mánudagur, 29. september 2008

Stórtíðindi í fjármálageiranum

Þetta eru mikil tíðindi sem eiga sér stað í fjármálaheiminum og munu hafa mikil áhrif á viðskiptaumhverfið í bráð og lengd. Fyrir hluthafa í Glitni er tjónið tilfinnanlegt. Eigið fé Glitnis var um rúmir 234 milljarðar króna í síðustu viku. Ef 75% af því er horfið nú við yfirtöku ríkisins á bankanum þá hafa hluthafar í bankanum tapað um 175,5 milljörðum króna. Fréttir berast víða að úr Evrópu um aðgerðir evrópskra ríkisstjórna til þess að bjarga bönkum í erfiðleikum. Þannig var sagt frá bankakrísunni í sænskum fréttum í kvöld. Oft hefur maður velt fyrir sér Kreppunni miklu og aðdraganda hennar árið 1929. Aldrei hefur þó hvarflað að manni að maður ætti eftir að upplifa aðdraganda hennar í samtímanum. Augljóslega eru núna að gerast þeir atburðir í fjármálakerfi heimsins að ekki er ofsagt að það hrikti í grunnstoðum þess. Bankakerfið víða um lönd hefur misst trúverðuleika almennings og þetta traust þarf að endurvinna með aukinni ábyrgð og trúverðugleika. Í þeim efnum duga engar skyndilausnir.

Engin ummæli: