þriðjudagur, 30. júní 2009

Við ferðalok.

Geimstöðin Það er ef til vill stílbrot í frásögn af gönguferð á Landmannaafrétti að enda hana með mynd af fimmtíu og sex ára gömlum herjeppa. Það er ekki að ástæðulausu. Bifreiðin og þá sérstaklega eigandi hennar og trússarinn Olgeir Engilbertsson í Nefsholti voru lykilþátttakendur í ferðinni. Fluttu fólk og farangur og Olgeir var óþrjótandi að miðla af mikilli þekkingu sinni um svæðið. Hann er eins og lifandi uppsláttarrit um Landmannaafrétt. Þriðji og síðasti áfanginn í ferðinni var úr Landmannahelli í Landmannalaugar og var farinn á laugardeginum. Ég ákvað að taka mér frí þennan síðasta dag. Ferðalok voru svo í Landmannalaugum síðar um daginn. Þeir sem höfðu áhuga á því skelltu sér í laugina og nutu stundarinnar. Um kvöldið var aftur sameiginleg máltíð við Landmannahelli sem var næturstaður okkar þessa tvo síðustu daga. Ljúfir harmóníkutónar spilaðir af Kristni og fólk naut stundarinnar. Það var komið að leiðarlokum. Hópurinn var glaður en þreyttur eftir erfiði undangenginna daga. Allt hafði gengið áfallalaust fyrir sig. Það var komið að ferðalokum og kveðjustund. Takk fyrir mig.
(Mynd: Kjartan Kjartansson)

mánudagur, 29. júní 2009

Úr Áfangagili að Landmannahelli

Sýnishorn af landslagi á gönguleiðinni. Við Skálmarar og fylgifiskar vorum tilbúin í næsta áfanga stundvíslega klukkan tíu föstudaginn tuttuguasta og sjötta júní. Nú var að standa sig framundan var tuttugu og þriggja kílómetra ganga í Landmannahelli um margt erfiðan veg upp brekkur um dali niður hæðir og yfir skörð. Jarðvegurinn var víða sendinn og mjúkur. Lengst af héldum við hópinn en það dró sundur eftir því sem leið á. Leiðin um Dauðadal var ansi löng og svört ásýndum. Nú var sólin farin að hita mann upp. Ha er þetta Valagjá? Einmitt, áfram nokkur skref. Helliskvíslin hún er köld gruggug jökulá. Ah, vatnið búið. Ég hafði ekki rænu á að notast við jökulvatnið. Blessaður karlinn hann Gísli hennar Kollu sendi mér sandalana sína til þess að ég hefði mýkra undirlag þegar ég óð yfir. Jæja svo þetta er Lambafitjahraun, úfið apalhraun, sem Guðni göngustjóri var að tala um og rann í gosi 1913. Nú það er ekki lengri yfirferðin í hrauninu. Blessaðar rollurnar þær hafa fundið skemmstu leiðina í gegnum hraunið. Nei sko, blöstu ekki Hrafnabjörgin okkar Kolbrúnar við þarna þegar við komum í gegnum Lambaskarðið á hægri hönd. Þetta vissum við en ekki hin. Ég var aðeins hressari því Pétur hafði gefið mér sopa af Jegermeister til að þynna blóðið og það virkaði svona ljómandi vel. Áfram, áfram má ekki gefast upp. Helvítis flugubitin voru farin að plaga mig: "Sveinn handleggirnir á þér eru eins og kjötflykki," hrópaði Lauga upp, sem framan af var síðust og rak tryppin. Mér snarbrá þegar ég leit á handleggina alla í blóðugum bitum og mýið sötrandi úr mér blóðið í massavís. Ég var með flugnaskýlu fyrir andlitinu en hafði gleymt "antybite" vökva til að bera á mig og verjast mýinu á handleggjum. Það er enginn einn upp til fjalla með öllu þessu mýi svo mikið er víst. Mýið var út um allt og í þvílíku magni. Herbjarnarfellsvatn já, já það er nóg af vötnum hér. Er leiðin ekkert að styttast? Lauga hvað segir gps mælirinn góði? Úff ég verð að helga gönguna göfugu markmiði til að allar góðar vættir hjálpi mér. Í þágu lands og þjóðar? Farsæla lausn Icesave? Já,já það hlýtur að vera nógu göfugt. Klukkan var að verða sex enn var spotti í Landmannahelli. Ég var orðinn langsíðustur, en hún Kolbrún brást ekki. Með sínu hæga fasi var hún komin að hlið mér - hvetjandi og styðjandi. Hvað halda þau að ég sé að gefast upp? Það skal aldrei verða. Þreyttur þrekaður en ég var ekki búinn. Þegar komið var að síðasta haftinu milli mín og Landmannahellis birtust nýir aðstoðarmenn, Svandís kórfélagi og Gylfi maður hennar auk Kristins höfðu gengið til móts við hópinn. Gylfi bauðst til að taka pokann minn. Kristinn upplýsti mig ljúfmannlega að við mundum víkja aðeins af leið. Niður næstu brekku. Þar í dalverpinu beið okkar Geimstöðin. Við fengum salibunu í henni síðustu metrana. Þrautum mínum var lokið, fjörtíu kílómetra ganga var afstaðinn. Kappinn var keyrður í síðustu metrana í 1953 árgerð af Weabon jeppa. Nóg í bili meira næst. Kveðja.

Í Áfangagili

Göngufélagarnir. Fyrsti hluti leiðarinnar var að baki. Það heitir í Áfangagili og ber nafn með rentu. Meðfylgjandi mynd er af kofanum í því ágæta gili. Ég þakkaði almættinu, hugsaði til píslargöngu Halgríms. "Upp,upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með." Nýreistur kofinn rúmaði ekki hópinn. Konurnar fengu kojurnar sem voru eins og þekkist í stríðsfangabúðum. Körlunum var vísað í hrútakofa fjær. Ég gisti í fyrsta sinn í fellihýsi hjá Kristni söngfélaga. Kvöldið var blautt, nestið borðað, bornar saman reynslusögur dagsins, spjallað um hitt og þetta, hlegið saman og sötrað á rauðvíni. Úff.. þetta var erfiður dagur og nóttin var líka erfið. Kófsvitnaði í svefnpokanum, svo kom kuldakafli, dormaði pínu, þurfti að pissa um nóttina og kunni ekki að opna fellihýsið, fann ekki gleraugun. Andskotinn ekki veit þetta á gott. Átti ég að segja þetta nóg og sleppa næsta áfanga eða halda áfram. Þetta var hugsunin sem barist var við fram undir morgun. Allt sem mér var í móti lagt fannst mér tala fyrir því að setja lokapunktinn við Áfangagil. Ég ákvað þó að lokum að halda áfram - Hellismannaleiðin var lokatakmarkið. Frá Rjúpnafelli í Landamannahelli var upphaflegt markmið mitt. Ég varð að halda áfram. Nóg í bili... meira síðar. Kveðja.
(Mynd: Kristinn Kjartansson)

sunnudagur, 28. júní 2009

Þrekaður og þakklátur - Sumarganga Skálmara

Rauð ský yfir Heklu. Ferðin að þessu sinni var að Rjúpnavöllum í Landssveit til þess að taka þátt í sumargöngu Skálmara (Félagar í Skaftfellingafélaginu). Þar var gist nóttina áður en ferðin hófst í skála. Þetta miðvikudagskvöld skaust ég upp í Landmannahelli til að selflytja bíl og koma matarbirgðum á staðinn. Þessi mynd var tekin af fjalli fjallanna, Heklu. Veðrið þetta kvöld á Landmannaafrétti var yndislegt, hlítt, heiðskýrt og stilla. Við vorum komin aftur að Rjúpnavöllum undir miðnættið.
Gestir við opnun gönguleiðar. Að morgni fimmtudagsins 25. júní var að lokinni opnunarhátið haldið af stað hina nýstikuðu Hellismannaleið. Meðal opnunargesta voru ýmsir ferðamálafrömuðir og forsvarsmenn Hellismanna. Göngufólk alls nítján félagar héldu af stað klukkan hálf tólf. Göngustjóri var Guðni Olgeirsson ásamt konu sinni Sigurlaugu Jónu Sigurðardóttur. Leiðin lá fyrst upp með Ytri - Rangá með Búrfell á vinstri hönd. Fyrsti áfanginn var um 17 km og var komið í Áfangagil um hálf sjöleytið. Næsta dagleið var úr Áfangagili í Landmannahelli um 23 km leið og lokaáfanginn var úr Landmannahelli í Landmannalaugar. Þennan fyrsta dag var mótvindur og rigning seinni hluta leiðarinnar. Margt fer í gegnum hugann á göngu sem þessari. Smátt og smátt víkur veraldleg hugsun um dægurmálin en spurningin, hversvegna ertu að leggja þetta á þig kallar á svar eftir því sem líður á gönguna. Mín niðurstaða er að maðurinn er að takast á við sköpunina sjálfa, móðir Jörð í öllu sínu veldi. Maðurinn skynjar fljótt að í smæð sinni á hann allt sitt undir þessari sköpun og hann er hluti af öllu verkinu. Efst í huga verður þakklætið fyrir að vera hluti af tilverunni og átökin kalla á lítillæti eftir því sem meira reynir á þrekið. Ég stoppa hér í bili meira síðar..... Kveðja.

þriðjudagur, 23. júní 2009

Skuldaaukningin áhyggjuefni

Viðtal í Mbl. 30. ágúst árið 2000!!! Sjá nánar það sem er leturbreytt. Þær voru þurrar kveðjurnar frá bankamönnunum eftir þessa greiningu. En hver hlustar á varnaðarorð þegar allt leikur í lyndi eða öllu heldur þegar veislan er rétt að byrja.

Skuldaaukningin áhyggjuefni
Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, bendir á að skoða þurfi skuldsetningu greinarinnar í samhengi við eignastöðu. Þannig hafi nýfjárfesting í fiskiskipum verið töluverð að undanförnu. Engu að síður sé skuldaaukning sjávarútvegsins áhyggjuefni. "Fjárfestingin hefur verið mikil og það hlýtur að endurspeglast í skuldastöðunni. Eins og horfur eru núna er það áhyggjuefni hversu afkoma sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur versnað. Kostnaður við útgerðina hefur vaxið gríðarlega að undanförnu. Olíukostnaður vegur þungt í rekstrargjöldum útvegsins en olíureikningur útvegsins hefur hækkað um tvo og hálfan milljarð á síðustu tólf mánuðum þó vissulega komi lækkuð hlutaskipti þar á móti. Almennt hækkandi kostnaðarstig í þjóðfélaginu skilar sér í dýrari aðföngum og þjónustu til útgerðar. Verðbólga upp á rúm 5% er með öllu óásættanleg fyrir sjávarútveginn. Þetta verðbólgustig er hærra en í öllum helstu viðskiptalöndum okkar. Það gengur hins vegar ekki að hver bendi á annan. Það þurfa allir að bregðast við verðbólgunni og draga úr tilkostnaði vöru og þjónustu. Þróun vaxtakostnaðar er eitt stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Ég fæ ekki séð að allt það púður, sem sett hefur verið í uppstokkun á fjármálamarkaðnum hér á landi, hafi skilað sér í betri vaxtakjörum útlána eða innlána. Aukið frelsi á fjármálamarkaði síðustu ár hefur leitt til stóraukins framboðs á lánsfjármagni, á kjörum sem fá ekki staðist til lengdar. Hinn nýi fjármálamarkaður hefur einkennst um of af skammtíma gróðasjónarmiðum og glannaskap. Eftir stendur að fjármálaþjónusta her á landi er of dýr. Atvinnulífið getur ekki til langframa staðið undir þessum kjörum, það eitt er víst."

Óstöðvandi framkvæmdagleði

Grein í Mbl. 1. apríl 2006. Svo er sagt að enginn hafi varað við.

Sveinn Hjörtur Hjartarson spyr hvað ríkisvaldið geri til þess að ná stöðugleika: "Mikilvægt er að gæluverkefni séu sett í bið á meðan þenslan er jafnmikil og raun ber vitni..."

MIKIL þensla einkennir nú íslenskt efnahagslíf. Ástæða þess er öðru fremur mikil bjartsýni í þjóðfélaginu sem birtist í kaupgleði og gríðarlegum framkvæmdum. Við nánast hvern einasta blett á höfuðborgarsvæðinu má sjá heilan skóg af byggingakrönum til marks um þá gríðarlegu fjárfestingu sem er í húsnæði. Svo eru stóriðjuframkvæmdir og álversbyggingar í áður óþekktum stærðarskala sem enn auka á þensluna. Á síðasta ári voru fluttar inn um 25 þúsund bifreiðar til að nefna annað dæmi meira og minna fyrir erlent lánsfé.
Seðlabankinn hefur það hlutverk með höndum að slá á þenslu og halda verðbólgu í skefjum. Það tæki sem hann hefur til þess eru helst stýrivextirnir sem hann hefur nú hækkað oftar en nokkur man í viðleitni sinni til þess að slá á þensluna. Árangurinn hefur því miður látið á sér standa. Ástandið hefur hinsvegar leitt til þess að erlendir aðilar hafa hafið útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum í þeim tilgangi að nýta sér þá háu vexti sem eru á slíkum bréfum. Þessi bréf stuðla aftur að enn frekari hækkun á genginu þegar fram í sækir og aukinni eftirspurn eftir erlendum lánum. Þetta hefur skapað útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegunum mikla erfiðleika. Minna fæst í krónum fyrir afurðirnar og þeim er gert erfiðara fyrir í samkeppni um starfsfólk og að mæta hækkandi innlendu kostnaði. Fróðlegt væri að vita hversu mikinn þátt hátt gengi íslensku krónunnar á í því að Bandaríkjamenn hafa gefist upp við að gera út herstöðina. Það skyldi þó ekki vera að krónan ætti stóran þátt í því.

Á meðan Seðlabankinn hefur leitast við að kæla efnahagslífið hefur ríkisvaldið, þ.e.a.s. sá aðili sem felur bankanum að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu, kynt svo um munar undir. Ekkert lát er á fréttum um hvert stórverkefnið á fætur öðru. Nú síðast var tilkynnt að fyrirtæki á vegum ríkisins og borgarinnar væri búið að gera samning við annað fyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar en byggingarkostnaður er áætlaður 12,5 milljarðar króna. Tengt þessu verkefni eru enn frekari framkvæmdir sem þess vegna geta kostað annað eins.

Myndir af skælbrosandi fjármálaráðherra birtast forsvarsmönnum útflutnings- og samkeppnisatvinnugreina í fjölmiðlum við undirskrift á nefndu gæluverkefni þeim til mikillar hrellingar. Þetta gerist á sama tíma og Seðlabankinn, Hagfræðistofnun og aðrir þeir er láta sig varða stöðu efnahagslífsins hvetja eindregið til aðhalds og samdráttar í útgjöldum hins opinbera. Hagfræðistofnun HÍ hefur reiknað út að með tæplega níu milljarða króna lækkun ríkisútgjalda megi lækka stýrivexti um 0,8%. Engin merki eru um að menn taki þessar ábendingar stofnunarinnar alvarlega.

Mikilvægt er að gæluverkefni séu sett í bið á meðan þenslan er jafnmikil og raun ber vitni og í ljósi yfirhlaðinnar verkefnastöðu í þjóðfélaginu í heild. Því miður eru engin merki um slíkan vilja. "Gleðin" heldur áfram með vaxandi hraða og enginn er maður með mönnum nema hann taki þátt í henni. Fyrr en síðar kemur að því að veislunni lýkur og ef óvarlega er farið er hætt við timburmönnum. Allar eru þessar framkvæmdir meira og minna fjármagnaðar með erlendum lánum. Við verðum að geta staðið undir þeim. Verði haldið óhikað áfram miklu lengur í þessum takti er næsta víst að mörgum verði lífið erfitt þegar fram líða stundir. Í ljósi þessa er afar mikilvægt að ríkisvaldið taki sér nú tak og fresti þeim framkvæmdum sem mögulegt er og styðji þannig við þá viðleitni Seðlabankans að slá á þensluna og skapa hér viðunandi starfsumhverfi fyrir undirstöðuatvinnuvegi okkar.

mánudagur, 22. júní 2009

Bláeygðir og plataðir.

Ég var að lesa Tíund í dag, blað Ríkisskattstjóra. Þar er athyglisverð grein um hverjir það voru sem töpuðu hlutafé í bönkunum. Auðvitað voru það við þessir einstaklingar, sem áttum nokkur bréf í þessum bönkum. Hákarlarnir voru flestir með sínar fjárfestingar í félögum "óháðum" eigin efnahag."Við" erum tugþúsundir einstaklinga sem höfum tapað á þessum fjárfestingum í bönkunum. Skrattakollarnir sem vissu hvert stefndi voru svo ýmist búnir að selja og/eða flýja bankana eins og dæmin sýna. Líklega mun taka nýjar kynslóðir og áratugi áður en venjulegir launþegar munu treysta hlutabréfamarkaðnum að nýju hvað þá bönkum. Auðvitað fylgir því aukin áhætta að fjárfesta í hlutabréfum. En að innviðir bankanna væru jafn rotnir og nú hefur komið í ljós hvarflaði ekki að manni. Eins og segir í greininni er þessi staða litlu fjárfestanna sem hafa tapað öllu sem þeir áttu í þessum bönkum smámunir miðað við þá alvarlegu stöðu sem þjóðin er í um þessar mundir.

föstudagur, 19. júní 2009

Sögur af bankaruglinu.

Þegar bankaruglið stóð sem hæst tóku bankarnir upp á því að bjóða helstu viðskiptamönnum sínum í flottar utanlandsferðir. Gárungarnir sögðu að þeir sem væru valdir í svona lúxusferðir væru ýmist þeir sem ættu milljarð króna í bankanum eða skulduðu honum milljarð króna. Í þessum ferðum var boðið upp á allt það flottasta í mat og drykk sem hugsast gat. Í einni ferð til Ítaliu segir sagan að fengin hafi verið íslensk sönkona og píanóleikari til að leika og syngja þrjú lög fyrir gesti bankans. Píanóleikarinn var spurður hvaða tegund hljóðfæris hann vildi fá við undirleikinn. Hún hafði heyrt af flygli sem væri sérstaklega hannaður fyrir konur og nefndi að hana langaði að prófa hann. Vandamálið var hinsvegar það að þessi tegund var ekki til á Ítalíu. Þá var brugðið á það ráð að fá leigðan eitt eintak í næsta landi, Austurríki og bíll með sex píanóflutningsmönnum sendur frá Vín til Mílanó til þess að uppfylla óskir píanóleikarans. Engar sögur fara hinsvegar af því hvernig til tókst við flutning þessara þriggja laga við borðhaldið. Nú skuldum við Íslendingar 700 milljarða króna í Englandsbanka og þá vaknar spurningin hvort samið hafi verið um sömu lúxusferðakjör og hér þekktust fyrir okkur sem skuldum þessa peninga. Mega 700 Íslendingar eiga von á því að vera dregnir úr potti í svona lúxusferðir á næstu árum hjá Englandsbanka eða var þetta enn eitt séríslenska fyrirbærið þessar lúxusferðir?

miðvikudagur, 17. júní 2009

Á þjóðhátíðardaginn.

Mæðgurnar
Við erum búin að fara tvisvar niður í miðbæ í dag. Fyrst fórum við upp úr tvö með Sigrúnu Huld og gengum hring umhverfis tjörnina í öllu mannhafinu. Þekktum að vísu engan. Veðrið var yndislegt þótt víða gæfi að líta skýjabakka fjær. Við gengum Tjarnargötuna til baka til þess að sleppa úr mestu mannþrönginni.
Sirrý og Sveinn Hversu oft hefur maður ekki rölt í niður í bæ á þessum degi. Fjær má sjá mannfjöldann á göngu eftir Fríkirkjuveginum. Þetta var nú á barns- og unglingsárunum sá dagur sem manni þótt hvað mest spennandi að fara í bæinn.
Hjörtur, Unnur, Sirrý og Sveinn Það er enginn 17. júní án þess að skella sér í miðbæinn að kvöldi til og taka stöðuna. Þetta hefur maður gert allt frá barnæsku og engin ástæða að hætta því þótt árunum fjölgi. Það eru nýjar kynslóðir sem hafa tekið við þessu bæjarrölti meira og minna. Við gengum frá Arnarhóli að Ingólfstorgi með viðkomu á Austurvelli. Skoðuðum fallegan blómvöndinn við styttu Jóns Sigurðssonar eftir að hafa gengið í mannhafinu í Austurstræti og hlustað á tónlist við Arnarhól. Nú rölti maður í bæinn með foreldrunum. Það hefði manni nú ekki þótt nógu gott á unglingsárunum en tímarnir breytast og mennirnir með.

sunnudagur, 14. júní 2009

Á söguslóðum Laxdælu.

Mikils er mjór vísir. Við félagar í Rótarýklúbbi Kópavogs fórum í gær ásamt mökum í ferð um söguslóðir Laxdælu. Farið var frá Turninum kl. 9.00 og komið til baka um miðnættið í bæinn. Saganastundin um Laxdælu hófst við Esjuberg en þar kom Auður Djúpauðga fyrst til Íslands. Fyrsti áfangastaðurinn var hjá Rótarýfélaga og eiginkonu hans sem búa að Oddsstöðum i Miðdölum. Á myndinni gróðursetur forseti klúbbsins hríslu í tilefni heimsóknarinnar. Síðan lá leiðin í Haukadal að Eiríksstöðum og tilgátuhús sem byggt er samkvæmt heimildum um hús karlsins skoðað þar. Þá var brunað í Búðardal og skoðað brúðarval, já eða þannig. Komið við í Leifsbúð og skoðuð Vínlands- landafundasýning sem þar hefur verið sett upp.
Kirkjan á Stað á Skarðsströnd.
Þar næst var Skarðströndin keyrð með leiðsögumanni og stoppað við Krosshólaborg, Kjarlaksstaðaá, Klofningi og loks var genigð til Kirkju að Skarði og saga hennar og Ólafar ríku rifjuð upp. Hver man ekki orð hennar við fréttir af andláti bónda síns: Eigi skal gráta Björn bónda heldur leita hemda. Eftir að enskir höfðu drepið mann hennar. Margt fallegra kirkjugripa er í kirkjunni og sérstaka athygli vakti mynd á predikunarstól og gömul altaristafla.
Staðarhólskirkja og minnismerki skáldjöfranna. Í Saurbænum keyrðum við framhjá þessari kirkju og minnismerki um skáldin Jóhannes úr Kötlum, Stefán frá Hvítadal og Stein Steinarr sem allir tengjast þessu svæði. Fyrr um daginn vorum við búin að minnast Jóns frá Ljárskógum. Nú lá leiðin til baka í gegnum Svínadal og var þar tekist á um hvern Guðrún Ósvífursdóttir hafi átt við þegar hún sagði: Þeim var ég verst er ég unni mest. Hringnum var lokað á Laugum og þar borðaður kvöldverður. Að loknu borðhaldi var svo brunað í bæinn og þanngað komið undir miðnætti eins og áður sagði.

miðvikudagur, 10. júní 2009

How wonderful live is.....

Kraftur í karli. Í kvöld fór ég í eina af gönguferðum mínum um Elliðaárdal með Skálmurum sem eru að uppistöðu fólk ættað úr Skaftafellssýslum og söngfélagar úr Söngfélagi Skaftfellinga. Ég hef sagt ykkur nokkrum sinnum frá þessum göngum sem ég hef verið að fara í vetur með þessum hópi. Enginn veit hvílík perla Elliðaárdalurinn er fyrr en hann hefur kynnst honum í návígi á göngu um vetur að vori og um sumar. Nú á ég eftir að kynnast honum að hausti. Náttúrufegurð svæðisins er einstök og endurnærir gangan og veran í dalnum bæði sál og líkama. Það eru mikil forréttindi að hafa þvílíka perlu inn í miðri borginni.
Kermóafoss. Ég læt þessa mynd fylgja með til þess að sýna ykkur dæmi um þær náttúruperlur sem þarna gefur að líta.
Göngufélagarnir eru margir miklir göngugarpar sem fara flestir í langar gönguferðir á sumrin um óbyggðir landsins. Skálmið í Elliðaárdal er undirbúningur hjá mörgum undir slíkar ferðir. Vonandi á maður eftir að upplifa slíka reynslu áður en langt um líður. Kveðja. (Myndir: Kristinn Kjartansson) Á myndinni eru einnig Skálmararnir Svandís Kristiansen og Kjartan Kjartansson.

þriðjudagur, 9. júní 2009

Á Mosfelli

AGGF hópurinn. Í kvöld fór ég með níu félögum í AGGF leikfimihópnum mínum á Mosfell. Við vorum einn og hálfan tíma að ganga á fjallið og til baka. Veðrið var frábært til göngu, svalur andvari og svona ekta gönguveður. Á leiðinni upp veltum við því fyrir okkur hvar sjóður Egils gæti legið. Engar raunhæfar uppástungur leiddu til frekari eftirgrenslan okkar. Gott væri að hafa hann tiltækan nú til að greiða Icesave skuldir okkar, sem einnig voru til umræðu. Fátt er betra til að hreinsa hugan af veraldlegu amstri en svona hæfileg fjallganga. Maður gerir allt of lítið af þessu. Næsta þriðjudag verður gengið á Meitilinn. Kveðja.

