laugardagur, 25. febrúar 2012

Okkar er að upplifa og njóta.

Seltjarnarneskirkja. Málverkið er eftir Kjartan Guðjónsson (1910 – 2010) listmálara og hangir nú á vegg í Seltjarnarneskirkju. Listamaðurinn er afkomandi sr. Bjarna Einarssonar prests í Álftaveri sem þjónaði Þykkvabæjarklausturskirkju á fyrrihluta 20. aldar. Myndin sýnir Krist lausan undan þjáningu krossins. Í bakgrunni er lítil íslensk sveitarkirkja, sem gæti vel táknað Þykkvabæjarklausturskirkju. Hér er mynd sem samvefur afskekkta sveit og trúarupplifun listamannsins. Þegar kórfélögum var bent á þessa tengingu myndarinnar við Álftaver gat kórstjórinn Friðrik Vignir Stefánsson að kirkjuvörðurinn hefði spurt hvort ekki væru einhverjir hávaxnir í kórnum sem gætu hengt myndina upp á veginn. Það varð úr að Friðriki til aðstoðar voru fengin til verksins þau kórfélagarnir Gísli Þórörn Júlíusson og Sigurveig Þóra Sigurðardóttir, sem bæði eru ættuð úr Álftaveri. Þar með var þetta orðin þríheilög tenging þ.e. við listamanninn, sveitina og söngfélagið. Kjartan hefði kunnað að meta þessa gleðistund. Einum kórfélaga varð að vísu á orði að enginn væri austurglugginn á Þykkvabæjarklausturskirkju. Því er þá til að svara að ekki var Jesús sjálfur heldur krossfestur þar. Myndmálið er eigi að síður skýrt og hughrifin kalla fram þessa hugsun. Gleðin í látbragði þeirra sem önnuðust verkið er einlæg og fölskvalaus. Ef til vill mun listamanninum síðar verða að ósk sinni og austurgluggi settur á kirkjuna. Það er eðli listarinnar að listamaðurinn hefur frjálsar hendur við sköpunina. Okkar er að upplifa og njóta. Kveðja.
(Myndina tók Kristinn Kjartansson frá Þórisholti í Mýrdal.)

fimmtudagur, 23. febrúar 2012

"Lífið er stutt, lifðu því."


Lífið er stutt, lifðu því sagði vinur minn við mig í vikunni. Eftir því sem aldurinn færist yfir gerir maður sér betur grein fyrir því að ef vinna á úr "óskalistanum," þarf að gefa honum aukið gaum. Á mínum lista fyrir svona tíu árum var ýmislegt sem mig langaði, en fannst svolítið fyrir utan ramma hins daglega lífs þá. Syngja í kór, læra á píanó, grúska í nótum, fara í gönguferðir í óbyggðum. Ég ákvað þá að sinna þessum áhugamálum mínum. Nú þegar maður lítur til baka upplifir maður að margt á gamla listanum er orðið hluti af tilverunni.Það þýðir alls ekki að gömul áhugamál hafi öll verið lögð til hlutar. Það er eins og maður auki virkni almennt ef maður bryddar upp á nýjum verkefnum. Það skemmtilegasta við það að fylgja löngun sinni er að maður kynnist fólki sem deilir sömu áhugamálum. Maður öðlast nýja reynslu og eignast nýja vini. Maður má hinsvegar ekki þar við sitja. Það er nauðsynlegt að fara öðru hvoru yfir listann og kanna hvort ekki séu einhver ný atriði á listanum sem vert er að skoða betur. Læt þetta duga í bili. Datt þetta bara í hug, svona í tilefni dagsins. Kveðja.
(Myndin af fötunni er fengin að "láni" af netinu.)

þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Heimferðardagur.

Bara svo því sé nú haldið til haga þá hefur hlýnað mikið hér í Hässleholm. Tíminn líður sem örskotsstund og við höfum átt hér fína daga. Afmælið hjá nafna var glæsilegt. Fullorðna fólkið ræddi mikið um dægurmálin svo sem Evrópumálin, kjör lækna heima og heiman, enda fimm slíkir í veislunni, fjármálakrísuna og vanda Grikkja, öryggi lestarferða í Svíþjóð og veiði í íslenskum vötnum. Auðvitað er hugurinn hjá Íslendingum á Íslandi en ekki hvar? Hvað ber yfir sér meiri ævintýrablæ en að liggja úti við Langasjó og vitja netalagna? Ef til vill litla sumarhúsið í sænsku kóloníunni? Við eigum öll okkar drauma og væntingar. Einhver kann að telja það best að lúra á "bréfunum" sínum eitthvað áfram og láta sig bara dreyma um langanir sínar. En aurarnir verða ekki teknir yfir um, svo mikið er víst. Ég hef keypt svolítið af bókum núna. Ævisögu Olavs Palme, ævisögu Per Almark og ævisögu Arju Saijonmaa. Það segir kannski eitthvað um bloggarann þ.e áhugann á stjórnmálasögu, músík og reynslusögum annarra nú eða bara finnskum konum. Líklega best að setja punktinn hér. Kveðja.

sunnudagur, 12. febrúar 2012

Hässleholm í febrúar.

Höfum dvalið hér í Hässleholm yfir helgina. Það ríkir vetrarveður allt að 9 stiga frost og snjóföl yfir öllu. Við fórum til Lundar í gær og áttum þar góðan dagpart. Fórum m.a. í Akademi bokhandeln og á veitingahús. Lestarsamgöngur voru í ólagi þannig að við fórum með rútu frá Hässleholm til Eslöv og þaðan með lest til Lundar. Það var ágætis afþreying að keyra í rútunni um þennan hluta Skåne og sjá aðeins annað landslag og bæi. Í dag vorum við í 7 ára afmæli nafna míns í Kristianstad. Flott veisla með vinum þeirra Stjánastaðarbræðra. Annars höfum við haft það gott í "líunni" okkar og hún er alltaf að verða persónulegri og skemmtilegri. Fréttir eru sagðar frá vaxandi spennu í Grikklandi en þar er við mikla efnahagserfiðleika að stríða og svo eru fréttir af andláti söngkonunnar Whitney Huston fyrirferðamiklar í fréttum. Nú vill F. Reinfeldt forsætisráðherra Svía hækka eftirlaunaladurinn og virkja konur til aukinna dáða í atvinnulífinu. Kveðja.