þriðjudagur, 26. desember 2017

Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár

Þetta hafa verið tíðindalítil jól og reyndar desember mánuður. Nú er að kveðja gamla árið og fagna nýju ári. Kveðja

sunnudagur, 26. nóvember 2017

Fyrsta útvarpsviðtalið

Fyrsta útvarpsviðtalið sem ég fór í var árið 1986. Ég var nýbyrjaður í starfi hjá LÍÚ. Undanfarin ár hafði sjávarútvegurinn gengið í gegnum mikið erfiðleikatimabil. Þorskveiði hafði aldrei verið meiri en samt var staða fyrirtækja mjög bágborin. Þá gerist það einn daginn að Gissur Sigurðsson fréttamaður hringir í mig og spyr hvort ég sé ekki tilbúinn að koma í viðtal vegna nýútkominnar skýrslu um sjávarútveg, frá Þjóðhagsstofnun. Það sem vakti athygli var að afkoma útgerðar hafði snúist til hins betra og hann vildi ræða þessi umskipti. Ég mætti í viðtalið og Gissur tók það upp á segulband og eftir nokkrar endurtekningar og klippingar var komið stutt viðtal við kappann. Alltaf var ég fréttamanninum þakklátur hversu mildilega hann fór með viðvaninginn og áttum við ágætis samskipti uppfrá því í áratugi. Velti því fyrir mér í dag hvort þetta sé enn svona þegar óvanir koma í viðtöl.

þriðjudagur, 7. nóvember 2017

Fjórða iðnbyltingin er hafin

Fjórða iðnbyltingin er hafin. Hún felur í sér að miklar breytingar hafa átt sér stað og munu eiga sér stað í samfélaginu. Í fyrsta lagi munu atvinnuhættir breytast, hefðbundin störf við framleiðslu og þjónustu hverfa og ný störf munu krefjast aðlögunar og nýrrar þekkingar, sem erfitt verður að brúa fyrir marga. Í sjávarútvegi sjáum við nú gríðarlegar breytingar. Ný kynslóð fiskiskipa hefur margfalda afkastagetu miðað við eldri skipakost og mun færri þarf í áhöfn skipanna. Fjöldi þeirra sem starfa í sjávarútvegi hefur fækkað mikið á liðnum árum. Næsta kynslóð fiskvinnsluhúsa reiðir sig ennfrekar á nýja tækni, sem felst í sjálfvirkni og tölvutækni sem mun gjörbreyta vinnslu. Markaðir sjávarafurða breytast og krafa um ferskleika afurða eykst. Hefðbundin vinnsla eins og við höfum þekkt hana um áratugi jafnvel aldir gengur einnig í gegnum breytingaferli. Við verðum að átta okkur á að heimsvæðingin í viðskiptum er ekki trygging fyrir því að okkur muni farnast betur. Til þess að svo verði verðum, við að vera á tánum og nýta tækifærin og aðlaga okkur að þessu mikla breytingaferli fjórðu iðnbyltingarinnar. Spurning mín er hvort við séum tilbúin í þennan slag?

sunnudagur, 5. nóvember 2017

Framfarir í knattspyrnu

Kom í Kórinn í fyrsta skipti í dag, glæsilegt íþróttahús okkar Kópavogsbúa í eftri byggðum. Lið Álftnesinga var að keppa við HK úr Kópavogi, það er hverfisliðið mitt. Minn maður var í fyrrnefnda liðinu á móti hverfisliðinu. Álftnesingar unnu stórt 11 - 2. Ég ákvað til málamiðlunar að ég mundi ekki klappa þótt Álftnesingar skoruðu. Í huganum var ég að bera saman breytingar frá því við strákarnir fyrir rúmum 50 árum fórum niður að læk til þess að spila á malarvellinum okkar, sem hann Kolbeinn hafði ýtt fyrir okkur. Völlurinn hefur verið svona 20 x 30 metrar. Svona eru nú framfarirnar stórstigar hér í borg/bæ. Við eigum meira að segja tvö svona hús. Það sem var eftirtektarvert í þessum leik var að í liði Álftnesinga voru líka stelpur, sem gáfu strákunum ekkert eftir. Svo tók ég eftir því að þegar líða tók á seinni helming var HKingum fjölgað inn á vellinum til að jafna leikinn. Á hliðarlínunni voru foreldrar að hvetja og fylgjast með og liðunum fylgdu alvöru þjálfarar, sem stýrðu leiknum. Ég sat undirbúning fyrir leik og hlustaði á þjálfarana útskýra leiktæknina. Hvað bæri að varast og hvernig leikmenn ættu að haga sér. Rifjaðist þá upp fyrir mér að líklega höfum við gert öll mistökin í bókinni fyrir 50 árum. Það er ekki að undra að við séum komin í heimsmeistarakeppnina í fótbolta og það þrátt fyrir höfðatölu

