laugardagur, 28. janúar 2006

Valgerður Birna, Páll Óskar, Mozart og fleira.


Við vorum í Drápuhlíðinni í dag hjá Hildu og Magnúsi. Litla stelpan þeirra heitir Valgerður Birna. Haldið var kaffisamsæti hjá þeim í tilefni nafngiftarinnar. Litlu Valgerði heilsast vel. Hún var að mestu sofandi á meðan á veislunni stóð. Átti skemmtilegt samtal við Pál Óskar vin Hildu um Perú. Hann er nýkominn þaðan og vorum að bera saman reynslusögur frá Perú. Ég var þar á vegum Icecon hf. 1992 í febrúar í hálfan mánuð aðallega í Lima. Af lýsingum hans að dæma hefur ekki mikið breyst í efnahagslegu tilliti. Mikil fátækt er í þessu ríki og almenn kaos. Þarna er hið forna ríki Inkana og búa yfir 25 milljónir Inka í landinu en 700 þúsund manns af öðrum uppruna. Það ríkti mikil skálmöld þegar ég var í landinu. Skæruliðasamtökinn Skínandi vegur voru fyrirferðamikil og mikil skálmöld í landinu. Þetta er mjög heillandi land og á ótrúlega sögu sem vert er að kynna sér. Höfum verið hér heimavið fyrri part dags við tiltekt í bílskúr. Það er hlýtt veður úti en frekar blautt. Ekki má gleyma að ég er búinn að vera að hlusta á verk eftir Wolfang Amadeus Mozart. Mikið spilaður í tilefni 250 ára afmælishátiðar hans sem haldin er víða um heim. Eftirminnilegasti flutningur verka hans er þáttur í þýska sjónvarpinu frá tónleikum í Peking með kínverskum píanóleikara, Lang Lang, sem ég spái að við eigum eftir að heyra meira frá í framtíðinni. Spakmæli dagsins hljóðar þannig: Besti dagur ævi þinnar er dagurinn í dag, ef þú notar hann rétt. Ók. höf (Listin að lifa 1993).

fimmtudagur, 26. janúar 2006

Nóbelsverðlaunahafar - gengismál.


Ég var á ráðstefnu í morgun um gengismál. Vel skipulögð ráðstefna og fróðleg og þeim til mikils sóma er hana héldu hjá viðskiptadeild HÍ. Þar talaði Kanadamaðurinn Robert A Mundel hagfræðingur (lengst til vinstri) um gengismál. Þar sem hann fór yfir valkosti í gengismálum. Hann fékk Nóbelsverðlaunin fyrir rannsóknir á sviði peningamála og ríkisfjármála við mismunandi gengisstefnur og rannsóknir á bestu skilyrðum fyrir gjaldeyrissvæði. Þetta er fjórði nóbelsverðlaunahafinn sem ég hef sótt fyrirlestur hjá. Sá fyrsti var Herbert A Simon (mynd nr.2 frá vinstri), sem ég sótti fyrirlestur hjá á námsárunum í Gautaborg. Hann fékk verðlaunin fyrir vinnu sinna að rannsóknum á ákvarðanatökum í skipulagsheildum. Ég sótti fyrirlestur hjá Milton Friedman (mynd nr.3 frá vinstri) hér heima á níunda áratugnum. Hann fékk Nóbelinn fyrir rannsóknir sínar á sviði neyslurannsókna, fyrir rannsóknir á sögu peningamála og kenningar sem lýsa hversu erfitt getur verið að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu. Að lokum sótti ég fyrirlestur hjá Friedrich August von Hayek (mynd lengst til hægri). Hann fékk verðlaunin ásamt Gunnari Myrdal fyrir rannsóknir á kenningu um peninga og hagsveiflum og fyrir mikilvægar rannsóknir á innbyrgðis áhrifum hagfræðilegra, félagslegra þátta og fyrirkomu stofnana. Eftirminnilegasti fyrirlesturinn er að sjálfsögðu þegar ég hlustaði á þann fyrsta Herbert A Simon sem hagfræðinemi í Gautaborg. Maður var fullur eftirvæntingar að fá að sækja fyrirlestur hjá svona virtum manni. Friedman var eftirminnilegasti flytjandinn með áreitandi viðhorf sín. Einnig var Hayek eftirminnilegur. Þessir tveir talsmenn frjálshyggjunnar höfðu mikil áhrif á samtímann og fullvissa þeirra um yfirburði markaðshagkerfisins fram yfir kommúnismann átti eftir að koma betur í ljós með falli austurblokkarinnar. Nú er bara að sjá hvort útflutningsatvinnuvegirnir lifi af hágengisstefnununa. Friedman og Hayek fluttu hér eftirminnilega fyrirlestra um efnahagsmál, svo áhrifaríka að einn af efnahagsráðgjöfum ríkissstjórnarinnar féll í yfirlið undir ræðu Hayeks. Því miður er ekki víst að útflutningsatvinnuvegirnir lifi af hátt gengi íslensku krónunnar á meðan íslensk stjórnvöld vegi og meti stöðu gengismála eins og Mundell lagði til.

miðvikudagur, 25. janúar 2006

Að hætta reykingum.


Eitt af því versta sem ég hef tekið upp á í lífinu eru reykingar tóbaks. Ég hef verið 16 ára þegar ég fór að fikta við þetta. Varð tiltölulega fljótt alvöru reykingarmaður. Mér tókst að hætta í fyrsta skipti þegar ég var liðlega tvítugur eftir að hafa reykt í 6 ár. Ég þoldi illa að vera háður reykingum. Nú ég hóf svo reykingar aftur um þrítugt og reykti í nokkurn tíma, hætti byrjaði aftur og hætti svo aftur. Nú hef ég ekki reykt í 8 ár og verða að segja það að ég sakna þess alls ekki. Reykingar eru náttúrulega ekkert annað en eiturlyfjafíkn og reykingafíklar verða alltaf að vera á verði gagnvart þessu sterka eiturefni. Ég notaði þá aðferð þegar ég hætti að reykja að hætta seinni partinn á föstudegi. Síðan fór ég snemma að sofa þann daginn og lág í rúminu fram eftir laugardeginum til þess að ná fyrsta sólarhringnum reykfríum. Þegar ég var búinn að ná fyrsta sólarhringnum reykfríum fannst mér auðveldara að reyna við næsta dag og helgarnar voru bestar til þess að rjúfa vítahring reykinganna þegar maður gat haft hægar um sig. Eftir fyrstu tvær vikurnar varð tilveran auðveldari og það fóru að líða dagar sem maður gleymdi sér og fíknin minnkaði. Í hvert skipti sem ég hef hætt að reykja hefur það kostað ca. 10 auka kíló. En það er að mínu mati betri lífsgæði að drattast með þau en að vera háður tóbakinu. Nú er ég að reyna að fækka kílóunum. Það er stöðug barátta og gengur því miður hægar en ég hefði kosið. Ég held líka að maður verði að fara hægt í það verkefni því að annars er hætta á því að maður gefist upp. Þessi aðferð mín sem ég hef hér lýst gengur ekki ef maður er ekki tilbúinn í alvöru að drepa í og hætta.Hún er aðeins hjálpartæki meðan maður er að minnka eitrið og fíknina. Eiturfíknin með tilheyrandi doða varaði í 10 daga fyrsta skiptið sem ég hætti. Hreint ótrúlega óþægileg lífsreynsla. Jæja læt þessari reynslusögu lokið. Kveðja.

þriðjudagur, 24. janúar 2006

Vetrarríki og dulúð Mónu


Hér er vetrarríki allt tíðindalaust sem betur fer. Maður fer í vinnu á morgnana í myrkri og kemur heim úr vinnu í myrkri. Sumum finnst þetta kósí og mæra skammdegið. Ég læt þeim það eftir. Maður verður að einbeita sér að því að horfa á eitthvað fallegt og uppörvandi. Ég horfi m.a.oft á Mónu Lísu og velti fyrir mér dulúð hennar eins og milljónir annarra. Hef ekki komist að neinni niðursöðu varðandi dulmagnaða krafta hennar. Er þó löngu búinn að skynja það að þeir eru miklir. Er þetta mynd af Maríu Magdalenu eða meistarinn sjálfur Leonardo da Vinci í kvennmannslíki? Eins og einhverjir da Vinci sérfræðingar halda fram. Set hér myndina af henni á heimasíðuna svo þið getið notið hennar líka. Það er vel við hæfi á þessari heimasíðu því við erum með mynd af henni á tveimur stöðum hér heima. Mætti á söngæfingu í gærkvöldi með Sköftunum. Við erum að æfa nokkur lög til að syngja á þorrablóti. Annars er maður í þessu sama varðandi hobbýin: æfir á flygilinn, fer í Rotarý og reynir að halda uppi sæmilegum dampi í leikfiminni. Einhver mundi segja að þetta væri svolítil kyrrstaða hjá manni. Vert er þó að hafa í huga að það að nema staðar andartak stöku sinnum er oft eina leiðin til þess að vera fær um að halda áfram.(OW/Listin að lifa 1993). Hef þetta ekki lengra að sinni. Kveðja.

sunnudagur, 22. janúar 2006

Á sunnudagskvöldi.

Hjörtur, Ingibjörg og nafni fóru til Svíþjóðar í dag. Ferðin heim til Kristianstad gékk vel þrátt fyrir að veðrið sé búið að vera leiðinlegt í Scandinavíu. Annars ekkert sérstakt í fréttum. Höfum tekið því rólega í dag og þó við fórum austur fyrir fjall í dag í smá bíltúr enduðum í Hveragerði og á Selfossi. Allt gott að frétta frá Kanarí. Kveðja.

laugardagur, 21. janúar 2006

Á bóndadagsnótt.

Enn á ný komin helgi og dagarnir þjóta áfram. Það hlýtur að vera vaxandi hröðun í tímanum með hækkandi aldri. Ég hef ekki fengið neinn þorramat í dag. Það býður væntanlega betri tíma. Unga fólkið í kringum mig segist ekki borða "skemmdan" mat. Það verða ekki margir sem borða gamla þjóðlega rétti með þessu áframhaldi. Það er ágætasta veður í dalnum í kvöld nú er farið að rigna. Gott skyggni til Perlunnar og Borgarspítalans. Ljósavitinn á Perlunni lýsir himinhvolfið með grænum og hvítum geislum að venju. Þess á milli sér í rautt ljós á kúpulnum. Kórónan á Borgarspítalanum er upplýst í næturhúminu. Gamalkunnug lýsing fyrir sum ykkar. Einhver í dalnum er ekki enn búinn að taka rauð jólaljósin niður úr grenitrénu hjá sér. Maður er búinn að vera duglegur í dag. Fór til Gautanna tveggja þ.e. í leikfimi til Gauta leikfimimeistara og Þ. Gauta píanókennara. Alltaf gott á að byrja helgina á því að hreinsa hugan og liðka sig og takast á við píanóið. Hér hefur ekki stoppað síminn undanfarna daga vegna prófkjörs fyrir bæjarstjórnarkosningar hér í Kópavogi. Áróðursmeistarar frambjóðendanna hringja hver í kapp við annan. Lítið um það að frambjóðendur hringi i mann beint þótt undantekningar séu á því. Haft er eftir Markúsi Árelíus að í skrift og lestri verði að fylgja forskrift annarra áður en unnt er að gefa forskrift. Þetta á við um margt annað í lífinu. Jæja ég læt þetta duga í bili. Bið að heilsa ykkur öllum.

fimmtudagur, 19. janúar 2006

Nú fer þorrinn í hönd.

Þegar dyggir lesendur þessarar síðu eru farnir að kvarta undan pistlaleysi verður maður að pára eitthvað til að friða þá. Veðurlýsing er alltaf við hæfi. Kuldakaflanum undanfarna daga er lokið í bili. Frostið var -10°C þegar það var sem mest. Þetta hafa verið frekar tíðindalitlir dagar undanfarið. Við hér í Brekkutúni höfum nóg að gera í okkar störfum þessa dagana. Valdimar náði öllum prófum á síðustu önn og óskum við honum til hamingju með það. Foreldrar mínir eru enn á Kanarí og hafa það gott það best ég veit. Ég hringdi í dag í gamlan skólafélaga minn í Svíþjóð sem ég hafði ekki heyrt í lengi. Hann hefur verið lengi án vinnu og hefur af þeim sökum dregið sig í skel. Hann reyndist þó vera í nokkuð góðum gír þegar við töluðum saman. Hann hefur verið að endurmennta sig til að verða menntaskólakennari og er kominn með öll réttindi í hagfræði, spænsku og stærðfræði og er að leita sér að starfi. Hann sagði að þrátt fyrir þetta mótlæti á vinnumarkaði hefði þessi tími verið gefandi fyrir sig því að hann hefði notað hann til þess að byggja sig upp og lært meira. Það væri hann ánægður með en hann væri samt svolítið uggandi yfir því hvort tækist að fá vinnu á nýjum vettvangi. Vonandi tekst honum að fái vinnu við sitt hæfi. Þetta er góður drengur og á allt gott skilið. Jæja þá fer þorrinn í hönd. Hann byrjr á morgun, þann 20. janúar. Maður er aðeins farinn að gæða sér á sviðasultu og slátri en hef ekki fengið almennilegan þorramat. Vonandi rætist úr því á næstu dögum. Maður borðar ekki þennan mat orðið nema á þorranum svona til hátíðabrigða.

sunnudagur, 15. janúar 2006

Fannfergi í Fossvogsdal.

Það er mikið fannfergi í Fossvogsdal. Það hefur snjóað töluvert og hitastig ca. -3°C. Hér hefur verið mikið að gera um helgina og gestkvæmt. Hjörtur kom frá Svíþjóð. Hann er að fara norður á Akureyri til þess að leysa af. Ingibjörg og nafni komu úr Borgaresi og stud. jur. Valdimar og stud. polit.? Stella hafa litið hér inn. Nafni er við það að fara ganga og hefur þroskast mikið. Við höfum mikið velt fyrir okkur sambýli við nágranna og málefni tengd skiptingu sameignar. Þá komu hér Björn og Sunna. Svona veður kallar beinlínis á súpukjöt og létum við það eftir okkur. DV málin hafa verið fyrirferðarmikil í þjóðmálaumræðunni undanfarna daga. Það urðu kaflaskil þegar ritstjórar blaðsins sögðu af sér eftir þennan hörmulega atburð fyrir vestan. Að mínu mati endurspeglaðist þetta af svo mikilli mannvonsku. Því miður finnst mér í vaxandi mæli gæta aukinnar mannvonsku og minnkandi umburðarlyndis í samfélaginu. Þetta var ekki svona eða hvað?. Við þurfum að efla íslensku þjóðarsálina. Því það er góðviljuð sál, sem vill öllum vel. Þá er almennt mikil spenna í þjóðfélaginu. Ætli það megi ekki segja að boginn sé ansi hátt spenntur þessa dagana í umsvifum á flestum sviðum. Annars hef ég verið að hlusta á söngva Jóns Leifs. Söngvari er Finnur Bjarnason og við píanóið Örn Magnússon. Þetta er frábær tónlist og vandaður flutningur. Smekkleysa gefur þessar safnplötur út. Þær fást á útsölu fyrir 1400. krónur hins bestu kjarakaup.

fimmtudagur, 12. janúar 2006

Lítil stúlka fædd.

Það bar helst til tíðinda í dag að Hilda og Magnús eignuðust litla sæta stúlku. Við fórum á fæðingardeild LSH í kvöld og fengum að kíkja á barnið. Bæði móður og stúlkubarni heilsast vel. Við Brekkutúnsbúar óskum þeim innilega til hamingju. Annars ríkir vetrarríki úti. Það hefur gengið á með éljum í dag og nú er - 2°C frost en fremur stillt veður. Dagurinn minnir um margt á daginn þegar Hjörtur Friðrik fæddist í nóvember 1973. Kveðja til ykkar allra nær og fjær.

mánudagur, 9. janúar 2006

Til hamingju með daginn Halla.


Við ferðafélagar Höllu til Utah óskum henni til hamingju með afmælið. Hér má sjá mynd af okkur Brekkutúnsbúum með afmælisbarninu í Sundance, sveitarsetri Roberts Redfords sl. sumar. Við óskum Höllu margra "sólardansa" á komandi árum.

föstudagur, 6. janúar 2006

Á þréttándanum.

Þá eru jólin búin. Þau runnu framhjá sem örskotsstund. Það var lítið um frídaga en mikið um að vera þannig að þetta er búinn að vera góður tími. Fyrsta vinnuvikan liðin og maður hefur ekki við að standa við áramótaheitin. Það er nú spurning hvað maður treystir sér til þess að heiðra þessi blessuðu heit sín. Smátt og smátt renna þau saman inn í hversdagsleikann og maður gleymir þeim meira og minna á þorranum. Er þetta ekki einhvern veginn svona hjá okkur flestum? Jæja við sjáum til. Ég er ekki alveg tilbúinn að gefast upp strax. Annars er fátt í fréttum. Það er einn og einn að sprengja úti, en það er grenjandi rok og rigning úti en nokkuð hlýtt. Oft höfum við nú verið með gesti og á þessum degi og farið á brennu í dalnum. Það er engin brenna í dag vegna veðurs. Unglingurinn á heimilinu nennir nú ekki að vera með gamla settinu lengur. Var í heimsókn hjá prestshjónunum. Þau eru að fara til Kanarí og Sveinn og Þórunn líka. Axel fór með vinnunni til Kanarí í gær. Það nú meira hvað þessar Kanaríferðir heilla.

mánudagur, 2. janúar 2006

Á miðnætti fyrsta dags á nýju ári.

Mér fannst eins og það væri þriðjudagur í morgun. Svona getur maður verið ruglaður. Var ekki með leikfimisdótið mitt, þannig að ég renndi heim fyrir hádegi og sótti það. Ætlaði sko ekki að byrja nýtt ár á því að skrópa í leikfimi. Fór glaður og reifur í leikfimina. Við vorum tveir og tveir í hópnum að gera saman mismunandi æfingar um salinn. Kemur ekki leikfimisstjórinn og spyr okkur tvo hvort við séum ekki tilbúnir að fara saman í megrun. Þetta var nú ekki tillaga af hans hálfu heldur svona óbein skipun. "Þið eruð svipaðir að þyngd, þannig að þið byrjið á sama stað" sagði hann. Ég spurði hann á móti hvað hann héldi að ég væri þungur. Hann nefndi töluna og sagðist skyldi mæla mig til að staðfesta það. Ég reyndist að vísu heilum tveimur kílóum léttari og hafði svolítið gaman af því. Nú ég sagði honum að ég væri búin að ákveða að reyna að grenna mig. Upplýsti hann þó ekki um takmarkið, því ég vissi að hann var með hærri tölu í huga. Annars var þessi fyrsti dagur ársins rólegur. Við fórum á bíó í dag og sáum myndina "Rumor has it" með Janifer Aniston, Kevin Costner og Shirley Mclane sýnd m.a. í Háskólabíó. Ágætis afþreying sem óhætt er að mæla með. Síðan fórum við í heimsókn til presthjónanna og enduðum daginn á því að sækja Sigrúnu í vinnuna. Valdimar hringdi og tilkynnti okkur þær ánægjufréttir að hann hefði náð skaðabótaréttinum. Veðrið hefur verið óvenju milt miðað við árstíma og mun betra en það vetraríki sem nú má lesa um á meginlandinu. Kveðja.

sunnudagur, 1. janúar 2006

Í messu á nýju ári.


Presturinn og organistinn.

Það er uppbyggilegt að hefja nýtt ár á því að fara í messu í sinni gömlu kirkju á Borgarholtinu, Kópavogskirkju. Við fórum í messu hjá sr. Hirti. Hann fór að venju vel með hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar. Það verður mjög hátíðlegt þegar svo vel tekst með tónið. Ræðan var líka ágæt með nokkrum vel völdum heilræðum svona í upphafi ársins. Síðan var messukaffi hér í Brekkutúni. Myndin hér að ofan er af þeim félögum sr. Hirti og Kjartani Sigurjónssyni organista í Digraneskirkju. Mikið verið rætt um áramótaheitin í dag. Það eru náttúrulega aukakílóin 5 sem maður þarf að fara að losa sig við. Markið er ekki sett hærra en svo en að þau verði farin í maí mánuði. Annars mun maður rembast við að halda sínu striki. Minnugur þess að leiðin að settu marki er alltaf næsta skref. Læt þetta duga að sinni. Kveðja til ykkar allra.