sunnudagur, 7. júní 2009

Sjómannadagsþankar

Óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn. Sjómannadagurinn er ávallt fyrsti sunnudagur í júní, nema hann beri upp á hvítasunnu þá færist hann til um viku. Það er ánægjulegt hvað vegur þessa dags hefur aftur farið vaxandi. Veðrið hefur verið einmuna gott um þessa helgi og ekki hefur það skemmt fyrir hátíðarhöldum. Í gær var því fagnað að 65 ár voru frá innrásinni í Normandý sem markaði þáttaskil í seinni heimstyrjöldinni og var upphafið að endalokum nasismans. Það var áhrifaríkt að sjá alla þessa öldnu hermenn mætta til að taka þátt í hátíðarhöldunum í sjónvarpinu. Þeir söknuðu Elísabetar drottningar sem var ekki boðið. Hún er eini eftirlitfandi þjóðhöfðinginn sem gékk í sama einkennisbúningi og hermennirnir eins og þeir orðuðu það gömlu mennirnir og táruðust. Nú hefur G. Brown þurft sviðið til þess að treysta stöðu sína gagnvart almenningi, en frægðarsól hans þverr nú óðum að sögn fjölmiðla. Þarna var mættur nýr forseti Bandaríkjanna, Obama. Það minnir mig aftur á Icesave málið sem nú er verið að semja um fyrir luktum dyrum. Merkilegt að það skuli ekki enn liggja fyrir hverjir beri ábyrgð á því að landsmenn séu orðnir ræðarar á breskum og hollenskum skuldagaleiðum svo notað sé líkingamál.

laugardagur, 6. júní 2009

Í afmælisveislu Lilju

Við Sirrý og Sigrún fórum í afmælisveislu hennar Lilju okkar í dag. Stúlkan er orðin tveggja ára gömul. Í fyrsta skipti heyrði ég hana segja afi Svenni. Svo kann hún að nefna marga liti sú litla og fer málþroska hennar ört fram. Nú opnaði hún af áhuga alla afmælispakkana enda var Sveinn Hjörtur frændi hennar ekki til staðar til þess að taka að sér það verk eins og síðast. Kveðja.

Söde skovbær og sure sild

Saga Gärde.
Mikið er yndislegt að enda vinnuvikuna á því að setjast inn í Norræna húsið á föstudagskvöldi. Fá sér eitt kælt vínglas og hlusta á flotta söngkonu taka nokkur sænsk vísna- og jazzlög. Þetta ætti maður að gera oftar. Tónleikarnir báru yfirskriftina "Söde skovbær og sure sild" eða "Sæt skógarber og kæst síld". Sænska leik- og söngkonan Saga Gärde söng eins og engill við undirleik feðganna Anders Ahnfelt - Rönne á píanó og harmóníku og Lars Rönne á kontrabassa. Það var bara eins og Monica Cetterlund væri endurfædd. Framburður og túlkun var mjög góð og söngurinn lírískur. Maður verður svo þakklátur og mjúkur eftir svona fallegan og ljúfan söng. Hluti af efnisskránni voru jazz útsetningar eftir Jan Johannsson og svo ýmsar sænskar perlur eins og Ak Värmland du sköna, Monica´s vals, Trubbel, Om natten m.m. Kveðja.

fimmtudagur, 4. júní 2009

Út í Eyjum.

Fór um hádegisbilið út í Eyjar á ráðstefnu sem þar var haldin um fyrningu aflaheimilda í sjávarútvegi. Þetta var fjölmenn ráðstefna með alls um 200 þátttakendum víða að komnum til þess að hlíða á fróðleg erindi og taka þátt í pallborðsumræðu. Mikil andstaða kom fram við þessa leið á fundinum og allflestir fundarmenn vöruðu við henni. Þessi lítt útskýrða hugmynd felst í því að taka af útgerðum veiðiheimildir og ráðstafa þeim á pólitískum forsendum eða bjóða þær hæstbjóðanda til sölu. Maður hefði talið að mikilvægari verkefni væru á dagskrá stjórnvalda sem glíma við mikinn fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja, gríðarlegt atvinnuleysi og vaxandi vonleysi fólks. Er þetta ekki stjórnmálaumræða í hnotskurn? Forðast að ræða um það sem skiptir máli, en láta umræðuna snúast um það hvernig megi auka óhagræði í sjávarútveginum, þeirri atvinnugrein sem stendur undir stórum hluta gjaldeyrisöflunarinnar og þarf nú sem aldrei fyrr að ganga eins vel og kostur er. Miðað við gang mála býð ég ekki í framhaldið á næstu mánuðum.

miðvikudagur, 3. júní 2009

Gamlar myndir.

1967 Fékk þessa mynd senda á Facebook frá Jensínu Eddu Hermannsdóttur frænku minni. Hún er tekin á æskuheimili mínu á Víðihvammi 17 líklega sumarið 1967. Þarna er maður að æfa sig á píanóið sem unglingur.
2007 Þessi mynd er tekin fjörtíu árum síðar í Kópavogskirkju við skírn Lilju minnar. Enn er maður að rembast við þetta hljóðfæri með takmörkuðum árangri. Langaði að deila þessu með ykkur. Kveðja.

þriðjudagur, 2. júní 2009

Dalai Lama

Dalai Lama. Við Sirrý og Sigrún fórum út í hátíðarsal Háskóla Íslands að hlíða á Dalai Lama. Þegar við komum var fullt í salnum þannig að við tókum á móti honum og fylgdarliði á ganginum og hlýddum þar á hann. Við höfum lesið bækur hans að einhverju marki, séð kvikmynd og sjónvarpsþætti um líf hans og starf og fylgst með umfjöllun um málefni Tíbets. Hernám Kínverja á Tíbet og valdníðsla og er þeim til lítils sóma. Það er mikilvægt að Kínverjar fái áframhaldandi þau skilaboð að slík framkoma verður ekki liðin. Við þekkjum það orðið við fall sovétskipulagsins að það er ekki varanlega hægt að koma í veg fyrir að frelsið sigri að lokum. Frelsi er eitt af því dýrmætasta sem sérhver einstaklingur getur öðlast. Inn á þetta kom hinn aldni leiðtogi þegar hann var spurður um líf sitt sem flóttamaður og hvar hann ætti heima - það er betra að vera frjáls þess vegna er "heima" núna á Indlandi sagði hann. Dalai Lama kom inn á mikilvægi kærleikans og þess að bjóða óvini sínum hina kinnina þegar hann slær þig. Hafa það í huga að óvinur þinn væri til síðrum og síst líka maður. Hvernig sigrast megi á reiði og ótta með jákvæðum lífsviðhorfum. Hvernig trúin sé forsenda trausts manna í milli og undirstaða siðferðis í samskiptum manna. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að hann væri aðeins maður, búddamúnkur og gerði létt grín að titlatogi. Óformleg samskipti manna í milli hentuðu sér betur. Styrkur sérhvers manns fælist í lítillæti hans. Dalai Lama hefur sterka útgeislun og létt sinni hans auðveldar honum að ná til viðstaddra. Kveðja. (mynd:mbl.is)

mánudagur, 1. júní 2009

Blúsað upp um sveitir.

The Lame Dudes Í gærkvöldi á hvítasunnudag, á hátíð hins heilaga anda fórum við á tónleika upp í Fljótshlíð og hlýddum á hljómsveitina The Lame Dudes leika fyrir uppsveitunga Rangárvallasýslu. Þarna var góður hópur mættur til þess að njóta tónlistarinnar, þar á meðal fulltrúi hins þríheilaga. Ef almættið hefur skemmt sér jafnvel og við sem hlýddum á hljómfallið, þá hefur líka verið mikið fjör á himnum og því vel stofnað til þessara tónleika. Fátt hressir betur andann en lifandi flutningur tónlistar. Hljómsveitin endurflutti nánast öll lögin aftur undir dynjandi lófataki áheyrenda. Blúsinn á rætur sínar að rekja í trumbuslætti Afríku, striti og sliti bómullarakranna, þakkargjörð þeldökkra í guðshúsum og ölvímu á öldurhúsum í borgum og bæjum. Svo birtist hljómfallið öllum að óvörum í flutningi íslenskra manna á bjartri sumarnóttu, sem ná að túlka þessa dýpstu mótunarkrafta mannsins þannig að ekki verður betur gert og það með íslenskum formerkjum - hvílík snilld. Hvaðan koma þessir hæfileikamenn, hvert liggur leið þeirra? Allt á sinn tíma og sína stund svo mikið er víst að í gærkvöldi náðu þeir nýjum hæðum í túlkun sinni. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Við viljum meira af þessu.