fimmtudagur, 2. nóvember 2017

Umgengi í nærumhverfi

Við vorum að ræða það í sundinu áðan að í Póllandi fari fólkið í kirkju eftir vinnu og Bretlandi á pöbbinn, áður en það fer til síns heima. Við vorum sammála um að viðkoma í heita pottinum væri samsvarandi afþreying í önn dagsins hér á landi. Yfirleitt er þetta þó sami hópurinn, sem kemur í heita pottinn, þannig að þetta er ekki jafn almennt og pöbbinn hjá Bretum. Þetta rifjaði upp árin í Engihjalla 25. Við vorum þrjátíu og sex fjölskyldur í húsinu, sem allar komu heim síðdegis eftir vinnu og skóla. Síðan hófst matargerð í öllum litlu þrjátíu og sex íbúðunum. Engum datt í hug að taka í notkun sameiginlegt eldhús fyrir íbúðirnar og skipta með sér eldhúsverkunum og auka umgengi nágrannanna, þótt einhverjir hefðu orð á því. Þessar pælingar okkar leiddu að þeirri ályktun okkar pottverja að mannskepnan er í raun hjarðdýr. Það er okkur eðlislegt að umgangast með óformlegum hætti í nærumhverfi og sækja beint eða óbeint í félagslegt umgengi hvert við annað. Við vorum sammála um að ef fólk mundi vinna að því að efla þetta umgengi í nærumhverfinu mundum við geta mildað og bætt íslenskt samfélag. Niðurstaða okkar var eins og áður segir að pottasamfélagið væri vísir að slíku, en þó ekki jafn öflugt og heimsóknin í kirkjuna í Póllandi eða á pöbbinn á Bretlandi, sem ku vera á við margar heimsóknir til sálfræðings. Allavega yrði samfélagið líflegra.

miðvikudagur, 25. október 2017

Grænurnar fyrir vestan

Veröldin víð, nyrst í íshafi köldu. Ég kom til að leita rótanna, beið en þið voruð farin. Spor ykkar afmáð, ekkert minnti á ykkar gömlu daga eða fór ég ekki á réttan stað? Kannski hittumst við að á nýjum stað að vori og grænurnar verða grænni og fegurri en nokkru sinni fyrr.

sunnudagur, 1. október 2017

Kosningar í Katalóníu

Um þetta leyti í fyrra vorum við í Tarragona í Katalóníu. Ég var búinn að lesa sögu Francos og þóttist nokkuð góður að hafa lesið söguna. Var hálf hissa hvað þeir Katalóníumenn sem ég ræddi við um bókina voru fáskiptir um hana. Það eru afkomendur fylgismanna Francos sem standa fyrir þessum aðgerðum í dag. Við heyrðum í vinum frá Tarragona, sem létu okkur vita um sig og segja okkur frá gangi mála. Það færir mann nær atburðum að eiga þarna vini og samstarfsfólk, sem er í miðri hringiðunni. Fyrir utan helstu borgir voru skip með lögreglumönnum, sem biðu þess að koma í land og stöðva kosningarnar. Vinir okkar sögðu allt í lagi með sig og þótt Katalónar væru reiðir eftir þessa atburði væri allt í lagi fyrir okkur að koma fljótt í heimsókn að nýju. Það má hinsvegar búast við mótmælum t.d. í formi þess að fólk leggi niður vinnu

sunnudagur, 13. ágúst 2017

Norðurlandið heillar

Við vorum á Norðurlandi í síðustu viku. Okkur gafst kostur á að dvelja í nýjum glæsilegum bústað, sem BHM leigir í Hlíðarfjalli. Þetta er mjög vel búið hús hátt upp í hlíðinni með útsýni fram í fjarðarmynni og yfir Akureyri. Það kom okkur þægilega á óvart hvað Verslunarmannahelgin var róleg m.t.t. umferðar og ferðamanna. Við fórum einn Mývatnshring í góðu veðri. Keyptum Mývatnssilung á Skútustöðum, engu líkur. Keyrðum til Siglufjarðar og borðuðum í veitingarhúsinu Rauðku. Hittum þar ferðamálafrömuðinn Róbert Guðfinnsson, sem var að líta eftir. Þar sem áður var ekkert annað en niðurníddar minjar um forna frægð síldarbæjarins hefur risið nýtt glæsilegt hótel og veitingarekstur, lifandi og aðlaðandi umhverfi í hjarta bæjarins. Þessi starfsemi styður vel við þær byggingar og minjar um síldarárin sem eru í raun hluti af þessum nýja miðbæjarkjarna.

laugardagur, 17. júní 2017

Innlend verslun og Costco

Þegar Jóhannes Jónsson heitinn, kenndur við Bónus hóf rekstur Iceland fór ég í röð ásamt miklum fjölda til þess að sýna stuðning við viðleitni hans að stofna nýja lágvöruverslun. 
Ég hafði fylgst með honum þegar hann hóf rekstur Bónus og dáðist að þeim markmiðum, sem hann setti sér í rekstrinum. Um sjötíu prósent af vörunum, sem hann seldi voru íslenskar og hann bauð vörur á mun hagstæðara verði en aðrir. 
Neytendur treystu því að hann væri ekki aðeins að hugsa um eigin hag, heldur líka um neytendur. Sama má segja um Pálma í Hagkaupum á sínum tíma. Báðir þessir menn voru virtir vel af almenningi.
Um nokkurn tíma hafa nýir stjórnendur sérstaklega matvöruverslana ekki náð að viðhalda þessu trausti neytenda. Þeir hafa haft yfirbragð „andlitslausra“ atvinnustjórnenda, sem hafa haft það að leiðarljósi að þjóna fyrst og síðast fjármagninu í starfseminni.
Opnun Costco varð til þess að afhjúpa þessa grímulausu „græðgi,“ sem hefur einkennt oftar en ekki verslunina.
Innlend verslun var tekin í bólinu með opnun Costco. Hún átti ekki svör, virtist augljóslega brugðið og fólkið flyktist til að versla í Costco. Það var þá hægt að bjóða hagstætt verð á Íslandi í línu við verð í nálægum löndum.
Það tekur því nú ekki einu sinni að tala um olíuverslunina, það er svo augljóst hvernig þar er haldið á málum gagnvart neytendum.
Maðurinn í Costcoröðinni orðaði þetta ágætlega þegar haft var að orði mikill áhugi á þessari nýju verslun: Hagar græddu 4 milljarða króna á síðasta ári. Fólk er að bregðast við því og leita hagkvæmari innkaupa. Þetta eru hátíðardagar.
Ég vil innlendri verslun vel, en hún á augljóslega eftir að ganga í gegnum mikið breytingaskeið á næstu misserum. Hún stendur frammi fyrir nýrri samkeppni með tilkomu fyrirtækja eins og Costco og IKEA.
Tilkoma Costco er augljóslega svar erlendra samkeppnisaðila við þeirri stöðu sem hér hefur ríkt á innlendum markaði á líðnum árum.
Þessi tvö fyrirtæki verða auðvitað að gæta að framgöngu sinni. Það hjálpar þeim að vísu að þau hafa að leiðarljósi neytendavæna stefnu. Bauhaus aftur á móti hefur ekki náð þeirri stöðu á byggingavörumarkaðnum, sem vonir stóðu til. Misvísandi skilaboð þeirra varðandi verð og tilboð gerðu það að verkum að þeir virtust missa tiltrú, allavega misstu þeir mína tiltrú.

miðvikudagur, 17. maí 2017

Amma fundin!

Viðburður í Kópavogsbíó 1962 - 1966
Ég verð nú bara að deila þessari mynd af samkomu í Kópavogsbíó sem Herbert Guðmundsson tók milli 1962 0g 1966. Fremst í mynd á öðrum bekk frá hægri er amma mín Stefanía Stefánsdóttir og bróðir hennar Karl Stefánsson og Þóra konan hans. Hvert tilefni fundarins kann að vera veit ég ekki. Amma átti heima að Hringbraut 52 í Reykjavík en hún og afi áttu á sínum tíma sumarhús í Kópavoginum. Ja, hérna þetta kom á óvart! Fundarefnið er líkast til menningartengt. Hún var ljóðelsk og víðlesin og Karl var það líka og setti saman töluvert af kvæðum sjálfur.


Það er skemmtilegt að segja frá því hvernig ég fann ömmu mína á þessari mynd. Þegar ég fer á tónleika með móður minni reynir hún oftar en ekki að fá sæti á þessum stað þ.e. framarlega við enda, hægra eða vinstra megin eftir atvikum. Af hverju? Jú, það er vegna þess að hún er píanóleikari sjálf og vill sjá á nótnaborðið á flyglinum og hvernig leikið er á hljóðfærið. Þegar ég var að skoða þessar myndir sló það mig að þetta gætu verið tónleikar. Í framhaldinu fór ég að velta því fyrir mér hvaða fólk þetta væri sem sæti í "sætunum hennar mömmu," enda fremst í mynd. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var forviða þegar ég sá að þarna sat hún Stebba amma, móðuramma mín. Hún spilaði líka á píanó og orgel. Þegar verið er að myndgreina gamlar myndir verður augljóslega að hafa það í huga að þótt viðburðurinn og myndefnið sé í Kópavogi sé ekki sjálfgefið að fólkið sé úr bænum. Fólk fer enn suður fyrir læk og gerði þarna.

laugardagur, 6. maí 2017

Frönsku kosningarnar 2017

 Le Pen segir að eftir kosningarnar muni kona stjórna Frakklandi. Annað hvort hún eða Merkel. Það er broddur í því og segir meira en miklar málalengingar. ESB var fyrst og fremst draumur sosíalista og sósial demokrata um að byggja sameinaða Evrópu. Nú vitum við að þessi hugmyndafræði hefur strandað. Það er komið á daginn að stuðningurinn við þjóðríkið er sterkari en sósialistar töldu. ESB hefur ekki tekist að leiða þjóðirnar í gegnum holskeflu síðustu ára. Skýrast var það þegar Þjóðverjar neituðu að hjálpa Grikkjum. Bretar ætla að hætta í ESB. Það er útbreiddur misskilningur að ESB hafi haldið friðinn í Evrópu sl. sjötíu ár. Það eigum við fyrst og fremst Bandaríkjunum að þakka og NATO. Í athyglisverðri grein Hjörleifs Guttormssonar í mbl um fall Samfylkingarinnar og erfiðleika sósialista í Evrópu gleymdi han þó að segja frá því að nýjar kynslóðir vinstri manna úr röðum menntamanna, gleymdu meginhlutverki sínu, að berjast fyrir hag launafólks. Þeir einhentu sér í staðinn að berjast fyrir sameiningu evrópsku ríkjanna. Með þeim árangri að flokkar sem kenna sig við þessar stefnur í Evrópu eiga mjög í vök að verjast.

mánudagur, 1. maí 2017

laugardagur, 29. apríl 2017

Ingibjörg Jónsdóttir 6.12.1877 - 29.10.1943

Þessi mynd er af langömmu minni Ingibjörgu Jónsdóttur (6.12.1877 - 29.10. 1943) til vinstri og systir hennar Margréti Jónsdóttur (1878 - 1960) til hægri. Þær voru fæddar að Hömrum í Norðurtungusveit, Borgarfirði. Foreldrar þeirra voru Jón Jónsson (14.2.1847 - 16.3.1885) og Þuríður Ólafsdóttir (31.7.1853 - 20.7.1882). Þær voru fimm systurnar. Móðir þeirra fórst af barnsburði af sjötta barninu, dreng sem hét Pétur Jónsson, aðeins 29 ára gömul. Jón langa, langafi minn lést þremur árum síðar 38 ára gamall. Ættingjar tóku systurnar að sér, og fluttust þær á bæi í Borgarfirðinum, þannig að ekki þurfti að segja þær til sveitar. Ingibjörg bjó síðustu ár sín á Bræðaborgarstíg í Reykjavík og áður Framnesvegi og Sauðagerði. Hún var móðir móðurömmu minnar Stefáníu Stefánsdóttur (9.11.1903 - 1.6.1970). Einna litla sögu kann ég af Ingibjörgu. Hún var trúlofuð Eggerti Jónssyni frá Galtarholti í Borgarfirði. Hann fór vestur um haf og ætlaði hún að fylgja honum og koma með næsta skipi. Hún steig á skipsfjöl eins og ráð var fyrir gert, en var sett í land á Ísafirði vegna mikillar sjóveiki. Aldrei hitti hún kærastann aftur en giftist bróður hans Stefáni Jónssyni (22.6. 1878 - 4.8.1959) og áttu þau saman ellefu börn.
Margrét Jónsdóttir giftist ekki og átti ekki afkomendur. Blessuð sé minning þeirra systra.

