miðvikudagur, 7. júlí 2004

Iðan söm við sig.

Fór klukkan 6 í morgun ásamt Helga vini mínum að veiða austur í Iðu. Iða er þar sem Hvítá og Stóra Laxá renna saman í eitt fljót við bæinn Iðu rétt austan við Skálholt. Við börðum svæðið allan daginn en veiðin var rýr. Ég fékk einn titt og Ingunn kom síðar um daginn og fékk annan sjóbirting öllu stærri; góðan matfisk eins og við segjum. Annars bar það helst til tíðinda að hún festi Patrolinn þeirra út í ánni. Lenti í sandbleytu þegar hún var að keyra út á leirurnar sem við veiðum aðallega við. Við Helgi fengum Iðubóndann til þess að draga bílinn upp úr pyttinum. Veðrið var leiðinlegt fyrst um morguninn skýjað og frekar kallt, en það rættist úr því eftir því sem leið á daginn. Fórum í sund í Reykholti í hvíldartímanum. Klukkan að ganga níu gáfumst við upp og brunuðum í bæinn. Ég hef nú farið nokkur ár til laxveiði í Iðu, en hún hefur ekki um árabil gefið mér lax, þótt ýmsir sem hafa verið með mér hafi vegnað betur. Ég bara veit ekki hvað ég geri ekki rétt þarna.Nota allar "réttu" græjurnar og meira til. Þannig að hún er söm við sig blessuð að undanskyldum þessum ræfli sem ég fékk um morguninn. Mjór er mikils vísir. Kannski.....

Engin ummæli: