sunnudagur, 31. desember 2006

Við áramót.

Fullt tungl yfir Esjunni. Sigrún Huld tók þessa fallegu mynd af fullu tungli yfir Esjunni í desember rétt upp úr hádegi.

Árið 2006 er á enda runnið. Þetta hefur verið viðburðarríkt og gjöfult ár fyrir okkur. Efst í huga er þakklæti fyrir allt það sem okkur hefur hlotnast á árinu. Stærsti viðburður ársins er að sjálfsögðu nýtt barnabarn, Jóhannes Ernir Hjartarson, sem fæddist í Kristianstad þann 11.nóvember sl. Þá eignaðist Hilda mágkona og Magnús sitt fyrsta barn, Valgerði Birnu og Þórunn systir sitt fyrsta barnabarn, Telmu Þórunni Árnadóttur. Annálsritunin stendur fyrir öðrum minnisverðum atburðum þessa árs. Við óskum ykkur öllum nær og fjær gleðilegs árs með þökk fyrir það gamla. Sérstakar kveðjur fær Hjörtur Friðrik sem í kvöld er á næturrvakt á slysavarðstofunni í Kristianstad í Svíþjóð. Mörg eftirminnileg og skemmtileg áramótin höfum við átt saman í gegnum tíðina. Við sendum líka kærar kveðjur til Borgnesinganna okkar, Ingibjargar, Sveins Hjartar, Jóhannesar Ernis. Valdimar og Stella verða með okkur í kvöld. Bloggvinir og aðrir vinir fá einnig sérstakar kveðjur fyrir skemmtileg og gefandi samskipti á árinu. Við vonum að kvöldið verði ykkur ánægjulegt, fariði varlega með eldfærin og sprengjurnar og enn og aftur gleðilegt ár.Hittumst heil á nýju ári 2007. Kveðja.

laugardagur, 30. desember 2006

Sprengjuæði.

Það er óþolandi hvað sprengingar á dögunum fyrir gamlársdag hafa aukist. Þetta er að mínu mati komið út í tóma vitleysu. Það er búið að vera sprengja sprengjur hér í bænum í allan dag og í gær líka. Fyrir utan allar þessar bombu sýningar sem haldnar eru af söluaðilum í tengslum við sölu flugeldanna síðustu daga. Maður reynir að sýna umburðarlyndi en þetta er orðin óþolandi hljóðmengun bæði fyrir menn og dýr. Það er búið að eyðileggja áramótastemmninguna sem var tengd flugeldaskotum á miðnætti á gamlárskvöld. Þessi brjálsemi er eitthvað sem við verðum að fara vinna okkur út úr. Það er verið að réttlæta þessa miklu sölu sprengiefnis með því að þetta sé jú til styrktar hjálpasveitunum. Þetta dragi erlenda túrista til að taka þátt í þessum tímamótum með okkur. Þetta veki athygli á okkur í útlandinu. Má vera að þetta séu gildar ástæður fyrir einhverjum sprengingum. ´Þótt svo sé það önnur spurning hvort eftirsóknarvert sé fyrir okkur að fólk út í heimi hafi þá ímynd af þjóðinni að hér búi tómir sprengjuóðir "skrítlingar"? Fyrir mína parta er vel ásættanlegt að sprengt sé á gamlárskvöld. Þar á að draga mörkin að mínu viti. Þessar sprengingar á dögunum fyrir og eftir áramótin eru óþolandi. Getur verið að ástæðan fyrir þessum stórauknum sprengingum sé að það séu svo margir aðilar tengdir hjálpasveitunum sem fái þetta sprengiefni á mjög niðursettu verði? Allavega heyrir maður dæmi um að þeir sem séu með réttu "tengslin" við flugeldasala fái flugelda og sprengjur á kröftuglega niðursettu verði, jafnvel gefins. Það getur varla verið önnur skýring á því að svo margir eru að eyða stórfé í sprengingar marga daga fyrir áramót. Fyrir okkur sem erum að kaupa dót af hjálparsveitunum á uppsettu verði eru þetta það mikil útgjöld að fólk getur varla haft efni eða löngun á því að vera sprengja svona marga daga fyrir áramótin.

föstudagur, 29. desember 2006

Stutt vinnuvika.

Þetta var nú stutt vinnuvika. Á þriðja í jólum lá ég eins og slyttimákur heima í rúmi eftir andvökunótt með gubbupest. Oh, ég hef ekki orðið svona veikur í mörg ár. Ældi eins og múkki og kúgaðist þessi ósköp. Fór svo í vinnuna á fimmtudag og föstudag og það náðist að ljúka nauðsynlegustu verkum fyrir áramótin. Nú við vorum með börnum okkar barnabörnum og tengdabörnum hér í kvöld. Hjörtur Friðrik fer utan í fyrramálið og Kristján Róbert sonur Axels bróður. Tíminn bara flýgur áfram. Manni veitti ekkert af 48 tímum í sólarhring þegar svona er ástatt. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja.

miðvikudagur, 27. desember 2006

Jóhannes Ernir Hjartarson skírður.

Í gærdag annan dag jóla var yngri sonur Hjartar og Ingibjargar skírður í Kópavogskirkju. Drengurinn var skírður Jóhannes í höfuðið á móðurafa sínum og Ernir sem annað nafn. Athöfnina framkvæmdi séra Hjörtur Hjartarson langafi drengsins af hlýju og virðugleika. Skírnarsálminn lék föðurafi hans við söng kirkjugesta. Móðurafi drengsins hélt á honum undir skýrn og móður- og föðursystur drengsins þær Katrín Jóhannesdóttir og Sigrún Huld Hjartardóttir voru skírnarmæðgur. Stella Vestmann var aðstoðarmaður prestins við meðferð kertis. Júlíus Geir Sveinsson frændi drengsins lék tvö lög í upphafi og lok athafnar. Að lokinni athöfn var skírnarkaffi í Brekkutúninu. Drengurinn var sem ljós allan tímann og virtist njóta stundarinnar, bæði í kirkju og skírnarveislu. Eftirminnilegur dagur og í alla staði ánægjulegur. Kveðja.

mánudagur, 25. desember 2006

Hvít jól

Hvít jól. Það fór aldrei svo að við fengum ekki hvít jól. Við höfum haft það gott hér um jólin. Vorum hér heima við í gær fram á kvöld og skruppum svo til Þórunnar systur í kvöldkakó.










Sirrý og Vala. Með okkur í gærkvöldi voru Hilda, Magnús og jólabarnið hún Vala Birna. Björn og Sunna.











Heimasætan. Sigrún í léttri sveiflu við úthlutun jólagjafa.












Hilda og Magnús. Valgerður Birna á sínum fyrstu jólum heiðraði okkur einnig með nærveru sinni.













Valdimar, Unnur, Hjörtur og Júlíus. Að loknum einkatónleikum Júlíusar var þessi mynd tekin af þeim frændum með afa og ömmu. Júlíus er efnilegasti píanóleikarinn í fjölskyldunni og vonandi heldur hann áfram á sömu braut.









Júlíus Geir. Lék nokkur hátíðarlög.

sunnudagur, 24. desember 2006

Helg eru jól.

Gleðileg jól
Merry Christmas and Happy New Year! God jul och gott nytt år! Gleðileg jól og farsælt komandi ár! Iloista joulua ja hyvää uutta vuotta!:-)

laugardagur, 23. desember 2006

Á Þorláksmessu

Allt verið með hefðbundnum hætti dag. Fórum í skötu á Hótel Loftleiðum. Hjörtur fór með okkur og hafði gaman af. Hingað komu í heimsókn foreldrar mínir að heilsa upp á Svíþjóðarfarana. Björn, Sunna, Hilda og Valgerður Birna komu hér líka í morgun. Nú í kvöld komu Valdi og Stella. Höfum verið hér í góðum gír og hlustað á jólakveðjur í RÚV. Við Sirrý fórum niður á Laugarveg í dag. Sáum friðargönguna og gengum með þeim áleiðis niður Laugarveginn. Hittum fullt af fólki,vinum og kunningjum en þó ekki Einar Þorsteinsson góðan vin Sirrýjar sem við höfum hitt þarna árum saman. Sendum ykkur hugheilar jólaóskir nær og fjær. Kveðja.

föstudagur, 22. desember 2006

Jólahelgin.

Þá er jólahelgin hafin. Í dag komu frá Svíþjóð Hjörtur Friðrik, Ingibjörg, Sveinn Hjörtur og litli nýfæddi drengurinn þeirra. Ferðin frá Svíþjóð gekk vel og þrátt fyrir hrakspár í útvarpi um seinkannir í flugi komust þau á réttum tíma. Þá hef ég fregnir af því að sonur Axels bróður, Kristján Róbert sé kominn í heimsókn frá Gautaborg. Annars er ekkert sérstakt í fréttum. Veðrið hefur versnað með kvöldinu og nú kl. 22.00 er komið hífandi rok. Kveðja.

þriðjudagur, 19. desember 2006

....og mundu að hika er sama og tapa.

Þessi setning hefur setið í kollinum á mér frá sautján ára aldri. Það var ökukennarinn minn sem var að leggja mér reglurnar í umferðinni. Oft hafa þessi heilræði skotist upp í kollinn á liðnum áratugum við ýmis tækifæri. Það sem bílkennarinn var að leggja áherslu á með þessari setningu var að það skipti svo miklu máli að vera fumlaus í akstrinum. Maður ætti að hugsa fyrirfram hvað maður æltaði að gera næst og í tíma þannig að tryggt væri að þeir sem væru í kringum mann gætu einnig brugðist við. Þetta gildir um svo margt í lífinu og ekki bara í umferðinni. Í vikunni keypti ég þrjú útiljós í BYKÓ sem ég er mjög ánægður með eins og þið hafið líklega haft grun um sem lesið hafa þetta pár undanfarna daga. Ég hefði átt að kaupa fjögur ljós því það vantaði ljós í kjallaratröppurnar. Ég velktist í vafa með það hvort ég ætti að setja ljós þar og beið í tvo daga áður en ég ákvað að slá til og kaupa fjórða ljósið. Þegar ég kom í verslunina var búið að hækka þessa vöru í millitíðinni. Ljósið er snoturt og hefur selst vel og þar með hefur einhverjum dottið það snjallræði í hug að hækka það í verði. Þetta hik kostaði mig sem sé að ég varð að borga meira fyrir fjórða ljósið. Hér átti því líka við heilræði ökukennarans forðum daga: "að hika er sama og tapa."

mánudagur, 18. desember 2006

Útiljós í skammdeginu.

Jæja, þá eru útiljósin uppsett. Alls eru þetta þrjú ljós sem við settum upp og svo útitengill fyrir útiseríuna. Við erum ljómandi ánægð með þessi ljós og þau taka sig vel út á veggjunum. Nú annað ánægjuefni sem ég ætlaði að færa til bókar er sigur Hammers (West Ham) á Manchester United 1 - 0. Nú getur maður vænst þess að sjá liðið spila oftar í sjónvarpinu og farið að fylgjast betur með enska boltanum. Fimleikastjórinn minn í AGGF sagði að nýi stjórinn hjá West Ham hefði byrjað á því að setja tvo bestu menn liðsins út af. Annan á varamannabekkinn og hinn upp í stúku. Maður vonar að sjálfsögðu að þetta dugi til þess að koma uppáhaldsliði mínu í gang. Nú hann sagði svo sem ýmislegt annað uppbyggilegt t.d. að það þýddi ekkert fyrir okkur að borða mikið sælgæti eða góðgæti um jólin. Við værum búnir með okkar skammt í þeim efnum. Skilaboðin voru að mæta í leikfimi, labba mikið og borða lítið. Vigtun eftir áramót. Að lokum óskar annállinn henni Stellu til hamingju með daginn. Kveðja.

sunnudagur, 17. desember 2006

Á þriðja í aðventu.

Í morgunmuggu á aðventu. Það dregur nær jólum. Helgarnar fara í jólaundirbúninginn. Jólagjafir,jólatré, jólaseríur, jólatiltekt, jólaviðgerðir og jólaþrif. Allt sem hægt er að setja á dagana fyrir jólahátíðina er smelt inn á "to do" listann. Adrenalínkikkið sem búið er til með hæfilegu jólastressi er nýtt til hins ýtrasa við að taka til hendinni við það sem áður var látið bíða. Svona lítur hin hefðbundna jólaaðventa okkar slugsaranna út. Svo eru þeir til sem plana undirbúning jólahátíðarinnar í forveg og byrja fyrr á árinu. Þeir eru núna búnir að "öllu" og nota tímann við lestur bóka og að hlusta á tónlist. Við hin erum í óðaönn við að exa við á "to do" listanum. Það verður víst hver að fá að hafa sitt lag á hlutunum. Helsta afrek helgarinnar er uppsetning öryggishliðs á stigann okkar, sem þolir það að nafni taki aðeins á því. Það er komið rafmagn í bílskúrinn en útiljósin á húsið verða sett upp eftir helgi samkvæmt nýjustu upplýsingum frá rafvirkjanum. Hingað til höfum við reitt okkur á ljósið frá götuljósastaur sem stendur við innkeyrsluna og er ágætt, en nú stendur til að auka ljósmagnið. Hundurinn Sunna er í helgarheimsókn. Við vöknum fyrir allar aldir á morgnana og förum í gönguferð um Fossvogsdal með Sunnu. Maður á dalinn fyrir sjálfan sig á þessum gönguferðum og nýtur morgunkyrrðarinnar. Það hefur heldur hlýnað aftur, en í gærkvöldi var -8°c. Smá mugga er núna úti og hitastig við núllið giska ég og stillt veður. Jæja nú er klukkan að ganga 10.00 og vélar Flugfélagsins farnar að raska ró morgunsins með yfirflugi yfir dalnum. Kveðja.

mánudagur, 11. desember 2006

Tónleikahald fyrir jól.

Kórinn. Þá er maður búinn að sinna söngskyldum fyrir áramótin. Í gær sungum við á aðventuhátíð Skaftfellingafélagsins í Reykjavík. Í kvöld sungum við svo eins og venjulega á endurhæfingadeildinni við Grensás og á geðdeild LHS. Þetta tókst ágætlega. Síðustu tónleikarnir á geðdeildinni voru bestir vegna þess að þar er bestur hljómburðinn. Kveðja.

sunnudagur, 10. desember 2006

Hagfræðingur fær friðarverðlaun Nobels.

Muhammad Yunus Það var ánægjulegt að fylgjast með afhendingu friðarverðlauna Nobels í Oslo í norska sjónvarpinu í dag. Muhammad Yunus hagfræðingur frá Bangladesh og stofnandi Grameen Bank fékk verðlaunin ásamt bankanum fyrir brautryðjanda starf í veitingu mikrólána til fátæklinga. Með mikrólánum hefur bankanum tekist að hjálpa milljónum manna í Bangladesh og þannig lagt nýjan grunn að leið eða tæki til þess að bæta hag fátæks fólks og hjálpa til við að brjóta upp þá fátækragildru sem meira en helmingur mannkyns búa við. Þetta starf Yunusar byrjaði á því að hann sjálfur hóf að veita fátæklingum lán og þannig hjálpa þeim til þess að komast úr viðjum okurlánara og byrja nýtt líf á skynsamlegum grunni. Það sýndi sig að jafnvel fátækustu öreigar vilja standa í skilum. Hugmyndin gengur út á það að lána fyrst og fremst konum því að þær nota féð frekar til uppbyggilegra fjárfestinga og til að bæta kjör fjölskyldunnar, en karlar eru meira fyrir það að eyða í sjálfa sig. Í stíliskri ræðu í anda Kennedy komst Yunus að þeirri niðurstöðu að það væri sterkt samband milli fátæktar og friðar í heiminum: "Að þremur fjórðu hlutum mætti ná friði á grundvelli félagslegra, pólitískra og efnahagslegra leiða. Friðinum væri ógnað af óréttlátum efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum aðstæðum, skorti á lýðræði, umhverfis eyðileggingu og skorti á mannréttindum. Meðal fátækra væru alls engin mannréttindi til staðar. Örvænting, illska og hugarástand sem væri vegna niðurlægjandi fátæktar getur ekki leitt til friðar í nokkru samfélagi. Vilji mannkynið lifa við varanlegan frið, verði það að leiða til lykta hvernig hægt er að gera fólki kleift að að lifa mannsæmandi lífi." Þessi umræða Yunusar minnti mig á samtal sem ég átti við tvo þekkta hagfræðinga fyrir mörgum ár um hvernig stæði á því að fiskveiðar okkar Íslendinga hefðu leitt til þess að við náðum gríðarlegum áföngum í efnahagslegri uppbyggingu, en ekki hafi náðist sambærilegur árangur í Peru. Ein kenningin var sú að það væri vegna þess að þegar "okkar menn" fengu sína aflahuti tóku eiginkonurnar þá í sínar hendur og notaðu þá til uppbyggingu heimila og fjölskyldna með skynsamlegum fjárfestingum. Í Perú aftur á móti færi allt of stór hluti í eyðslu sem leiddi ekki til efnahagslegrar uppbyggingar með sama hætti og hér á landi. Þar var aflahlutunum í ríkari mæli sólundað á barnum og í hið ljúfa líf. Það þætti ekkert tiltökumál að fiskimenn héldu t.d. uppi tveimur til þremur vinkonum. Þessvegna hafi hin efnahagslega uppbygging ekki gengið fyrir sig með sambærilegum og jafn glæsilegum hætti og hér varð raunin.

laugardagur, 9. desember 2006

Annar í aðventu.

Á morgun er annar í aðventu. Maður finnur meira fyrir því þessa dagana að jólin nálgast. Búinn að vera í nokkrum jólahlaðborðum. Hef verið bæði á Hótel Nordica og Hótel Loftleiðum. Maður á örugglega efir að fara í einhver enn. Það er lítið að frétta af þessum slóðum. Sigrún Huld í prófi þessa dagana. Valdimar hefur líka verið í prófum. Sr. Hjörtur átti afmæli í gær og fórum við og heilsuðum upp á hann og mömmu. Nú fer að styttast í það að Hjörtur og Ingibjörg kom heim í jólafrí með drengina sína tvo. Í dag vorum við á hátíðarsamkomu rótarýklúbbanna í Kópavogi á Hótel Loftleiðum. Það var mjög hátíðlegt og góð skemmtun. Ungt jassband spilaði nokkur lög, Kársneskór söng nokkur falleg lög og lesið var upp úr nýútkominni bók. Í gær vorum við á jólahlaðborði með Gróttufélögum á Hótel Nordica. Á morgun sunnudag verður aðventuhátíð Kór Skaftfellingafélagsins í Reykjavík og mun kórinn syngja nokkur falleg jólalög og boðið verður upp á kaffiveitingar. Hátíðin hefst kl. 16.00 og sem flestir hvattir til að mæta. Þetta er í Brautarholti. Nú þetta er svona það helsta. Kveðja.

föstudagur, 8. desember 2006

40 ára afmæli Kvennadeildar RRKÍ.

Söngatriði
Við vorum í 40 ára afmælishófi Kvennadeildarinnar í kvöld. Það var haldið á Hótel Loftleiðum, Víkingasal. Við fengum hátíðarkvöldverð og þarna var margt til skemmtunar. Hittum fullt af Rauðakross félögum og áttum góða stund með þeim. Það eru nú þrjú ár síðan Sirrý hætti sem starfsmaður. Hún var virk í hreyfingunni í tuttugu ár. sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur var veislustjóri. Gísli Einarsson sjónvarpsmaður fór með gamanmál m.a. úr Borgarfirðinum og Páll Óskar Hjálmtýsson söng nokkur lög. Kveðja.

þriðjudagur, 5. desember 2006

Eruð þið ekki búin að öllu ?

Ég segi nú bara svona. Auðvitað eruð þið ekkert búin að öllu. Maður er það aldrei. Hér er stundaður kökubakstur á fullu. Búið baka fjórar sortir. Þetta er nú bara óvenju mikið miðað við reynslu fyrri ára og tíma. Ég er í því sama. Annars hefur verið að hrjá mann tannpína, sem ég vona að ég hafi komist fyrir í dag. Var næstum búinn að gleyma því hve það er vont að vera með tannpínu. Kveðja.

sunnudagur, 3. desember 2006

Á fyrsta í aðventu.

Þá er þessi helgin á enda runnin. Við höfum aðallega verið heima við þessa helgina. Mest fór fyrir smákökubakstri á föstudagskvöldið. Laugardagurinn fór nú fyrir lítið nema við heimsóttum foreldra mína og tókum einn rúnt í bæinn og þar var margt fólk. Í dag komu í heimsókn til okkar foreldrar Ingibjargar hans Hjartar. Annars lítið í fréttum. Horfði á Margréti Sverrisdóttur í Kastljósinu. Hún virðist ætla í slag við karlana í flokksforystunni. Þannig það er tíðinda að vænta þaðan á næstu vikum. Vintstri grænir eru búnir að ákveða röð efstu manna á sínum listum á stórhöfuðborgarsvæðinu. Árni Þór söngfélagi virðist hafa náð settu marki. Jón Sigurðsson er búinn að þvo hendur sínar af Íraksmálum. Hann gerði það reyndar fyrir helgi. Ingibjörg Sólrún segir að fólk hafi ekki treyst þingflokki Samfylkingar til að takast á við stjórnarsetu. Einhvern veginn þannig orðaði hún það. En svo segir hún að nú verði breyting á. Ekki tilgreindi hún hvernig sú breyting mundi koma til. Hjá Sjálfstæðisflokknum minnkar fylgið um 6% nema í Suðurlandskjördæmi. Þar virðast flokksmenn standa vörð um sína menn. Maður er búinn að heyra í hverjum fréttatíma af öðrum af tilraun til myndun nýs meirihluta í Árborg, eftir að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur slitu samstarfi. Enn er engin niðurstaða komin í það mál. Þannig að það er pólitíkin sem mest fer fyrir í dægurumræðu líðandi stundar. Ef þetta er ekki ávísun á sprækan kosninga aðdraganda, ja þá veit ég ekki hvað. Hver niðurstaðan af öllu verður fáum við svo úr skorið í maí næstkomandi.

föstudagur, 1. desember 2006

Á fullveldisdaginn.

Maður ætti auðvitað að segja eitthvað í tilefni dagsins. Þetta er jú merkisdagur í frelsibaráttu þjóðarinnar. Nennir nokkur að lesa um svoleiðis nú á dögum alþjóðahyggjunar? Geymi það allavega til betri tíma. Addi Kitta Gauj er búinn að reka Margréti Sverrisdóttur sem framkvæmdastjóra þingflokks Frjálslyndra. Hann segir ástæðuna vera þá að hún eigi að fara undirbúa kosningabaráttu sína sem verðandi þingmaður Reykvíkinga. Ástæðuna telur hún aftur á móti vera andstöðu við það að forkólfarnir ali á útlendingaóvild, svo ekki sé nú sterkara til orða tekið. Ég hef trú á Margréti og tel að hún gæti orðið ágætis þingmaður, þótt hún hafi byrjað í þessum flokki. Hún hefur allavega sýnt myndugleika með því að spyrna við fótum gegn rasisma eins og ætla má að hún eigi kyn til. Við Íslendingar höfum ekki efni á að að amast við því að hingað komi fólk sem vill deila með okkur kjörum. Það er varla til sá bær í útlöndum að þar megi ekki finna einn eða fleiri Íslendinga við leik og störf. Við sem höfum fengið tækifæri til þess að lifa, starfa og mennta okkur á erlendri grund oft meira og minna á kostnað viðkomandi lands höfum nú ekki forsendur fyrir því að amast við því að hingað sæki fólk að utan í þau lífskjör sem hér eru í boði, ef fólk er tilbúið til þess að vinna. Allavega hef ég ekkert á móti fólki sem vill koma hingað að vinna og hjálpa til við að greiða skatta til þessa samfélags. Við verðum aðeins að sjá til þess að það geti lifað hér við mannsæmandi aðstæður. Kveðja.

þriðjudagur, 28. nóvember 2006

"My name is Bond, James Bond"

"Shaken not stirred". Er það ekki svoleiðis sem hann vill hafa martini drykkinn sinn? Við skelltum okkur á Bond í kvöld. Okkur fannst hún bæði spennandi og skemmtileg. Þótt "uppskriftin" byggi á gömlum grunni þá er búið að laga hana mikið og bæta ýmsu "góðgæti" í uppskriftina og það er til bóta. Er þetta ekki nógu óljós lýsing til þess að segja eitthvað en segja samt ekki neitt? Mýrin hvað? Hafiði komið til Feneyja? Kveðja.

mánudagur, 27. nóvember 2006

Dagarnir líða....

Jæja helgin búin og ný vinnuvika hafin. Dagarnir líða hver af öðrum nú styttist í jólin og heimkomu stórfjölskyldunnar í Kristianstad. Var að koma af söngæfingu í kvöld. Við erum að æfa okkur í jólalögunum eins og áður. Þetta er alltaf jafn hressandi þótt maður sé að sjáfsögðu misupplagður. Nú ég var í leikfimi í dag og var vigtaður sérstaklega. Álit leikfimistjórans er að við í AGGF lifum svo miklu sældar- og munaðarlífi að hjá okkur sé eins og það séu jól allt árið. Það sé óþarfi hjá okkur að vera bæta eitthvað í átið yfir jólahátíðina. Þessvegna vigtar hann okkur núna til þess að athuga hvort að við séum að borða of mikið yfir hátíðina. Fyrir þessa þjónustu borgar maður og segir ekki aukatekið orð? Jæja þetta hjálpar kannski að ná langtíma markmiði um að minnka vigtina um þó ekki væri nema eins og fimm kg á næstu 12 mánuðum. Það hefur heldur hlýnað í kvöld eftir undanfarið kuldaskeið. Vonandi að það haldi áfram. Kveðja.

sunnudagur, 26. nóvember 2006

Skemmtileg helgi.

Sigrún Huld Tók þessa mynd af heimasætunni sem fór í "búningapartý" í gærkvöld með Kvennaskólameyjum. Áttum skemtilegt kvöld í gærkvöldi með vinafólki okkar Ellu og Júlla og Jenný og Mumma. Nú í dag höfum við komið víða við. Byrjuðum í Suðurmýrinni hjá Birni og Sunnu í bröns. Hittum foreldra mína og Stebbu systir seinni partinn og enduðum svo í bíó í kvöld. Sáum Mýrina hans Baltasar Kormáks. Sirrý var búin að lesa söguna en ekki ég. Hún sagði að það hefði truflað sig. Henni fannst bókin betri en myndin. Mér fannst myndin ágæt en hef ekki samanburðin við bókina. Ingvar Sigurðsson er leikari á heimsmælikvarða og Atli Rafn Sigurðsson var líka sannfærandi í sínu hlutverki. Ef maður á að finna að einhverju þá fannst mér sérstaklega fyrir hlé of örar skiptingar á myndrömmum og óeðlilegar sveiflur með myndarvélina. Íslensk náttúra er stórkostlegt myndefni en fer ekki að verða komið nóg af því að selja hana í öllum myndum sem hér eru gerðar? Nóg um það, þetta var ágætis skemmtun. Í dag hefði móðurafi minn, Valdimar Axel Gunnarsson orðið 107 ára. Blessuð sé minning hans. Afskaplega hlýr og góður maður. Tryggvi Ófeigsson útvegsmaður minnist hans í æviminningum sínum sem sérstaks elju manns til vinnu og frábærs sjómanns, en afi var á togara hjá Tryggva á þriðja áratug síðustu aldar. Æviminningar Tryggva koma út á áttunda eða níundaártug aldarinnar, þannig að hugstæður hefur hann verið Tryggva þegar hann leit yfir farinn veg."Þéttur á velli og þéttir í lund þolgóðir á raunastund." Hann var einn af þeim og þar að auki fríður maður. Ekkert víl né vol. Hann lét aldrei deigan síga þótt móti blési, harmur, veikindi eða aðrir erfiðleikar, lífsviljinn mikill, karlmennskan honum í blóð borin, glaðvær alvörumaður, sjálfstæður í skoðun og fastur fyrir." Þannig kemst Karl Stefánsson mágur hans að orði í minningargrein um afa.

laugardagur, 25. nóvember 2006

Laugardagstiltekt

Við höfum verið að mestu heima við í dag í tiltekt. Þetta er endalaus barátta við rykið í kringm mann. Það hefur aukist eftir að byggingaframkvæmdir hófust fyrir vestan okkur á Lundarsvæðinu. Maður ætti eiginlega að senda þeim reikning fyrir auka rykþrif. Nú það er von á gömlum menntaskólafélögum okkar í kvöld, sem við höfum ekki hitt lengi. Skruppum aðeins í Smáralindina í dag. Þar var mikið af fólki eins og venjulega á þessum tíma. Annar lítið í fréttum héðan. Bið að heilsa ykkur.

fimmtudagur, 23. nóvember 2006

Í minningu Jensínu ömmu.

Jensína Sveinsdóttir Í dag hefði Jensína amma orðið 100 ára. Hún lést þann 5. júní í fyrra á 99.aldursári. Afkomendur hennar hittust í dag heima hjá Helgu Guðmundsdóttur tengdadóttur hennar. Þarna voru margir mættir og gaman að hitta svo stóran hóp barna, barnabarna og barnabarnabarna hennar og frændfólk okkar, auk tveggja vina hennar Ingimundar og Sjafnar sem voru góðir vinir hennar og ferðafélagar. Það er svo margt sem sækir á hugan þegar þessarar merku konu er minnst. Ég las í tilefni dagsins aftur minningargrein sem einn góður ferðafélagi hennar skrifaði í minningu hennar. Komin á áttræðisaldur varð það hennar helsta áhugamál að ferðast um heiminn. Hún fór með ferðafélögum sínum til fjölmargra landa. Grípum aðeins niður í eftirmælunum. "Aðaleinkenni hennar var í okkar huga létt lund og jákvæð afstaða, dugnaður og dulúðleg hógværð og lítillæti." Siðar segir í minningargreininni:"Þá má fullyrða að engin öldruð almúgakona á Íslandi hafi heimsótt svo margar og margvíslegar kirkjur og helgistaði vítt og breitt um heiminn sem hún Jensína okkar gerði." og að lokum segir í greininni: "Enga sveit fann hún þó í útlöndum fallegri en Reykhólasveitina fyrir vestan." Í sérstakri minningu eru fjölmargar stundirnar sem hún kom í heimsókn til pabba og mömmu með Kollu frænku og áður með Bubba frænda og spjallaði um liðnar stundir og daginn og veginn. Jafnan var stutt í glensið og skellihláturinn sem smitaði svo sannarlega út frá sér. Hún hafði ákveðna skoðun á flestum málum og mönnum. Fylgdist vel með afkomendum sínum og því sem gerðist í þjóðmálunum. Hún hafði gaman að íþróttaleikjum og síðast en ekki síst þá voru ferðalög innanlands jafnt sem erlendis henni mikið yndi. Blessuð sé minning þessarar fallegu konu. Kveðja til ykkar allra.

þriðjudagur, 21. nóvember 2006

Smáþjóðir og alþjóðavæðing.

Það er farið að rigna núna um kl. 23.00 í Fossvogsdal. Þá ætti nú snjórinn að fara hverfa nema það kólni aftur. Það er lítið í fréttum héðan. Var á Rótarýfundi í dag. Ræðumaður dagsins var Jón Baldvin Hannibalsson. Hann fjallaði í erindi sínu um smáþjóðir og alþjóðavæðingu. Hann kom víða við. Hann nefndi mikilvægi þess að ungt fólk færi til náms erlendis og kæmi svo aftur til starfa í snínu heimalandi með menntun og menningu viðkomandi landa. Menntun og aftur menntun væri tæki til þess að jafna lífskjör fólks og gefa fjöldanum tækifæri.Ég er sammála þessu en ég tek nú ekki undir það með honum að það sé lítið mál fyrir okkur að ganga í ESB og taka upp evruna. Hann sagði að við værum með ESS samningnum með aukaaðild að sambandinu svona 2/3 aðilar. Breyting á "dönsku" stjórnarskránni okkar væri nú ekki mikið mál. Við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að fiskmiðin umhverfis landið yrðu að sameiginlegri auðlind ESB ríkjanna og að þessum málaflokki yrði stjórnað frá Brussel.Það væri lítið mál að semja sig frá því. Tækifæri gafst ekki til mikilla rökræðna enda tíminn naumt skamtaður. Ekki var nú rætt um það að erfitt yrði fyrir íslenskan stjórnmálamann að vera lengi við völd við 10 til 20% atvinnuleysi eins og er víða í ESB ríkjunum. Fimmti hver Svíi er í dag án atvinnu.

mánudagur, 20. nóvember 2006

Jólalögin æfð.

Þið haldið að jólin byrji fyrst í IKEA? Ó nei, það gera þau ekki. Við í Sköftunum erum búin að vera að æfa jólalögin allan nóvember. Nú hinsvegar eru lögin farin að slípast þannig að það er ánægja af því að kyrja þau saman í röddum. Alltaf gaman að koma á söngæfingu hjá Sköftunum. Maður hressist og endurnærist þessa tvo tíma að kvöldi einu sinni í viku. Annars er tíðindalítið héðan úr Fossvogsdal. Snjóþekja helgarinnar yfir öllu og fremur kalt úti. Ég leit við hjá foreldrunum í kvöld eftir söngæfingu. Hitti þar Þórunni og syni hennar Árna og Júlíus. Svein Larsson hafði ég hitt fyrr í kvöld hérna í Brekkutúninu. Þannig að það vantar bara Hjört Sveinsson og Unni til þess að að hafa fullt hús hvað Þórunnar fólk snertir. Á fimmtudaginn þann 23. nóvember er boð hjá Helgu hans Bubba í tilefni af því að Jensína amma hefði orðið 100 ára, ef hún hefði lifað rúmt ár í viðbót. Í gær fórum við til Sigurðar og Laugu í bröns. Þau hafa ákveðið að breyta til og ætla að skella sér til Kúbu yfir jól og áramót. Verða alls um tvær vikur í burtu. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.

sunnudagur, 19. nóvember 2006

Vetrarríki

Koparreynirinn okkar. Nú ríkir sannkallað vetrarríki úti. Í nótt fór að snjóa og nú er snjóinn farinn að skafa í skafla. Víð vöknuðum við það í morgun að einhver var að reyna að brjótast upp úr götunni á vanbúnum bíl. Fremur hvimleið uppvakning, satt best að segja. Við erum allavega með nýja bílinn á nöglum og vetrardekkjum þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði. Það er búið að bjóða okkur í kaffi í dag í Grænuhlíðina til Sigurðar og Laugu. Annars höfum við verið heima við um helgina. Ía vinkona heimsótti okkur í gærkvöld og vorum við bara að "chilla" eins og unglingarnir segja. Í morgun hringdi síminn frá Svíþjóð. Viti menn er ekki lítill drengur hinumegin á línunni og var mikið niðri fyrir og þurfti að segja okkur margt. Við höfum nú stundum verið að reyna að fá hann nafna minn til þess að tala við okkur í síma, en það hefur nú ekki gengið. Hann hefur fram til þessa hlustað en ekki sagt orð sjálfur. En sem sé nú hringdi hann og talaði mikið. Hann var að segja okkur að nú væri hann að fara í Tivolígarðinn með pabba sínum að róla eða "úaa" eins og hann segir og líkir eftir rólusveiflunni. Ég var að lesa viðtal í sunnudagsblaði Mbl. við Sólveigu Jónsdóttur, dóttur Jóns Helgasonar prófessors í Kaupmannahöfn. Afar fróðlegt og skemmtilegt viðtal við dóttur þessa merka manns. Hún lýsir vel aðstæðum fjölskyldunnar í seinni heimstyrjöldinni, og gestagangi á heimilinu. Nú grein Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í Mbl. í gær í minningu hagfræðingsins og nóbelsverðlaunahafans Miltons Friedmans sem er látinn var einnig fróðleg lesning. Hannes á þakkir skyldar fyrir að hafa gengist í því að bjóða Friedman til Íslands árið 1984. Hef þetta ekki lengra í bili. Kveðja.

fimmtudagur, 16. nóvember 2006

Góða kvöldið....

Það er brunakuldi úti. Það hefur verið -7°C í dag og 7 vindstig. Það er varla hundi út sigandi. Samt sem áður fórum við Sunna út fyrir kl. 7.00 í morgun í göngutúrinn okkar í dalnum. Nú er hún farin til síns heima. Björn og Gunnhildur eru komin frá Afríku. Ferðin gékk í alla staði vel hjá þeim. Ég fletti upp á sama tíma í fyrra og viti menn 16.nóvember 2005 er svipuð veðurfarslýsing og á við daginn í dag. En á sama tíma fyrir tveimur árum er ekkert skrifað á þessari bloggsíðu. Eins og glöggir lesendur geta séð er ekkert skrifað allan nóvember 2004. Ástæðan er sú að maður var bara búinn þann mánuðinn eftir margra mánaða samningalotu og aðalfund samtakanna. Hafði ekkert að segja í heilan mánuð. Það er með þessar bloggsíður fólks að stundum er hægt að ráða í skrif þess með því að skoða hvað stendur ekki á blogginu og hvenær er ekki bloggað. Þetta að vera með bloggsíðu og vera bloggari er hjá mörgum orðinn lífsstíll. Líklega má segja það um mig að þetta sé hluti af mínum lífsstíl. Sumir leggja mikið upp úr því að fólk láti vita af heimsóknum sínum á bloggsíðuna. Það er velkomið að gera það hjá mér og alltaf gaman, en líka velkomið að vera "huldumaður/huldukona" ef þið kjósið það. Sumum finnst erfitt að láta vita af sér. Mér finnst það líka þegar ég heimsæki sumar bloggsíður. Þetta eru svona hindranir sem maður þarf að yfirvinna aðallega í kollinum. En bloggarinn treystir fólki því hann er að tjá sig oft um all persónuleg mál, mis persónuleg að vísu og hann er oft að gefa nokkuð einlæglega og persónulega innsýn inn í líf sitt. Það er að vísu á forsendum bloggarans. Eigi að síður getur það gefið lesandanum margt að fá innsýn inn í daglegt líf samborgara. Hann getur fengið viðmið við eigið líf og vafstur. Það getur þótt í smáu sé hjálpað honum að takast á við sína daga í þeirri vissu að hann er ekki einn með sín "einstöku" verkefni. Sérhver dagur hjá okkur öllum er barátta við okkur sjálf, lífið, tilveruna og það sem það hefur uppá að bjóða. Bloggarinn er að gefa af sér með því að deila með sér hugrenningum sínum og reynslu úr dagsins önn. Hann leggur traust sitt á lesandann um að hann fari vel með það traust sem hann sýnir honum. Nú svo eru sumir sem eru með allsskonar bull, vilja ekki segja frá því hverjir þeir eru og svoleiðis. Það er líka allt í lagi og segir okkur líka margt. Jæja er þetta ekki orðið nóg í bili. Kveðja til ykkar allra. Hafið það ávallt sem allra best.

miðvikudagur, 15. nóvember 2006

Nýliðinn okkar.

Nýliðinn Fékk þessa mynd lánaða af bloggsíðu Hjartar. Hér má sjá betur litla drenginn. Ja, flottur er hann. Annars er það helst að frétta að það er sex stiga frost í kvöld og hvínandi vindur úti. Best að vera inni við. Það finnst bæði dýrum og mönnum. Allavega vildi hundurinn Sunna ekki út í þetta rok og er hún þó labrador hundur. Nú annars lítið að frétta af okkur. Búin að hringja í foreldra,Svíþjóðarfara og frænkur. Öllum viðmælendum kvöldsins heilsast vel. Litli maðurinn í Svíþjóð braggast vel. Kip pir í kynið og er sísvangur. Sveinn Hjörtur tekjur nýjum bróður vel og unir vel að sínu. Er duglegur að fara í leikskólann sinn og aðlaga sig nýjum aðstæðum. Amma hans segir að hann bræði hjörtu sænskra með því að kveðja þá gjarnan í búðum með handavínki og segja "då" sem er stytting úr "hej då" og er algengasta kveðjuorð Svía. Pabbi hans er búinn að gera orðabók fyrir hann í leikskólann þannig að fóstrurnar skilji þó þau íslensku orð sem hann kann. Vagerður Birna lék í stuttmynd í Kastljósþætti kvöldsins. Snemma beygist krókurinn að því er verða vill. Hún skilaði hlutverkinu fumlaust og með sóma. Sigrún tók að sér vakt á elliheimilinu í kvöld. Hún kann ekki að segja nei eins og fleiri fljölskyldumeðlimir. Læt þetta duga. Kveðja - Hej då alla barn......

mánudagur, 13. nóvember 2006

Nýji maðurinn með ömmu.

Maður verður nú að setja mynd af nýja manninum með Sirrý ömmu. Á heimasíðu Hjartar má sjá drenginn í nærmynd. Kveðja.

sunnudagur, 12. nóvember 2006

Lítill drengur fæddur.

Ingibjörg og Hjörtur eignuðust dreng í gærkvöldi. Þetta er stór piltur 55 cm að lengd og 18 merkur. Við óskum þeim og Sveini Hirti innilega til hamingju með soninn og bróðurinn. Við getum varla beðið eftir því að fá að sjá litla drenginn og erum í sjöunda himni yfir nýju afa -og ömmubarni. Sirrý rétt náði að sjá litla manninn áður en hún hélt heim á leið. Þannig að hann var á elleftu stundu með því að ná því að hita Sirrý ömmu, sem var búin að bíða eftir honum í 12 daga. Strákur fæddist 11.11.06.
Af öðrum fjölskyldufréttum er það helst að ég fór í Hjallakirkju í dag ásamt Júlíusi Sveinssyni frænda til þess að vera við messu hjá sr. Hirti Hjartarsyni. Hann sá um predikun dagsins og fórst það vel úr hendi. Dagurinn í dag er helgaður kristniboðsstarfi í heiminum. Þórunn og Sveinn eru komin frá Glasgow. Ég veit ekki hvort Axel og Rannveig eru líka komin. Geri þó frekar ráð fyrir því. Kveðja.

föstudagur, 10. nóvember 2006

.. og nú er úti veður vont

Á föstudagskvöldi og enn gnauðar Kári gamli utandyra eins og hann er nú búinn að gera á annan sólarhring með uppstyttum þó. Það hefur verið snjómugga nú síðdegis og í kvöld og hálka á götum bæjarins. Það bar helst til tíðinda í dag að ég fór á ráðstefnu í Þjóðleikhúsinu þar sem kynnt var ný skýrsla varðandi eflingu alþjóðlegrar fjármálastarfsemi á Íslandi. Þarna var húsfyllir og mikil bjartsýni meðal ræðumanna um möguleika okkar á þessu sviði. Meginforsenda fyrir því að þetta takist er að skattalegt umhverfi og reglugerðarverk fjármálamarkaðarins verði samkeppnishæft, gegnsætt og aðlagað reglugerðarákvæðum ESB og standist ýtrustu kröfur. Skýrsluna má nálgast hér: http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/Skyrsla.pdf . Nú ég heimsótti pabba og mömmu á Hlíðarveginn í kvöld átti með þeim góða stund. Annars höfum við Sigrún Huld verið heimavið í kvöld. Allt við það sama í Kristianstad. Nú kemur Sirrý heim á sunnudagskvöldið. Heyrði aðeins í Valdimar Gunnari í dag. Hann æfir sig í lagaflækjum og þvílíku. Kveðja.

fimmtudagur, 9. nóvember 2006

Nú er úti veður vott....

Já maður er með hálfgerða "bloggteppu" eins og Stella kallar það. Hef mig varla í að skrifa neitt. Hvað á maður svo sem að segja annað en að það sé myrkur úti, vaxandi rok og rigning. Veðurstofan varar við stormi undir morgun. Jú Hjörtur Friðrik átti afmæli í gær. Hjörtur, Ingibjörg og Svenni fóru og ásamt Sirrý og úttektarmanni og skoðuðu nýja húsið og leist ljómandi vel á það. Mamma er komin heim af sjúkrahúsinu og er á batavegi. Þórunn og Sveinn og Axel og Rannveig eru að fara til Glasgow í stutta ferð. Nú fer að styttast í að Sirrý komi heim frá Svíþjóð og Björn og Gunnhildur og ferðafélagar þeirra frá Afríku. Fór á söngæfingu á mánudagskvöldið. Við erum byrjuð að æfa jólalögin á fullu. Það var vel mætt á æfinguna og fólk ánægt eftir ferðalagið.Í gær var ég við jarðarför Gylfa Gröndal rótarýfélaga í Digraneskrikju. Jæja hef þetta ekki lengra í bili. Kveðja.

laugardagur, 4. nóvember 2006

Vestur í Paradís.

Nei, nei ég er ekki búinn að finna paradís. Var reyndar vestur á Melum í HÍ á fyrirlestraröð í dag sem bar yfirskriftina Vestur í Paradís. Ég er hinsvegar ekki frá því að mamma hafi löngum litið á vesturbæ Reykjavíkur sem sína paradís. Enda uppalin í vesturbænum. Nú en erindin þrjú sem ég hlustaði á nefndust: Draumurinn um fornan frændgarð í Vesturheimi, Um ofurlítinn Edensblett Þórvarar Sveinsdóttur Halldórson hér á jörð og Unnusta fallegra kvæða, um kvenmynd og kvenhylli Stephans G. Konur og einkum skáldkonur dáðust að skáldinu.Þær sáu í honum útlagann, andvökuskáldið, utangarðsmanninn sem þær vildu bjarga. Vera með honum einar upp til fjalla. Þetta var svona Fjalla-Eyvinds "syndrom" eins og einhver sagði. Fyrirlesarinn Helga Kress náði að gæða persónuna holdi - lífi. Maður sá allt í einu manninn á bak við ljóðin. Þannig að maður fékk svona tilfinningu ahhaaaa svona var hann. Niðurstaðan af þessum pælingum var að líklega hafa konur verið hrifnari af Stephan en karlar. Það minnir mig á það að það var hún Stefanía amma mín sem kynnti fyrst fyrir mér Stephan G. Eins og reyndar Laxness, Einar Ben. og fleiri. Annars hef ég verið mest heimavið í dag. Veðrið leiðinlegt eftir hádegi. Rok og rigning. Heimsótti mömmu aðeins á Borgarspítalann og keyrði Sigrúnu í apotekið. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

fimmtudagur, 2. nóvember 2006

Prófkjör á fullu

Það fer ekki milli mála að það eru prófkjörsdagar í suðvesturkjördæmi. Það stoppar ekki síminn vegna áróðurhringinga frá stuðningsmönnum frambjóðendanna. Maður er svo sem ekki búinn að gleyma því þegar maður stóð í þessu sjálfur hér forðum daga. Þetta er ákveðinn vertíðarfílingur í kringum þessi prófkjör. Svo verða einhverjir glaðir og aðrir sárir þegar úrslitin liggja fyrir. Alltaf svolítið skrítið þegar samherjar eru að berjast innbyrðis. Hef aldrei almennilega fílað það. Þetta er alltaf spurning um kynningu viðkomandi frambjóðenda, aðstöðu og peninga hvernig fólki vegnar í þessum prófkjörum. Baráttumálin verða jú líka að vera einhver. Nú og svo skiptir máli hvort um er að ræða karl eða konu og ungt eða gamalt fólk. Einhvernveginn finnst mér stemmingin ekki eins mikil í kringum væntanlegar kosningar eins og svo oft áður. Það getur þó átt eftir að breytast. Kveðja.

miðvikudagur, 1. nóvember 2006

Sitt lítið af hverju og våra nordiska vänner.

Sirrý er komin til Svíþjóðar og verður þar í nokkra daga hjá nafna og fjölskyldu. Sunna er hjá okkur í pössun, Björn fór til Afríku með vinafólki. Hún er ágæt greyið, hefur þann ókost að gelta ógurlega ef einhver ókunnugur nálgast húsið eins og þið vitið mörg. Hún getur víst lítið gert að því úr þessu. Enda var hún uppalin í Afríku sem varðhundur og þeir gelta og vara við. Þetta eru svona helstu fréttir héðan. Af öðrum málum utan helsta umfjöllunarefnis Brekkutúnsannáls er það helst að frétta að hvalveiðarnar ganga vel og eru horfur á að búið verði að veiða alla hvalina fyrir helgi með sama gangi. Umræðan í danska sorpblaðinu sem miðar að því að fletta ofan af íslenskum viðskiptum virðist hvorki fugl né fiskur. Það er merkilegt hvað þetta norræna bræðraþel tekur stundum á sig furðulegar myndir. Margir okkar norrænu vina virðast tilbúnir ófrægja og gera lítið úr öllu því sem íslenskt er í tíma og ótíma. Reyndar er þetta ekkert danskt/íslenskt fyrirbæri. Svíar og Norðmenn hafa í tíma og ótíma verið með skítkast hvor í annan og það getur nú hreint út sagt verið varasamt að vera Svíi í Danmörku. Það hef ég reynt sjálfur hér á Jótlandi um árið. Þegar þeir héldu að við værum Svíar vegna þess að við vorum á bíl með sænskum númerum. Svo eru þessir frændur okkar tilbúnir að ráðast á okkur þegar því er að skipta út af minnsta tilefni. Hvort það eru nokkrir hvalir eða krónur sem við kunnum að hafa grætt. Verst þykir mér þegar þegar þeir tala niður til okkar. Sorpblaðið er að gera að því skóna að fyrst okkar mönnum hafi vegnað svona vel í viðskiptum hljóti þeir að vera glæpamenn og skattsvikarar. Ég hélt nú að Danir hefðu ekki efni á því að vera mikið að róta í sameiginlegri viðskiptasögu okkur sbr. sá sem býr í glerhúsi eigi ekki að kasta fyrsta steininum. Allra síst svona snepill sem lifir af því að selja myndir af berum stelpum og birta auglýsingar um vændi. Það var annars líka miður að Rannveig "frænka" væri að senda Færeyingum tóninn á fundi í Danmörku. Hún hefði betur látið það ógert. Þeir hljóta að ráða sjálfir fram úr sínum málum, jafnvel þótt það varði lesbíur og homma. Frænka fór allavega ekki í umboði míns atkvæðis til þess að vera hnútukastast við þá í útlöndum. Jæja hef þetta ekki lengra. Kveðja.

mánudagur, 30. október 2006

Til hamingju með nýja húsið.

Framhlið Við óskum Hirti og Ingibjörgu til hamingju með nýja húsið sem þau voru að kaupa í Svíþjóð. Skrifað var undir samning í dag þannig að þetta er orðið opinbert. Húsið er nánar tiltekið í Hammar og er úthverfi Kristianstad.

Bakhlið Hér ætti að vera nægt pláss fyrir nafna að leika sér.

sunnudagur, 29. október 2006

Ferð Söngfélags Skaftfellinga að Klaustri og Hala.

Tónleikarnir í Kirkjuhvoli Þetta er búin að vera stórkostleg helgi hjá okkur í Sköftunum ásamt með mökum. Við fórum á föstudaginn austur að Klaustri og héldum þar tónleika fyrir fullu húsi í félagsheimilinu á Klaustri. Þrátt fyrir leiðindaveður þetta kvöld með roki og rigningu. Tónleikarnir hófust kl. 21.00 um kvöldið. Þeir gengu ágætlega. Sérstaklega eftir að við ákváðum að endurraða okkur fyrir framan sviðið eftir hlé. Það var ráðstöfun sem skilaði sér í margfallt betri samhljómi kórsins. Undirleikari okkar var Pavel Manásek og stjórnandinn er Violeta Smid. Flygillinn sem leikið var á á tónleikunum var konsertflygill af fínustu gerð. Edda Erlendsdóttir píanóleikari hefur örugglega notað han undanfarin ár á sínum árlegu tónleikum á Klaustri. Við gistum á hótelinu á Klaustri bæði föstudags- og laugardagsnóttina.

Hæ tröllum á meðan við tórum....

Kvöldvökur Bæði föstudagskvöldið og laugardagskvöldið voru kvöldvökur á barnum á hótelinu á Klaustri. Þar var sungið hvert lagið við undirleik píanóleikara frá Klaustri og svo tók Kristinn kórfélagi með sér nikkuna sína. Hótelið á Klausri er hið þægilegasta. Nýlegt og huggulegt. Kórfélagar voru leiðsögumenn um svæðið allt eftir því úr hvaða héraði menn voru. Að öðrum ólöstuðum var hann Skúli Oddsson úr Mörtungu besti sögumaðurinn. Hann gæddi útsýnið og umverfið lífi með sögum af mannlífi og eftirminnilegum persónum af svæðinu.
Skeiðarárjökull Veðrið þrátt fyrir tvísýna spá lék við okkur. Þessi mynd er tekin á leiðinni út í Hala í Suðursveit. Þar héldum við tónleika í Þórbergssetrinu nýja. Þar var einnig húsfyllir og mikil stemming. Mættir voru gestir allt frá Höfn til þess að hlíða á sönginn. Eldri borgarar á Klaustri voru einnig mættir til að hlusta á sönginn. Margir af þeim höfðu líka verið á tónleikunum kvöldið áður á Klaustri.
Svínafellsjökull Maður hefur oft keyrt um þessar slóðir. En það er engu líkt í góðu veðri og í félagsskap fólks sem er fætt og uppalið í þessum sveitum. Maður öðlast nýja sýn og skynjar umhverfið einhvern veginn á dýpri hátt. Þetta er listaverk sem síðasta Skeiðarárhlaup átti þátt í að skapa þegar jakahlaupið sveigði og beigði þessa brúarstólpa. Já náttúruöflin láta ekki að sér hæða.

Sungið fyrir góða vætti á sandinum.

Sungið fyrir góða vætti Við tókum lagið fyrir okkur sjálf og alla góða vætti á Skeiðarársandi...."Í jöklanna skjóli við ársólaryl, ég allra þeirra nú minnast vil sem voru í sannleika Íslandi allt og ei létu bugast þótt gustaði kalt."

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi
Við sungum í Þorbergssetri á Hala í Suðursveit. Þetta er safn sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Nú síðan héldum við tónleika á elliheimilinu Klausturhólum á Klaustri á laugardagskvöldið og í dag sunnudag enduðum við á því að syngja nokkur lög á elliheimilinu í Vík, Hjallatúni. Í gærkvöldi var hátíðarkvöldverður kórsins á Klaustri sem tókst í alla staði frábærlega. Kveðja.

þriðjudagur, 24. október 2006

Söngurinn léttir lífið.

Ég var á söngæfingu í gær. Nú styttist í söngferðalag okkar Skaftanna austur á Klaustur. Önnur æfing á fimmtudag svo verður haldið í hann á föstudaginn, svo framalega sem veður leyfir. Veðurútlitið er ekkert allt of gott og það minnir okkur á það að kominn er vetur. Ég var á Rótarýfundi í dag og hlustaði á fyrirlestur um SOS barnaþorpin. Þar kom m.a. fram að framlög Íslendinga til þessarar hjálpastofnunar nema um 150 milljónum króna á ári. Nálægt 5000 manns greiðir með börnum í þessum þorpum um víða veröld. Þetta er aðdáunarvert framtak fólks. Sigrún kom í gær frá Svíþjóð eftir langa helgi í Kristianstad. Nú þetta er svona það helsta af okkar vettvangi. Kveðja.

sunnudagur, 22. október 2006

Ættarmót Ingvars og Friðrikku.

Í Brekkutúninu var í dag haldið ættarmót Ingvars Pálmasonar skipstjóra og Friðrikku Sigurðardóttur. Hér voru komnir þeir afkomendur þeirra alls 30 sem staddir eru á landinu. Ýmsa vantaði sem eiga heima erlendis bæði í USA og Svíþjóð. Frá USA vantaði tvær dætur Pálma Ingvarssonar og son hans. Nú það er óþarfi að kynna fyrir bloggvinum mínum hverjir eru í Svíþjóð. Þetta tókst í alla staði vel og var hið ánægjulegasta ættarmót. Tilefni þess var heimkoma Pálma Ingvarssonar frá Seattle í USA í heimsókn hingað. Hann var hér síðast í maí 2004. Hér voru systkini hans Sigurður Ingvarsson og Auður "Didda" systir þeirra ásamt afkomendum. Lesa má um heimsókn hans í einum af fyrstu bloggum mínum í maí 2004. Heilmikið var spilað á hljóðfæri hússins og átti þar Emil Draupnir Baldursson stóran hlut að máli. Speki dagsins átti Hermann hennar Rannveigar en hann velti fyrir sér hugtakinu hljóðfæri. sbr. verkfæri, veiðarfæri, færi og svo framvegis. Hvaðan er orðið "færi" og hvað þýðir það í raun og hversvegna er hægt að nota það um svo margt. Þeir bloggvinir sem vilja leggja í púkkið varðandi þetta hugtak eru hvattir til þess. Á morgun er fyrsti vinnudagur eftir aðalfund. Það er í mínum huga n.k. áramót. Heilt ár í næsta fund og svo framvegis. Það er áægtis tilfinning. Það fer vel á því að fagna því í lok þessa pistils að í dag kom að landi fyrsti stórhvalurinn, langreyður, sem skutlaður er við Íslandsstrendur í tvo áratugi. Kristjáni vini mínum eru færðar bestu óskir í tilefni þessara tímamóta. Kveðja.

Lítið bloggað þessa dagana.

Tímaleysi, annir, hlaup, verkefni, heimsóknir, fundir þannig hefur þessi vika nú verið enginn tími verið til að hanga í tölvunni. Þessvegna hafa ekki verið pistlar frá mér síðan á mánudaginn. Nú Ingibjörg og Stefánía átttu afmæli í gær 21.október. Óskum þeim til hamingju með daginn. Var á aðalfundi LÍÚ á fimmtudag og föstudag og hófi síðar seinni daginn. Í dag er stórfjölskylda Sirrýjar að koma í heimsókn. Meira um það síðar. Sigrún er í Svíþjóð hjá Hirti og Ingibjörgu. Í gær fór ég á ráðstefnu um íslensk - kanadísk menningartengsl í Salnum. Afar fróðleg erindi sem ég hlustaði á þar um þennan merka þátt í sögu þjóðarinnar, sem hefur ekki fengið jafn mikla umfjöllun og skyldi.

mánudagur, 16. október 2006

Píanótónleikar Angelu Hewitt í Salnum.

Angela Hewitt Wow. Helgi vinur hringdi í mig í dag og bauð mér í bluefine túnfisk og stakk upp á því að við skeltum okkur ásamt eiginkonum í Salinn að hlusta á kanadíska píanóleikarann Angelu Hewitt. Það eru kanadískir menningardagar í Kópavogi og eru tónleikar hennar liður í þeim. Þetta voru frábærir tónleikar. Angela Hewitt lék svítur d-moll og Es-dúr eftir Jóhann Sebastian Bach og sónötur í c-moll eftir Ludwig van Beethovern. Hún er af mörgum talin einn fágaðisti píanisti samtímans. Ég er nú meira fyrir Beethoven en Bach, en það er önnur saga. Kveðja.

Átti afmæli í gær.

Ég átti afmæli í gær ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum bloggvini. Byrjuðum daginn í bröns hjá Birni og hundinum Sunnu. Þar voru auk okkar Sirrýjar, Sigrúnar og Stellu. Hilda, Magnús og Vala Birna. Síðdegis komu í Brekkutúnið mamma, pabbi, Þórunn, Sveinn, Sunneva, Telma Þórunn, Árni, Hjörtur, Axel, Rannveig, Alexander og Axel jr., Stella og Valdimar. Heillaóskir bárust frá Svíþjóð. Maður gaf sér ekki tíma til þess að blogga í tilefni dagsins. Alltaf gaman að hitta fólkið sitt. Annars lítið í fréttum og svo sem lítið að blaðra um á þessum síðum. Árin telja orðið fimmtíu og fjögur. Maður yngist ekkert en mér finnst ég heldur ekki finna neitt sérstaklega fyrir því að eldast. Öldrunarfræðingurinn segir að þetta sé allt í höfðinu á manni þ.e.a.s. aldur sé afstæður og markist meira af hugarfari en árum. Ég er ekki frá því að það sé eitthvað til í þessu. Aðalatriðið er að reyna að finna sér verkefni við hæfi svo manni leiðist ekki frá degi til dag. Ég held að það sé ómögulegt að hafa lítið eða ekkert fyrir stafni í lengri tíma. Jæja ég er að fara á tónleika í Salnum í kvöld með kanadískum píanóleikara. Kveðja.

miðvikudagur, 11. október 2006

Tíminn líður hratt.

Höfði í Reykjavík. Mikið líður tíminn hratt. Það eru tuttugu ár frá því að leiðtogafundurinn var haldinn í Höfða! Það var vor í lofti þetta ár og þetta var gott ár. Það var uppsveifla í sjávarútveginum og almenn bjartsýni í þjóðfélaginu. Við vorum á Snæfellsnesi helgina sem fundurinn var haldinn. Ég fór á fund í Útvegsmannafélagi Snæfellness og Sirrý var með strákana á Skjaldatröð á Hellnum á meðan. Veðrið var hundleiðinlegt, hífandi rok og rigning. Ronald Regan og Michael Gorbatsjov voru í aðalhlutverki. Raisa var mætt en Nancy lét ekki sjá sig. Okkar menn voru líka í sviðsljósinu. Steingrímur forsætisráðherra í alþjóðapressunni og Davíð Oddsson borgarstjóri. Hann fór með gestabókina og lét þá kvitta í hana. Það var nú það eina sem kvittað var undir á þessum fundi. Fræg er myndin af Regan með Vigdísi í göngutúr á Bessastöðum. Þótt ekki væri skrifað undir friðarsamkomulag á þessum fundi var ljóst að stórtíðindi í heimsmálum voru í uppsiglingu. Endalok kaldastríðsins, afvopnun, friður, von fyrir mannkynið. Nýir tímar voru í sigti og endalok kommúnismans. Ég man að ég geymdi dagblöðin frá þessum fundi í mörg ár. Gæti jafnvel átt þau enn. Manni þótti þetta svo merkilegur viðburður. Það fer vel á því að herstöðinni á Miðnesheiði var lokað á tuttugu ára afmæli fundarins. Það hefði verið óhætt að gera það fyrir 15 árum síðan. Nú skiptir það engu að velta sér upp úr því. Minningarnar leita á hugan þegar maður horfir til baka þessi tuttugu ár. Þetta eru jú bestu árin og lungað úr starfstímanum. Spurningar eins og hvernig höfum við notað tímann og hvernig hefur okkur farnast leita á hugann. Ég ætla ekki að fara að velta mér upp úr því, en í stuttu máli sagt hafa þetta verið stórkostleg ár í heildina. Spennandi tímar með óþrjótandi verkefnum og tækifærum. Það er ekki hægt að biðja um meira. Kveðja.

sunnudagur, 8. október 2006

Laxveiðar með netatrossu og pöbbarölt.

Feðgarnir Helgi og Hörður Dagurinn í gær var sannkallaður "action" dagur. Við fórum þrír, ég Helgi vinur og Hörður sonur hans norður í Laxá í Refasveit að veiða lax til að nota í klak. Við vorum komnir norður um klukkan eitt. Þá var hafist handa að ganga á líklega staði og draga netatrossu yfir helstu svæði. Með okkur í þessari vinnu var Magnús bóndi á Syðra Holti. Við vorum við þessa iðju til sex. Náðum þó aðeins þremur löxum þar af komust tveir í laxakistuna. Komum við heima hjá bóndanum og áttum þar ánægjulega kaffistund áður en haldið var suður. Hittum systur hans og nágranna og áttum við þau skemmtilegt spjall. Það er svo gefandi að hitta fólk sem býr í allt öðruvísi umhverfi og fá örlitla innsýn í líf þess og störf. Við ætluðum að gista í veiðihúsinu þessa nótt, en Stebbi bróðir Helga hafði óvart lánað húsið og gleymdi að segja okkur frá því. Vissi þó vel að þetta stóð til. Þegar í bæinn var komið um klukkan níu skelltum við okkur í heitan pott heima hjá Helga og Hörður eldaði handa okkur kjöt. Kominn úrvinda heim um miðnættið. Nú á föstudaginn var útstáelsi á manni. Var á fundi í Útvegsmannafélagi Reykjavíkur. Borðuðum saman að fundi loknum og síðan var farið á pubbarölt á búllur bæjarins. Fórum á nokkrar búllur og maður hitti fólk sem maður hefur ekki séð lengi eða þá aldrei. Ég tók það sem merki um að nú ætti ég að fara til míns heima þegar ég hitti ungan pilt sem sagði við mig: "Heyrðu ég held að þú þekkir hann pabba." Auðvitað þekki ég pabba hans vel. Nú þetta er skemmtileg upplifiun að kynnast aðeins næturlífi borgarinnar. Það virðist vera að Vínbarinn sé "staðurinn" fyrir 50+ aldurinn. Aðrir staðir eru sóttir af mun yngra fólki. Reykjavík er eins og þorp af stærri gerðinni. Viljir þú hitta fullt af fólki sem þú hefur ekki séð lengi þá er þetta leiðin til þess að hitta það. Kveðja

miðvikudagur, 4. október 2006

Í miðri viku.

Sirrý er farin til Svíþjóðar í stutta vinnuferð. Kemur aðeins við í Kristianstad í leiðinni. Stella hans Valdimars er líka farin í vinnuferð yfir sundið til Noregs. Gunnar Örn bróðir Sirrýjar kom hér í viku byrjun. Nú annars er lítið annað í fréttum af þessum vettvangi. Vinna, sjónvarp og sofa. Í þessum takti líða dagarnir. Þetta er svo sem ekki í frásögur færandi. Tja, en hvað með það. Kveðja.

sunnudagur, 1. október 2006

Á Þingvöllum.

Í litaskoðun Í gær fórum við í hina "árlegu" haustlitaferð á Þingvelli. Gríðarlega fallegir litir hvert sem litið er. En maður verður svolítið dapur þegar sumarið er búið og haustið og veturinn framundan.
Haustlitir
Spáð í skýin Við tókum þátt í uppákomunni sem Andri Snær stóð fyrir. Sáum engar stjörnur en skýin sáum við og öll ljósin hjá þeim sem ekki tóku þátt. Fyrir "utanlands" Íslendinga skal það upplýst að sl. fimmtudag var kl. 22.00 slökkt á ljósastaurum og mælst til að fólk myndi slökkva ljósin heima til þess að taka þátt í sérstakri uppákomu í tengslum við kvikmyndahátíð sem var að hefjast í Reykjavík.

föstudagur, 29. september 2006

Í lok vinnuviku.

Akureyri
Hef haft nóg að gera þessa vikuna. Meðal afreka var ferð norður á Akureyri á miðvikudag. Flugum þrír í Dorniervél Landsflugs á Sauðárkrók og tókum svo bílaleigubíl þar og keyrðum til Akureyrar. Málið var að alltaf var verið að fresta fluginu á Akureyri vegna þoku. Svo var tilkynnt um flug á Sauðárkrók og við tókum sjénsinn og flugum þangað í staðinn. Rétt á eftir var svo flogið til Akureyrar þannig að við græddum nú engann tíma á þessu. Við komum hálftíma á eftir Akureyrarvélinni. En þetta var allavega tilraun til þess að spara tíma og bara nokkuð skemmtileg. Við spurðum þann sem leigði okkur bílinn á Króknum hvernig væri að keyra á milli Sauðárkróks og Akureyrar og hvort hætta væri á lögreglumælingum. Það kom okkur á óvart hvað hann var vel að sér um þessi mál. Það kom líka á daginn að hann var lögreglumaður í fullum skrúða undir flíspeysu sem hann var í. Ferðin heim frá Akureyri var tíðindalaus og vorum við komnir í bæinn um sjö leytið.

miðvikudagur, 27. september 2006

Get bara ekki orða bundist

Í lýðfrjálsu landi er umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra mikilvægt. Lýðræðið er vel til þess fallið svo að allir geti tjáð skoðanir sínar og haft sitt að segja í leik og starfi. Þetta er langt í frá fullkomið kerfi. Þrátt fyrir allar hátíðaræður um gildi lýðræðisins sem byrja oft í sama dúr og þessi pistill, hafa langt í frá allir sömu aðstöðu til að koma skoðunum sínum á framfæri. Sumir eru í betri aðstöðu til þess að tjá sig í fjölmiðlum vegna þess að þeir hafa völd, eiga fé og fjölmiðla, eru þekktir einstaklingar, vinna við fjölmiðla, eru fjölmiðlavænir eða hafa "rétt" sambönd. Ómar Ragnarsson fréttamaður fellur í einn eða fleiri af þessum forréttindahópum. Hann hefur haft mjög góðan aðgang að fjölmiðlum. Þótt hann hafi nú komið út út úr "skápnum" varðandi skoðanir sínar á Kárahnjúkavirkjun, hefur það ekki farið milli mála í langan tíma að umfjöllun hans hefur ekki verið af hlutlægni. Maður hefur þó ekki látið það trufla sig mikið því það er væntanlega eins með mig og marga aðra Íslendinga að Ómar á rými í hjarta okkar. Hann er okkur mörgum kær fyrir þær ómetanlegu stundir sem hann hefur veitt okkur í sínum mörgum hlutverkum í gegnum tíðina. Maður hefur svona horft í gegnum fingur sér og hugsað sem svo að nú væri tilfinningar hans að bera rökhyggjuna ofurliði. Það breytir því þó ekki að síðasta útspil hans um að Kárahnjúkavirkjun verði ekki tekin í notkun er svoleiðis út í hött að mér er fyrirmunað að skilja hvert hann er að fara. Svona hugmynd yrði hún að raunveruleika mundi valda okkur gríðarlegu efnahagslegu tjóni og skerða lífskjör okkar til lengri tíma. Mér er til efs að þeir sem samankomnir voru á Austurvelli í gær séu tilbúnir að bera það hundraða milljarða tjón sem þjóðfélagið stæði uppi með. Þetta útspil Ómars er að mínu áliti því miður dæmi um varasama og jafnvel hættulega hugmynd sem fær umfjöllun í fjölmiðlun í þveröfugu hlutfalli við efnisinnihaldið. Svona hugmynd minnir okkur á að við verðum ávallt að halda dómgreind okkar og vöku. Við getum ekki treyst á hlutlægni fjölmiðla til þess að standa vörð um almannaheill í skoðanaskiptum um mikilvæg málefni. Ég held ég láti þetta duga í bili. Kveðja.

sunnudagur, 24. september 2006

Haustferð í Skaftártungu.

Skaftártungan Við fórum austur í Skaftártungu á föstudag. Keyrðum austur í fínu veðri. Stoppuðum í Víkurskála og borðum þar. Héldum svo áfram og vorum komin í Tunguna um klukkan níu um kvöldið. Við vígðum nýja svefnsófann sem við keyptum í bústaðinn og er það allt annað að sofa í honum en kojunum. Nú við fórum svo í mikinn göngutúr á laugardeginum fyrir hádegið og sváfum svo góðan lúr eftir hann. Þá var haldið á Klaustur en þar var búið að loka matvörubúðinni. Maður vill jú styrkja landsbyggðina með öllum ráðum, en það er erfitt að gera það þegar maður kemur að læstum dyrum. Það var þó nokkuð af túristum og veiðimönnum á svæðinu, bæði gæsa- og stangveiðimönnum sem ætluðu að versla. Við gistum svo í nótt og lögðum að stað í morgunsárið heim aftur. Þetta var frábær ferð.
Við hundaþúfuna.













Smakkað á hrútaberjum. Við fórum í þriggja tíma göngu frá bústaðnum upp í Grafarkirkju og aftur til baka. Komum við í réttunum og skoðuðum féð sem þar var saman komið.
Fé af fjalli Hér er verið að koma með fjársafn af fjalli. Líklega eru þetta eftirlegukindur þær voru það fáar og víða komin söfn í heimastún bæjanna.
Við altarið Við komum við í Grafarkirkju og áttum þar góða stund.
Tungurollur Tungukynið eina og sanna.
Sirrý Það má nú láta sig dreyma um það hvernig það væri ef maður hefði orðið rollubóndi í sveitinni.
Skaftafell Við keyrðum austur í Skaftafell á Laugardeginum. Þar voru aðeins nokkrir erlendir túristar á ferð.

Austur í Tungu.

Kvöldstilla Við borðuðum úti á laugardagskvöldið. Að vísu var búið að loka í matvöruversluninni sem við stóluðum á á Klaustri þannig að ekkert fékkst til að steikja, en "Ríkið" var opið bensínsölunni, þannig að rauðvín með matnum var klárt. Komið alla leið frá Australíu.Í staðinn fyrir holusteik var þjóðvegahamborgari í kvöldmatinn. Það verður að redda málunum.

föstudagur, 22. september 2006

Haustblíða

Hér er fallegt haustveður eins og það gerast best. Heiðskýrt,hlýtt og stillur. Svona ekta veður til að njóta. Enn og aftur kominn helgi og um að gera að nýta tímann til þess að vera útivið. Annars lítið í fréttum af okkur. Kveðja.

Tölvan "krassaði"

Ég er búinn að eyða töluverðum tíma í að laga tölvuna mína. Setja í hana nýjan disk og setja upp prógrömmin aftur. Þetta er allt að koma, en einhverjum gögnum og myndum hef ég tapað. Maður á að taka afrit. En svo er ég líka búinn að tapa "linkum" á netinu sem ég heimsótti reglulega. Jæja þýðir ekki að fást um það. Annars allt gott af okkur að frétta. Kveðja.

mánudagur, 18. september 2006

Á söngæfingu.

foto:Kristinn.
Ég fór á fyrstu söngæfingu vetrarins í kvöld með Sköftunum. Það voru tæplega 30 manns mættir og gaman að hitta söngfélagana að loknum sumarfríum. Þetta er fjórði veturinn sem ég æfi með kórnum. Nú er hafin æfing fyrir söngferð sem farin verður á Klaustur í lok október. Annars er lítið í fréttum. Veðrið er orðið haustlegt, rok og rigning og haustlitir farnir að sýna sig. Það er helst í fréttum héðan að búið er að mála húsið að utan. Það er í óbreyttum litum en það er allt annað að sjá það. Búið að laga skellur og sprungur. Lítið heyrt í Valdimar og Stellu þau voru í réttum um helgina. Sigrún og Sirrý á fullu í skólanum. Kveðja.

sunnudagur, 17. september 2006

Sænsku kosningaúrslitin.

Jæja Göran Person er búinn að lýsa sig sigrðan í kosningunum í Svíþjóð. Þrátt fyrir 4% hagvöxt náði hann ekki vopnum sínum. Kosningarloforð hans gékk út á að hann mundi halda áfram á sömu braut. Gaf óskýr skilaboð um hvað hann mundi gera varaðndi m.a. atvinnuleysið og hafði loðna framtíðarsýn. Moderatarnir unnu stórsigur í kosningunum. Leiðtogi þeirra er Fredrik Reinfeldt. Það er augljóst að þarna er kominn leiðtogi af nýrri kynslóð manna, yngri og ferskari en GP. Vonandi tekst nýjum meirihluta að hrista upp í sænsku þjóðfélagi og skapa því ný tækifæri inn í framtíðina. Tími GP var búinn og í raun tóm della að láta hann keppa um endurval eftir 10 ár á ráðherrastóli. En valdamenn láta ekki auðveldlega segjast þegar þeirra tími er búinn og tími til að skipta um forystu. Jæja hef þetta ekki lengra í bili. Af okkur er það helst að frétta að við höfum verið heimavið í dag og í gær aðallega við heimilsstöf. Það veitir víst ekki af að reyna að taka svolítið til við og við. Sirrý skrapp á ráðstefnu sem fjallaði um alzheimer sjúkdóminn. Við höfum verið að passa hundinn hana Sunnu í dag og í gær. Björn skrapp norður. Við litum aðeins við hjá Íu og Kolla. Nú og svo komum við hjá Hildu og Magnúsi og fengum að halda soldið á heimasætunni Valgerði Birnu. Þetta er svona það helsta. Kveðja.

laugardagur, 16. september 2006

Í leik og starfi.

Við Sirrý fórum í 30 ára afmæli Félagsvísindadeildar í gær. Það var haldið í veislusölum í Lækjargötu. Held að þetta sé húsið sem Hið íslenksa bókmenntafélag lét byggja. Þetta var hin veglegasta veisla og margir kunnir félagsvísindapostular að fagna þessum tímamótum. Þar má nefna fremstan í flokki sjálfan forsetann. Þarna var margt skrafað og maður varð margs vísari af þessum vettvangi. Átti samtal við einn virtan félagsvísindamann og ætla ekki að rekja það að öðru leyti en því að við ræddum um gildi viðurkenningarinnar. Að vera einlæglega viðurkenndur fyrir störf sín og framgöngu af þeim sem eru manni næstir. Þetta skiptir okkur öll svo gríðarlegu máli. Samt sem áður erum við spör á að hrósa hvort öðru þótt tilefnin séu mörg. Samanber að enginn sé spámaður í eigin föðurlandi. Ég held við ættum að hafa þetta huga og muna að hvetja hvort annað meira í leik og starfi. Nú í aðra sálma. Stjórnmálaumræðan mun fara vaxandi á næstu mánuðum og verður spennandi að sjá hvernig hún muni þróast hér á landi. Ég hef aðeins fylgst með umræðunni í Svíþjóð. Kosningabaráttan þar er í algleymingi. Göran Persson virðist eiga í vök að verjast og honum er fundið það helst til foráttu að hann hafi fjarlægst alþýðu manna og skynji ekki lengur kjör hennar. Hann sé orðinn herragarðseigandi og vilji frekar deila geði með auðmönnum en alþýðu manna. Hann verst þessum árásum með því að segja að Svíar hafi framar öðrum þjóðum staðið dyggan vörð um jafnaðarmennskuna og náð góðum árangri. Nú er að sjá hver verður niðurstaða sænskra kjósenda. En þau eru eigi að síður nokkur hneykslismálin tengd ofurlaunum forstjóranna sem nú eru þar til umfjöllunar. Græðgin hefur náð sterkum tökum á Vesturlöndum, auðhyggja er grímulausari en áður og virðist drifin áfram af væntingum um mikinn ávinning á skömmum tíma. Í anda þess að "the winner takes it all." Baráttan í pólitíkinni mun eins og alltaf snúast fyrst og fremst um skiptingu lífskjara. Hugsið ykkur það eru yfir 400 000 þúsund manns án atvinnu í Svíþjóð og þá er ekki tekið með dulið atvinnuleysi sem a.m.k. tvöfaldar þessa tölu. Svíar eru um níu milljónir manna. Ég held að við sem tilheyrum velmegunarkynslóðum eftstríðsáranna (1946 - 1960) höfum misst sjónar af mikilvægum lífsgildum og börnin okkar sem nú eru að hasla sér völl í atvinnulífinu hafi óraunhæfa sín á það hvað þurfi til þess að koma undir sig fótunum fjárhagslega. Þar dugi að verða sér út um skjótfenginn gróða og lifa svo um alla framtíð í góðum efnum. Margir virðast ekki gera sér grein fyrir því aðfyrir allflest okkar er það linnulaus barátta að koma sér upp þaki yfir höfuðið og láta fjárhaginn ekki fara úr böndum. Einn flippferð í kaupstuði getur bundið fólk í áraraðir á fjárhagslegum klafa. Þar fyrir utan leysa peningar langt í frá allar þarfir manna. Þeir geta meira að segja verið til ógagns. Þótt ekki ætli ég að gera lítið úr því að það geti komið sér vel að eiga sparifé þegar þess er þörf. Læt þetta duga. Kveðja.

miðvikudagur, 13. september 2006

Hvað er tímamótaviðburður?