mánudagur, 24. apríl 2017

Um uppsveitir Borgarfjarðar

Þessa helgi (21. 0g 22. apríl 2017) fór Söngfélag Skaftfellinga í sína árlegu vorferð. Að þessu sinni var farið um uppsveitir Borgarfjarðar og endað í Borgarnesi, þar sem sungið var í Brákarhlíð og á Landnámssetrinu fyrir gesti og gangandi. Fyrri daginn var lagt af stað frá Reykjavík kl. 10.00. Keyrt var um Hvalfjörð og stoppað við Ferstiklu, en þar var lokað. Þá var næst komið að Fossatúni þar sem fyrrum plötuútgefandinn Steinar Berg rekur þjónustu fyrir ferðamenn. Sungum við nokkur lög fyrir Steinar og starfsfólk hans og gesti. Næst var komið við á Hvanneyri og þar var landbúnaðarsafn skólans skoðað og sungið fyrir fólkið. Frá Hvanneyri var ekið upp í Hvítársíðu, þar sem við gistum á gististaðnum Á á Hvítarsíðu. Við borðuðum kvöldverð og gistum þarna um nóttina. Í dag var ekið um Hvítársíðu í Húsafell að Barnafossum og komið í Reykholt. Þar var sungið í Reykholtskirkju fyrir gesti og gangandi og sr. Geir Waage. Að því loknu var ekið í Borgarnes og sungið á Landnámssetrinu í hádeginu og síðan á dvalarheimilinu Brákarhlíð eins og áður sagði. Það er einstaklega gefandi að ferðast um með þessum hætti. Deila geði með söngfélögum, koma fram og syngja fyrir fólk og ríka þannig umhverfið og gefa með sér af afrakstri vetrarins í söng. Nú um næstu helgi verða vortónleikar kórsins í Seltjarnarneskirkju og vonandi koma sem flestir til að njóta afraksturs vetrarins í söngiðkun okkar sunnudaginn 30. apríl kl. 14.00.

föstudagur, 7. apríl 2017

Upplifði ekki fátækt

Var að horfa á Kiljuna (5.apríl) en þar var fjallað um gamla Kópavog. Fátækt fólk en harðduglegt hóf að byggja upp þetta samfélag á kreppuárunum. Ég var 9 mánaða gamall þegar foreldrar mínir fluttu í sumarbústað afa míns og ömmu árið 1953. Mamma og pabbi voru 22 og 23 ára. Þau byggðu hús á sumarbústaðalóðinni, sem var kjallari, hæð og ris. Þar bjuggu þau í 36 ár. Mamma hefur sagt mér að síðustu nóttina sem hún svaf í húsinu árið 1990 hafi hana dreymt að út úr veggjunum hafi sprungið fegurstu blóm og runnar þegar húsið var að kveðja hana, talandi um hús með sál. Ég upplifði ekki fátækt í mínu uppeldi. Bjó í fallegu húsi og alltaf til nóg af öllu. Man þó lítið eftir föður mínum fyrstu árin. Hann vann myrkranna á milli, eins og sagt er. Man atvik sem krakki þegar hann var að koma af næturvakt á morgnana. Hann tók oft tvöfaldar vaktir í vinnunni. Mamma sagði mér í kvöld á rúntinum að það hefði verið honum sérstök ánægja að koma heim úr vinnu á kvöldin og sjá að húsið væri allt uppljómað, þ.e. að ljós væri í gluggum.

miðvikudagur, 22. mars 2017

Á ferð um gömlu Jerúsalem

Við vorum svolítið fegnir ég og búddistinn frá Víetnam að trúfélagahverfin voru bara fjögur í gömlu Jerúsalem. Leiðsögumaðurinn hafði farið með okkur ansi hratt í gegnum þau. Kristna, múslíma, gyðinga og armenska hverfið. Við stóðum tveir fyrir framan Grátmúr gyðinganna í ferðarlok og veltum því fyrir okkur hvort þetta væri mannkyninu til framdráttar öll þessi trúarbrögð. Vorum nú eiginlega á því báðir að réttast væri að tóna þau aðeins niður. Hann spurði mig, hvort ég hefði horft í augun á múslímunum, hann hefði ekki þorað því. Hinsvegar hefði hann mætt konu í gyðingahverfinu með þau fallegustu augu sem hann hefði séð, brún og möndlulaga. Við áttum nú engin algild svör við trúarbragða spurningunni, sem var þó í huga okkar beggja. Hann sagði mér að hann hefði nú trúna fyrir sig og stundaði hana heima fyrir. Auðvitað var ég með hugann við minningu föður míns, sem helgaði líf sitt trúnni á Jesú Krist. Aldrei kom hann þó á þennan stað. Valdi frekar að heimsækja lítið klaustur á Mallorka oft og hlusta þar á lög eftir Chopin? Fegurðin skiptir sköpum. Núna langar mig að leita að fallegu klassísku gítarlagi, sem ég heyrði í Jerúsalem og aftur í morgun hér í Tel Aviv.

mánudagur, 6. febrúar 2017

Ono á Borgarlistasafninu

John Lennon sagði víst einhverju sinni um Yoko Ono að hún væri “the World's most famous unknown artist." Allir þekkja nafn hennar en fæstir verkin. Þetta átti um mig þar til ég fór í Borgarlistasafnið á föstudaginn var. Gékk þar inn og skyldi lítið sem ekkert í þeirri sýningu sem þar var í hennar nafni. Eftir stutta örkynningu með safnverði um sýninguna fannst mér þó ég skilja listamanninn betur. Hvítu taflmennirnir á skákborðinu fyrir báða aðila. Málverkið, sem mátti heilsast í gegn um, negla í og bæta um betur með málingu. Glerbrotin sem sýningargestum var ætlað að raða saman að nýju. Vasinn sem hún braut á sýningu fyrir margt löngu og bað svo fólk um að koma með brotin aftur mörgum árum saman. Spakmælin og svo síminn sem bíður eftir því að hringt sé í en ekki er hægt að hringja úr. Sú eina sem getur hringt inn er Yoko sjálf. Að lokum stuttmyndin sem sýnir hvar gestum og gangandi er veitt heimild til að klippa af henni spjarirnar og hversu varnarlaus hún er við þessar aðstæður. Hvet ykkur eindregið til þess að skoða þessa sýningu, sem er meira í átt við gjörning en hefðbundna listaverkasýningu. Örsýning safnvarðar er eiginlega nauðsynleg fyrir leikmanninn.

sunnudagur, 15. janúar 2017

Nýja testamentið og Davíðssálmar.




Gideonsfélagið gaf mér 10 ára gömlum  fyrir nær 55 árum Nýja testamentið og Davíðssálma í lítilli bók. Þessi bók sem hér má sjá á mynd hefur fylgt mér í gegnum lífið. Hún hefur reynst mér dýrmætt veganesti og ég haft hana á náttborðinu og oft á tíðum gripið til hennar og leitað trausts og halds með því að lesa hana. Nú er svo komið að trúarveikir hafa komið því til leiðar að Gideonfélögum er bannað að gefa börnum þessa bók í skóla. Það er miður og í raun óskiljanlegt að þeim skuli látið það eftir.

Í DV á blaðsíðu 2 var sagt frá því í dag að maður með hvítt skegg hafi verið staðinn að því að gefa börnum Nýja testamentið fyrir utan skóla á Akranesi. Frá þessu var sagt eins og hér væri um grunsamlegt og varhugavert athæfi að ræða. Þessi frétt sló mig illa og það rifjaðist upp þegar tekin var sú ákvörðun að banna að gefa börnum bókina í skólum. Þessi bók er grunnurinn að þeim gildum sem okkar samfélag byggir á. Hvernig má það vera að það geti ekki samræmst starfi skóla í kristnu samfélagi að gefa börnum Nýja testamenntið? Það er enginn neyddur til að taka við bókinni eða lesa hana. Hinsvegar hefur bókin verið fjöldanum gott veganesti á lífsleiðinni og í raun hverjum manni nauðsynleg lesning.