mánudagur, 2. janúar 2006

Á miðnætti fyrsta dags á nýju ári.

Mér fannst eins og það væri þriðjudagur í morgun. Svona getur maður verið ruglaður. Var ekki með leikfimisdótið mitt, þannig að ég renndi heim fyrir hádegi og sótti það. Ætlaði sko ekki að byrja nýtt ár á því að skrópa í leikfimi. Fór glaður og reifur í leikfimina. Við vorum tveir og tveir í hópnum að gera saman mismunandi æfingar um salinn. Kemur ekki leikfimisstjórinn og spyr okkur tvo hvort við séum ekki tilbúnir að fara saman í megrun. Þetta var nú ekki tillaga af hans hálfu heldur svona óbein skipun. "Þið eruð svipaðir að þyngd, þannig að þið byrjið á sama stað" sagði hann. Ég spurði hann á móti hvað hann héldi að ég væri þungur. Hann nefndi töluna og sagðist skyldi mæla mig til að staðfesta það. Ég reyndist að vísu heilum tveimur kílóum léttari og hafði svolítið gaman af því. Nú ég sagði honum að ég væri búin að ákveða að reyna að grenna mig. Upplýsti hann þó ekki um takmarkið, því ég vissi að hann var með hærri tölu í huga. Annars var þessi fyrsti dagur ársins rólegur. Við fórum á bíó í dag og sáum myndina "Rumor has it" með Janifer Aniston, Kevin Costner og Shirley Mclane sýnd m.a. í Háskólabíó. Ágætis afþreying sem óhætt er að mæla með. Síðan fórum við í heimsókn til presthjónanna og enduðum daginn á því að sækja Sigrúnu í vinnuna. Valdimar hringdi og tilkynnti okkur þær ánægjufréttir að hann hefði náð skaðabótaréttinum. Veðrið hefur verið óvenju milt miðað við árstíma og mun betra en það vetraríki sem nú má lesa um á meginlandinu. Kveðja.

Engin ummæli: