miðvikudagur, 29. september 2004

Do,re,me,fa,so,la,ti......

Ég fór fyrsta hljómfræðitímann í dag. Fyrsta verkefnið að lesa nótur á g - lyklinum. Ég veit hvað þær heita allar, en unglingarnir sem eru tæpum 40 árum yngri eru bara miklu fljótari. Úffff, hvað er ég nú að gera. C,D,E,F,G,A,H. Jú, jú ég kann þetta heilinn er bara orðinn svolítið stirður. ...I know I can do this better.... Svo slógum við taktinn 2/4,3/4 og 4/4. Svolítið stirt hjá mér og svolítið klaufalegt. Skyldu blessuð börnin sjá að kallinn er ekki allveg í takt, hefur reyndar aldrei verið það. OK, nóg af þessu rausi, en þetta var nú lífsreynslan í dag.

mánudagur, 27. september 2004

Hauststillur...

Mér verður tíðrætt um veðrið, en þetta ár er búið að vera með ólíkindum gott hér á höfuðborgarsvæðinu. Undanfarna daga hafa verið undursamlegir stilludagar, eftir rokið sem ég talaði um í síðustu viku. Það er svo hressandi og nærandi að fá sér göngutúra í Fossvogsdalnum í svona veðri. Kóræfing var í kvöld. Við erum að æfa bæði ný lög og lög frá síðasta ári. Ætla að reyna að vera duglegur að mæta í vetur. Píanónámið lofar einnig góðu. Nú er bara spurning hvort maður hefur tíma til þess að æfa sig á báðum sviðum til þess að ná árangri. Tíminn lýður ótrúlega hratt þessa dagana. Október handan við hornið.

Austanvindar og vetrarstarf....

Haustvindarnir eru komnir. Í morgunn var hífandi rok hér á höfuðborgarsvæðinu, svo hvein í öllu og gerði öldur á haffletinum á sundinu. Vetrarstarfið er að byrja á fullu. Fór á fyrstu kóræfingu vetrarins hjá Skaftfellingakórnum í vikunni. Hef ákveðið að vera með í vetur. Þá er frá því að segja að ég hef hafið píanónám. Sæki tíma einu sinni í viku hjá Þorsteini Gauta Sigurðssyni. Ég er að hugsa um að fara í tónfræðitíma einnig , sem yrði þá á miðvikudögum. Þetta lítur út fyrir að verða mikill músíkvetur.

sunnudagur, 19. september 2004

Helgin komin og farin og...

já og Hjörtur er kominn og farinn. Þetta er með ólíkindum hvað helgarnar líða hratt. Í gær fórum við á enn eina tónleikana á þessu ári. Í boði Háskóla Íslands hlýddum við á Jónas Ingimundarson og Sigrúnu Hjálmtýsdóttur sópran í Háskólabíó. Mjög skemmtileg og eftirminnileg stund með þessum tveimur tónlistarmönnum. Í efnisskránni var komið víða við og Jónas og Diddú fóru á kostum. Eftir tónleikana bauð Háskólinn starfsmönnum og mökum til móttöku í hátíðarsal háskólans. Í dag heimsóttum við Gljúfrastein og héldum svo á Þingvöll að skoða haustlitina. Þar fundum við litla laut með bláberjum og skjól fyrir vindinum. Sól í heiði og 13 stiga hiti. Hvet fólk til að skoða Gljúfrasteinn. Þetta er mjög góð viðbót í vaxandi safnaflóru landsins.

föstudagur, 17. september 2004

Drápuhlíðarparið.

Jæja, þá er víst óhætt að segja frá því að Stella og Valdi hafa eignast sína eigin íbúð. Þau eru með öðrum orðum orðin íbúðarEIGENDUR og líka leigusalar því íbúðin er í leigu næstu mánuði. Svona geta aðstæður fólks breyst í einni svipan þ.e. frá því að vera þaklausir leigjendur í það að verða eigendur að eigin íbúð. Bloggsíðan Brekkutúnsannáll óskar þeim til hamingju með þessa fínu íbúð og þá röggsemi sem þau sýndu í því að eignast eigið þak yfir höfuðið. Hjörtur er búinn að tilkynna komu sína til borgarinnar yfir blá helgina, segist vera að fara á skrall með vinum sínum. Þetta eru nú helstu fréttir í vikulokin.

þriðjudagur, 14. september 2004

Laxá í Refasveit

Tíminn líður þessa daga. Ég fór í Laxá í Refasveit á sunnudaginn var. Ég fór með Helga og Grétari Sigurðssonum. Góður túr en ég veiddi ekkert. Grétar veiddi tvo laxa, en við Helgi veiddum ekkert. Þetta var mikil keyrsla á einum degi ca. 500 km. Maður getur ekki annað en prísað veðrið þessa dagana. Það er með ólíkindum hvað haustið fer um mann mildilegum höndum.

laugardagur, 11. september 2004

Haustdagar...

"Skynda dig älskade, skynda att älska snart er den blommande sommaren bort."Maður finnur það að haustið er komið. Annars hafa þetta verið mildir dagar, þótt vissulega hafi verið nóg um suðvestan rok og rigningu. En nóg með veðrið. Það er helst af stór viðburðum síðustu vikna að Sirrý átti 50 ára afmæli þann 1. september. Dagarnir fyrir og eftir afmælið hafa verið annasamir vegna vinnu hjá öllu heimilisfólki. Valdi og Stella eru komin aftur í kjallarann, þótt horfur séu á að það verði ekki mjög lengi í þetta skipti. Það er vissulega tilbreyting að vera aftur orðin 5 í kotinu. Ég var norður á Akureyri í vikunni á ráðstefnu um sjávarútvegsmál. Hafsjór tækifæra kallaði Íslandsbanki ráðstefnuna en hann stóð fyrir henni. Þar var ýmislegt rætt og verður ekki fjallað sérstaklega um það. Athyglisvert var að heyra skelegga ræðu utanríkisráðherra og svo var áhugavert að hlusta á mál Kjell Inge Rökke hinn þekkta norska athafnamann, sem á rætur sínar í sjávarútveginum.