mánudagur, 30. október 2006

Til hamingju með nýja húsið.

Framhlið Við óskum Hirti og Ingibjörgu til hamingju með nýja húsið sem þau voru að kaupa í Svíþjóð. Skrifað var undir samning í dag þannig að þetta er orðið opinbert. Húsið er nánar tiltekið í Hammar og er úthverfi Kristianstad.

Bakhlið Hér ætti að vera nægt pláss fyrir nafna að leika sér.

sunnudagur, 29. október 2006

Ferð Söngfélags Skaftfellinga að Klaustri og Hala.

Tónleikarnir í Kirkjuhvoli Þetta er búin að vera stórkostleg helgi hjá okkur í Sköftunum ásamt með mökum. Við fórum á föstudaginn austur að Klaustri og héldum þar tónleika fyrir fullu húsi í félagsheimilinu á Klaustri. Þrátt fyrir leiðindaveður þetta kvöld með roki og rigningu. Tónleikarnir hófust kl. 21.00 um kvöldið. Þeir gengu ágætlega. Sérstaklega eftir að við ákváðum að endurraða okkur fyrir framan sviðið eftir hlé. Það var ráðstöfun sem skilaði sér í margfallt betri samhljómi kórsins. Undirleikari okkar var Pavel Manásek og stjórnandinn er Violeta Smid. Flygillinn sem leikið var á á tónleikunum var konsertflygill af fínustu gerð. Edda Erlendsdóttir píanóleikari hefur örugglega notað han undanfarin ár á sínum árlegu tónleikum á Klaustri. Við gistum á hótelinu á Klaustri bæði föstudags- og laugardagsnóttina.

Hæ tröllum á meðan við tórum....

Kvöldvökur Bæði föstudagskvöldið og laugardagskvöldið voru kvöldvökur á barnum á hótelinu á Klaustri. Þar var sungið hvert lagið við undirleik píanóleikara frá Klaustri og svo tók Kristinn kórfélagi með sér nikkuna sína. Hótelið á Klausri er hið þægilegasta. Nýlegt og huggulegt. Kórfélagar voru leiðsögumenn um svæðið allt eftir því úr hvaða héraði menn voru. Að öðrum ólöstuðum var hann Skúli Oddsson úr Mörtungu besti sögumaðurinn. Hann gæddi útsýnið og umverfið lífi með sögum af mannlífi og eftirminnilegum persónum af svæðinu.
Skeiðarárjökull Veðrið þrátt fyrir tvísýna spá lék við okkur. Þessi mynd er tekin á leiðinni út í Hala í Suðursveit. Þar héldum við tónleika í Þórbergssetrinu nýja. Þar var einnig húsfyllir og mikil stemming. Mættir voru gestir allt frá Höfn til þess að hlíða á sönginn. Eldri borgarar á Klaustri voru einnig mættir til að hlusta á sönginn. Margir af þeim höfðu líka verið á tónleikunum kvöldið áður á Klaustri.
Svínafellsjökull Maður hefur oft keyrt um þessar slóðir. En það er engu líkt í góðu veðri og í félagsskap fólks sem er fætt og uppalið í þessum sveitum. Maður öðlast nýja sýn og skynjar umhverfið einhvern veginn á dýpri hátt. Þetta er listaverk sem síðasta Skeiðarárhlaup átti þátt í að skapa þegar jakahlaupið sveigði og beigði þessa brúarstólpa. Já náttúruöflin láta ekki að sér hæða.

Sungið fyrir góða vætti á sandinum.

Sungið fyrir góða vætti Við tókum lagið fyrir okkur sjálf og alla góða vætti á Skeiðarársandi...."Í jöklanna skjóli við ársólaryl, ég allra þeirra nú minnast vil sem voru í sannleika Íslandi allt og ei létu bugast þótt gustaði kalt."

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi
Við sungum í Þorbergssetri á Hala í Suðursveit. Þetta er safn sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Nú síðan héldum við tónleika á elliheimilinu Klausturhólum á Klaustri á laugardagskvöldið og í dag sunnudag enduðum við á því að syngja nokkur lög á elliheimilinu í Vík, Hjallatúni. Í gærkvöldi var hátíðarkvöldverður kórsins á Klaustri sem tókst í alla staði frábærlega. Kveðja.

þriðjudagur, 24. október 2006

Söngurinn léttir lífið.

Ég var á söngæfingu í gær. Nú styttist í söngferðalag okkar Skaftanna austur á Klaustur. Önnur æfing á fimmtudag svo verður haldið í hann á föstudaginn, svo framalega sem veður leyfir. Veðurútlitið er ekkert allt of gott og það minnir okkur á það að kominn er vetur. Ég var á Rótarýfundi í dag og hlustaði á fyrirlestur um SOS barnaþorpin. Þar kom m.a. fram að framlög Íslendinga til þessarar hjálpastofnunar nema um 150 milljónum króna á ári. Nálægt 5000 manns greiðir með börnum í þessum þorpum um víða veröld. Þetta er aðdáunarvert framtak fólks. Sigrún kom í gær frá Svíþjóð eftir langa helgi í Kristianstad. Nú þetta er svona það helsta af okkar vettvangi. Kveðja.

sunnudagur, 22. október 2006

Ættarmót Ingvars og Friðrikku.

Í Brekkutúninu var í dag haldið ættarmót Ingvars Pálmasonar skipstjóra og Friðrikku Sigurðardóttur. Hér voru komnir þeir afkomendur þeirra alls 30 sem staddir eru á landinu. Ýmsa vantaði sem eiga heima erlendis bæði í USA og Svíþjóð. Frá USA vantaði tvær dætur Pálma Ingvarssonar og son hans. Nú það er óþarfi að kynna fyrir bloggvinum mínum hverjir eru í Svíþjóð. Þetta tókst í alla staði vel og var hið ánægjulegasta ættarmót. Tilefni þess var heimkoma Pálma Ingvarssonar frá Seattle í USA í heimsókn hingað. Hann var hér síðast í maí 2004. Hér voru systkini hans Sigurður Ingvarsson og Auður "Didda" systir þeirra ásamt afkomendum. Lesa má um heimsókn hans í einum af fyrstu bloggum mínum í maí 2004. Heilmikið var spilað á hljóðfæri hússins og átti þar Emil Draupnir Baldursson stóran hlut að máli. Speki dagsins átti Hermann hennar Rannveigar en hann velti fyrir sér hugtakinu hljóðfæri. sbr. verkfæri, veiðarfæri, færi og svo framvegis. Hvaðan er orðið "færi" og hvað þýðir það í raun og hversvegna er hægt að nota það um svo margt. Þeir bloggvinir sem vilja leggja í púkkið varðandi þetta hugtak eru hvattir til þess. Á morgun er fyrsti vinnudagur eftir aðalfund. Það er í mínum huga n.k. áramót. Heilt ár í næsta fund og svo framvegis. Það er áægtis tilfinning. Það fer vel á því að fagna því í lok þessa pistils að í dag kom að landi fyrsti stórhvalurinn, langreyður, sem skutlaður er við Íslandsstrendur í tvo áratugi. Kristjáni vini mínum eru færðar bestu óskir í tilefni þessara tímamóta. Kveðja.

Lítið bloggað þessa dagana.

Tímaleysi, annir, hlaup, verkefni, heimsóknir, fundir þannig hefur þessi vika nú verið enginn tími verið til að hanga í tölvunni. Þessvegna hafa ekki verið pistlar frá mér síðan á mánudaginn. Nú Ingibjörg og Stefánía átttu afmæli í gær 21.október. Óskum þeim til hamingju með daginn. Var á aðalfundi LÍÚ á fimmtudag og föstudag og hófi síðar seinni daginn. Í dag er stórfjölskylda Sirrýjar að koma í heimsókn. Meira um það síðar. Sigrún er í Svíþjóð hjá Hirti og Ingibjörgu. Í gær fór ég á ráðstefnu um íslensk - kanadísk menningartengsl í Salnum. Afar fróðleg erindi sem ég hlustaði á þar um þennan merka þátt í sögu þjóðarinnar, sem hefur ekki fengið jafn mikla umfjöllun og skyldi.

mánudagur, 16. október 2006

Píanótónleikar Angelu Hewitt í Salnum.

Angela Hewitt Wow. Helgi vinur hringdi í mig í dag og bauð mér í bluefine túnfisk og stakk upp á því að við skeltum okkur ásamt eiginkonum í Salinn að hlusta á kanadíska píanóleikarann Angelu Hewitt. Það eru kanadískir menningardagar í Kópavogi og eru tónleikar hennar liður í þeim. Þetta voru frábærir tónleikar. Angela Hewitt lék svítur d-moll og Es-dúr eftir Jóhann Sebastian Bach og sónötur í c-moll eftir Ludwig van Beethovern. Hún er af mörgum talin einn fágaðisti píanisti samtímans. Ég er nú meira fyrir Beethoven en Bach, en það er önnur saga. Kveðja.

Átti afmæli í gær.

Ég átti afmæli í gær ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum bloggvini. Byrjuðum daginn í bröns hjá Birni og hundinum Sunnu. Þar voru auk okkar Sirrýjar, Sigrúnar og Stellu. Hilda, Magnús og Vala Birna. Síðdegis komu í Brekkutúnið mamma, pabbi, Þórunn, Sveinn, Sunneva, Telma Þórunn, Árni, Hjörtur, Axel, Rannveig, Alexander og Axel jr., Stella og Valdimar. Heillaóskir bárust frá Svíþjóð. Maður gaf sér ekki tíma til þess að blogga í tilefni dagsins. Alltaf gaman að hitta fólkið sitt. Annars lítið í fréttum og svo sem lítið að blaðra um á þessum síðum. Árin telja orðið fimmtíu og fjögur. Maður yngist ekkert en mér finnst ég heldur ekki finna neitt sérstaklega fyrir því að eldast. Öldrunarfræðingurinn segir að þetta sé allt í höfðinu á manni þ.e.a.s. aldur sé afstæður og markist meira af hugarfari en árum. Ég er ekki frá því að það sé eitthvað til í þessu. Aðalatriðið er að reyna að finna sér verkefni við hæfi svo manni leiðist ekki frá degi til dag. Ég held að það sé ómögulegt að hafa lítið eða ekkert fyrir stafni í lengri tíma. Jæja ég er að fara á tónleika í Salnum í kvöld með kanadískum píanóleikara. Kveðja.

miðvikudagur, 11. október 2006

Tíminn líður hratt.

Höfði í Reykjavík. Mikið líður tíminn hratt. Það eru tuttugu ár frá því að leiðtogafundurinn var haldinn í Höfða! Það var vor í lofti þetta ár og þetta var gott ár. Það var uppsveifla í sjávarútveginum og almenn bjartsýni í þjóðfélaginu. Við vorum á Snæfellsnesi helgina sem fundurinn var haldinn. Ég fór á fund í Útvegsmannafélagi Snæfellness og Sirrý var með strákana á Skjaldatröð á Hellnum á meðan. Veðrið var hundleiðinlegt, hífandi rok og rigning. Ronald Regan og Michael Gorbatsjov voru í aðalhlutverki. Raisa var mætt en Nancy lét ekki sjá sig. Okkar menn voru líka í sviðsljósinu. Steingrímur forsætisráðherra í alþjóðapressunni og Davíð Oddsson borgarstjóri. Hann fór með gestabókina og lét þá kvitta í hana. Það var nú það eina sem kvittað var undir á þessum fundi. Fræg er myndin af Regan með Vigdísi í göngutúr á Bessastöðum. Þótt ekki væri skrifað undir friðarsamkomulag á þessum fundi var ljóst að stórtíðindi í heimsmálum voru í uppsiglingu. Endalok kaldastríðsins, afvopnun, friður, von fyrir mannkynið. Nýir tímar voru í sigti og endalok kommúnismans. Ég man að ég geymdi dagblöðin frá þessum fundi í mörg ár. Gæti jafnvel átt þau enn. Manni þótti þetta svo merkilegur viðburður. Það fer vel á því að herstöðinni á Miðnesheiði var lokað á tuttugu ára afmæli fundarins. Það hefði verið óhætt að gera það fyrir 15 árum síðan. Nú skiptir það engu að velta sér upp úr því. Minningarnar leita á hugan þegar maður horfir til baka þessi tuttugu ár. Þetta eru jú bestu árin og lungað úr starfstímanum. Spurningar eins og hvernig höfum við notað tímann og hvernig hefur okkur farnast leita á hugann. Ég ætla ekki að fara að velta mér upp úr því, en í stuttu máli sagt hafa þetta verið stórkostleg ár í heildina. Spennandi tímar með óþrjótandi verkefnum og tækifærum. Það er ekki hægt að biðja um meira. Kveðja.

sunnudagur, 8. október 2006

Laxveiðar með netatrossu og pöbbarölt.

Feðgarnir Helgi og Hörður Dagurinn í gær var sannkallaður "action" dagur. Við fórum þrír, ég Helgi vinur og Hörður sonur hans norður í Laxá í Refasveit að veiða lax til að nota í klak. Við vorum komnir norður um klukkan eitt. Þá var hafist handa að ganga á líklega staði og draga netatrossu yfir helstu svæði. Með okkur í þessari vinnu var Magnús bóndi á Syðra Holti. Við vorum við þessa iðju til sex. Náðum þó aðeins þremur löxum þar af komust tveir í laxakistuna. Komum við heima hjá bóndanum og áttum þar ánægjulega kaffistund áður en haldið var suður. Hittum systur hans og nágranna og áttum við þau skemmtilegt spjall. Það er svo gefandi að hitta fólk sem býr í allt öðruvísi umhverfi og fá örlitla innsýn í líf þess og störf. Við ætluðum að gista í veiðihúsinu þessa nótt, en Stebbi bróðir Helga hafði óvart lánað húsið og gleymdi að segja okkur frá því. Vissi þó vel að þetta stóð til. Þegar í bæinn var komið um klukkan níu skelltum við okkur í heitan pott heima hjá Helga og Hörður eldaði handa okkur kjöt. Kominn úrvinda heim um miðnættið. Nú á föstudaginn var útstáelsi á manni. Var á fundi í Útvegsmannafélagi Reykjavíkur. Borðuðum saman að fundi loknum og síðan var farið á pubbarölt á búllur bæjarins. Fórum á nokkrar búllur og maður hitti fólk sem maður hefur ekki séð lengi eða þá aldrei. Ég tók það sem merki um að nú ætti ég að fara til míns heima þegar ég hitti ungan pilt sem sagði við mig: "Heyrðu ég held að þú þekkir hann pabba." Auðvitað þekki ég pabba hans vel. Nú þetta er skemmtileg upplifiun að kynnast aðeins næturlífi borgarinnar. Það virðist vera að Vínbarinn sé "staðurinn" fyrir 50+ aldurinn. Aðrir staðir eru sóttir af mun yngra fólki. Reykjavík er eins og þorp af stærri gerðinni. Viljir þú hitta fullt af fólki sem þú hefur ekki séð lengi þá er þetta leiðin til þess að hitta það. Kveðja

miðvikudagur, 4. október 2006

Í miðri viku.

Sirrý er farin til Svíþjóðar í stutta vinnuferð. Kemur aðeins við í Kristianstad í leiðinni. Stella hans Valdimars er líka farin í vinnuferð yfir sundið til Noregs. Gunnar Örn bróðir Sirrýjar kom hér í viku byrjun. Nú annars er lítið annað í fréttum af þessum vettvangi. Vinna, sjónvarp og sofa. Í þessum takti líða dagarnir. Þetta er svo sem ekki í frásögur færandi. Tja, en hvað með það. Kveðja.

sunnudagur, 1. október 2006

Á Þingvöllum.

Í litaskoðun Í gær fórum við í hina "árlegu" haustlitaferð á Þingvelli. Gríðarlega fallegir litir hvert sem litið er. En maður verður svolítið dapur þegar sumarið er búið og haustið og veturinn framundan.
Haustlitir
Spáð í skýin Við tókum þátt í uppákomunni sem Andri Snær stóð fyrir. Sáum engar stjörnur en skýin sáum við og öll ljósin hjá þeim sem ekki tóku þátt. Fyrir "utanlands" Íslendinga skal það upplýst að sl. fimmtudag var kl. 22.00 slökkt á ljósastaurum og mælst til að fólk myndi slökkva ljósin heima til þess að taka þátt í sérstakri uppákomu í tengslum við kvikmyndahátíð sem var að hefjast í Reykjavík.