sunnudagur, 15. janúar 2017

Nýja testamentið og Davíðssálmar.




Gideonsfélagið gaf mér 10 ára gömlum  fyrir nær 55 árum Nýja testamentið og Davíðssálma í lítilli bók. Þessi bók sem hér má sjá á mynd hefur fylgt mér í gegnum lífið. Hún hefur reynst mér dýrmætt veganesti og ég haft hana á náttborðinu og oft á tíðum gripið til hennar og leitað trausts og halds með því að lesa hana. Nú er svo komið að trúarveikir hafa komið því til leiðar að Gideonfélögum er bannað að gefa börnum þessa bók í skóla. Það er miður og í raun óskiljanlegt að þeim skuli látið það eftir.

Í DV á blaðsíðu 2 var sagt frá því í dag að maður með hvítt skegg hafi verið staðinn að því að gefa börnum Nýja testamentið fyrir utan skóla á Akranesi. Frá þessu var sagt eins og hér væri um grunsamlegt og varhugavert athæfi að ræða. Þessi frétt sló mig illa og það rifjaðist upp þegar tekin var sú ákvörðun að banna að gefa börnum bókina í skólum. Þessi bók er grunnurinn að þeim gildum sem okkar samfélag byggir á. Hvernig má það vera að það geti ekki samræmst starfi skóla í kristnu samfélagi að gefa börnum Nýja testamenntið? Það er enginn neyddur til að taka við bókinni eða lesa hana. Hinsvegar hefur bókin verið fjöldanum gott veganesti á lífsleiðinni og í raun hverjum manni nauðsynleg lesning.