miðvikudagur, 2. janúar 2008

Einn, tveir og þrír..

..og upp nú. Þannig byrjaði fyrsti vinnudagurinn eftir helgina. Til stóð að vera búinn að komast til botns í hinu og þessu, en lítið varð um efndir. Maður starir á magann á sér og spyr sig hvernig þetta gat gerst. Oh, nú skammar fimleikastjórinn mig eftir nýjársviktunina. Hann sem var búinn að segja að átveislur jólahátíðarinnar væru ekki fyrir okkur. Við værum löngu búnir með kvótann í þeim efnum. En til hvers eru freistingar, ef ekki til þess að falla stundum fyrir þeim? Ég er búinn að lesa bókina hans Sigurðar Pálssonar. Hún er nosturslega vel skrifuð. Ég velti því fyrir mér fyrir hvern hann er að skrifa. Í mínum huga er það augljóst. Hann er að því fyrir sjálfan sig en vill deila með okkur minningum sínum. Ég hefði viljað fá meiri umfjöllun um vorið í París ´68. Það hlýtur að hafa verið bitastæð reynsla að upplifa þá umbyltingartíma svona af vettvangi. Lýsing hans ber með sér lýsingu áhorfandans frekar en þátttakandans, sem oftar en ekki er hlutskipti Íslendingsins. Nú er það næst þjóðskáldið Davíð Stefánsson sem tekinn skal til lestrar. Datt niður í kaflann um samspil hans og Páls Ísólfssonar. Mjög fróðlegur og áhugaverður lestur. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja.

Engin ummæli: