laugardagur, 13. september 2008

Ísafjörður

Horft "heim" til Ísafjarðar. Við kvöddum Ísafjörð í dag eftir góða daga. Veðrið var yndislegt báða dagana og eftir 35 mínúta flug til Reykjavíkur vorum við komin í hífandi rok og rigningu. Við funduðum á Ísafirði á föstudeginum og um kvöldið var haldið mikið hóf í skíðaskálanum. Þar var boðið upp á söng og píanóleik og var það hreint ógleymanleg stund við fjöldasöng og skemmtisögur. Að loknu borðhaldi var haldið í bæinn að nýju og þeir hressustu fóru í Edinborgarhúsið. Það er mikill og flottur bar sem gaman er að heimsækja og spiluð lifandi músík.
Neðsti kaupstaður Við borðuðum hér í hádeginu af fiskihlaðborði sem sveik engan. Á myndinni má sjá minnisvarða um Ásgeirsverslun sem starfaði í 66 ár (1852-1918) á Ísafirði. Mikið og merkilegt fyrirtæki sem Ásgeir Ásgeirsson kaupmaður stofnaði. Lengst af stýrði Árni Jónsson faktor fyrirtækinu á Ísafirði. Er það mikil og merkileg saga sem enn hefur ekki verið gerð almennileg skil.
Súðavík. Hér má sjá Súðavík af sjó kúra undir Kofra. Við fórum og skoðuðum fiskeldið hjá HG hf og veltum því fyrir okkur hvort í því fælist framtíðin. Þar næst fórum við aftur til Ísafjarðar og hlýddum á fyrirlestra hafrómanna um fiskrannsóknir og skoðuðum háskólasetrið þar sem eru einnig m.a. hýst ýmis önnur starfsemi.
Bolungavík Leiðin lá út í Vík þar sem við heimsóttum fiskvinnslu og rúntuðum um bæinn. Þar er verið að byggja mikinn snjóvarnargarð undir Traðarhyrnu. Hér er horft yfir höfnina og bæinn í átt að fjallinu mikla. Það fyrsta sem maður verður var við komuna vestur á svona dögum er fjarðarstillan. Þetta er einstök upplifum fyrir okkur sem búum hér á suðvestur horninu, þar sem sjaldan er logn.
Ósvör Auðvitað var komið við í Óshlíð og hlustað á lýsingu um forna útgerðahætti og harðneskjulegt líf þjóðarinnar um aldir við þessar einföldu aðstæður og árabáta.

Engin ummæli: