sunnudagur, 28. september 2008

Yfirhlaðin auglýsingatafla

Auglýsingataflan Hugðarefni sérhvers hagfræðings er auðvitað starfsemi markaðarins. Í gær sýndi ég ykkur mynd af grænmetismarkaðnum í Mosfellsbæ. Á þessari mynd má sjá annað form markaðar en þetta er auglýsingatafla sem ég geng oft framhjá þegar ég á leið um Odda. Þarna má lesa sér til um ýmislegt sem er í boði fyrir námsmenn í HÍ svo sem húsnæði, bíla, vinnu, námskeið, skemmtanir og margt fleira. Það sem vakti sérstaka athygli mína núna voru tilboð um áfengiskaup, barir að auglýsa tilboðsdrykki. Ég hef undanfarin ár kynnst nokkuð þessum "vísindaferðum" háskólanemanda og nánast vikulegum tilboðum nemandafélaga um skipulagðar ferðir í fyrirtæki og stofnanir þar sem boðið er upp á áfengi. Ég hef það á tilfinningunni eftir að hafa kynnt mér þetta lauslega að áfengi sé haldið meira en góðu hófi gegnir að háskólastúdentum. Það þyki bara flott og fínt að detta í það um hverja helgi. Já,já nú fæ ég ræður frá a.m.k. þremur núverandi og fyrrverandi háskólanemum um að þetta sé nú meiri dellan í mér. Þau hafa nefnilega heyrt þessa orðræðu stundum áður. En nú hef ég einnig þessa töflu til að benda á máli mínu til stuðnings. Kveðja.

Engin ummæli: