laugardagur, 21. apríl 2018

Guðmundur Þorbjörnsson, minning


Í gær var ég við útför Guðmundar Þorbjörnssonar útgerðarmanns, oft nefndur Guðmundur í Gjögri. Ég kynntist Guðmundi í starfi mínu fyrir samtök útvegsmanna. Hann var um áratugi einn af þeim, sem reglulega kom í heimsókn á skrifstofuna í Hafnarhvoli. Guðmundur var hógvær í allri orðræðu, en hann hafði skýra sín og ákveðnar skoðanir. Umræðuefnið var oftar en ekki rekstarskilyrði útgerðar, fiskveiðistjórnun, menn og málefni. Eitt af fyrstu verkefnum mínum í þjónustu útvegsmanna var að fara í gegnum skynsemi þess að kaupa þrjú ný glæsileg skip árið 1986 frá Ulstein í Noregi. Sumum þótti þetta mikið glapræði og höfðu áhyggjur af því að viðkomandi aðilar færu allir lóðbeint á hausinn. Guðmundur var í þessum hópi með nýjan Hákon ÞH 250, Ármann Ármannsson með Helgu II RE 373 og Pétur Stefánsson með Pétur Jónsson RE 69. Minnist sérstaklega orðræðu okkar Guðmundar vegna áhyggju manna af þessum kaupum og glettni hans vegna þess. Til að gera langa sögu stutta áttu þessi skip eftir að reynast mjög vel og er tilkoma þeirra hluti að nýrri framfarasókn í sjávarútvegi eftir gríðarlega niðursveiflu í upphafi níunda áratugar síðustu aldar. Það voru ekki margir í sjávarútvegi sem gátu sýnt jafn glæsilega ársreikninga og Gjögur hf á þessum árum. Fyrirtækið var alla tíð rekið af mikilli ráðdeild á Tómasarhaga, þar sem þau Guðmundur og Auðbjörg eiginkona hans bjuggu. Fyrir þrettán árum vorum við Sirrý ferðafélagar Guðmundar og Auðbjargar í tíu daga ferð um mormónaslóðir í USA. Við áttum þarna nokkra góða daga með þeim hjónum og eftir það góða endurfundi á samkomum útvegsmanna. Fyrir það viljum við þakka. Blessuð sé minning Guðmundar.

mánudagur, 16. apríl 2018

Allir á móti öllum!

Ég viðurkenni það að ég skil lítið í þessari borgarastyrjöld, sem nú hefur staðið sjö ár í Sýrlandi. Sýnist allir vera á móti öllum. Rússar styðja þennan Assad. USA, Bretland og Frakkland styðja andófsmenn að hluta og svo eru Tyrkir að murka líftóruna úr Kúrdum í norðri, sem USA virðist styðja óformlega þó, vegna þess að þeir hjálpuðu til að fella ISIS. Þess á milli koma Ísraelar reglulega í heimsókn og skjóta allt í tælur sem tengist Íran í Sýrlandi og það virðist vera nóg af slíkum skotmörkum. Hisbollah er á kafi í þessu hernaðarbrölti með Assad og Íran. Mega ekki vera að því að berja á Ísrael. Sýnist kominn tími til að allir stigi eitt skref til baka og Assad láti sig hverfa. Af hverju? Maður sem notar eiturgas á eigin þjóð! Það þarf ekki fleiri orð um það. Ég er sammála Trump um að það er nú ekki glæsilegt afspurnar fyrir Pútin að vera mæta á svæðið til að kjassa þennan Assad. Sagan segir að Pútin hafi farið að hjálpa Assad því að honun leist ekkert á blikuna þegar "Arabíska vorið" hófst og fólkið fór að koma út á götur og krefjast breytinga og fella einræðisherra. Allavega, nú eru Bandamennirnir USA, Frakkland og UK búnar að skjóta 120 rakettum á Sýrland. Efast nú um að það muni breyta einhverju öðru en því að fleiri saklausir borgarar á þessu svæði munu láta lífið.

föstudagur, 6. apríl 2018

Sverrir Hermannsson, minning

Ég kynntist Sverri Hermannssyni fyrst sem iðnaðarráðherra. Var í teymi sem ráðið var til þess að fara í gegnum rekstur nokkurra stofnana, sem heyrðu undir ráðuneyti hans. Hann fylgdist náið með framvindu verkefnisins og hlýddi okkur reglulega yfir um frangang þess. Honum var ekki sama hvernig skattpeningum almennings var varið á hans vakt. Þetta var eftirminnilegur tími og lærdómsríkur, sérstaklega áfangafundir með ráðherranum þar sem farið var yfir stöðuna. 
Hann vissi strax hverra manna ég var þegar ég kynnti mig, en þetta voru ekki þannig fundir að við værum að blanda fjölskyldutengslum inn þá umræðu. Sá hluti samskiptanna fór í gegnum föður minn á síðari stigum og þeir höfðu einhver orð um þá tilviljun að ég væri að vinna fyrir Sverri og dóttir hans og pabbi væru vinnufélagar.
Faðir minn og Gréta Lind Kristjánsdóttir eiginkona Sverris voru systkinabörn. Þau voru jafnaldrar og æskufélagar, alin upp á Ísafirði. Milli þeirra var alltaf mikill frændkærleikur, þótt leiðir skildu á unglingsárum og þau færu í sitt hvora áttina.
Síðast hittumst við Sverrir í jarðarför bróður hans Gísla Hermannssonar útvegsmanns. Hann minntist heimsóknar minnar og foreldra minna í sumarhús þeirra hjóna á Grund í Skutulsfirði.
Þessi heimsókn var mér minnisstæð vegna þess að ég sá þá föður minn í svolítið nýju ljósi. Hann sem var oftar en ekki frekar til baka þegar hann heilsaði fólki hafði enga slíka tilburði er hann heilsaði frænku sinni, sem heilsaði „Dengsa frænda“ af mikilli hlýju og væntumþykju.
Minnisstæður er einnig fundur minn með Sverri sem bankastjóra Landsbankans og starfsmönnum hans um stjórn fiskveiða. Það var tekið til þess í höfuðstöðvum LÍÚ að hann skyldi sýna frummælanda þá virðingu að koma á þennan fund og hlýða á og spjalla um þessi mál.
Sverrir Hermannsson var litríkur stjórnmálamaður. Persónutöfrar hans voru miklir og þar sem hann kom var nærvera hans sterk, röddin þróttmikil og mælska hans og orðanotkun kynngimögnuð. Eftir þessum glæsilegu hjónum var tekið hvar sem þau fóru. Blessuð sé minning þeirra beggja.

Háskaleikir

Það hlýtur að vera erfitt að vera fulltrúi dvergríkis út í miðju Atlantshafi og þurfa að sitja í daglegum samskiptum við fulltrúa stærri þjóða, sem þekkja betur til vopnaskaks og 007 bellibragða. Færeyingar okkar góðu enn minni grannar græða núna á tá og fingri því þeir geta selt loðnu, síld, makríl og fleira góðgæti til Rússa á meðan við erum í sjálfskipuðu banni frá viðskiptum við þá. Þeir kunna að leika litla strákinn, sem smeygir sér hjá vandræðum. Við höfðum utanríkisráðherra sem tók upp á þeim á andsk... að leika frelsishetju í Úkraínu. Dettur ykkur í hug að hann hafi fundið upp á þessu sjálfur? Nú eru Bretar æfir af því þeim finnst Rússar hafi haft þá undir í einhverju 007 dæmi. Eins og slíkir háskaleikir sé einhver nýlunda meðal stóru strákana. Ó nei, James Bond leikir og John Lé Carre bækurnar eru skrifaðir af mönnum með mikla reynslu. Af hverju gátum við ekki bara sleppt að mæta á þessa fundi. Það væri í anda þeirrar utanríkisstefnu, sem Thor Thors og hans líkir lögðu í upphafi og fólst í því að skipta okkar ekki af þessu vopnaskaki stóru strákanna/stelpnanna. Það verður erfitt að sannfæra marga að Rússar séu miklir óvinir. Sjálfur Pútín var einn af fáum, ef ekki sá eini meðal forystumanna heimsins, sem talaði um okkur af velvild þegar við glímdum við afleiðingar bankahrunsins 2008. Hafa Bretar beðið okkur afsökunar á sinni framkomu? Ó nei ekki einu orði. Hvað þá bestu vinir okkar í vestri, sem dældu dollurum til að bjarga Dönum sem voru í svipaðri stöðu en létu okku sigla.