mánudagur, 16. febrúar 2015

Ungverskur flóttamaður

Heilinn er furðulegt fyrirbæri. Í dag og í gær hefur hugurinn dvalið við minningu um ungverskan flóttamann sem ég vann með fyrir nær 40 árum eitt sumar í Gautaborg.Við unnum við það að hlaða í járnbrautarvagna timburvörum, gluggum og hurðum. Ég var með varan á mér gagnvart honum í fyrstu áður en ég kynntist honum. Líklegast vegna þess að hinir karlarnir í Timber traiding höfðu horn í síðu hans og höfðu varað mig við honum. Hann reyndist við nánari kynni hinn viðkunnarlegasti maður og ég lærði margt af honum þetta sumar. Ástæðan fyrir því að sænsku karlarnir voru að hnýta í hann grunaði mig að hafi verið vegna þess að hann var ekki eins og þeir, slarkarar með margbrotið líf að baki. Í spjalli okkar í hleðslustarfinu uppfræddi hann mig um að maður getur átt gott og viðburðarríkt líf, jafnvel þótt maður vinni einhæf störf. Þá var hann að vísa til margra sænsku karlanna sem unnu þarna og lifðu margir slarksömu lífi. Hann var alltaf snyrtilegur og átti sér fjölmörg áhugamál sem hann trúði mér fyrir: brugg, garðrækt, ferðalög og skak á litlum báti. Hann uppfræddi mig um að bruggáhuginn snéri ekki að því að brugga til þess að drekka. Markmiðið var að ná eins tæru víni og mögulegt er. Gegnsætt kristaltært og bragðgott vín væri það sem væri lokatakmarkið. Ég veit ekkert af hverju ég er að deila þessu með ykkur en á næsta ári eru 60 ár frá uppreisninni í Ungverjalandi. Líf okkar helgast oft af aðstæðum sem við fáum engu ráðið um. Við verðum að fóta okkur við breytilegar aðstæður og gera það besta úr stöðunni hverju sinni.