laugardagur, 23. október 2004

Lítið skrifað þessa daga

Merkilegt hvað manni verður tíðrætt um veðrið þegar maður hefur ekkert að segja. Það má glöggt sjá á þessum pistlum mínum. Október er að verða búinn og veðrið hefur verið ágætt síðustu daga, þótt nú sé frekar kallt. Sirrý er á Ítalíu á ráðstefnu í Flórens. Valdi og Stella hafa tilkynnt okkur brottför sína löngu fyrir tímann. Leigjendur þeirra sögðu óvænt upp þannig að íbúðin er laus um mánaðarmótin. Stebba systir og Ingibjörg hans Hjartar áttu afmæli þann 21. október sl.

mánudagur, 18. október 2004

Vetrarríki

Norðan bál í borginni. Það hlut að koma að því að vetur konungur minnti á sig. Fréttir berast víða af veðurofsa og tjóni af völdum veðursins. Annars allt gott að frétta. Var á söngæfingu í kvöld. Vorum að æfa Frið eftir Björgvin Guðmundsson tónskáld úr Vesturheimi og frá Akureyri. Næsta laugardag verður boðið upp á fýlakvöldverð hjá Skaftfellingafélaginu. Ég held ég passi nú á það. Enda er ég ekki alinn upp við slíkt át.

sunnudagur, 17. október 2004

fimmtíu og tveggja ára.

Já árin líða eitt af öðru. Maður má þakka fyrir hvert ár meðan maður heldur dampi, góðri heilsu og gleði í sinni. Eins og læknirinn minn segir: Heilbrigður maður á þúsund drauma, en veikur maður aðeins einn. Við höfum haft helgarheimsókn Hjartar, en hann er nú farin aftur heim til Akureyrar. Í gær áttum við saman góða kvöldstund heimilisfólkið hér í Brekkutúni og foreldrar mínir og Þórunn systir, Svenni mágur og Júlíus Geir. Í dag fórum við í heimssókn til Árna Sveinssonar frænda míns, sem er 24 ára í dag. Hann og Sunneva eru aldeilis búin að koma sér vel fyrir í Hafnarfirði.

miðvikudagur, 13. október 2004

Óvenjulegt veður.

Já, það er ekki hægt að segja annað en að veðrið er óvenjulegt fyrir þennan árstíma. 10 til 11°C hiti í október dag eftir dag. Sjómenn segja frá því að í Breiðarfirði sé fiskurinn ekki á hefðbundnum miðum, en hann megi sækja mun nær landi en menn hafi átt að venjast. Eins og einn sagði við mig þeir þurfa varla að fara út úr höfninni. Annars er allt frekar tíðindalaust þessa dagana og lítið fréttnæmt af okkur.

laugardagur, 9. október 2004

Dagur geðfatlaðra, geðveik hetja.

Það mun vera dagur geðfatlaðra í dag. Í tilefni af því selja Kiwanismenn K-lykilinn til styrktar geðfötluðum. Eigi þeir bestu þakkir fyrir framtakið. Ég las í Mbl. í dag 9.október 2004 grein eftir rithöfundinn Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur, sem bar yfirskriftina geðveik hetja. Ég hvet alla til þess að lesa þessa einlægu opinskáu grein. Grein hennar á erindi við okkur öll og er einu orði sagt mannbætandi lestur. Það er dýrmætt að á meðal okkar skuli vera fólk, sem er tilbúið að ganga fram fyrir skjöldu og miðla okkur af reynslu sinni með þeim hætti sem Elísabet gerir og leiða okkur þannig í átt til betri lífsgæða. Það sem fangaði hug minn varðandi þessa grein var upphafið er Elísabet lýsir því að hún hafi þurft að fara inn á geðdeild vegna andlegs álags af of mikilli pressu við að skila verkefni á tilsettum tíma, sem var of snemmt fyrir hennar getu. Þetta er nú nokkuð sem við glímum flest við frá degi til dags. Auðvitað getur slík endalaus pressa brotið okkur öll. Spurningin er einungis hvernig okkur tekst að vinna úr því. Hvort við náum að setja sjálf upp varnir eða þurfum til þess hjálp. Í niðurlagi greinarinnar segir Elísabet: "Geðsjúkdómur er stríð, stríð í höfðinu og kannski byrja öll stríð í höfðinu á einhverjum. En ég ætla að vera kærulaus, fara að sofa, lítill trúður sem málaði engla á geðdeild, hlusta á vindinn eða gera ekki neitt." Í þessum niðurlagsorðum gefur hún okkur lausnina, sem við þurfum til þess að búa til þessar varnir. Enn og aftur bestu þakkir.

sunnudagur, 3. október 2004

Píanóið í öndvegi..

Fór á píanódaga í Gerðubergi í dag þar sem píanóið var í öndvegi. Þetta var kynningardagur á píanónámi, píanóspili og svo hljóðfærinu sjálfu. Pökkuð dagskrá af efni, mjög athyglisverðu. Eftirminnilegt verður að hafa hlustað á 18 píanóleikara spila í einu boðhlaupi allar 24 prelodíur Chopins. Þetta var virkilega efnismikil dagskrá og til fyrirmyndar í alla staði. Hafi þeir sem að þessu stóðu mikla þökk fyrir framtakið. Það er með ólíkindum hvað tónlistarlífið í höfuðborginni er orðið fjölbreytilegt. Það rekur hver stórviðburðurinn annan á tónlistarsviðinu. Stórstjörnur í músíkinni koma nánast á færibandi frá útlöndum. Þetta hefur heldur betur breyst frá því sem áður var.