laugardagur, 19. janúar 2008

Samband íþrótta og efnahagsmála.

Ég heyrði þá hagskýringu í gær að það væri beint samband milli gengis og getu íþróttamannanna okkar á mótum erlendis og því hvernig efnahagsástandið á Íslandi er hverju sinni. Það var ekki hagfræðingur sem kom með þessa hagskýringu heldur læknir. Annar kollegi hans sem var nærstaddur og býr í Svíþjóð var líka alveg miður sín yfir þessu tapi. Hann hafði meiri áhyggjur af þeim háðsglósum sem hann yrði að þola í Svíþjóð þegar hann snýr aftur til baka á sjúkrahúsið. Hans orð voru nákvæmlega þessi: "Ef þetta á að vera svona áfram í leikjum gegn Svíum, þá förum við Íslendingar í Svíþjóð fram á það að þessari vitleysu verði hætt. Þessi lélega frammistaða gerir okkur lífið óbærilegt vegna háðsglósa." Ég set allt mitt traust á fimleikastjórann minn í AGGF sem fylgir nú landsliðinu og ég sé hann nú fyrir mér við að stappa sjálfstrausti í strákana. Ég þekki það sjálfur að hann gefur sig allan í það og legg því allt mitt traust á getu hans. Nú er bara að vona að okkur gangi allt í haginn í næstu leikjum. Það gefur mér nokkra von um framhaldið að ég veit að efnahagsástandið á Íslandi er ekki jafn slæmt og sú útreið sem við fengum í þessum hræðilega leik.Tíu marka munur og svo fimm marka ölmusugjöf Svía á endasprettinum til þess að draga úr niðurlægingu okkar er einum of mikið. Kveðja.

Engin ummæli: