mánudagur, 15. september 2008

Fjármálageiri í vanda

Það er ef til vill full dramatísk lýsing á því sem er að gerast á fjármálamörkuðum að tala um hrunadans en það eru stórtíðindi að Lehmann brothers (stofnað 1850) sé gjaldþrota og Merrill Lynch (stofnað 1914) sé búið að yfirtaka af Bank of America. Þetta ofan á að tveir helstu húsnæðislánasjóðir Bandaríkjanna Fannie Mae og Freddy Mac voru teknir yfir af Seðlabanka Bandaríkjanna þegar ljóst var að þeir væru komnir í mikil vandræði og hlutafé þeirra hrunið niður um 90%. Þetta er alvarlegasta áfall í hagsögu Bandaríkjanna frá því í október 1929 er Kreppan mikla hófst með hruni á Wall Street. Enn er ekki séð fyrir endan á þessum áföllum. Við getum verið viss um að ef Wall Street hnerrar fá fjármálageirar í öðrum löndum kvef. Slíkur er máttur bandaríska fjármálamarkaðarins og hagkerfisins. Það veit enginn á þessari stundu hvernig þessi kreppa mun þróast. Miðað við þróunina í dag er ljóst að öllum fjármálafyrirtækjum verður ekki bjargað og hætt við að mikið fé glatist bæði útistandandi skuldir og hlutafé fjárfesta. Áhrifin á afkomu fólks á næstu misserum geta orðið mikil sérstaklega þeirra sem hafa ekki borð fyrir báru eða missa vinnu sína. Eins skrítið og það hljómar er mjög mikilvægt að fólk haldi ró sinni og panik nái ekki undirtökunum í efnahagslífi heimsins. Þá fyrst er voðinn vís. Nú er að bíta á jaxlinn og vona að þessi áföll gangi fljótt yfir.

Engin ummæli: