laugardagur, 25. febrúar 2012

Okkar er að upplifa og njóta.

Seltjarnarneskirkja. Málverkið er eftir Kjartan Guðjónsson (1910 – 2010) listmálara og hangir nú á vegg í Seltjarnarneskirkju. Listamaðurinn er afkomandi sr. Bjarna Einarssonar prests í Álftaveri sem þjónaði Þykkvabæjarklausturskirkju á fyrrihluta 20. aldar. Myndin sýnir Krist lausan undan þjáningu krossins. Í bakgrunni er lítil íslensk sveitarkirkja, sem gæti vel táknað Þykkvabæjarklausturskirkju. Hér er mynd sem samvefur afskekkta sveit og trúarupplifun listamannsins. Þegar kórfélögum var bent á þessa tengingu myndarinnar við Álftaver gat kórstjórinn Friðrik Vignir Stefánsson að kirkjuvörðurinn hefði spurt hvort ekki væru einhverjir hávaxnir í kórnum sem gætu hengt myndina upp á veginn. Það varð úr að Friðriki til aðstoðar voru fengin til verksins þau kórfélagarnir Gísli Þórörn Júlíusson og Sigurveig Þóra Sigurðardóttir, sem bæði eru ættuð úr Álftaveri. Þar með var þetta orðin þríheilög tenging þ.e. við listamanninn, sveitina og söngfélagið. Kjartan hefði kunnað að meta þessa gleðistund. Einum kórfélaga varð að vísu á orði að enginn væri austurglugginn á Þykkvabæjarklausturskirkju. Því er þá til að svara að ekki var Jesús sjálfur heldur krossfestur þar. Myndmálið er eigi að síður skýrt og hughrifin kalla fram þessa hugsun. Gleðin í látbragði þeirra sem önnuðust verkið er einlæg og fölskvalaus. Ef til vill mun listamanninum síðar verða að ósk sinni og austurgluggi settur á kirkjuna. Það er eðli listarinnar að listamaðurinn hefur frjálsar hendur við sköpunina. Okkar er að upplifa og njóta. Kveðja.
(Myndina tók Kristinn Kjartansson frá Þórisholti í Mýrdal.)

Engin ummæli: