fimmtudagur, 29. júlí 2004

Þó þú langförull legðir...

Þannig hefst kvæðið Úr Íslendingadagsræðu Stephans G Stephanssonar og 2. kvæðið er svona: Yfir heim eða himin/hvort sem hugar þín önd/skreyta fossar og fjallshlíð/ öll þín framtíðarlönd!/Fjarst í eilífðar útsæ/vakir eylendan þín:/nóttlaus vor-aldar veröld, / þar sem víðsýnið skín./ Með því að smella hér má nálgast samantekt mína um þá sem samið hafa lag við þetta ljóð. Kveðja.

þriðjudagur, 27. júlí 2004

Fréttir úr fríinu

Sigrún var sautján ára í gær. Undirbýr sig á fullu við að taka bílpróf. Hélt hér hóf á sunnudaginn í tilefni þessara tímamóta. Ágætis kaffisamsæti í hefðbundnum stíl. Við erum að undirbúa okkur fyrir ferðina. Nú fer þetta að styttast í hana. Höfum verið í ýmsum smálegum útréttingum. Annars er veðrið hér dag eftir dag með ólíkindum. Pallaveður dag eftir dag. Maður á bara ekki að venjast svona hlýviðri dag eftir dag. Er að leita mér að upplýsingum um Mountain i North Dacota. Ég hef allan tíman horft fram hjá því að leiðin liggur um og í gegnum BNA. Hugurinn er allur í Kanada. Það er auðvitað út af þessum Vestur-Íslendingapælingum mínum.

mánudagur, 26. júlí 2004

Smá fiðringur fyrir ferðina.

Það er vaxandi fiðringur í manni vegna ferðarinnar til Kanada. Þetta er búinn að vera svo langur aðdragandi og nú loks hyllir undir það að við leggjum í hann. Passi, farseðill og ferðaprógram liggja fyrir. Nú er bara að fara að setja ofaní töskurnar. Mbl. var með frétt um það í vikunni að það væru 250 Íslendingar á sömu leið og við til þátttöku í Íslendingadeginum í Gimli 2. ágúst. Augljóslega mikill áhugi fyrir vesturferðum um þessar mundir. Það minnir mig á það að á alþingishátiðina 1930 komu 500 Vestur-Íslendingar til þess að taka þátt í henni. Þannig að þetta er langt frá því að vera eitthvert met í heimsóknum hjá okkur þótt við séum þó svona mörg.

laugardagur, 24. júlí 2004

Fréttir úr fríinu og Exit 3.

Við höfum nánast eingöngu verið í og við höfuðborgarsvæðið. Höfum farið skottúra austur fyrir fjall. Lengst í Skaftártunguna einn dag. Annars verið heima við í góða veðrinu undanfarna daga. Undurbúningurinn fyrir USA og Kanadaferðina er í fullum gangi. Við höfum aldrei undirbúið okkur eins fyrir nokkra ferð enda er hún í flokknum: Menningarferðir. Námskeið, fundir, lestur bóka, nótnagrúsk, samræður við gesti okkar frá Kanada í júní. Þetta er búið að vera stíf vinna við undirbúning ferðarinnar. Tímanum hefur aðallega verið varið í Vesturfaratímabilið 1870 til 1915. Þær hlupa a.m.k. á tveimur tugum bækurnar sem búið er að renna í gegnum varðandi það tímabil. Það rann svo allt í einu upp fyrir mér í síðustu viku að við hefðum meira og minna gleymt að kynna okkur Kanada "today" ef frá er talin heimsókn Jennu litlu félagsráðgjafa frá Kanada á vegum Rotary sem gaf okkur stutta kynningu á Kanada. Vel á minnst þessi ferð er á vegum Rótaryfélaganna í Kópavogi. Það er svo sem enn tími til að afla frekari upplýsinga um landið áður en við förum. Allavega er okkur það orðið ljóst að það er ekki víst að mann- og staðháttalýsingar sem eru 90 til 130 ára gamlar dugi í ferðinni. Flogið verður til Minniapolis í USA og það verður ekið í rútu norður til Winnipeg. Skoðunarferðir út frá borginni er þungamiðja ferðarinnar. Winnepeg er ein af stærstu borgum Kanada með íbúafjölda nálægt 6 til 7 hundruð þúsund manns. Þar verðum við í fimm nætur. Hápunktur ferðarinnar verður þátttaka í Íslendingadeginum í Gimli. Svo verða ýmsar styttur og staðir heimsóttir sem tengjast þessu tímabili. Þar á meðal verður Elliheimilið Borg heimsótt og Vestur- Íslendingar eða afkomendur þeirra leitaðir uppi. Þetta á allt eftir að koma í ljós þegar þar að kemur. Annars var Sirrý að segja yfir öxlina á mér að ég mætti ekki gleyma Mall of Amerika, EXIT 3 í þessari upptalningu. En það er inngangurinn sem hún á að ganga inn um svo að hún týnist ekki í þeirri búðarholu.

mánudagur, 19. júlí 2004

Sólardagar

Það er yndislegt að hefja sumarfríið þegar veðrið er eins og það hefur verið síðustu daga. Sól og aftur sól og léttur hlýr andvari. Það er ekki hægt að biðja um meira. Það stóð nú til hjá okkur að þeysast eitthvað um landið, en maður hægir á sér þegar veðrið hér á heimaslóðum er jafn gott og raun ber vitni. Nú er gaman að eiga góðan sólpall. Annars fórum við dagsferð austur í Skaftártungu á laugardaginn. Það var ágætt en það fór að rigna þegar við komum í Mýrdalinn og var rigning í Skaftártungunni. Þannig að við fórum heim aftur síðdegis eftir að hafa heimsótt Höllu og Örn í " Höllukot". Við höfum vissulega átt góða daga þessa helgi og þennan frídag.

laugardagur, 17. júlí 2004

Sumarfrí

Við komin í þriggja vikna sumarfrí. Fátt liggur fyrir varðandi það hvernig við ætlum að eyða þessum tíma fyrir utan að sjálfsögðu Kanadaferðina. Undirbúningur að sjáfsögðu á fullu. Ætli maður ferðist ekki eitthvað innanlands að venju og reyni að laga til í kringum húsið. Helstu fréttir eru þær að Hjörtur og Ingibjörg eru komin frá París og London. Segja að hvergi sé betra en á Íslandi. Sigurður Ingvarsson er að fara að hitta Snorra son sinn í Seattle. Þeir ætla að fara í mánaðar ferðarlag um USA áður en þeir koma heim til Íslands í lok ágúst. Snorri verður þá alkominn heim eftir langa og stranga dvöl í USA yfir 10 ár a.m.k. Sigurður verður 70 ára 16. ágúst þannig að hann verður á ferðalagi á afmælisdegi sínum. Eftir öðru man ég nú ekki í bili.

mánudagur, 12. júlí 2004

Veiðiferð í Laxá á Refasveit.

Um þessa á segir á Netinu: "Þykir (er) afar falleg, nokkuð vatnsmikil, tveggja stanga á. Laxá á Refasveit fellur til sjávar í Húnaflóa milli Blönduóss og Skagastrandar. Í henni veiðast þetta 100 til 300 laxar, allt eftir styrk árganga hverju sinni. Oft veiðast stórir fiskar í Laxá. Í veiðihúsinu sjá menn um sig sjálfir." Við Helgi fórum þarna seinni partinn í gær. Mjög gaman að skoða ánna, en engin var veiðin, ef frá eru taldir tveir silungar. Sáum lax en náðum ekki að fá hann til þess að taka. Lögðum að stað norður kl. 13.00 og vorum komnir í bæinn kl. 00.30.

laugardagur, 10. júlí 2004

Borgarblús og veður til að skapa.

Loksins, loksins, loksins hljóðnaði borgin. Það þurfti ský fyrir sólu og úða um hádegisbilið til þess að þagga niður í þessum tækjum og tólum allt í kringum okkur. Það er með ólíkindum hvað hljóðmengunin eykst þegar sólin skín. Þá fara framkvæmdamennirnir af stað að múra og mála, smíða og hefla og moka. Það er hvergi kyrrð til þess að njóta þessara örfáu sólargeisla. Í stuttu máli sagt í dag var "veður til að skapa" eins og granninn segir. Í París hef ég fregnað það í dag að veðrið hafi ekki verið til þess fallið að skapa neitt, nema þá helst leiðindi.

fimmtudagur, 8. júlí 2004

Blíðan í bænum

Það hefur ræst úr veðrinu í dag. Sannkallað sumarveður nú síðdegis. Skoðuðum nýja/gamla bíla í dag, en sáum ekkert sem okkur langaði að kaupa. Fórum því og keyptum hjólkoppa á Suparuinn hjá Koppa-Valda, eins og nágranni hans kallaði hann. Þar með er öllum bílakaupum slegið á frest um óákveðinn tíma. Haldiði að það sé munur að vera svona nægjusamur. Annars verið heimavið aðallega í garðstörfum. Hef að vísu aldrei séð sjarmann við slík störf. Annars tíðindalítill dagur. Hjörtur sendir okkur með jöfnu bili fréttaskeyti frá París. Sá m.a. Monu Lísu í dag.

miðvikudagur, 7. júlí 2004

Iðan söm við sig.

Fór klukkan 6 í morgun ásamt Helga vini mínum að veiða austur í Iðu. Iða er þar sem Hvítá og Stóra Laxá renna saman í eitt fljót við bæinn Iðu rétt austan við Skálholt. Við börðum svæðið allan daginn en veiðin var rýr. Ég fékk einn titt og Ingunn kom síðar um daginn og fékk annan sjóbirting öllu stærri; góðan matfisk eins og við segjum. Annars bar það helst til tíðinda að hún festi Patrolinn þeirra út í ánni. Lenti í sandbleytu þegar hún var að keyra út á leirurnar sem við veiðum aðallega við. Við Helgi fengum Iðubóndann til þess að draga bílinn upp úr pyttinum. Veðrið var leiðinlegt fyrst um morguninn skýjað og frekar kallt, en það rættist úr því eftir því sem leið á daginn. Fórum í sund í Reykholti í hvíldartímanum. Klukkan að ganga níu gáfumst við upp og brunuðum í bæinn. Ég hef nú farið nokkur ár til laxveiði í Iðu, en hún hefur ekki um árabil gefið mér lax, þótt ýmsir sem hafa verið með mér hafi vegnað betur. Ég bara veit ekki hvað ég geri ekki rétt þarna.Nota allar "réttu" græjurnar og meira til. Þannig að hún er söm við sig blessuð að undanskyldum þessum ræfli sem ég fékk um morguninn. Mjór er mikils vísir. Kannski.....

þriðjudagur, 6. júlí 2004

Þar sem frá var horfið...

Við vorum að koma úr sumarbústað í Þrastarskógi. Skógarsel heitir bústaðurinn og er í eigu S.F.L.Í. Fórum á föstudaginn 3. júlí síðastliðinn. Höfum átt þarna ágæta daga í yfirleitt mjög góðu veðri. Rúntuðum um Árnessýslu milli þess sem flatmagað var á sólpalli nú eða verið í heita pottinum. Margir hafa heimsótt okkur þessa daga: Björn, Sigríður, Hilda, Sunna, Hjörtur, Unnur, Valdi og Stella og svo Halla og Örn. Reyndist ekki sannspár með úrslitin í boltanum. Aumingja Portugalarnir ég sárvorkenni þeim. Annars erum við búin að vera að skoða landskika í Grímsnesinu. Sáum ýmsa staði sem áhugaverðir væru fyrir bústað. En við erum ekki nógu spennt til þess að fara út í svona ævintýri. Hvað svo sem síðar verður. Þetta kostar svo mikið að standa í þessu. Þannig að það er best að fá þetta leigt. Þótt mikið sé af bústöðum í Grímsnesinu þá er þetta mjög þægilegur staður mátulega langt frá bænum. Heilmikið við að vera í nágrenninu og falleg náttúra. M.ö.o. flest það sem sumarhúsaeigendur eru væntanlega að leita að. Enda flykkjast þeir inn á þetta svæði. Enduðum daginn í dag á að fara á Laugarvatn og fá okkur hádegisverð í Lindinni á Laugarvatni. Af einskæri tilviljun hittum við Gussa og Inger vini okkar frá Kungsbacka í Svíþjóð, sem eru á ferðalagi hér með sænskum vinum sínum. Svona eru tilviljanirnar í lífinu. Áttum með þeim ánægjulega samverustund.