föstudagur, 27. júlí 2007

Í Garðsbúð á Snæfellsnesi

Minnernas kamin.
Við skelltum okkur vestur á Snæfellsnes um síðustu helgi í sumarhús LÍÚ. Húsið sem við gistum í heitir Garðsbúð. Þegar ég fór í gegnum gestabækur hússins sá ég 16 ára gamla færslu sem ég skrifaði þegar ég gisti í þessum bústað síðast. Óneitanlega vakti þetta upp ýmsar gamlar minningar frá þessum tíma þegar við vinnufélagarnir fórum nokkrar hvítasunnuhelgar í röð að gera bústaðina klára fyrir sumarið.






Hellnakirkja. Ein kirkjan í safnið. Bústaðirnir eru á Hellnum. Við komum þarna fyrst 1986 og á hverju ári í mörg ár, en síðastliðin 10 ár eða svo höfum við ekki komið að Hellnum. Mikið hefur breyst á þessum tíma og byggingum fjölgað. Veðrið lék við okkur og við notuðum tímann til þess að fara í gönguferðir um staðinn.








Við Maríulind. Foreldrar mínir komu í heimsókn til okkar. Röltum við niður að Maríulind. En þar mun hún hafa birtst Guðmundi Arasyni biskup árið 1230. Ábúendur settu styttu af Maríu mey við lindina árið 1989 og er þessi staður fjölsóttur af fólki.










Sirrý amma með Jóa og Svenna.Ingibjörg og Margrét komu í heimsókn með afa- og ömmustrákana. Það var að sjálfsögðu fjör á Læk á meðan á heimsókn þeirra stóð.










Bryggjurúntur á Hellissandi. Við keyrðum um Snæfellsnesið út á Hellissand og Rif og til Ólafsvíkur. Auðvitað var tekinn bryggjurúntur í leiðinni eins og sjá má á þessari mynd. Mikið af kríu á vestanverðu nesinu.









Gufuskálavör. Við skoðuðum þessa gömlu vör við Útskála. Víða má sjá minjar liðinna útgerðarhátta svo sem í Dritvík og á Djúpalónssandi. Við fórum til Ólafsvíkur og heimsóttum Hermann og Eddu. Nú á þriðjudaginn fórum við aftur í bæinn. Sigrún var að byrja í vinnunni aftur. Hér var afmæli í gær í tilefni þess að heimasætan varð 20 ára. Ingibjörg hefur verið í heimsókn hjá okkur með Svenna og Jóa. Þetta eru svona helstu fréttir úr fríinu. Kveðja.

miðvikudagur, 18. júlí 2007

Sumarfrí

Þessi bloggari er í sumarfríi. Hann hefur frá engu að segja í bili. Vonandi mætir hann aftur til leiks þegar hann er búinn að hlaða batteríin að nýju eftir sumarfrí. Lesendum eru sendar bestu sumarkveðjur og óskir um ánægjulega daga. Kveðja.

laugardagur, 14. júlí 2007

Dýrðardagar.

Borg á Mýrum séð frá Borgarnesi.
Sumardagarnir eru yndislegir. Sól, sól, hiti, hiti og meiri sól. Það er ekki hægt að biðja um meira. Í gær var skotist austur fyrir fjall eftir vinnu til þess að athuga hvað Helgi og Kolli væru búnir að veiða mikið í Iðu. Aðeins einn lax var kominn á land og hafði Kolli fengið hann. Það var svona norðaustan vindur allt að því rok á Iðusvæðinu og skýjað. Nú var það höfuðborgarsvæðið sem hafði vinninginn. Í morgun fórum við upp í Borgarnes að heimsækja afa - og ömmustrákana okkar og Ingibjörgu og fólkið hennar. Sama góða fallega veðrið í Borgarnesi og hér í bænum. Í dag komu hér í heimsókn Hilda og Vala. Við fórum í bæinn í kvöld og enduðum hjá foreldrum mínum í kvöldheimsókn til að ræða málin. Alltaf gott að taka stöðuna í dægurmálunum. Kveðja.

miðvikudagur, 11. júlí 2007

Lækjabotnar og hagfræðiráðstefna.

Félagar og Sirrý. Í gær fórum við í áburðardreifingu á landspildu upp í Lækjarbotnum sem er í umsjón Rótarýklúbbs Kópavogs ásamt félögum. Fórum svo kynnisferð um Heiðmörkina í hreint frábæru veðri. Það var í borgarstjóratíð Gunnars Thoroddsens sem hafist var handa við gróðursetningu í Heiðmörk með þessum merkilega árangri.







Eafa ráðstefna. Síðustu tvo daga hef ég sótt ráðstefnu fiskihagfræðinga í Reykjavík. Athyglisverð ráðstefna um fiskihagfræði sem haldin er árlega. Á ráðstefnunni eru um 100 þátttakendur. Flest erindin voru mjög fræðilegs eðlis og byggðu á mikilli stærðfræði, en alltaf síast eitthvað inn þótt það sé að sjálfsögðu misjafnt. Til samanburðar má nefna að á ráðstefnunni um öldrunarmálin í St. Pétursborg er ekki fjarri lagi að hafi verið um 2000 þátttakendur. Annars er það helst í fréttum að veðrið leikur við okkur þessa dagana á meðan rignir heil ósköp víða í Evrópu. Kveðja.

sunnudagur, 8. júlí 2007

Rómeó og Júlía.

Dönsurum fagnað í lokin. Af fjölmörgum skemmtilegum viðburðum í þessari ferð til St.Pétursborgar hallar á engan þeirra þótt því sé haldið fram að ballettsýningin Rómeó og Júlía við tónlist S. Prokofiev hafi verið hápunktur ferðarinnar. Sýniningin sem var í Alexander leikhúsinu var hreint stórkostleg og ekki skaðaði glæsileg umgjörð leikhússins sýninguna. Dramað í tónverkinu og dansinum verður vart lýst í örfáum orðum þannig að þið verðið taka mig trúarlegan. Við fórum ásamt Jóni Eyjólfi og Hjördísi verðandi tegndaforeldrum frænku minnar dóttur Möttu. Hér má lesa um hina íslensku uppfærslu á Rómeó og Júlíu sem við fórum á fyrir nokkrum árum. Hún fór nú enga sigurför um heiminn en hún var færð upp á svið í London. Það er þó allnokkuð.

Enn fréttir frá St. Pétursborg.

Spjallað um rannsóknir. Í morgun fórum við kl. 8.00 á ráðstefnuna. Skiptum liði til þess að ná upplýsingum af mismunandi sviðum öldrunarfræðanna. Ég fór á hjálpartækjafyrirlestra og Sirrý á umfjöllun um mjúku málin, sem þó geta verið ansi hörð þegar verið er að tala um ofbeldi gegn öldruðum. Svo stóðum við hjá "pósternum" í hádeginu og Sirrý spjallaði við áhugasama um rannsóknina. Nú síðdegis fórum við með Jóni Eyjólfi og kynntum honum hvernig neðanjarðarlestarkerfið virkar. Vorum svolítið grobbin að geta leitt hann af nokkru öryggi niður í bæ. Þar hittum við Hjördísi konu hans. Við ætlum á ballett sýningu í kvöld að sjá Rómeó og Júlíu. Annars höfum við verið að rölta á Nevský prospekt(Laugavegurinn og Austurstrætið þeirra) seinni partinn í góða veðrinu. Finnarnir eru farnir til síns heima og svolítill tómleiki að lokinni ráðstefnunni. Maður er frekar heftur vegna þess að maður getur ekki lesið vegvísa eða aðrar upplýsingar og skilur ekkert. Kveðja.

laugardagur, 7. júlí 2007

Fréttir frá St. Pétursborg.

Vetrarhöllin og safnið.
Við höfum komið víða við í St. Pétursborg í dag. Heimsótt kirkjur og tekið þátt í bænahaldi ortódoxa hér í bæ á þessum þríheilaga degi þ.e. 7.7.2007. Fórum í "Hermitage" safnið og Vetrarhöllina og skoðum svona það sem fyrir augun bar. Rákumst m.a. á styttu eftir Bertil Torvaldssen. Viða um borgina eru brúðhjón að "pósa" fyrir ljósmyndara. En í blaði hér í borg segir að 77 brúðhjón hafi ákveðið að gifta sig þennan dag. Við höldum að það séu miklu fleiri því þau eru svo mörg sem við höfum séð. Við röltum um miðborgina í dag. Hún er meira og minna byggð fyrir árið 1917 og er mjög glæsileg og vestræn með breiðstrætum sínum. Besta leiðin til þess að ferðast hratt og örugglega um borgina er með neðanjarðarlestum, sem eru með tíðar ferðir vítt og breitt um borgina. Svo notast maður við litla "bússa" til þess að komast á leiðarenda ef það er of langt frá neðanjarðarstöðinni. Það kostar 15 rúblúr að fara með slíkum bíl og ein ferð með neðanjarðarlest kostar það sama. Þetta er svona 60 kr. Í kvöld fórum við á veitingarstað með félögum Sirrýjar sem hún er að vinna verkefni með og borðuðum Stroganoff. Svei mér þá ég held að ég vilji frekar 1944 Stroganoff frá SS. En matarsmekkur getur verið afstæður. Það er mikill uppgangur í borginni það leynir sér ekki. Mikið af nýjum bílum og víða verið að gera við húsnæði. Verðlag er frekar hátt, en ég held það sé ekkert hærra en gengur og gerist í þessum stóru evrópsku borgum. Maður sér mikið af ungu og glæsilegu fólki á ferð í miðbænum, en minna af eldra fólki. Líklega heldur eldra fólkið sig í úthverfunum. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja frá St. Petersborg.

föstudagur, 6. júlí 2007

St. Pétursborg heimsótt.

Boðinn velkominn til St. P. Við erum þessa dagana stödd í St.Pétursborg í Rússlandi. Við sækjum heim 6. þing evrópskra öldrunarfræðinga. Sirrý situr ráðstefnuna en ég er fylgifiskur. Við komum hér í gær og búum á hóteli í bænum fjarri sjálfu ráðstefnuhótelinu og förum í lest og strætó á milli sem hefur gengið mjög vel. Ég fór í dag í skoðunarferð til Petrohof sumarhallararinnar sem er hér rétt utan borgrinnar. Fékk þar góðan fyrirlestur um rússnesku keisarfjölskylduna og kynnti mér lifnaðarhætti hennar ásamt þúsundum annarra túrista. Í kvöld fórum við á galakvöldverð í stórglæsilegum sal mannfræðisafnsins hér í borg. Sveimérþá þar eru þeir með fresku af Gísla á Uppsölum! St. Pétursborg kemur mjög á óvart. Gerðum okkur ekki grein fyrir því hvað borgin er stór og margbrotin á 43 eyjum. Hún var höfuðborg Rússlands í yfir 200 ár. Íbúafjöldi hér er um 4,5 milljónir manna. Það er kaotísk stemming hér í borginni en þetta gengur samt allt einhvernveginn upp. Jæja ég segi ykkur betur frá því seinna. Bestu kveðjur héðan til ykkar allra. ps. svo er ég að leita að mynjagrip um geimafarann Gagarín en hef ekkert fundið enn.

sunnudagur, 1. júlí 2007

Borgarnes, Skaftártunga og Fjallabak nyrðra.

Jóhannnes Ernir og amma Sirrý. Við skelltum okkur upp í Borgarnes í dag til þess að heimsækja Svein Hjört og Jóhannes Erni. Okkur var boðið í kaffi til afa og ömmu Ingibjargar. Veðrið var hreint frábært þetta í kringum 20°C. Þeir höfðu mikla ánægju að hitta hvor annan sr. Hjörtur og Guðmundur. Margt og mikið skeggrætt.







Hjá gróðurhúsinu. Við skoðuðum blómin hennar Ingibjargar eldri í gróðurhúsinu og garðinum. Ótrúleg litaskrúð og fallegur garður. Það var mikið að gera há Sveini Hirti við að vökva blóm langömmu.









Svana - eða Álftavatn. Ég er ekki klár á nafninu. Þetta vatn er á fjallabaksleið nyrðri. Við skelltum okkur norður fyrir eftir stutta heimsókn í Skaftártunguna í gær til þess að ræða við Val bónda um leigumál og fleira því tengt. Fegurðin á þessari leið í svona veðri er ólýsanleg í orðum.









Skaftártunga. Hér er af hæsta tindi sem ég man ekki hvað heitir horft yfir Skaftártunguafrétt og víðar um Suðurland.











Við Höllubústað. Hér eru Örn og Halla, Gunnhildur, Sirrý og Björn í forgrunni. Við litum við hjá Höllu og Erni áður en við lögðum á fjallabakið.










Reynisdrangar. Þetta er falleg sýn. Kunnugir þekkja áhuga minn á þessu myndefni. Kveðja.