fimmtudagur, 26. janúar 2006

Nóbelsverðlaunahafar - gengismál.


Ég var á ráðstefnu í morgun um gengismál. Vel skipulögð ráðstefna og fróðleg og þeim til mikils sóma er hana héldu hjá viðskiptadeild HÍ. Þar talaði Kanadamaðurinn Robert A Mundel hagfræðingur (lengst til vinstri) um gengismál. Þar sem hann fór yfir valkosti í gengismálum. Hann fékk Nóbelsverðlaunin fyrir rannsóknir á sviði peningamála og ríkisfjármála við mismunandi gengisstefnur og rannsóknir á bestu skilyrðum fyrir gjaldeyrissvæði. Þetta er fjórði nóbelsverðlaunahafinn sem ég hef sótt fyrirlestur hjá. Sá fyrsti var Herbert A Simon (mynd nr.2 frá vinstri), sem ég sótti fyrirlestur hjá á námsárunum í Gautaborg. Hann fékk verðlaunin fyrir vinnu sinna að rannsóknum á ákvarðanatökum í skipulagsheildum. Ég sótti fyrirlestur hjá Milton Friedman (mynd nr.3 frá vinstri) hér heima á níunda áratugnum. Hann fékk Nóbelinn fyrir rannsóknir sínar á sviði neyslurannsókna, fyrir rannsóknir á sögu peningamála og kenningar sem lýsa hversu erfitt getur verið að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu. Að lokum sótti ég fyrirlestur hjá Friedrich August von Hayek (mynd lengst til hægri). Hann fékk verðlaunin ásamt Gunnari Myrdal fyrir rannsóknir á kenningu um peninga og hagsveiflum og fyrir mikilvægar rannsóknir á innbyrgðis áhrifum hagfræðilegra, félagslegra þátta og fyrirkomu stofnana. Eftirminnilegasti fyrirlesturinn er að sjálfsögðu þegar ég hlustaði á þann fyrsta Herbert A Simon sem hagfræðinemi í Gautaborg. Maður var fullur eftirvæntingar að fá að sækja fyrirlestur hjá svona virtum manni. Friedman var eftirminnilegasti flytjandinn með áreitandi viðhorf sín. Einnig var Hayek eftirminnilegur. Þessir tveir talsmenn frjálshyggjunnar höfðu mikil áhrif á samtímann og fullvissa þeirra um yfirburði markaðshagkerfisins fram yfir kommúnismann átti eftir að koma betur í ljós með falli austurblokkarinnar. Nú er bara að sjá hvort útflutningsatvinnuvegirnir lifi af hágengisstefnununa. Friedman og Hayek fluttu hér eftirminnilega fyrirlestra um efnahagsmál, svo áhrifaríka að einn af efnahagsráðgjöfum ríkissstjórnarinnar féll í yfirlið undir ræðu Hayeks. Því miður er ekki víst að útflutningsatvinnuvegirnir lifi af hátt gengi íslensku krónunnar á meðan íslensk stjórnvöld vegi og meti stöðu gengismála eins og Mundell lagði til.

Engin ummæli: