fimmtudagur, 31. janúar 2008

Kuldatíð.

Það er rosalega kallt úti. Man ekki eftir svona kuldakasti lengi. Þetta er að verða veðurannáll. Það eru nánast veðurlýsingar í hverju bloggi. Hér eru hjá okkur þessa dagana Hjörtur og Ingibjörg með Svein Hjört og Jóhannes Erni. Nú styttist í að þau fari til síns heima í Svearíki, en þau fara á laugardaginn. Maður er bara í sinni rútínu og frá litlu að segja. Var á ráðstefnu í dag þar sem rætt var um ESB. Lítið nýtt sem þar kom fram, sem ekki hefur verið fjallað um áður. Þar fjallaði m.a.dómsmálaráðherra um skýrslu Evrópunefndar, sem hann var formaður fyrir. Meginniðurstaða hans er að okkur sé betur borgið utan ESB en innan þess. Þannig séu líkur til að við munum hafa meiri áhrif í þeim málum sem varða okkur. Síðan fjallaði hagfræðingur frá Landsbankanum ítarlega um evruna, efnahagsmál og erfiðleika á lánsfjármarkaði. Það eru blikur á lofti bæði hér og á alþjóðlegum fjármálamarkaði og betra að fara varlega næstu misseri. Það bar annars til tíðinda að sagt var frá þessari ráðstefnu í fréttum Stöðvar 2 eins og leynifundi. En þetta var einungis lokuð innanhúsráðstefna á vegum SA. Annars lítið að frétta héðan. Kveðja.

sunnudagur, 27. janúar 2008

Að setja sér markmið.

Afrískur flóttamaður. Þetta er nú meira leiðinda veðrið - hífandi rok og ekki hundi út sigandi. Danir björguðu deginum. Mikið rosalega var annars gaman að fylgjast með leiknum og sjá þá verða Evrópumeistara. Það skipti þá miklu að eiga góðan markmann, en leikgleðin og áræðnin var allaf til staðar. Alveg er ég sannfærður um að þetta ættum við að geta líka á góðum degi. Ég var líka að fylgjast með frönskum kvikmyndagerðarmanni í sænska sjónvarpinu sem fylgdi sómölskum og eþópískum flóttamönnum á báti yfir til Jemen. Sýndar voru tilraunir Sþ til að fá fólkið til að hætta við og snúa heim fyrir tólf evrur sem báru engan árangur. Aumingjans fólkið sem var í flóttamannabátnum var misþyrmt skipulega á leiðinni af smyglurunum. Margt af því hafði aldrei komið um borð í bát og var sjóveikt á leiðinni. Á 10 metra langri fleytu voru 129 manns eins og í síldartunnu. Minnti mann á myndir af þrælagaleiðum sem maður hefur séð í sögubókum. Það er sem sé enn verið að flytja ódýrt vinnuafl frá Afríku á hrottafenginn hátt. Maður sér aldrei svona raunveruleika myndir af lífi fólks í íslensku sjónvarpi. Það er svo grunnt og "commercial" eins og stundum er sagt. Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er sú að maður verður að setja sér markmið ef maður ætlar að ná árangri. Þetta á við hvort heldur er í handbolta eða í þeirri viðleitni að leita betra lífs. Einn flóttamaðurinn sagðist ekki geta framfleytt sér í heimalandi mínu. Þannig að staða hans gæti ekki versnað miðað við núverandi aðstæður með því að leita sér að vinnu í öðru landi. Danski þjálfarinn sagði fyrir mótið að Danir ætluðu sér að verða Evrópumeistarar - einhverjir hlógu víst að því en ekki lengur. Kveðja.

föstudagur, 25. janúar 2008

Á bóndadaginn.

