þriðjudagur, 7. nóvember 2017

Fjórða iðnbyltingin er hafin

Fjórða iðnbyltingin er hafin. Hún felur í sér að miklar breytingar hafa átt sér stað og munu eiga sér stað í samfélaginu. Í fyrsta lagi munu atvinnuhættir breytast, hefðbundin störf við framleiðslu og þjónustu hverfa og ný störf munu krefjast aðlögunar og nýrrar þekkingar, sem erfitt verður að brúa fyrir marga. Í sjávarútvegi sjáum við nú gríðarlegar breytingar. Ný kynslóð fiskiskipa hefur margfalda afkastagetu miðað við eldri skipakost og mun færri þarf í áhöfn skipanna. Fjöldi þeirra sem starfa í sjávarútvegi hefur fækkað mikið á liðnum árum. Næsta kynslóð fiskvinnsluhúsa reiðir sig ennfrekar á nýja tækni, sem felst í sjálfvirkni og tölvutækni sem mun gjörbreyta vinnslu. Markaðir sjávarafurða breytast og krafa um ferskleika afurða eykst. Hefðbundin vinnsla eins og við höfum þekkt hana um áratugi jafnvel aldir gengur einnig í gegnum breytingaferli. Við verðum að átta okkur á að heimsvæðingin í viðskiptum er ekki trygging fyrir því að okkur muni farnast betur. Til þess að svo verði verðum, við að vera á tánum og nýta tækifærin og aðlaga okkur að þessu mikla breytingaferli fjórðu iðnbyltingarinnar. Spurning mín er hvort við séum tilbúin í þennan slag?

Engin ummæli: