þriðjudagur, 21. júní 2005

Undirbúningur fyrir Utah ferðina.

Jæja, þá fer nú stóra stundin að renna upp. Við erum nánast búin að pakka fyrir ferðina vestur til Utah. Förum á morgun með flugi til San Fransisco. í SF verður gist eina nótt síðan haldið til Utah með flugi. Við tökum þar þátt í hátíðarhöldum með heimamönnum og keyrum um sveitirnar og skoðum okkur um. Bryce Canyon, Zion - Lake Powell og að sjálfsögðu Grand Canyon er á listanum. Þá veður Las Vegas heimsótt og síðan verður síðustu dögunum eytt í SF. Nú fleira er ekki að frétta í bili. Kveðja til allra lesenda.

sunnudagur, 19. júní 2005

Annasöm helgi.

Þetta hefur verið annasöm helgi hjá okkur. Nafni og foreldrar hans eru í heimsókn og hér hefur verið gestkvæmt. Í gærmorgun komu Björn, Sigríður og Sunna í heimsókn og Guðbjörn og Inger eftir hádegið. Í morgun komu Sigurður, Vélaug og Gunnar í heimsókn. Seinni partinn var frænkuboð hjá Sirrý og komu hér Halla og Ella móðursýstur Sirrýjar og Ragnheiður Elfa, Halla Sigrún og Heiða. Þá komu Valdi og Stella hér í kvöld. Það er gaman þegar mikið er um að vera og vinir og vandamenn líta við hjá okkur. Hringdi til Mallorka í dag. Allt gott að frétta þaðan nema að Hjörtur Sveinsson fékk einhvern óþvera í augað. Vonandi jafnar það sig fljótt. Hér hefur ringt í allan dag meira og minna en annars hefur helgin verið sólrík og hreint út sagt frábær. Jæja man ekki eftir neinu í bili. Kveðja.

laugardagur, 18. júní 2005

Sigurhátíð.


Sigurhátíð Helga og Sveins.

Ætli það séu ekki um 35 ár síðan þessir tveir herramenn Helgi Sigurðsson og Sveinn Hjörtur Hjartarson unnu það afrek að synda yfir Kópavog í Arnarnes og aftur til baka. Þetta var gert vegna veðmáls við Sverri Gauk Ármannsson um það hvort okkur mundi takast þetta sund. Næg vitni voru að sundinu en ekki er skráð nákvæmlega dagsetning þess eða ártal. Leiðin sem synt var má sjá á þessari mynd. Það er vegalengdin fram og til baka sem er fyrir aftan sundmennina. Þetta var erfitt sund og sjórinn kaldur en það tókst í alla staði vel en gott var að komast í heitt baðkar eftir afrekið. Það er eftirminnilegt við þetta sund að það var svona einmuna veðurblíða eins og veðrið þennan dag, sem þessi mynd var tekin. Annars er það helst að frétta að hér komu í óvænta heimsókn í dag Guðbjörn og Inger frá Svíþjóð. Áttu hér stutt stopp hjá okkur. Það er annað helst í fréttum að nafni minn er í heimsókn hjá okkur með foreldrum sínum. Hingað komu í heimsókn í gærkvöldi Stella og Valdimar. Þetta er það helsta sem héðan er að frétta.

föstudagur, 17. júní 2005

Það er kominn 17.júní, trallallalla...


Rútstún í Kópavogi.

Þetta er afar fallegur 17. júní dagur. Veðrið hreint út sagt stórkostlegt. Höfum verið í léttum heimilsstörfum í morgun. Rútstúnið býður og kallar. Það getur vel verið að maður skjótist þangað. Annars eru æskuminningarnar svo mikið tengdar þessum degi. Blöðrurnar, fánarnir, sælgætið, skrúðgangan, lúðrasveitin, skátarnir, tónleikarnir í bænum, fólkið já allt fólkið að spóka sig í bænum hvernig sem viðraði. Þetta er sá dagur sem umfram aðra minnir okkur á að við erum Íslendingar eins og 1. desember já jólin og nýjársdagur líka. Við erum stórkostleg þjóð. Það sannfærist ég alltaf betur og betur um. Við höfum fyllstu ástæðu til þess að fagna og vera stolt af okkur og okkar fólki. Hana nú ekki fleiri orð um það.

fimmtudagur, 16. júní 2005

Á Cirkus Cirkör - 99% unknown.

Skelltum okkur í kvöld í Borgarleikhúsið og sáum sænsku leiksýninguna Cirkus Cirkör - 99% unknown. Þetta er akróbatasýning og líkamleg tjáning þemað er fruman, sæðið, eggið, blóðkornin, beinin, búkhljóð, líkaminn, lífið og dauðinn. Lífið er yndislegt en stöðug endurnýjun er nauðsynleg. Frumur líkamans endurnýja sig allar á sjö árum. Ef þær ekki deyja verða þær að krabbameinsfrumum. Sýningin er í alla staði vel gerð, umhugsunarverð og skemmtileg. Áhorfendur voru allan tímann vel með á nótunum. Ágætt að brjóta upp einstaka sinnum og skella sér í leikhús. Nú annars allt gott að frétta.

þriðjudagur, 14. júní 2005

Amma kveður.

Jensína amma var jarðsungin í dag í Áskirkju. Þetta var falleg athöfn í alla staði og margir mættir. Ættingjar og vinir nær og fjær. Glæsilegur hópur ömmu- og langömmubarna bar kistuna úr kirkju. Hvíl í friði.

laugardagur, 11. júní 2005

Ráðstefna um stjórnarskrána.


Fundur stjórnarskrárnefndar.

Ég var á fundi stjórnarskrárnefndar í dag. Þetta er sú nefnd sem vinnur að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hlustaði á fróðleg erindi nokkurra kennimanna í morgun um lýðræði, þingræði, ríkið og einstaklinginn. Úr sal komu upplýsingar um uppbyggingu þýsku stjórnarskrárinnar en hún miðar að því hvernig hægt sé að standa vörð um virðingu einstaklingsins. Sú íslenska tekur mið af dönsku stjórnarskránni og hefði verið athyglisvert að heyra hvernig sú danska hefur þróast á síðustu öld. Í Stóra - Bretlandi er engin rituð stjórnarskrá til heldur aðeins gögn sem hægt er að vitna til. Þar er það þingið sem ræður. Það var mjög fróðlegt að fylgjast með þeim umræðum sem þarna fóru fram. Víða komið við meðal annars fjallað um þá jákvæðni sem fellst í kristinni trú m.m. Annars lítið að frétta. Maður er aðeins að ná sér eftir Noregsferðina. Sr. Hjörtur og Unnur ásamt Stebbu og Þórunni og Co. eru á Mallorka. Hjörtur og Ingibjörg eru í sumarbústað í Borgarfirði. Kveðjur.

föstudagur, 10. júní 2005

Hafsjór tækifæra...


Ráðstefna í ÅlesundPosted by Hello

Þá er maður kominn heim frá Ålesund í Noregi. Þetta var mjög eftirminnileg heimsókn. Ráðstefnan sem Íslandsbanki hf. stóð fyrir var í alla staði til fyrirmyndar. Ef maður ætti að taka saman í fáum orðum boðskap ráðstefnunnar þá er hann helst sá að fyrirtækjum í sjávarútvegi fækkar og þau stækka. Þetta ferli mun halda áfram á næstu árum. Sjávarútvegurinn er matvælaframleiðandi sem verður að huga að öllum þáttum virðiskeðjunnar frá veiðum á borð neytandans. Þetta hljómaði allt kunnuglega en ágætt að fara yfir þetta enn einu sinni. Heimsóttum í dag tvö fiskvinnslufyrirtæki í Ålesund sem eru bæði framarlega í sínu sviði. Eftir þá dagskrá var keyrt út á flugvöll og flogið til baka heim í Fokker. Flugið tók á fjórða tíma.

miðvikudagur, 8. júní 2005

Til Noregs.


