sunnudagur, 10. október 2010

"Tharna á horninu"

Hlíðargarður Við krakkarnir í hverfinu vorum að leika okkur í skrúðgarðinum í Hvömmunum og svo áttum við það til að laumast í skjóli myrkurs í nálæga garða til að "ná" okkur í gómsæt jarðarber, gulrófur eða næpur. Í minningunni var slíkt góðgæti ræktað í mörgum görðum. Við vorum þó alltaf á varðbergi gagnvart Kópavogslögreglunni og illum garðeigendum sem eðli máls voru ekki hrifnir af þessu hnupli. Einu sinni kom Ingólfur lögga að okkur í garðinum og Dóri í Birkihvammi kom fyrstur auga á hann. "Löggan er að koma," stundi hann upp úr sér og þegar einhver spurði hann hvar, svaraði hann að bragði:"Tharna á horninu." Þetta "Th" var svo sérstakt að allir sem ekki voru við það að gera í brækurnar fóru að hlæja. Þetta svar hefur lifað í minni mínu í um hálfa öld. Ingólfur lögga náði okkur sem sé þetta tiltekna kvöld öllum hópnum einsamall. Við höfum örugglega verið á þriðja tug barna sem vorum þarna. Við fengum valdsmannslega og föðurlega ræðu um að bannað væri að taka jarðarber, gulrætur eða næpur ófrjálsri hendi og spila fótbolta á túnbleðlunum í garðinum. Einn í hópum vogaði sér að vera með smá derring við yfirvaldið og fékk hann nafn sitt skráð í bók lögreglumannsins. Þessi gamla minning vaknaði í kvöld við það að kvöldstillan, hlýindin og myrkrið minnti mig á þessa gömlu góðu daga í Hvömmunum á þessum árstíma. Mikið óskaplega er veðrið annars fallegt þessa dagana. Annað var það ekki. Kveðja.

Engin ummæli: