laugardagur, 30. október 2010

Nóg að gera

Aðalfundarfulltrúar Þetta er búin að vera annasöm vika. Aðalfundur L.Í.Ú.var haldinn í vikunni og stendur hann í tvo daga. Þetta er hundrað og áttatíu manna fundur. Aðalumfjöllunarefnið var framtíð aflamarkskerfisins í ljósi hugmynda sjávarútvegsráððherra að hefja sölu á aflaheimildum í mikilvægum fisktegundum eins og m.a. þorski, ýsu, gullkarfa og síld. Í gærkvöldi komu fulltrúar ásamt mökum saman til lokahófs, sem tókst í alla staði mjög vel að vanda.

sunnudagur, 17. október 2010

Eintal við vindinn.

Ég fór í göngutúr í dag hérna í Fossvogsdal. Það kom smá sólarglenna tilvalin til að hreyfa mig í. Ég lagði mig eftir hljóðum á göngunni þegar ég kom út og taldi upp þau hljóð sem heyrðust á göngunni. Fyrsta hljóðið var klikk, klakkið í "city walker" skónum mínum. Næsta hljóð var í regndropunum, dripp, dripp, sem lentu á úlpunni minni. Þriðja var fuglasöngurinn allt um kring svolítið stressað, kvakk, kvakk vegna þess að vindur var að herðast. Fjórða hljóðið var fjarlægt drunn, drunnið í umferðinni. Fimmta var eigin andardráttur sem fór hækkandi eftir því sem hraðinn á göngunni jókst, uh uh uh. Sjötta hljóðið var gnauðið í fölnandi trjálaufinu, sju, sju, sju. Þá sendi vindurinn mér hugskeyti um að þetta væri ekki hljóðið í laufinu, heldur væri þetta hvíslið hans. "Heyrðu góði," þú ert hljóðlaus sagði ég upphátt. Þú nýtir bara umhverfið til þess að gera vart við þig. Blæst á laufið, gnauðar í þaki, lurkar mann í andlitið til þess að gera vart við þig, en þú ert hljóðlaus gerðu þér grein fyrir því. Eitthvað hef ég komið við auman blett hjá Kára því allt í einu heltist rigningin yfir mig eins og úr fötu þegar vindurinn jók á úrhellið. Gnauðið eitt jókst en fuglarnir þögnuðu, skóhljóðið heyrðist ekki, hljóðið í umferðinni hvarf. Ég var orðinn holdvotur og dropahljóðið drukknaði. Það er vissara að storka ekki Kára gamla. Ég hljóp inn og hélt að ég væri kominn í öruggt skjól. Fór úr buxunum til að þurrka þær. Þá hringdi Sirrý á Skype úr rútu á E4 á leiðinni til Jönköping. Ég svaraði en í miðju samtalinu þurfti ég að standa upp til að loka glugganum vegna vindhviðu. Þá var ég upplýstur um að ég væri á nærbuxum í beinni Skypesendingu í rútu á sænskum þjóðvegi og sessunaut hennar stæði ekki á sama. Það er meira hvað þetta eintal mitt við vindinn hefur sett hann úr jafnvægi.

Á tónleikum með The Lame Dudes

The Lame Dudes.
The Lame Dudes héldu styrktartónleika til stuðnings rannsóknum brjóstakrabbameins á Veitingahúsinu Kryddlegnum hjörtum í kvöld þann 16. október. Á efnisskránni voru lög eftir J.J. Cale. Þetta voru einu orði sagt mjög góðir tónleikar, flott lög, ljúf stemmning og flutningur laganna með ágætum. Ég verð að viðurkenna það að ég hef ekki fylgst meðvitað með þessum lagasmiði, en mörg lögin hljómuðu kunnuglega. Flutningur hljómsveitarinnar skilaði sér mjög vel. Þegar flæði tónlistarinnar er þannig að þeir sem flytja trufla ekki upplifun áheyrandans með flutningi sínum hafa tónlistarmennirnir náð góðum árangri sem flytjendur. The Lame Dudes hafa náð þessu stigi. Hannes Birgir Hjálmarsson er orðinn mjög þekkilegur bluessöngvari, Snorri Björn Arnarson er hin íslenska útgáfa af E. Clapton og ferst það vel úr hendi. Þá undanskil ég ekki Björgvin Gíslason eða Gunnar Þórðarson til að nefna tvo góða. Með hljómsveitinni spilaði í kvöld trommari, Nils kölluðu þeir hann og var hann mjög góður. Takk fyrir mig.

sunnudagur, 10. október 2010

"Tharna á horninu"

Hlíðargarður Við krakkarnir í hverfinu vorum að leika okkur í skrúðgarðinum í Hvömmunum og svo áttum við það til að laumast í skjóli myrkurs í nálæga garða til að "ná" okkur í gómsæt jarðarber, gulrófur eða næpur. Í minningunni var slíkt góðgæti ræktað í mörgum görðum. Við vorum þó alltaf á varðbergi gagnvart Kópavogslögreglunni og illum garðeigendum sem eðli máls voru ekki hrifnir af þessu hnupli. Einu sinni kom Ingólfur lögga að okkur í garðinum og Dóri í Birkihvammi kom fyrstur auga á hann. "Löggan er að koma," stundi hann upp úr sér og þegar einhver spurði hann hvar, svaraði hann að bragði:"Tharna á horninu." Þetta "Th" var svo sérstakt að allir sem ekki voru við það að gera í brækurnar fóru að hlæja. Þetta svar hefur lifað í minni mínu í um hálfa öld. Ingólfur lögga náði okkur sem sé þetta tiltekna kvöld öllum hópnum einsamall. Við höfum örugglega verið á þriðja tug barna sem vorum þarna. Við fengum valdsmannslega og föðurlega ræðu um að bannað væri að taka jarðarber, gulrætur eða næpur ófrjálsri hendi og spila fótbolta á túnbleðlunum í garðinum. Einn í hópum vogaði sér að vera með smá derring við yfirvaldið og fékk hann nafn sitt skráð í bók lögreglumannsins. Þessi gamla minning vaknaði í kvöld við það að kvöldstillan, hlýindin og myrkrið minnti mig á þessa gömlu góðu daga í Hvömmunum á þessum árstíma. Mikið óskaplega er veðrið annars fallegt þessa dagana. Annað var það ekki. Kveðja.

sunnudagur, 3. október 2010

Kristianstad í október.

Höfum átt hér góða daga í Kristianstad með Hirti, Ingibjörgu og strákunum okkar, Sveini Hirti og Jóhannesi Erni. Veðrið á Skåne er til þess að gera milt en það er þó heldur að kólna. Fórum til Kivíkur í dag og vorum þar á markaðsdegi eplanna. Enduðum á "hippakaffihúsi" út í skógi sem áður var brugghús, framleitt alkohól úr kartöflum og korni til 1970. Nú þá var farið á dótamarkað í morgun. Þar var selt allt milli himins og jarðar. Þetta er svona það helsta úr ríki Svía. Á morgun kemur í ljós hvernig meirihlutamálum Reinfelt í pólitíkinni verður háttað. Í framhaldi fórum við til Jönköping og var ég þar fram á miðvukdaginn 6. október. Við leigðum okkur bíl í Malmö og keyrðu m.a. til Bostad á leiðinni til Jönköping og komum við í nokkrum minni bæjum á leiðinni. Höfum átt fína daga í Jönköping.