sunnudagur, 13. ágúst 2017

Norðurlandið heillar

Við vorum á Norðurlandi í síðustu viku. Okkur gafst kostur á að dvelja í nýjum glæsilegum bústað, sem BHM leigir í Hlíðarfjalli. Þetta er mjög vel búið hús hátt upp í hlíðinni með útsýni fram í fjarðarmynni og yfir Akureyri. Það kom okkur þægilega á óvart hvað Verslunarmannahelgin var róleg m.t.t. umferðar og ferðamanna. Við fórum einn Mývatnshring í góðu veðri. Keyptum Mývatnssilung á Skútustöðum, engu líkur. Keyrðum til Siglufjarðar og borðuðum í veitingarhúsinu Rauðku. Hittum þar ferðamálafrömuðinn Róbert Guðfinnsson, sem var að líta eftir. Þar sem áður var ekkert annað en niðurníddar minjar um forna frægð síldarbæjarins hefur risið nýtt glæsilegt hótel og veitingarekstur, lifandi og aðlaðandi umhverfi í hjarta bæjarins. Þessi starfsemi styður vel við þær byggingar og minjar um síldarárin sem eru í raun hluti af þessum nýja miðbæjarkjarna.