laugardagur, 7. júlí 2007

Fréttir frá St. Pétursborg.

Vetrarhöllin og safnið.
Við höfum komið víða við í St. Pétursborg í dag. Heimsótt kirkjur og tekið þátt í bænahaldi ortódoxa hér í bæ á þessum þríheilaga degi þ.e. 7.7.2007. Fórum í "Hermitage" safnið og Vetrarhöllina og skoðum svona það sem fyrir augun bar. Rákumst m.a. á styttu eftir Bertil Torvaldssen. Viða um borgina eru brúðhjón að "pósa" fyrir ljósmyndara. En í blaði hér í borg segir að 77 brúðhjón hafi ákveðið að gifta sig þennan dag. Við höldum að það séu miklu fleiri því þau eru svo mörg sem við höfum séð. Við röltum um miðborgina í dag. Hún er meira og minna byggð fyrir árið 1917 og er mjög glæsileg og vestræn með breiðstrætum sínum. Besta leiðin til þess að ferðast hratt og örugglega um borgina er með neðanjarðarlestum, sem eru með tíðar ferðir vítt og breitt um borgina. Svo notast maður við litla "bússa" til þess að komast á leiðarenda ef það er of langt frá neðanjarðarstöðinni. Það kostar 15 rúblúr að fara með slíkum bíl og ein ferð með neðanjarðarlest kostar það sama. Þetta er svona 60 kr. Í kvöld fórum við á veitingarstað með félögum Sirrýjar sem hún er að vinna verkefni með og borðuðum Stroganoff. Svei mér þá ég held að ég vilji frekar 1944 Stroganoff frá SS. En matarsmekkur getur verið afstæður. Það er mikill uppgangur í borginni það leynir sér ekki. Mikið af nýjum bílum og víða verið að gera við húsnæði. Verðlag er frekar hátt, en ég held það sé ekkert hærra en gengur og gerist í þessum stóru evrópsku borgum. Maður sér mikið af ungu og glæsilegu fólki á ferð í miðbænum, en minna af eldra fólki. Líklega heldur eldra fólkið sig í úthverfunum. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja frá St. Petersborg.

Engin ummæli: