miðvikudagur, 11. október 2006

Tíminn líður hratt.

Höfði í Reykjavík. Mikið líður tíminn hratt. Það eru tuttugu ár frá því að leiðtogafundurinn var haldinn í Höfða! Það var vor í lofti þetta ár og þetta var gott ár. Það var uppsveifla í sjávarútveginum og almenn bjartsýni í þjóðfélaginu. Við vorum á Snæfellsnesi helgina sem fundurinn var haldinn. Ég fór á fund í Útvegsmannafélagi Snæfellness og Sirrý var með strákana á Skjaldatröð á Hellnum á meðan. Veðrið var hundleiðinlegt, hífandi rok og rigning. Ronald Regan og Michael Gorbatsjov voru í aðalhlutverki. Raisa var mætt en Nancy lét ekki sjá sig. Okkar menn voru líka í sviðsljósinu. Steingrímur forsætisráðherra í alþjóðapressunni og Davíð Oddsson borgarstjóri. Hann fór með gestabókina og lét þá kvitta í hana. Það var nú það eina sem kvittað var undir á þessum fundi. Fræg er myndin af Regan með Vigdísi í göngutúr á Bessastöðum. Þótt ekki væri skrifað undir friðarsamkomulag á þessum fundi var ljóst að stórtíðindi í heimsmálum voru í uppsiglingu. Endalok kaldastríðsins, afvopnun, friður, von fyrir mannkynið. Nýir tímar voru í sigti og endalok kommúnismans. Ég man að ég geymdi dagblöðin frá þessum fundi í mörg ár. Gæti jafnvel átt þau enn. Manni þótti þetta svo merkilegur viðburður. Það fer vel á því að herstöðinni á Miðnesheiði var lokað á tuttugu ára afmæli fundarins. Það hefði verið óhætt að gera það fyrir 15 árum síðan. Nú skiptir það engu að velta sér upp úr því. Minningarnar leita á hugan þegar maður horfir til baka þessi tuttugu ár. Þetta eru jú bestu árin og lungað úr starfstímanum. Spurningar eins og hvernig höfum við notað tímann og hvernig hefur okkur farnast leita á hugann. Ég ætla ekki að fara að velta mér upp úr því, en í stuttu máli sagt hafa þetta verið stórkostleg ár í heildina. Spennandi tímar með óþrjótandi verkefnum og tækifærum. Það er ekki hægt að biðja um meira. Kveðja.

Engin ummæli: