mánudagur, 29. september 2008

Stórtíðindi í fjármálageiranum

Þetta eru mikil tíðindi sem eiga sér stað í fjármálaheiminum og munu hafa mikil áhrif á viðskiptaumhverfið í bráð og lengd. Fyrir hluthafa í Glitni er tjónið tilfinnanlegt. Eigið fé Glitnis var um rúmir 234 milljarðar króna í síðustu viku. Ef 75% af því er horfið nú við yfirtöku ríkisins á bankanum þá hafa hluthafar í bankanum tapað um 175,5 milljörðum króna. Fréttir berast víða að úr Evrópu um aðgerðir evrópskra ríkisstjórna til þess að bjarga bönkum í erfiðleikum. Þannig var sagt frá bankakrísunni í sænskum fréttum í kvöld. Oft hefur maður velt fyrir sér Kreppunni miklu og aðdraganda hennar árið 1929. Aldrei hefur þó hvarflað að manni að maður ætti eftir að upplifa aðdraganda hennar í samtímanum. Augljóslega eru núna að gerast þeir atburðir í fjármálakerfi heimsins að ekki er ofsagt að það hrikti í grunnstoðum þess. Bankakerfið víða um lönd hefur misst trúverðuleika almennings og þetta traust þarf að endurvinna með aukinni ábyrgð og trúverðugleika. Í þeim efnum duga engar skyndilausnir.

sunnudagur, 28. september 2008

Yfirhlaðin auglýsingatafla

Auglýsingataflan Hugðarefni sérhvers hagfræðings er auðvitað starfsemi markaðarins. Í gær sýndi ég ykkur mynd af grænmetismarkaðnum í Mosfellsbæ. Á þessari mynd má sjá annað form markaðar en þetta er auglýsingatafla sem ég geng oft framhjá þegar ég á leið um Odda. Þarna má lesa sér til um ýmislegt sem er í boði fyrir námsmenn í HÍ svo sem húsnæði, bíla, vinnu, námskeið, skemmtanir og margt fleira. Það sem vakti sérstaka athygli mína núna voru tilboð um áfengiskaup, barir að auglýsa tilboðsdrykki. Ég hef undanfarin ár kynnst nokkuð þessum "vísindaferðum" háskólanemanda og nánast vikulegum tilboðum nemandafélaga um skipulagðar ferðir í fyrirtæki og stofnanir þar sem boðið er upp á áfengi. Ég hef það á tilfinningunni eftir að hafa kynnt mér þetta lauslega að áfengi sé haldið meira en góðu hófi gegnir að háskólastúdentum. Það þyki bara flott og fínt að detta í það um hverja helgi. Já,já nú fæ ég ræður frá a.m.k. þremur núverandi og fyrrverandi háskólanemum um að þetta sé nú meiri dellan í mér. Þau hafa nefnilega heyrt þessa orðræðu stundum áður. En nú hef ég einnig þessa töflu til að benda á máli mínu til stuðnings. Kveðja.

laugardagur, 27. september 2008

Grænmetismarkaðurinn í Mosfellsdal

Markaðstorgið. Við fórum á Grænmetismarkaðinn upp í Mosfellsdal í dag. Keyptum fullt af fersku grænmeti og Þingvallavatnsmurtu. Í kaupbæti var okkur boðið í þessa fínu grænmetissúpu með heimabökuðu brauði. Þetta var mjög góð súpa og saðsöm. Þetta var síðasti markaðsdagurinn á þessu sumri og í tilefni af því var boðið upp á súpuna. Síðan fórum við í Húsasmiðjuna þar sem við keyptum tvo stóra og þunga skjaldbökupotta. Samkvæmt japanskri þjóðtrú á það að vera svo gott að vera með skjaldbökur í garðinum sínum. Vonandi gildir það líka um svona skjaldbökupotta. Horfði aðeins á brot úr kappræðum bandarísku forsetaframbjóðendanna. Sá gamli stóð betur að mínu mati. Obama var eitthvað óöruggur í þetta skipti. Enn rúlla þeir á hausinn bandarísku bankarnir nú var það Wa Mu sparisjóðurinn. Stærsta gjaldþrot til þessa í fjármálageiranum í USA. Svona fréttir teljast orðið til daglegra viðburða. Kveðja.

miðvikudagur, 24. september 2008

Í minningu Elínar Þorsteinsdóttur

Ella og Sirrý Í dag var jarðsungin frá Dómkirkjunni í Reykjavík móðursystir Sirrýjar Elín Þorsteinsdóttir. Hún var ættuð frá Vík í Mýrdal. Elín eða Ella frænka eins og við köllum hana jafnan var var einstök manneskja. Hógvær og hlý kona sem aldrei skipti skapi þótt alltaf sýndi hún staðfestu og virðuleika. Ella var einlægur jafnaðarmaður og fylgdi Alþýðuflokknum að málum alla tíð. Hún og Sæmundur eiginmaður hennar voru mikið útivistarfólk. Á hverju sumri var farið vítt og breytt í ferðalög um óbyggðir Íslands. Eftirminnilegar eru fjölmargar heimsóknir til þeirra í gegnum árin á Hringbrautina við ýmis tækifæri og í fjölskylduboð. Alltaf var glatt á hjalla í slíkum boðum og mikið spilað og sungið þegar færi gafst. Sæmi dró fram gítarinn og svo var sungið og spilað. Sirrý og Ella voru miklar frænkur og nánar. Sirrý var í vist hjá frænku sinni á sínum yngri árum og tengdist frændsystkinum sínum þeim Margréti Þóru, Ragnheiði Halldóru og Þorsteini nánum böndum. Hún átti ávallt athvarf hjá Ellu frænku. Blessuð sé minning þessarar mætu konu.

þriðjudagur, 23. september 2008

Öfundsverðar langtímahorfur

Byrjaði daginn á að fara á ráðstefnu Landsbankans varðandi hagspá (hér má nálgst skýrslu LÍ) þeirra frá 2008 til 2012. Ágætis yfirferð Halldórs Kristjánssonar bankastjóra og hagfræðinga bankans yfir stöðu efnahagsmála. Þótt útgangspunktur þeirra væri að leggja áherslu á hið jákvæða í langtímahorfum efnahagsmála var undirtónninn alvarlegur. Fjármálageirann sögðu þau í djúpri kreppu. Ástandið hefði ekki verið jafn slæmt síðan 1929 í kreppunni miklu. Erfiðir tímar færu í hönd. Mikilvægt væri að leggja áherslu að halda fullri atvinnu. Svigrúm til launahækkana væri ekki fyrir hendi. Svolítið hjáróma að vísu í ljósi þess hverjir hafa keyrt upp launin undanfarin ár. Bankarnir yrðu að endurskoða lánareglur sínar og starfshætti frá grunni. Mikið hefði farið úrskeiðis og mörgum grunnreglum í lánastarfsemi hefði verið kastað fyrir róða undanfarin ár - illu heilli. Nú væri að búa í haginn fyrir þessa kreppu sem væri rétt að byrja. Bankastjórinn sagði að nú þýddi ekkert að keyra með bakljósin það yrði að halda áfram og þýddi lítt að dvelja við það sem liðið væri. Er það svo? Ég held að málið sé ekki svo einfalt. Það er nauðsynlegt að fara yfir þessa stöðu og reyna að læra af henni og skilja hana. Í þeim efnum er mikið verk óunnið.

laugardagur, 20. september 2008

Í góðan bíltúr

Reynisdrangar.
Helgi vinur segir að ég sé eini maðurinn sem hann þekki sem nenni að fara í 500 km bíltúra. Hann er eini maðurinn sem ég þekki sem nennir að fara 6000 km vikuferð í sumarbústað og millilenda í Amsterdam. Í þessum dúr var spjall okkar þar sem ég var á miðjum Mýrdalssandi og hann að renna í hlað í Commesssey í Burgundy. Jæja við skruppum þrjú í ferð austur í Skaftártungu í dag. Stoppuðum aðeins í Vík og tókum eina af dröngunum því til staðfestingar.
Sumarhúsið. Það er engin lygi að veðrið getur verið ansi gott austan sands þótt það sé ekkert til að hrópa húrra fyrir vestan sands. Haustlitirnir eru áberandi. Við áttum þarna góða stund í fínu veðri og svo var haldið af stað heim á leið enda spáin ekkert sérstök.
Í Landeyjum. Svona var nú skýjafarið á leiðinni til Reykjavíkur í dag. Hér má sjá sólina brjótast eitt augnablik í gegnum skýjaþykknið. Fremur kuldalegt svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Kveðja.

föstudagur, 19. september 2008

Kóngsrottan

Ég las einu sinni bók með þessu nafni. Hún fjallaði um hermann sem lifði eins og kóngur í japönsku herfangelsi við ömurlegustu aðstæður þar sem félagar hans dóu umvörpum. Viðskiptahæfileikar hans nutu sín einstaklega vel þarna í fangelsinu. Einn daginn opnaðist fangelsishliðið, stríðinu var lokið og hann var ekki lengur kóngurinn. Samfangar hans sniðgengu hann og enginn þeirra vildi kannast við hann. Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér í dag þegar ég var að lesa um þessa kauphallarmenn sem hafa stundað skortsölu á fjármálamörkuðum. Þeir fundu gróðaleið með því að veðja á vandræði fjármálamarkaðarins, fengu hlutabréf að láni og seldu þau í von um að þau mundu halda áfram að lækka. Kaupa síðan hlutabréfin aftur lægra verði skila þeim og hirða mismuninn. Auðvitað hafa þeir svo talað markaðinn niður til þess að græða sem mest á niðursveiflunni. Þetta er áleitin siðferðileg spurning hvort þetta sé í lagi. Segir ekki að velgengni byggist á því að sjá tækifærin í hverri stöðu en ekki vandamálin? Mér dettur aðeins í hug hin eftirminnilega setning fyrrum kennara míns, Vilmundar Gylfasonar: löglegt en siðlaust.

fimmtudagur, 18. september 2008

Krónan gerð ótrúverðug


Haft var eftir Davíð Oddsyni seðlabankastjóra í Mbl í dag að atlagan að krónunni væri afskaplega ógæfuleg og óskiljanleg í rauninni og menn ættu ekki að leyfa sér hana um þessar mundir. Á leiðinni heim úr vinnu hlustaði ég á sjálfan viðskiptaráðherra Björgvin G Sigurðsson tjá sig um efnahagsmálin. Ég hjó eftir því að hann nefndi krónuna sem "minnsta gjaldmiðil í heimi". Þeir sem vilja gera hana ótrúverðuga nota oft þessi rök til að grafa undan krónunni. Er þessi fullyrðing ráðherrans rétt? Er það svo að krónan er minnsti gjaldmiðill í heimi? Hvernig metur hann það? Hvaða forsendur liggja að baki þessari fullyrðingu mannsins? Eins og svo oft er svona fullyrðingum haldið á lofti án þess að fyrir því séu færð frekari rök. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er Ísland mælt í vergri landsframleiðslu(GDP) í 92 sæti af 179 löndum (sjá hér). Verg landsframleiðsla er algengasti mælikvarði á stærð hagkerfa. Með öðrum orðum íslenska krónu hagkerfið er um miðbik meðal þjóða heimsins. Á þessari heimaslóð hér má nálgast lista yfir gjaldmiðla heimsins. Eins og ráðherrann mun komast að ef hann á annað borð nennir að kynna sér málið mun hann sjá að það að í minni hagkerfum en á Íslandi eru notaðir sjálfstæðir gjaldmiðlar. Það er lágmarkskrafa að viðskiptaráherra landsins sé með þetta á hreinu. Það væri nú lag fyrir seðlabankastjóra eða einhvern í Seðlabankanum að banka uppá hjá honum og fara yfir málið.

miðvikudagur, 17. september 2008

Leitað að sökudólgum

Lækkun útskýrð. Í nýlegu eintaki af blaðinu Money sem mér áskotnaðist í síðustu viku er að finna 21 ráð til örvæntingafullra fjárfesta. Eitt af ráðunum er að anda djúpt og hætta að horfa á CNBC og aðrar fjármálarásir sjónvarpsmiðlanna. Ég horfi nú á þættina hennar Maríu á CNBC fyrir það og ætla að gera það áfram. Svona er nú stemmingin á Wall Street eftir daginn í dag. AIG stærsta tryggingafélag í heimi komið í gjörgæslu bandaríska stjórnvalda. Er nema von að fólk spyri sig um allan heim hvað komi næst.
Evrópa í rauðum lit. Evrópa er engin undantekning. Fjármálamarkaðir í álfunni eru meira og minna í mínus vegna fjármálakreppunnar og fátt sem bendir til þess að jafnvægi sé að nást í fjármálaheiminum. Sagt er frá tveimur stórum bönkum á Stóra- Bretlandi sem verði líklega sameinaðir HBOS og Lloyds TSB. Fjörtíu þúsund bankamenn til viðbótar gætu misst vinnuna vegna þessa.
Ekki benda á mig. Nú er leitað að sökudólgum og augu umheimsins beinast að þessum matsfyrirtækjum sem hafa verið að gefa ríkissjóðum, bönkum, fyrirtækjum og skuldabréfum háar einkunnir undanfarin ár. Þessi framkvæmdastjóri hjá Standard and Poor, Jay Drhu var spurður í dag hvort hann væri enn þeirrar skoðunar að rétt hefði verið að gefa húsnæðisskuldabréfunum í Bandaríkjunum AAA einkunn í ljósi stöðunar. Það var sama hvað þeir gengu á hann fréttamennirnir ekki fékkst hann til að viðurkenna að Standard og Poor hefðu gert mistök. Vinnubrögð þessara matsfyrirtækja hljóta að koma til alvarlegrar skoðunar í ljósi reynslunnar. Þau hafa setið beggja megin borðs of lengi og maður hefur það á tilfinningunni að þar megi rekja hluta af hinum tæknilega vanda. Ásamt því að dæma fjármálaafurðir fjármálastofnana og fyrirtækin sjálf hafa þau verið að bjóða eigin ,,fjármálaafurðir" til sölu á sömu aðilum.
Ég er ,,góði" strákurinn. Myndir þú kaupa notaðan bíl af þessum manni í ljósi reynslunnar? Hætt er við að það taki umheiminn langan tíma að treysta matsfyrirtækjunum að nýju. Það getur þessvegna farið fyrir þeim eins og A Anderson endurskoðandanum hér um árið vegna gjaldþrots Enrons orkurisans. Anderson endurskoðendur hurfu eins og dögg fyrir sólu fyrir þá sem ekki vita það. Einn er sá þáttur sem ekki hefur verið fjallað um en það er hvernig stóð á því að allt þetta fjármagn komst í umferð. Er það stefna bandarískra stjórnvalda undir handleiðslu Allans Greenspans undanfarin áratug sem er að valda þessu? Enn vantar greiningu á því. Ljóst er að stjórnvöld vestanhafs og austan bera mikla ábyrgð á því hvernig komið er. Við vitum að hlutverk banka er að ávaxta fjármagn og lána það. En af hverju lána þeir stjarnfræðilegar upphæðir til lántakenda sem þeir vita að geta aldrei greitt lánið? Þetta gera þeir ekki nema að það sé mikið fjármagn í pípunum sem þeir eiga og verða að koma í vaxtaberandi hlutverk til að standa sig. Enn og aftur hvaðan kom þetta fjármagn?

þriðjudagur, 16. september 2008

Haustregnið lemur glugga.

Það rignir og það er rok. Fyrsta alvöru haustlægðin gengur nú yfir á suðvestur horninu. Ég fór bæði á rótarýfund í dag þar sem kynnt var starfsemi Molans, sem er menningarhús fyrir ungmenni í Kópavogi. Í kvöld skellti ég mér líka á söngæfingu hjá Sköftunum. Lag kvöldsins var: Það vex eitt blóm fyrir vestan, og vornóttin mild og hljóð, kemur á ljósum klæðum og kveður því vögguljóð, kemur og kveður því ljóð. Ég ann þessu eina blómi, sem aldrei ég fékk að sjá. Og þangað horfir minn hugur í hljóðri og einmanna þrá, hljóðri og einmanna þrá. Því geng ég fár og fölur með framandi jörð við il. Það vex eitt blóm fyrir vestan og veit ekki að ég er til, veit ekki að ég er til. Það fer vel á því að verma sér við minningu liðinnar helgar og syngja þennan texta eftir Stein Steinarr. Þetta er svona það helsta. Sirrý kom heim frá Kaupmannahöfn í gær eftir dvöl í Danmörku. Kveðja.

mánudagur, 15. september 2008

Fjármálageiri í vanda

Það er ef til vill full dramatísk lýsing á því sem er að gerast á fjármálamörkuðum að tala um hrunadans en það eru stórtíðindi að Lehmann brothers (stofnað 1850) sé gjaldþrota og Merrill Lynch (stofnað 1914) sé búið að yfirtaka af Bank of America. Þetta ofan á að tveir helstu húsnæðislánasjóðir Bandaríkjanna Fannie Mae og Freddy Mac voru teknir yfir af Seðlabanka Bandaríkjanna þegar ljóst var að þeir væru komnir í mikil vandræði og hlutafé þeirra hrunið niður um 90%. Þetta er alvarlegasta áfall í hagsögu Bandaríkjanna frá því í október 1929 er Kreppan mikla hófst með hruni á Wall Street. Enn er ekki séð fyrir endan á þessum áföllum. Við getum verið viss um að ef Wall Street hnerrar fá fjármálageirar í öðrum löndum kvef. Slíkur er máttur bandaríska fjármálamarkaðarins og hagkerfisins. Það veit enginn á þessari stundu hvernig þessi kreppa mun þróast. Miðað við þróunina í dag er ljóst að öllum fjármálafyrirtækjum verður ekki bjargað og hætt við að mikið fé glatist bæði útistandandi skuldir og hlutafé fjárfesta. Áhrifin á afkomu fólks á næstu misserum geta orðið mikil sérstaklega þeirra sem hafa ekki borð fyrir báru eða missa vinnu sína. Eins skrítið og það hljómar er mjög mikilvægt að fólk haldi ró sinni og panik nái ekki undirtökunum í efnahagslífi heimsins. Þá fyrst er voðinn vís. Nú er að bíta á jaxlinn og vona að þessi áföll gangi fljótt yfir.

sunnudagur, 14. september 2008

Mugison og Villi Valla

Fór í bæinn í dag og keypti mér vestfirska tónlist. Það þýðir víst lítið að lofa Ísafjörð og hafa ekki heyrt það nýjasta. Keypti í Tólf tónum, fyrstu plötuna hans Mugison Lonely mountain. Ég þarf nú að hlusta nokkrum sinnum á hana áður en ég næ honum. Svo keypti ég mér plötuna hans Villi Valla sem hún Lauga spilaði fyrir mig um daginn. Þessi plata er náttúrlega vestfirskur menningarviðburður sem allir innvígðir verða að eignast.

Rok og rigning -eirðarleysi.

Ég hef aldrei séð sjarman við það að komast vart milli húsa vegna rigningar - já og roks. Það hefur verið stanslaus rigning síðan ég kom í bæinn í gær. Vil ekki að veðrið segi mér hvenær ég eigi að lesa bók, liggja í rúminu, kveikja á kerti, drekka kakó, sleppa því að fara í bakaríð, fara ekki í sund, spara bensínið, gera eitthvað, fara eitthvað, hanga í tölvunni. Best að hætta því líka það hefur stytt upp. Svona er eirðarleysi mitt. Kveðja.

ps. Það kom þessi fallegi regnbogi yfir Fossvoginn. En nú er ég hættur.

laugardagur, 13. september 2008

Ísafjörður

Horft "heim" til Ísafjarðar. Við kvöddum Ísafjörð í dag eftir góða daga. Veðrið var yndislegt báða dagana og eftir 35 mínúta flug til Reykjavíkur vorum við komin í hífandi rok og rigningu. Við funduðum á Ísafirði á föstudeginum og um kvöldið var haldið mikið hóf í skíðaskálanum. Þar var boðið upp á söng og píanóleik og var það hreint ógleymanleg stund við fjöldasöng og skemmtisögur. Að loknu borðhaldi var haldið í bæinn að nýju og þeir hressustu fóru í Edinborgarhúsið. Það er mikill og flottur bar sem gaman er að heimsækja og spiluð lifandi músík.
Neðsti kaupstaður Við borðuðum hér í hádeginu af fiskihlaðborði sem sveik engan. Á myndinni má sjá minnisvarða um Ásgeirsverslun sem starfaði í 66 ár (1852-1918) á Ísafirði. Mikið og merkilegt fyrirtæki sem Ásgeir Ásgeirsson kaupmaður stofnaði. Lengst af stýrði Árni Jónsson faktor fyrirtækinu á Ísafirði. Er það mikil og merkileg saga sem enn hefur ekki verið gerð almennileg skil.
Súðavík. Hér má sjá Súðavík af sjó kúra undir Kofra. Við fórum og skoðuðum fiskeldið hjá HG hf og veltum því fyrir okkur hvort í því fælist framtíðin. Þar næst fórum við aftur til Ísafjarðar og hlýddum á fyrirlestra hafrómanna um fiskrannsóknir og skoðuðum háskólasetrið þar sem eru einnig m.a. hýst ýmis önnur starfsemi.
Bolungavík Leiðin lá út í Vík þar sem við heimsóttum fiskvinnslu og rúntuðum um bæinn. Þar er verið að byggja mikinn snjóvarnargarð undir Traðarhyrnu. Hér er horft yfir höfnina og bæinn í átt að fjallinu mikla. Það fyrsta sem maður verður var við komuna vestur á svona dögum er fjarðarstillan. Þetta er einstök upplifum fyrir okkur sem búum hér á suðvestur horninu, þar sem sjaldan er logn.
Ósvör Auðvitað var komið við í Óshlíð og hlustað á lýsingu um forna útgerðahætti og harðneskjulegt líf þjóðarinnar um aldir við þessar einföldu aðstæður og árabáta.

fimmtudagur, 11. september 2008

Ferð til Ísafjarðar

Ísafjörður er einn af þessum stöðum á landinu sem afar gaman er að koma til. Þangað er ferð minni heitið á morgun og fram á laugardag. Það hefur ef til vill sitt að segja að ég er alinn upp í því viðhorfi að Ísafjörður við Skötulsfjörð sé merkilegastur bæja á Íslandi. Þar sé í rauninni allt mest og best og fátt sem jafnist á við þetta bæjarfélag. Bærinn á sér merka sögu á flestum sviðum mannlífsins. Hver hefði trúað því að fyrir hundrað árum eða svo hafi verið gufuskipaáætlun um Ísafjarðardjúp og beinar millilandasiglingar milli Kaupmannahafnar og Ísafjarðar. Þetta er eigi að síður staðreynd og segir okkur hvað einstaklingar með framkvæmdavilja og getu eru megnugir ef þeir beita sér. Ásgeirsverslun sem starfaði frá 1851 til 1919 stóð fyrir þessari starfsemi. Menningarlífið var lengi og er enn í miklum blóma. Tónlistarfrömuðir bæjarins á síðustu öld voru meðal annars Jónas Tómasson og Ragnar H Ragnars. Sunnukórinn skipaði sér í fremstu röð íslenskra kóra. Enn er tónlist í hávegum höfð þar vestra. Er ekki Mugison sá frægasti í dag? Ég á engan nákominn ættingja núna á Ísafirði það best ég veit, en föðurfólkið mitt í karllegg er ættað þaðan og frá Aðalvík. Svona má áfram telja, en hér verður látið staðar numið. Kveðja.

miðvikudagur, 10. september 2008

Söngæfingar að nýju.

Sköngfélag Skaftfellinga. (Mynd KK)Fór á fyrstu söngæfingu vetrarins í gærkvöldi. Vel mætt og hugur í fólki. Þá má segja að vetrarverkefnin séu öll hafin. Maður var svolítið stirður eins og gefur að skilja eftir svona langa pásu, en það stendur allt til bóta. Alls voru mættir tuttugu og átta félagar. Það mega ekki vera mikið færri en þetta til þess að samhljómurinn í kórnum verði þokkalegur. Þannig að það er örugglega pláss fyrir fleiri raddir ef einhverjir hafa áhuga. Þetta er mjög góð afþreying fyrir fólk að syngja svona saman, ef það hefur á annað borð gaman af söng. Kveðja.

sunnudagur, 7. september 2008

Loksins, loksins - ég fékk fisk

Helgi gefur sig ekki. Iðan gaf mér fisk í dag. Að vísu ekki lax en þennan fallega sjóbirting - fínasta matfisk. Ég fór austur í Iðu í morgun með hálfum hug vegna þess hversu leiðinlegt veðrið var og líka vegna þess hvað Iðan hefur verið treg við að gefa mér fisk. Veðrið fram eftir degi var leiðinlegt, rok og rigning en það batnaði eftir því sem leið á daginn. Árangurinn varð eftir því og átta fiskar veiddust mest á maðk og svartan Fransis. Í hádeginu fórum við til Gyðu móður Helga og Magnúsar í hádegismat og fengum lambalæri og fórum svo í heita pottinn hjá þeim áður en við hófum veiðar að nýju.
Sá stóri? Hörður gefur fyrirheit á myndinni að "sá stóri" sé á önglinum. Helgi tókst á við hann af miklum krafti. Þetta reyndist þó ekki vera 15 punda ++ fiskurinn. Þetta var sprettharður sjö punda urriði sem tók svona hressilega í færið. Ingunn var líka með okkur í dag og hressti okkur við með sérlögðu kaffi með flóaðri mjólk milli þess sem hún leysti okkur af á stönginni. Auk áðurnefndra voru með okkur Gunnlaugur Björnsson sem fræddi okkur um stóra hvell í pásunum og faðir hans.

Sjö punda urrði. Stoltur veiðimaðurinn sýnir feng sinn. Glíman við þennan urriða var gríðarlega hörð. Úrslitin tvísýn um tíma en ekki lengi. Laxar, sjóbirtingar og urriðar það er ekki hægt að biðja um meira. Þetta var mjög skemmtilegur veiðidagur og minnti mann á þessa gömlu góðu daga þegar vel aflaðist og allir fengu fisk.

laugardagur, 6. september 2008

Brottfarir og komur

Það er helst í fréttum að Sirrý fór til Kaupmannahafnar í vikunni og verður þar næstu viku. Hjörtur Ingibjörg og strákarnir eru hjá henni um helgina. Foreldrar mínir komu frá Mallorka í vikunni ásamt Þórunni systur. Nú þær mæðgurnar komu úr Minniapolis ferðinni í vikunni eftir góða daga þar í borg. Að vísu sögðu þær að ekki hefði verið þverfótandi fyrir republikönum sem voru að fara á þing sitt í St.Paul að hilla sinn mann, McCain. Hef verið að mestu heima í dag heimsótti þó foreldrana sem voru við jarðarför biskupsins. Fylgdist með jarðarför Herra Sigurbjörns Einarssonar biskups eins og væntanlega stór hluti þjóðarinnar. Blessuð sé minning þessa merka kennimanns. Nú ég er að fara í Iðuna á morgun svona dagsferð. Þetta er það helsta héðan. Kveðja.

föstudagur, 5. september 2008

Gæfa fylgi góðu starfi.........

AGGF. Ég fór í fyrsta leikfimitímann í dag hjá AGGF. Líklega er þetta nítjánda árið sem ég er í þessum hópi. Myndin er af ljóði sem Þórarinn Eldjárn skáld orti og gaf leikfimistjóranum þegar við fluttum í nýtt húsnæði á síðasta ári. Ég er ekki í vafa um að þátttaka mín í þessum hópi hefur gert manni gott. Oft hefur maður þó þurft að takast á við sjálfan sig í mætingunum.Nú svo fékk ég skeyti frá formanni Skaftanna um að senn hefjist söngæfingar að nýju.












Tómas, Hjálmar og Sveinn Í gær eftir vinnu hringdi Hjálmar Styrkársson í mig og bauð mér með stuttum fyrirvara austur fyrir fjall í mat. Ferðinni var heitið að heilsuhælinu í Hveragerði þar sem við snæddum grænmetisrétt með Tómasi Sæmundssyni vini okkar. Þetta eru menn sem báðir eiga langa sögu í sjávarútveginum. Tómas lengst af sem útgerðarmaður og skipstjóri á Hafnarberginu RE 404 og Hjálmar sem lengi var hjá Einari Sigurðssyni í Vestmannaeyjum. Við áttum þarna saman góða stund og fórum yfir stöðu dægurmálanna.

Arnarbæli. Við Hjálmar fórum svo í stuttan bíltúr um Ölfusið. Keyrðum niður að Arnarbæli og skoðuðum fallega náttúruna í ljósaskiptunum. Hann þekkir þarna hverja þúfu og bæ. Þessi mynd er tekin þar sem Arnarbæliskirkja stóð til 1909. Nú er þar aðeins lítill kirkjugarður sem minnir á að þarna hafi verið kirkja. Við virtum fyrir okkur Arnarbælisforir en þar voru slægjur sem bændurnir á Arnarbælisbæjunum höfðu til nytja. En þarna var nokkur þyrping bændabýla. Það er vel þess viðri að keyra þarna niður eftir. Það opnast nýtt umhverfi og maður fær nýja sýn á Ölfusið og allt það stórfenglega sem það hefur upp á að bjóða.

Hjallakirkja í Ölfusi. Næst lá leiðin í Hjalla í Ölfusi og áðum við hjá Hjallakirkju þar sem þessi mynd er tekin. Þetta er fyrsta steinkirkjan sem er reist fyrir austan fjall úr steini 1928. Sértæð kirkja og gaman að virða hana fyrir sér þótt hún væri lokuð. Að Hjalla var síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Önundur Pálsson handtekinn 1251. Þetta er sama nafnið og á sóknarkirkjunni minni Hjallakirkju í Kópavogi. Eins og myndin ber með sér var farið að skyggja þegar hér var komið sögu og mál að fara aftur í bæinn. Komum við á einum bæ á leiðinni en þar var enginn heima. Þetta var hin skemmtilegasta óvissuferð með góðum leiðsögumanni.

þriðjudagur, 2. september 2008

Flutt í Turninn.

Nýr fundarsalur. Rótarýklúbburinn minn flutti í nýtt húsnæði á 19. hæð Turnarins í Kópavogi í dag. Húsnæðið lofar góðu, en ég kem til með að sakna matarins sem Lárus kokkur hefur eldað handa okkur í tvo áratugi í Félagsheimili Kópavogs og nú síðast í Skátaheimili Kópavogs. Margir gestir voru mættir á fundinn og ég á von á því að þeim muni fjölga í þessu skemmtilega húsnæði á næstu misserum. Umdæmisstjóri hreyfingarinnar var heiðursgestur á þessum fundi.
Séð yfir æskuheimilið. Hér má sjá mynd af æskustöðvum mínum ég bjó í húsinu með bláu þaki í annarri röð lengst til hægri með kvisti á miðju þakinu. Þarna bjó ég allt frá því ég man eftir mér fram yfir tvítugt er ég fór sjálfur að búa árið 1973. Það væri gaman að segja ykkur einhverntíma frá mannlífinu í Hvömmunum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.Ég mun hafa flutt í Kópavoginn 9 mánaða gamall árið 1953 í sumarbústað sem Axel og Stefanía afi minn og amma áttu. Við fluttum svo inn í Víðihvamminn 1956.
Víðara sjónarhorn. Hér er önnur mynd yfir gamla Kópavoginn en nú er sjóndeildarhringurinn aðeins víðari. Þegar ég var að alast upp í Kópavoginum sem krakki var Smáralindarhverfið við ystu mörk bæjarins,.Séð heimanfrá á dimmum vetrarkvöldum horfði maður út í bleksvart næturmyrkrið þar sem nú stendur þetta tuttugu hæða háhýsi. Nú eru gömlu sandgryfjurnar orðnar miðjupunktur höfuðborgarsvæðisins. Hér áður fyrir viltist margur maðurinn í myrkrinu bakdyramegin inn í Kópavoginn til að forðast blöðrublástur lögreglunnar um sandgryfjurnar.