Ålesund í Noregi Posted by Hello

Kominn til Ålesund í Noregi á ráðstefnu. Flugum kl. 14.15 frá Reykjavíkurflugvelli beint hingað til Ålesund í Fokker frá FÍ. Flugið tók um þrjár klukkustundir. Þægilegt flug en ókyrrð í lofti yfir bænum. Hér munu búa um 40 þúsund manns en alls um 120 þúsund á atvinnusvæði staðarins. Er hér á ráðstefnu sem Íslandsbanki stendur fyrir og stjórn LÍÚ er hér líka. Veðrið var fremur kallt þegar við lentum (sjá mynd) en hefur heldur hlýnað með kvöldinu. Það var móttaka hér í sjómynjasafninu og boðið upp á létta kvöldmáltið. Á eftir að skoða umhverfið betur. Hér er afar fallegt umhverfi og þetta er einn helsti útgerðarbær Norðmanna. Verð í bandi. Kveðja.

þriðjudagur, 7. júní 2005

Sólarlag.


Vesturhimininn kl. 22.00 Posted by Hello

Kveðjustund.

Jensína amma var kistulögð í Fossvogskapellu í dag. Hún lést á sunnudaginn var á Hrafnistu. Athöfnin var hlýleg og persónuleg. Sr. Hjörtur stýrði athöfninni á látlausan og virðulegan hátt eins og hans var von og vísa. Jarðarförin mun fara fram næstkomandi þriðjudag í Áskirkju.
Jensína amma var á 99unda aldursári og því búin að lifa löngu lífi og farsælu þótt vissulega hafi hún fengið sinn skerf af andstreymi. Hún var hinsvegar sterkur einstaklingur sem lét ekki buga sig. Hún hafði mikinn viljastyrk, lífsgleði og var glaðsinna og hláturmild. Hún kenndi okkur að það eru ekki árin sem telja heldur hugarfarið, lífsleiknin, kærleikurinn, jákvæðnin og góða skapið sem skipa miklu í lífinu hvernig svo sem stendur á. Yndi hennar var að ferðast. Hún ferðaðist eins mikið og hún gat um sína dag og heimsótti fjölmörg lönd þar á meðal Kína. Síðustu ferð sína fór hún til útlanda þegar hún var 92 ára með ferðafélögum sínum til margra ára. Þeir buðu henni til Parísar til þess að heiðra hana. Nú er hún lögð af stað í sína hinstu ferð úr þessu jarðríki örugglega vel birg því veganesti sem hún kappkostaði að hafa ætið með í för í þessu jarðríki. Blessuð sé minning hennar.

sunnudagur, 5. júní 2005


Stóra Núps kirkja 2005 Posted by Hello

Sjómannadagurinn og fermingarveisla.

Í dag er sjómannadagurirnn haldinn hátíðlegur um allt land. Sjómönnum eru hér færðar bestu kveðjur í tilefni dagsins. Deginum var hinsvegar ekki eytt við sjávarsíðuna heldur lág leiðin í þetta skipti austur í Gnúpverjahrepp að kirkjunni á Stóra - Núpi. Þar var séra Axel Árnason að ferma tvær stúlkur. Önnur þeirra er dóttir hans hún Pálína Axelsdóttir. Síðan var keyrt í Geldingaholt í fermingarveislu sem var mjög ánægjuleg. Þar hittum við marga og áttum notalega stund með fólkinu og fengum þessa líka fínu góðgerðir. Stebba systir og Unnur dóttir hennar voru samferða okkur. Kveðja.

föstudagur, 3. júní 2005

Júnídagar

Enn eitt föstudagskvöldið. Nú er kominn júní mánuður eins og sjá má á dagatalinu. Sumarið er komið og vöxtur í öllum gróðri. Það er ekkert í fréttum þannig að ég hef þetta ekki lengra í dag.