það. Þá var það loforðið um að grenna sig. Æ, það er svo gott að borða þannig að því hefur verið skotið undir teppið í bili. Þá var það áheitið um að um að minnka Facebook hangsið. Því hefur verið frestað um óákveðinn tíma en verður tekið til frekari skoðunnar innan skamms. Langtímamarkiðið er þó enn hið sama en það er að halda sínu striki og bæta sig í því sem maður hefur fyrir stafni hverju sinni. Að lokum er vinum og samferðamönnum þökkuð samfylgdin á árinu. Kveðja.