Er það tímamótaviðburður að herinn er á förum? Einhvertíma hefði það þótt það, en satt best að segja finnst mér þetta engin meiriháttar tímamót. Það hlaut að koma að þessu. Vægi þessarar varðstöðvar hlaut að hverfa eftir lok kaldastríðsins. Jafnvel stórveldi hafa ekki efni á því að halda úti varðstöð um ókomna framtíð án skilgreindra verkefna. Þetta hefur rask í för með sér aðallega fyrir þá sem hafa haft lífsviðurværi sitt af vinnu í herstöðinni og ekki skal gert lítið úr því. Efnahagsleg áhrif herstöðvarinnar voru mikil hér áður fyrr þótt þau hafi minnkað mikið síðari ár. Lengi vel var gjaldeyrisöflunin vegna herstöðvarinnar um 10% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar á hverju ári. Aðstaðan á vellinum er mikilvæg fyrir millilandaflugið og án hersíns hefði uppbyggingin verið hægari og mun minni. Þeir hafa byggt upp flugbrautirnar og viðhaldið þeim og drjúgan skylding lögðu þeir í byggingu flugstöðvarinnar. Það fé sem þeir hafa greitt vegna dvalar sinnar hér nemur vafalaust hundruðum milljarða í gegnum tíðina. Við höfum svo notið lendingargjaldanna af vellinum öll árin. Á tímum kaldastríðsins hefðum við vafalaust getað fengið þá til þess að leggja töluvert meira að mörkum en um það var engin samstaða. Hvalfjarðarvegur, Suðurlandsvegur, steyptir flugvellir fyrir norðan og austan. Allt voru þetta framkvæmdir sem maður heyrði talað um en ekkert varð af. Lítið er rætt núna um hin menningarlegu áhrif sem varnarliðið hafði hér á landi. Þau eru vafalaust mikil og hafa hjálpað okkur til þess að ná takti við nútímann og við það sem gerist best á Vesturlöndum. Við sem höfðum Kanasjónvarpið og útvarpið eigum frábærar minningar frá þessum árum. Við fengum innsýn inn í margbreytilega ameríska og vestræna menningu, - tónlist, afþreyingarþætti, kvikmyndir m.m. á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum. Svo voru það einhverjir menningarvitar sem tóku sig til, sjálfskipaðir og létu loka þessum "glugga" að umheiminum að sögn til varnar íslenskri menningu! Ég get ekki annað en brosað að þessum endurminningum. Ég er með í dag um 50 erlendar stöðvar í sjónvarpinu mínu og Kolli vinur minn með um 150 erlendar stöðvar! Við erum sko ekki verri Íslendingar fyrir það. Raunar kann ég núna að meta allt íslenskt mun betur en áður. Einmitt vegna samanburðar við menningu annarra landa. Svona sjálfskipaðir menningarvitar poppa jafnan upp með jöfnu millibili. Þeir þykjast hafa höndlað einhvern stórasannleika, sem felst aðallega í því að skerða lífsgæði okkar hinna, sem viljum nýta þá skynsömu kosti sem eru í hverri stöðu. Nú sér þetta lið skrattan í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á Austfjörðum. Það má ekki nýta hvalinn okkur til matar eða tekna vegna umhverfissjónarmiða sem fá ekki staðist. Það lifa ekki margir af því að skrifa bækur um "Draumalandið" ef engin uppbygging á sér stað og engir kostir landsins eru nýttir fyrir alþýðu manna. Ef allt er drepið í dróma, þá verður að endanum aðeins verkefni fyrir einn mann til þess að skrifa bók um Draugalandið og óvíst hvort einhver sé í stakk búinn til þess að greiða honum verkið. Vonandi verður það aldrei. Kveðja.

sunnudagur, 10. september 2006

Bröns og afmæli Emils.

í morgun heimsóttu okkur Björn og hundurinn Sunna. Hilda, Magnús og Valgerður Birna. Valdimar og Stella. Við fengum okkur saman þessa fínu fiskisúpu. Síðdegis fórum við svo í afmælisveislu til Emils Draupnis en hann varð átta ára í vikunni. Þar hittum við: Sigurð og Vélaugu. Gunnar, Bergstein, Kára og Bryndísi. Baldur Braga, Fjólu, afmælisbarnið Emil Draupni og Maríu Góð. Valdimar Gunnar leit einnig við. Þarna var einnig fjölskylda Fjólu, foreldrar og systkini. Þá fórum við líka á Hlíðarveginn og hittum mömmu og pabba. Ég tók nokkur lög á píanóið og Sigrún söng einsöng í tveimur lögum. Maður stoppar bara ekki þessa dagana. Okkur hefur langað austur í bústað en höfum ekki komist. Á morgun er fyrsta kóræfingin kl. 20.00 ef ske kynni að einhverjir Skaftfellingar læsu þetta pár mitt. Vantar alltaf góða söngmenn í kórinn og Tungufólk hefur verið duglegt að mæta. Læt þetta duga. Kveðja.

laugardagur, 9. september 2006

Strandarkirkjuganga

Strandarkirkja Í dag gengu afkomendur Helga Ingvarssonar fyrrum yfirlæknis á Vífilsstöðum hina árlegu göngu sína á Strandarkirkju í Selvogi. Ég hef oft gengið með þeim þessa göngu en nú gat ég ekki gengið með vegna hnéskaða, sem ég er ekki búinn að jafna mig á að fullu. En ég var í liðinu sem keyrði og sótti. Það jafngildir því að vera "göngumaður" að vera í þessu þjónustu hlutverki. Gangan tekur rúma fjóra tíma frá Grindarskörðum. Í Strandarkirkju tók ég að mér að lesa kafla í ævisögu Helga um þessar göngur hans. Þar segir m.a.: "Alkunnugt er, að trúaðir menn velji sér ýmsa staði, sem þeir telja helgari en aðra,og ferðast þangað sér til sálubótar. Nægir þar að nefna Íslendinga, sem gengu forðum daga suður til Rómaborgar. Helgi átti sér slíkan átrúnaðarstað. Hann gékk að Strandarkirkju ekki sjaldnar en þrjátíu sinnum í þeirri trú, að sú suðurganga yrði sér og sínum til heilla.....() Trú Helga á Strandarkirkju kemur fram í vísum hans í dagbók dóttur hans frá árinu 1939:

Ef hennar gagn í góðri trú
með gjöfum viltu styrkja
þér veitir heill og höppin drjúg
heilög Strandarkirkja."

Stórhöfði Á fimmtudaginn fór ég ásamt stjórn LÍÚ út í Vestmannaeyjar þar sem haldinn var stjórnarfundur og útvegsbændur í Eyjum voru heimsóttir. Þetta var hin skemmtilegasta ferð og meðal tilbreytinga dagsins var heimsókn til vitavarðarins í Stórhöfða, boð á skrifstofur og heimili útvegsmanna og skoðunarferð um Heimaey. Allir kannast við þann vita úr veðurlýsingum fjölmiðlanna. Útsýnið er gríðarlega mikið, þótt það sjáist nú ekki á þessari mynd.

sunnudagur, 3. september 2006

Sólsetursmynd.

Sólsetur Ég ætla að deila með ykkur þessari sýn á myndinni þótt þið séuð mörg fjarri þessari stundu. Það er tilkomumikið og stórkostlegt að sjá sólsetrið héðan úr Fossvogsdal. Veðrið í dag hefur verið mjög gott og góð viðbót við sumardagana. Heyrði í þeim sem eru í Kristianstad og einhversstaðar í sænska skerjagarðinum. Vona að þau öll hafi átt góðan dag líka.

Fallegur dagur.

Guðbjörn, Ingunn og Helgi Byrjaði þennan laugardag á smá tiltekt. Fór svo eftir hádegið upp í Salinn til þess að kynna mér tónleikaröð Tíbrár tónleikanna í Salnum. Fór svo síðdegis til Helga og Ingunnar. Guðbjörn var í heimsókn líka en hann fer til Svíþjóðar í fyrramálið. Borðuðum pönnukökur með rifsberjahlaupi, heilum jarðarberum sem dýpt hafði verið í súkklaði og rjóma. Í aðalrétturinn var blufine túnafiskur. Þvílíkt lostæti. Wow á ekki orð til að lýsa því hvílíkt lostæti þessi réttur var. Píanóstillarinn minn hringdi í mig alla leið frá Kína og sagði mér að hann hefði verið í heimsókn í verksmiðjunni sem framleiddi flygilinn minn. Ótrúlegt hvað heimurinn er lítill. Á heimasíðu Kristins Leifssonar má sjá myndir af verksmiðjunni og starfsemi hennar.

föstudagur, 1. september 2006

Vikumolar.

Var í tvítugsafmæli Unnar Sveinsdóttur frænku minnar í dag 1. september. Sirrý fær bestu kveðjur á afmælisdaginn sinn sem er í dag, en hún skrapp yfir Pollinn í nokkra daga. Nú það er helst annað í fréttum vikunnar að ég hitti Guðbjörn Þór æskuvin minn hjá Helga og Ingunni í gærkvöldi en hann er hér í nokkra daga heimsókn. Mánudag og þriðjudag var ég á auðlindaráðstefnu á Hótel Sögu. Það er alltaf frískandi að heyra í fræðimönnum spá og spekúlera. Fræðimennirnir veltu því fyrir sér hvernig best væri að nýta fiskmiðin í hafinu og hvað skórinn kreppir að í fiskveiðum í heiminum. Í stuttu máli sagt eru verkefnin óþrjótandi á þeim vettvangi. Tema ráðstefnunar var við hvaða aðstæður mætti ná bestum árangri í nýtingu fiskimiða og ýmissa náttúruauðlinda. Ef hægt er að tala um niðurstöðu á ráðstefnu af þessu tagi þá var hún að mínu viti að besta skipulagið er þegar kraftar markaðarins fá notið sín og nýtingar- og eignarréttur er vel skilgreindur. Í dag fór ég í fyrsta leikfimitíma vetrarins og verður að viðurkennast að maður var dálítið stirður, enda varla búinn að jafna mig eftir hnésnúninginn. Nú fara vetrarverkefnin að byrja hvert á fætur öðru. Kveðja

laugardagur, 26. ágúst 2006

Mýrdalur.

Mýrdalurinn til austurs Á þessari mynd af Mýrdalnum er linsunni beint til austurs í átt að Reynishverfi. Við fórum upp að Brekkum til þess að fá þessa yfirlitsmynd og urðum mjög hrifin að því sem við sáum.

Mýrdalur til suðurs.

Mýrdalurinn Á leiðinni í bæinn keyrðum við upp að Brekkum í Mýrdalnum og tókum þessa yfirlitsmynd af Mýrdalnum. Þarna má sjá baksvip Dyrhólaeyjar.