þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Heimferðardagur.

Bara svo því sé nú haldið til haga þá hefur hlýnað mikið hér í Hässleholm. Tíminn líður sem örskotsstund og við höfum átt hér fína daga. Afmælið hjá nafna var glæsilegt. Fullorðna fólkið ræddi mikið um dægurmálin svo sem Evrópumálin, kjör lækna heima og heiman, enda fimm slíkir í veislunni, fjármálakrísuna og vanda Grikkja, öryggi lestarferða í Svíþjóð og veiði í íslenskum vötnum. Auðvitað er hugurinn hjá Íslendingum á Íslandi en ekki hvar? Hvað ber yfir sér meiri ævintýrablæ en að liggja úti við Langasjó og vitja netalagna? Ef til vill litla sumarhúsið í sænsku kóloníunni? Við eigum öll okkar drauma og væntingar. Einhver kann að telja það best að lúra á "bréfunum" sínum eitthvað áfram og láta sig bara dreyma um langanir sínar. En aurarnir verða ekki teknir yfir um, svo mikið er víst. Ég hef keypt svolítið af bókum núna. Ævisögu Olavs Palme, ævisögu Per Almark og ævisögu Arju Saijonmaa. Það segir kannski eitthvað um bloggarann þ.e áhugann á stjórnmálasögu, músík og reynslusögum annarra nú eða bara finnskum konum. Líklega best að setja punktinn hér. Kveðja.

Engin ummæli: