sunnudagur, 17. október 2010

Eintal við vindinn.

Ég fór í göngutúr í dag hérna í Fossvogsdal. Það kom smá sólarglenna tilvalin til að hreyfa mig í. Ég lagði mig eftir hljóðum á göngunni þegar ég kom út og taldi upp þau hljóð sem heyrðust á göngunni. Fyrsta hljóðið var klikk, klakkið í "city walker" skónum mínum. Næsta hljóð var í regndropunum, dripp, dripp, sem lentu á úlpunni minni. Þriðja var fuglasöngurinn allt um kring svolítið stressað, kvakk, kvakk vegna þess að vindur var að herðast. Fjórða hljóðið var fjarlægt drunn, drunnið í umferðinni. Fimmta var eigin andardráttur sem fór hækkandi eftir því sem hraðinn á göngunni jókst, uh uh uh. Sjötta hljóðið var gnauðið í fölnandi trjálaufinu, sju, sju, sju. Þá sendi vindurinn mér hugskeyti um að þetta væri ekki hljóðið í laufinu, heldur væri þetta hvíslið hans. "Heyrðu góði," þú ert hljóðlaus sagði ég upphátt. Þú nýtir bara umhverfið til þess að gera vart við þig. Blæst á laufið, gnauðar í þaki, lurkar mann í andlitið til þess að gera vart við þig, en þú ert hljóðlaus gerðu þér grein fyrir því. Eitthvað hef ég komið við auman blett hjá Kára því allt í einu heltist rigningin yfir mig eins og úr fötu þegar vindurinn jók á úrhellið. Gnauðið eitt jókst en fuglarnir þögnuðu, skóhljóðið heyrðist ekki, hljóðið í umferðinni hvarf. Ég var orðinn holdvotur og dropahljóðið drukknaði. Það er vissara að storka ekki Kára gamla. Ég hljóp inn og hélt að ég væri kominn í öruggt skjól. Fór úr buxunum til að þurrka þær. Þá hringdi Sirrý á Skype úr rútu á E4 á leiðinni til Jönköping. Ég svaraði en í miðju samtalinu þurfti ég að standa upp til að loka glugganum vegna vindhviðu. Þá var ég upplýstur um að ég væri á nærbuxum í beinni Skypesendingu í rútu á sænskum þjóðvegi og sessunaut hennar stæði ekki á sama. Það er meira hvað þetta eintal mitt við vindinn hefur sett hann úr jafnvægi.

Engin ummæli: