miðvikudagur, 29. desember 2021

Gleðileg jól gott og farsælt komandi ár

 Kæru lesendur

Bestu óskir um gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár. Þessi síða hefur nú ekki verið sú virkastsa í netheimum en hún hefur verið starfrækt frá 2004, eða um 17  ár og það 18. anda er að byrja eftir tvo daga.

Vona að þið eigið góð áramót og nýtt ár verði ykkur gjöfult til sjávar og sveita.

Kveðja,

Sveinn


miðvikudagur, 1. desember 2021

Björg Árnadóttir - minning

Unglingsárin líða fljótt. Þetta er tímabil mótunar fyrir það sem koma skal. Leiðir geta skilið en strengur vináttunnar er til staðar og býr í okkur um ókomin ár.  Í dag kvöddum við Björgu Árnadóttur, móður vinar míns Sverris Gauks og Helgu systur hans. Ég var heimagangur hjá Björgu og Ármanni Lárussyni eiginmanni hennar á unglingsárunum.

 Þetta voru góð ár og uppbyggileg. Nærvera og umhyggja fyrir okkur unga fólkinu var einlæg og mildileg. Það var oft glatt á hjalla á Digranesveginum hjá þeim hjónum. Þau voru um margt ólík. Björg var fíngerð kona, glaðlynd og  skemmtileg. Ármann stór og kröftugur, glímukonungur Íslands í 13 ár var hægari í fasi. Það var þó aldrei langt í glettnina.

 Þau hjón voru meðal frumbyggja í Kópavogi, þeirra sem byggðu upp þetta samfélag. Björg var verkstjóri um árabil í frystihúsi Barðans í Kópavogsdal. Þar kynntumst við mörg fiskvinnslustörfum undir hennar verkstjórn og það var ekki slegið slöku við. Verkstjórinn sá til þess að enginn tími fór til spillis og að gæðin væru fyrsta flokks. Ármann var líka mikill verkmaður. Það var sérstakt fréttaefni þegar hann og Davíð á Arnbjarnarlæk byggðu hitaveitulagnir inn í borgina á þessum árum, þvílík voru afköstin og dugnaðurinn.

Björg og Ármann voru bakhjarlar Kefas, óháðs kristins safnaðar í Kópavogi. Söfnuðurinn á glæsilegt guðshús í efri byggðum Kópavogs með fallegu útsýni yfir Elliðavatn og hæðir Heiðmerkur. Það hallar á engan þó að frá því sé sagt að Ármann hafi byggt þetta guðshús fyrir eiginkonu sína eins og presturinn gat um í minningarræðu sinni. Blessuð sé minning Bjargar.