Sirrý, Hjörtur og Unnur. Fórum í kvöldkaffi til foreldra minna í dag og tókum stöðuna í helstu dægurmálum. Sitt sýndist hverjum um hina pólitísku stöðu í borginni með tilkomu nýs meirihluta og borgarstjóra. Hittum þar Hjört Sveinsson frænda og framsóknarmann. Nú annars frá litlu að segja þessa dagana. Maður reynir að fylgja rútinu daganna. Fór í gær og gaf blóð í 49. sinn. Þannig að nú á maður aðeins eftir að gefa í eitt skipti í viðbót til að ná settu markmiði. Maður verður seint hundraðshöfðingi úr þessu. Það kallast þeir sem hafa náð að gefa blóð hundrað sinnum. Það er mikið vetrarríki hér í Fossvogsdal mikill snjór, kallt og gnauðandi vindur á gluggum. Maður reynir að sinna áhugamálunum af bestu getu. Hef verið að taka mér tak og æfa á píanóið. Annars hef ég verið að hlusta á gregoískar kantötur Ego sum Resurrectio. Þeir segja að þetta sé meira en þúsund ára gömul tónlist í bæklingi sem fylgir disknum. Mæli með þessari tónlist fyrir þá sem hafa þörf fyrir tónlist við hugleiðslu á dimmum vetrarkvöldum. Kveðja.

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Traust eða traust staða er sitthvað.

Það er dimmt í Fossvoginum í kvöld. Skyggni er lítið sem ekkert vegna snjókomu. Sér vart í næstu hús. Hvað þá yfir til höfuðborgarhlutans í dalnum. Þetta voru nú annars meiri skrílslætin í ráðhúsinu í dag. Þeim til skammar sem stóðu fyrir þessum ólátum. Nú er handboltinn búinn og óþarfi að ergja sig á honum. Ég viðurkenni að þetta er ágætis dægrastytting í skammdeginu að fylgjast með svona móti. Einhver viðsnúningur varð á fjármálamarkaðnum í dag. Vonandi að botninum þar sé náð í bili. Þetta eru hrikalegar fréttir af franska bankanum, Societe Generale sem upplýsti að einn starfsmaður hefði orðið þess valdandi að bankinn hefur tapað 5 milljörðum evra(460 milljörðum króna). Svona frétt getur haft víðtæk áhrif á fjármálamarkaðinn á næstunni. Þetta minnir á hneykslið í Beringsbanka hér um árið. Fjármálastofnanir byggja fyrst og fremst á trausti. Undanfarið hefur maður heyrt frá höfuðstöðvum bankanna að staða þeirra sé svo og svo traust. Þeir hafi mikið lausafé til starfseminnar í langan tíma þrátt fyrir erfiðleika við endurfjármögnun vegna miklu hærra vaxtaálags. Það sem þeir þurfa hinsvegar ávallt að hafa að leiðarljósi er hvort starfsemi þeirra hafi nauðsynlegt traust viðskiptavina. Viðskiptavinirnir horfa til fleiri þátta en lausafjárstöðu og árshluta- og ársuppgjöra. Þeir horfa líka til þess hvort starfsemi bankanna sé trúverðug. Telji viðskiptavinir svo vera eiga bankarnir traust þeirra. Það er annað og mikilvægara traust heldur en sú trausta staða sem bankarnir keppast við að auglýsa. Það er ef til vill táknrænt fyrir þessa hugleiðingu að nú hefur stytt upp og ljósin í höfuðstaðnum blasa við. Kveðja.

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Í sigurliðinu.

Snorri Steinn.(mynd af Mbl.is) Mikið var ég glaður eftir þennan leik. Það er svo gaman að halda með sigurliðinu, þá sjaldan að það gerist. Ég skal viðurkenna það að ég fylgdist lítt með leikjunum við Þjóðverja og Frakka. Jæja, þá er það spurningin um sjöunda sætið - hina heilögu tölu. Þeir segja að jafntefli við Spánverja sé nóg til að ná því. Það er þá einu sæti ofar en ég hafði spáð. Nú var á söngæfingu með Sköftunum í gær. Það gengur vel að æfa nýtt prógram sem væntanlega verður flutt í april og maí. Nú er að reyna að standa sig í mætingum. Jóhannes Ernir og Sveinn Hjörtur fóru upp í Borgarnes. Nú er enginn sem segir "Ía = afi" og "afi minn" í bili þegar meður fer í og úr vinnu. Kveðja.

sunnudagur, 20. janúar 2008

Lífið í Túni.

Það er í nógu að snúast þessa dagana. Hér hafa þeir verið bræðurnir Sveinn Hjörtur og Jóhannes Ernir. Báðir hafa verið með umgangspest. En það er nú vonandi að það brái af þeim fljótlega. Lilja leit hér við í gær að heilsa upp á frændur sína með foreldrum sínum, þannig að hér er búið að vera mikið líf og fjör. Nú ég horfði á leikinn við Frakka. Ég held ég hlífi ykkur við athugasemdum mínum. Kveðja.

Viti menn.

Ísland - Slóvakía. Þetta var miklu betri leikur. En óöryggi liðsins í síðari hálfleik var hrópandi. Það getur orðið örðugt í næstu leikjum ef ekki tekst að koma í veg fyrir það. Það gengur ekki að vera hræddur fyrir framan mark andstæðingsins. Við náum langt í þessari keppni ef við látum ekki taka okkur á taugum. Kveðja.

laugardagur, 19. janúar 2008

Samband íþrótta og efnahagsmála.

Ég heyrði þá hagskýringu í gær að það væri beint samband milli gengis og getu íþróttamannanna okkar á mótum erlendis og því hvernig efnahagsástandið á Íslandi er hverju sinni. Það var ekki hagfræðingur sem kom með þessa hagskýringu heldur læknir. Annar kollegi hans sem var nærstaddur og býr í Svíþjóð var líka alveg miður sín yfir þessu tapi. Hann hafði meiri áhyggjur af þeim háðsglósum sem hann yrði að þola í Svíþjóð þegar hann snýr aftur til baka á sjúkrahúsið. Hans orð voru nákvæmlega þessi: "Ef þetta á að vera svona áfram í leikjum gegn Svíum, þá förum við Íslendingar í Svíþjóð fram á það að þessari vitleysu verði hætt. Þessi lélega frammistaða gerir okkur lífið óbærilegt vegna háðsglósa." Ég set allt mitt traust á fimleikastjórann minn í AGGF sem fylgir nú landsliðinu og ég sé hann nú fyrir mér við að stappa sjálfstrausti í strákana. Ég þekki það sjálfur að hann gefur sig allan í það og legg því allt mitt traust á getu hans. Nú er bara að vona að okkur gangi allt í haginn í næstu leikjum. Það gefur mér nokkra von um framhaldið að ég veit að efnahagsástandið á Íslandi er ekki jafn slæmt og sú útreið sem við fengum í þessum hræðilega leik.Tíu marka munur og svo fimm marka ölmusugjöf Svía á endasprettinum til þess að draga úr niðurlægingu okkar er einum of mikið. Kveðja.

föstudagur, 18. janúar 2008

Afmælisveisla hjá Birni.

Fórum í afmælisveislu til Björns í kvöld. Sirrý kom frá Finnlandi í dag. Við fórum nánast beint í Suðurmýrina. Ingibjörg og Sveinn Hjörtur voru að koma úr sveitinni. Þetta er nú það helsta í fréttum sem ég man eftir í fréttum héðan. Kveðja.

fimmtudagur, 17. janúar 2008

Þannig fór um sjóferð þá.

Ég var búinn að spá því að svona færi í þessum leik Svía og Íslendinga. Svíar fara langt í þessari keppni. Við eigum að geta gert mun betur. Vonandi er þetta "spark" sem hvetur strákana til afreka. Við eigum að geta náð 8 sæti, þótt Svíar hafi unnið okkur. Þeir eru á leiðinni í sigursætið miðað við hvað þeir fóru léttilega með okkur.

miðvikudagur, 16. janúar 2008

Tvær stjörnur.

Við Hjörtur fórum á bíó í kvöld sem heitir Death at a funeral. Jæja hvað á ég að segja án þess að eyðileggja fyrir ykkur sýninguna. Þetta var breskur farsi, ekkert sérstaklega frumlegur. Eigum við ekki að segja að það hafi verið allt í lagi að horfa á hana. Gef henni tvær stjörnur af fimm mögulegum.

Á dimmu vetrarkvöldi.

Á slíku kvöldi er fátt betra til að lýsa upp sálartetrið en að syngja í röddum: "Hjálpa þú mér helg og væn himnamóðirin bjarta!" Þetta er fallegt ljóð eftir HKL við lag Björgvins Þ Valdimarssonar. Endaði daginn á ljúfri söngæfingu með Sköftunum. Mætingin var betri en á síðustu æfingu. Heyrði annars sögu af manni í dag sem var boðið heim til manns sem taldi hann ranglega vera annan mann. Aðspurður síðar hvort honum hefði ekki þótt óþægilegt þegar gestgjafinn komst að raun um að hann færi mannavillt, sagði hann svo ekki hafa verið. Hann hefði nefnilega alltaf verið viss um það sjálfur hver hann væri. Getur komið sér vel að vera viss um það. Annars frá litlu að segja í bili. Kveðja.

mánudagur, 14. janúar 2008

Evrópumeistarakeppnin.

Þá er að setja sig í stellingar fyrir Evrópumeistarakeppnina í handbolta í Noregi. Ég spáði því í dag að Svíar verði Evrópumeistarar, þeir vinni okkur í fyrsta leiknum en við verðum í 8. sæti í keppninni. Spáir einhver betur? Þetta var mín spá í leikfimitímanum í dag. Flestir spáðu Þjóðverjum, Frökkum eða Spánverjum sigri. Þetta kemur allt í ljós. Ég held hinsvegar að Svíar séu nánast á heimavelli í Noregi. Fáir spá þeim góðu gengi. Við niðurlægðum þá hér um árið. Það er við slíkar aðstæður sem þeir eru hættulegastir þ.e. þegar enginn gerir ráð fyrir þeim í spilinu. Nú af öðrum fréttum er það helsta að Sirrý er í Finnlandi þessa vikuna. Við hin erum í okkar rútínu og reynum að halda taktinn.Kveðja.

laugardagur, 12. janúar 2008

Í húsdýragarðinum.

Hringekjan.
Fórum í morgun í húsdýragarðinn með Jóhannesi Erni og Sveini Hirti. Skoðuðum dýrin í garðinum og horfðum á þegar selunum var gefin síld. Strákarnir höfðu mikið gaman af því. Valgerður Birna á tveggja ára afmæli í dag og óskum við henni til hamingju með daginn. Annars mest lítið í fréttum. Kveðja.

fimmtudagur, 10. janúar 2008

Stjörnubjartur næturhiminn.

Það er stjörnubjartur næturhiminn hér í Fossvogsdal, stillt og gott veður úti. Útsýni til Perlunnar með besta móti. Hún slær rólega taktinn í myrkrinu með hvítu og grænu ljósi flugvitans. Topphúfan á Borgarspítalanum með rauðum skúf sínum er vel upplýst en víða slökkt á hæðum. Vonandi merki um rólega nótt á sjúkrahúsinu. Útvarpshúsið er að vanda vel upplýst með lag á fóninum og fréttapistil í bígerð. Húsin kúra í dalnum og ljósastaurarnir aðgreina göturnar. Nóttin er ung og falleg og allt með kyrrum kjörum. Það sama er ekki hægt að segja um fjármálamarkaðinn sem hefur tekið sínar stærstu og alvarlegustu dýfur þessa fyrstu daga janúar mánaðar. Miklir stormsveipir hefur leikið markaðinn illa undanfarna daga, sem helst má líkja við fárviðri. Vonandi er að það versta sé yfirstaðið og markaðurinn jafni sig. Sagði ekki karlinn á gula bílnum hér um árið að maður ætti að "sell high og buy low". Samkvæmt því ættu að vera til staðar mikil og góð kauptækifæri á markaðnum og vonandi sem flestir selt þegar markaðurinn var "high" og því nægt fjármagn til tækifæriskaupa. Hingað komu í kvöld Valdimar, Stella og Lilja. Hjörtur og Jóhannes Ernir eru hér í heimsókn. Annars lítið að frétta héðan. Hjólin eru farin að snúast á fullu. Sigrún og Sirrý byrjaðar í skólanum og utanlandsferð hinnar síðarnefndu á döfinni í næstu viku.

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Þema gærdagsins: Stjórnmál, menntun og söngur.

Í gær var fyrsti fundur í Rótarýklúbbnum eftir áramótin. Gestur okkar var Ólafur Þ Harðarson stjórnmálaprófessor við HÍ. Hann fór yfir pólitíska þróun í landsmálum frá 1945 og hvernig áhrif stjórnmálamanna hafa verið að breytast á undanförnum árum í ljósi þess að markaðasskipulagið hefur borðið sigur af þeim valkostum sem tekist var á um á 20. öldinni. Annars fór dagurinn í það að sitja ráðstefnu Fjöltækniskólans um menntun og atvinnulífið. Fróðleg ráðstefna um samskipti skóla og atvinnulífs, sem nauðsynlegt er að fara yfir með jöfnu millibili. Framboð á menntun er gríðarlegt og eftirspurn og samkeppni um besta starfsfólkið fer vaxandi. Einstakir skólar verða að vera á tánum, ef þeir ætla halda sínum hlut í framtíðinni. Það gildir líka í þeirra starfi að nú þarf að hugsa einnig um hag nemanda. Í gærkvöldi var svo fyrsta æfing hjá Sköftunum eftir áramótin. Farið var í gegnum nokkur lög sem við vorum að æfa fyrir áramótin. Vetrarstarfið lofar góðu en það vantaði nokkuð marga. Það voru 22 félagar mættir, en það þurfa að vera a.m.k. 30 til þess að það kórinn hljómi vel. Kórinn er orðinn mun samstilltari en áður og sum lögin að verða nokkuð vel slípuð. Vonandi að úr rætist með mætinguna. Kveðja.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Jólin kvödd.

Jóhannes Ernir og afi. Það fer vel á því að við Jóhannes Ernir sitjum fyrir á mynd á þrettándanum. Þetta hefur verið sannkölluð barnabarna jólahátíð þessa daga. Eins og alltaf líða þessir dagar allt of hratt. Við höfum nú síðasta jóladaginn fylgst með flugeldasýningum allt í kringum okkur eftir að rökkva tók. Engin brenna er hér í nágrenninu eins og oft áður. Bestu kveðjur.

laugardagur, 5. janúar 2008

Hátíðartónleikar Rótarý í Salnum.

Flytjendur.(Mynd af vef utanríkisráðuneytisins.) Við fórum á síðari tónleika Rótarý hreyfingarinnar í Salnum í dag. Eins og við höfum reyndar gert síðan byrjað var að halda slíka tónleika í ársbyrjun ár hvert fyrir tólf árum. Í ár sáu Irina Romishevskaya, mezzósópran og Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran um sönginn við undirleik Jónasar Ingimundarsonar á flyglinum. Efnisvalið var fljölbreytt,óperuaríur, dúettar og fjölbreytt sönglög eftir; H. Purcell, G Fr. Händel, A.Vivaldi, Fr. Schubert, M. Glinka, M. Mussorgski, L. Delibes, W.A. Mozart, C. Saint-Saëns, J.Offenbach, G. Bizet og V. Bellini. Söngkonurnar fóru á kostum við hljómfagran undirleik Jónasar. Diddú er öllum Íslendingum kunn sem frammúrskarandi söngkona og "performer". Irina hin rússneska var einnig frammúrskarnadi í flutningi sínum. Það vekur hjá manni mikið stolt og gleði að eiga þess kost að geta notið slíks sönglagaflutnings í heimabyggð í stórkostlegum Salnum. Það mikla tónlistarstarf sem fer fram í Salnum byggist að sjálfsögðu á tónlistarjöfrinum Jónasi Ingimundarssyni með einum eða öðrum hætti. Salurinn er tengdur nafni hans eins og Dómkirkjan er tengd nafni Páls Ísólfssonar í mínum huga. Eftir hlé lék styrkhafi rótarýstyrksins í ár eins og engill á fiðlu, en ég náði ekki nafninu hennar.

föstudagur, 4. janúar 2008

Árið okkar!

Fór í fyrsta leikfimitíma ársins. Slapp í gegnum viktun. Hafði reyndar ekki þyngst neitt þannig að óþarfi var að hafa áhyggjur af því fyrirfram. Fimleikastjórinn var svo ánægður með mig að hann útnefndi mig í sérstakan úrvalshóp þessa vikuna. Þetta verður "árið okkar" sagði hann og ég játti því. Nú er bara að ofmetnast ekki og taka eina viku fyrir í einu. Þetta fór nú í þær fínu hjá sumum félögum sem voru beðnir um að vera eftir og mæta í sérstakt viðtal hjá leikfimistjórnanum. Ég lét nú glósur þeirra sem vind um eyru þjóta. Þá er þessi fyrsta stutta vinnuvika búin. Gott að fá mjúka byrjun. Verkefnin hrannast inn á vikurnar þannig að það verður í nógu að snúast. Á laugardaginn verða rótarý tónleikar í Salnum þar sem m.a. Diddú mun koma fram. Við höfum yfirleitt farið á þessa tónleika á undanförnum árum og haft gaman af því.

miðvikudagur, 2. janúar 2008

Einn, tveir og þrír..

..og upp nú. Þannig byrjaði fyrsti vinnudagurinn eftir helgina. Til stóð að vera búinn að komast til botns í hinu og þessu, en lítið varð um efndir. Maður starir á magann á sér og spyr sig hvernig þetta gat gerst. Oh, nú skammar fimleikastjórinn mig eftir nýjársviktunina. Hann sem var búinn að segja að átveislur jólahátíðarinnar væru ekki fyrir okkur. Við værum löngu búnir með kvótann í þeim efnum. En til hvers eru freistingar, ef ekki til þess að falla stundum fyrir þeim? Ég er búinn að lesa bókina hans Sigurðar Pálssonar. Hún er nosturslega vel skrifuð. Ég velti því fyrir mér fyrir hvern hann er að skrifa. Í mínum huga er það augljóst. Hann er að því fyrir sjálfan sig en vill deila með okkur minningum sínum. Ég hefði viljað fá meiri umfjöllun um vorið í París ´68. Það hlýtur að hafa verið bitastæð reynsla að upplifa þá umbyltingartíma svona af vettvangi. Lýsing hans ber með sér lýsingu áhorfandans frekar en þátttakandans, sem oftar en ekki er hlutskipti Íslendingsins. Nú er það næst þjóðskáldið Davíð Stefánsson sem tekinn skal til lestrar. Datt niður í kaflann um samspil hans og Páls Ísólfssonar. Mjög fróðlegur og áhugaverður lestur. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja.

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Gleðilegt ár.

Feðgarnir. Gleðilegt ár. Hér var mikið sprengt í gær og betra að fara varlega. Hér má sjá þá Hjört og Svein Hjört í vari eftir að hafa kveikt á einni rakettunni. Vel tókst að skjóta flugeldum þótt veðrið hafi ekki verið með allra besta móti. Það hjálpaði að vindurinn var austanstæður þannig að þetta reyndist ekki vera vandamál. Með okkur þetta kvöld voru Hjörtur, Ingibjörg,Sveinn Hjörtur, Jóhannes Ernir, Valdimar, Stella,Lilja og Sigrún Huld. Kveðja.