þriðjudagur, 2. september 2008

Flutt í Turninn.

Nýr fundarsalur. Rótarýklúbburinn minn flutti í nýtt húsnæði á 19. hæð Turnarins í Kópavogi í dag. Húsnæðið lofar góðu, en ég kem til með að sakna matarins sem Lárus kokkur hefur eldað handa okkur í tvo áratugi í Félagsheimili Kópavogs og nú síðast í Skátaheimili Kópavogs. Margir gestir voru mættir á fundinn og ég á von á því að þeim muni fjölga í þessu skemmtilega húsnæði á næstu misserum. Umdæmisstjóri hreyfingarinnar var heiðursgestur á þessum fundi.
Séð yfir æskuheimilið. Hér má sjá mynd af æskustöðvum mínum ég bjó í húsinu með bláu þaki í annarri röð lengst til hægri með kvisti á miðju þakinu. Þarna bjó ég allt frá því ég man eftir mér fram yfir tvítugt er ég fór sjálfur að búa árið 1973. Það væri gaman að segja ykkur einhverntíma frá mannlífinu í Hvömmunum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.Ég mun hafa flutt í Kópavoginn 9 mánaða gamall árið 1953 í sumarbústað sem Axel og Stefanía afi minn og amma áttu. Við fluttum svo inn í Víðihvamminn 1956.
Víðara sjónarhorn. Hér er önnur mynd yfir gamla Kópavoginn en nú er sjóndeildarhringurinn aðeins víðari. Þegar ég var að alast upp í Kópavoginum sem krakki var Smáralindarhverfið við ystu mörk bæjarins,.Séð heimanfrá á dimmum vetrarkvöldum horfði maður út í bleksvart næturmyrkrið þar sem nú stendur þetta tuttugu hæða háhýsi. Nú eru gömlu sandgryfjurnar orðnar miðjupunktur höfuðborgarsvæðisins. Hér áður fyrir viltist margur maðurinn í myrkrinu bakdyramegin inn í Kópavoginn til að forðast blöðrublástur lögreglunnar um sandgryfjurnar.

Engin ummæli: