sunnudagur, 14. júní 2020

Á sveitaball

Ég var minntur á þennan atburð fyrir fimmtíu árum í morgun. Við Beggi fórum á sveitaball í Kjósinni á druslunni, sem hann var búinn að gera upp. Fórum fyrst niður á höfn og keyptum vín og vindlabox áður en við lögðum af stað. Ákveðið að ég mundi keyra í bæinn því Beggi ætlaði að drekka vínið. Á ballinu voru slegin af mér gleraugun og án þeirra sé ég mjög illa. Eftir ballið leggjum við af stað í bæinn og ég undir stýri. Við vorum ekki komnir langt þegar Beggi byrjar að æpa í tíma og ótíma, hann hélt ég væri að fara út af veginum. Að lokum heimtaði hann að taka við akstrinum og lét ég honum það eftir. Dró ekki frekar til tíðinda fyrr en við nálgumst Rvík. Þar stoppar lögreglan okkur. Hjartað stoppaði líka en við sluppum. Beggi var sannfærður um að það hefði runnið af sér meðan ég keyrði. Ég var viss um að þetta Spánarglundur hafi verið óáfengt. En sem sagt eftir einn aki ei neinn. Það er óhætt að segja frá þessari minningu nú enda málið fyrnt og Beggi fyrir löngu farinn á annan stað.