laugardagur, 21. janúar 2006

Á bóndadagsnótt.

Enn á ný komin helgi og dagarnir þjóta áfram. Það hlýtur að vera vaxandi hröðun í tímanum með hækkandi aldri. Ég hef ekki fengið neinn þorramat í dag. Það býður væntanlega betri tíma. Unga fólkið í kringum mig segist ekki borða "skemmdan" mat. Það verða ekki margir sem borða gamla þjóðlega rétti með þessu áframhaldi. Það er ágætasta veður í dalnum í kvöld nú er farið að rigna. Gott skyggni til Perlunnar og Borgarspítalans. Ljósavitinn á Perlunni lýsir himinhvolfið með grænum og hvítum geislum að venju. Þess á milli sér í rautt ljós á kúpulnum. Kórónan á Borgarspítalanum er upplýst í næturhúminu. Gamalkunnug lýsing fyrir sum ykkar. Einhver í dalnum er ekki enn búinn að taka rauð jólaljósin niður úr grenitrénu hjá sér. Maður er búinn að vera duglegur í dag. Fór til Gautanna tveggja þ.e. í leikfimi til Gauta leikfimimeistara og Þ. Gauta píanókennara. Alltaf gott á að byrja helgina á því að hreinsa hugan og liðka sig og takast á við píanóið. Hér hefur ekki stoppað síminn undanfarna daga vegna prófkjörs fyrir bæjarstjórnarkosningar hér í Kópavogi. Áróðursmeistarar frambjóðendanna hringja hver í kapp við annan. Lítið um það að frambjóðendur hringi i mann beint þótt undantekningar séu á því. Haft er eftir Markúsi Árelíus að í skrift og lestri verði að fylgja forskrift annarra áður en unnt er að gefa forskrift. Þetta á við um margt annað í lífinu. Jæja ég læt þetta duga í bili. Bið að heilsa ykkur öllum.

Engin ummæli: