laugardagur, 25. desember 2010

Jólin að nóttu sem degi.

Frá aðfangakvöldi klukkan sex og fram á annan í jólum rennur tíminn svolítið út í eitt. Dómkirkjan hringir inn jólin að venju og að lokinni messunni hefjast hátíðarhöldin sjálf sem standa í sólarhring með borðhaldi, opnun gjafapakka og samverustundum fjölskyldunnar. Helst má lítið gera þennan tíma, allavega hér áður fyrr og alls ekki spila spil, þótt eitthvað hafi verið gefið eftir í þeim efnum. Þetta er ekki svona allstaðar. Ég frétti af íslenskri fjölskyldu sem fékk símtal frá miðevrópskri vinafólki klukkan sex á aðfangadag og skyldi ekkert í hvað samtalið gékk stirðlega. Tilefnið var að bjóða til teitis síðar um kvöldið í tilefni jólanna. Þarna rákust á tveir ólíkir menningarheimar í jólahaldi sem endaði í uppfræðslu um helgihald jólanna í ýmsum hornum Evrópu. Með öðrum orðum, svona eru jólin, en ekki hjá öllum. Kveðja.

föstudagur, 24. desember 2010

Gleðileg jól

Þá er þetta aðfangadagskvöld á enda komið. Kvöldið hefur verið ánægjulegt í alla staði. Við vorum þrjú hér í Brekkutúni í kvöld og fórum svo í kvöldkakó til Þórunnar systur. Við sendum vinum og vandamönnum bestu óskir um gleðileg jól. -X-

mánudagur, 20. desember 2010

RÚV í blíðu og stríðu.

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að RÚV er áttatíu ára í dag 20.desember. Stofnunin er í naflaskoðun og við fáum að fylgjast með síenturteknum innskotum um þessi merku tímamót í sögu stofnunarinnar. Ég er einn af þeim sem hlusta helst á Rás 1 og 2 eftir atvikum. Líklega er ríkissjónvarpið aðalrásin á mínu heimili þótt ég sé með ýmsar aðrar stöðvar. Líklega helgast þetta af íhaldsemi minni. Ég var orðinn "rás" vanur áður en hinar stöðvarnar komu í loftið. En viðhorf mitt til RÚV helgast ekki af tómri "blíðu." Stundum er ég æfur út í stofnunina. Sérstaklega þegar fjallað er um dægurmál sem ég tel mig hafa nokkra þekkingu á og finnst þá oft vanta á fagmennsku í fréttaflutningi. Maður verður að hafa það í huga að það er vinstri slagsíða á fréttaflutningi RÚV. Hinsvegar eru oft athyglisverðir þættir um hitt og þetta sem ég hef haft ánægju og fræðslu af. Ég fór yfir þessa þætti í huganum og staldraði við dagskrárliði jafnvel eldgamla sem ég hafði gaman af. Enginn skyldi vanmeta það tónlistaruppeldi sem RÚV hefur rækt. Jón Múli Árnason og jazzfræðsla hans stendur upp úr í minningunni. Esperanto þáttum Þórbergs Þórðarssonar gleymir maður aldrei. Nú eða síðdegissögunum sem maður fylgdist með mörgum hverjum. Þegar ég fór að rifja þetta upp með mér komst ég að því að öll óskaprógrömmin voru áratuga gömul. Tímarnir eru breyttir og maður hefur úr fleiri valkostum að ráða. RÚV er áfram útvarp allra landsmanna. Allavega hlýtur svo að vera meðan við erum tilneydd að greiða stofnunni áskriftargjald. Hér er ekki staður né stund til að ræða það. Stofnuninni eru færðar bestu kveðjur á þessum tímamótum og megi dagskráin endurspegla það að verða útvarp\sjónvarp allra landsmanna.

miðvikudagur, 15. desember 2010

Á aðventunni.

Hér er lítið skrifað enda hefur Facebook tekið mikinn tíma frá ritstjóra annálsins undanfarna mánuði. Þar má tjá sig í máli og myndum og skiptast á skoðunum við aðra fésverja. Hjörtur og fjölskylda komu í síðustu viku í heimsókn til Íslands í tilefni 80 ára afmælis nafna hans og afa. M.ö.o. pabbi varð áttatíu ára þann áttunda desember og er honum hér færðar árnaðaróskir. Annars hafa dagarnir snúist í kringum vinnu og fjölskyldu upp á síðkastið. Það er eins gott að reyna að njóta þessara stuttu stunda sem gefast til samveru í stórfjölskyldunni vegna þess að þessari jólahátið og nýári fylgja fáir frídagar. Sirrý er komin heim eftir nokkurra vikna dvöl í Svíþjóð þar sem hún leggur stund á nám og rannsóknir. Sigrún er á fullu í hjúkrunarnáminu og hefur nýlokið miðsvetrarprófum. Ef að líkum lætur mun hún væntanlega útskrifast á komandi sumri. Nóg í bili.

föstudagur, 3. desember 2010

Í leit að jafnvægispunktinum.


Í leikfimitímanum í dag vorum við að æfa jafnvægispunktinn m.ö.o. í æfingum sem styrka þjáðan búkinn í að halda jafnvægi í mismunandi stöðum. Þetta ku vera nauðsynlegt fyrir miðaldra karla sem stunda golfíþróttina af kappi. Fimleikastjórinn rak okkur áfram af miklum krafti. Skammaði þá sem komu of seint í tímann og þá sem gerðu æfingarnar ekki rétt. Einn fékk: "Nei sæll vinur gaman að sjá þig hér í dag. Nú sé ég hvað þeir eru orðnir góðir sem mæta reglulega í tímana." Annar sem kom 10 mínútum of seint fékk: "Þú ert fljótur að drífa þig úr fötunum, aðeins þrjár mínútur." Þeir sem mættu á réttum tíma og voru búnir að hita upp urðu að hlaupa þar til síðbúinn félagi var kominn í leikfimigallann. Það tók hann fimm mínútur. "Strákar þig getið þakkað honum fyrir þessar aukalegu fimm mínútur." Síðan voru menn vigtaðir og áminntir um að ef þeir fitnuðu um 1 kg um jólahátíðia yrðu þeir að borga sektir í janúar. Það merkilega við þetta er að allir viðstaddir borga fyrir þessa tíma og það er biðlisti manna sem vilja komast í hópinn. Við þurfum víst flest svona aðhald til þess að ná settu marki í að þjálfa skrokkinn. Allavega eru flestir í hópnum búnir að vera í árafjöld i þessum leikfimihópi.

sunnudagur, 21. nóvember 2010

Það leiðist engum í söng

Í gær var ég á söngæfingu hjá kórnum mínum, Söngfélagi Skaftfellinga. Við æfum einu sinni í viku og tökum því einstaka sinnum langan laugardag til þess að taka ærlega á því. Æfingin stóð í fjóra tíma og svo var sameiginlegur kvöldverður kórfélaga í lok æfingar. Þetta var í alla staði hin skemmtilegasta æfing.Unnið er að vinna upp lagavalið fyrir næstu vortónleika og svo var aðeins farið yfir jólalögin. Fyrirhuguð er ferð til Svíþjóðar næsta sumar til að endurgjalda heimsókn sænska kórsins Östergök sem kom hingað síðastliðið vor.

laugardagur, 13. nóvember 2010

Borgarskjalasafn Reykjavíkur. Kórinn minn, Söngfélag Skaftfellinga kom fram á sérstökum opnum degi héraðskjalavarða sem haldinn var í húsi Borgarbókasafnsins í Reykjavík við Tryggvagötu. Þetta var notaleg stund innan um bækur og skjöl og þó nokkur hópur fólks sem var mættur til að hlusta á kórinn.
Söngfélag Skaftfellinga 2010. Þegar herðir að í þjóðfélaginu verða starfsgreinarnar að gera betur grein fyrir störfum sínum, verða sýnilegar. Þetta á líka við kórinn okkar sem æfir reglulega í hverri viku yfir vetrarmánuðina.

föstudagur, 12. nóvember 2010

Eftirminnilegir atburðir.

Mbl. 12. okt. 1994 Sextán ára minningarbrot frá Noregi. Ef smellt er á myndina má lesa þessa grein. Þetta var svona "15 minutes of fame" atburður í lífi mínu. Á þessum fundi voru mörghundruð málsmetandi menn í norskum sjávarútvegi. Aðalumræðuefnið var innganga Noregs í ESB og veiðar Íslendinga í Barentshafi. Mitt hlutverk var að gera þeim grein fyrir að við hefðum rétt á að veiða í Barentshafi. Öll norska pressan og Gro Harlem Bruntland þá forsætisráðherra Noregs voru þarna líka. Ég hitti hana í kvöldverðarhófi eftir fundinn. Minnist þess að hún hafði einhver orð um að það sem hún hefði sagt um Íslendinga fyrr um daginn væri nú bara eins og hvert annað hjal miðað við þau orð sem formaður norskra útvegsmanna hafði um okkur. Ég hugsa að hún hafi ekki gert sér grein fyrir að það væru Íslendingar í salnum. Það var ekki fyrr en ég las Verdens Gang daginn eftir sem ég skyldi hvað hún átti við. Hún var tilbúin að fórna hagsmunum Noregs í sjávarútvegi fyrir aðgöngumiða að ESB en náði ekki að sannfæra landa sína um skynsemi þess. Noregur er enn utan ESB og dagar hennar voru senn taldir sem stjórnmálamanns eftir að niðurstaða fékkst í málinu.

mánudagur, 8. nóvember 2010

Á fæðingardegi frumburðarins.

Byrjaði á samtali við Sirrý til Svíþjóðar til að óska okkur til hamingju með frumburðurinn okkar. Kappinn orðinn 37 ára gamall. Hvað tíminn flýgur áfram sem örskotsstund. Minningarbrot frá 8. nóvember 1973. Byrjaði daginn í skólanum. Kominn heim upp úr hádeginu. Barnið er að koma! Það fór sko ekkert milli mála þegar til kom. Hringdi í leigubíl. Engan sjúkrabíl mátti panta í þessa ökuferð. Lögðum af stað á Fæðingarheimilið í Reykjavík. Hríðarverkirnir jukust hrátt á leiðinni. Úff, ég hélt að ólin á leðurveskinu mundi fara í sundur milli tannanna, eftir því sem verkirnir urðu kröftugri. Leigubílstjóranum stóð ekki á sama. Miklabrautin ekin á ógnarhraða í vestur. Við náðum í tíma, en litlu munaði. Verðandi faðir kallaður nánast fyrirvaralaust inn á fæðingarstofuna til þess að vera til taks. Allt í einu var barnið fætt. Vá hvað gerðist eiginlega. Við fengum strák! Við fengum strák! Foreldrarnir hlustuðu á grátur barnsins og gott ef þau grétu ekki með honum. Móðir og sonur kvödd er komið var undir kvöldmat. Ekkert "Hreiður" á þessum stað eða aðstaða fyrir nýbakaða foreldra. Gengið út í síðdegið. Það hafði kólnað, hvít hálkuslikja yfir öllu. Farið í strætó heim. Raunveruleikinn heltist yfir hinn nýbakaðan föður. "Nú er að standa sig drengur minn," heyrðist frá innra sjálfinu er það kallaðist á við hugrenningar föðursins. Færð var farin að spillast og ekkert var úr kvöldheimsókn. Til hamingju með daginn Hjörtur okkar.

sunnudagur, 7. nóvember 2010

Tónleikar í Seltjarnarneskirkju.

Seltjarnarneskirkja. Í dag voru haldnir tónleikar Kammerkórs Seltjarnarneskirkju. Félagar í kórnum hófu tónleikana með því að sungin voru átta klassísk einsöngslög af jafnmörgum kórfélögum eftir ýmsa meistara tónsmíðanna: Back, Franck, Händel, Mendelsohn og Vivaldi. Eftiminnilegur er flutningur sópransins Agnesar Amalíu Kristjónsdóttur á Sposa son disprezzata eftir Vivaldi og altsins Jóhönnu Héðinsdóttur á Panis Angelicus eftir C. Franck. Einnig var ánægjulegt að heyra svo marga sóprana syngja og heyra hversu mismunandi raddirnar eru þrátt fyrir að allar flokkist undir sama raddsvið. Þar næst söng kammerkórinn fjögur lög. Eftir hlé var sannarlega hápunktur tónleikanna. Þá flutti kórinn Missa Brevis eftir Jacob de Haan við undirleik félaga úr Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Þetta var mikil tónlistarveisla og góður kraftur í flutningi verksins, sem skiptist upp í hefðbundin katólsk messuvers: Kyrie, Gloria, Credo, Sanctus, Benedictus og Angus Dei. Stjórnandi og undirleikari í flutningi einsöngslaganna var Friðrik Vignir Stefánsson organisti í Seltjarnarneskirkju. Þessir tónleikar voru vandaðir og nærandi fyrir sálina. Kammerkórinn er skipaður kraftmiklu söngfólki og hæfileikaríku. Bestu þakkir fyrir þessa tónleika.

laugardagur, 30. október 2010

Nóg að gera

Aðalfundarfulltrúar Þetta er búin að vera annasöm vika. Aðalfundur L.Í.Ú.var haldinn í vikunni og stendur hann í tvo daga. Þetta er hundrað og áttatíu manna fundur. Aðalumfjöllunarefnið var framtíð aflamarkskerfisins í ljósi hugmynda sjávarútvegsráððherra að hefja sölu á aflaheimildum í mikilvægum fisktegundum eins og m.a. þorski, ýsu, gullkarfa og síld. Í gærkvöldi komu fulltrúar ásamt mökum saman til lokahófs, sem tókst í alla staði mjög vel að vanda.

sunnudagur, 17. október 2010

Eintal við vindinn.

Ég fór í göngutúr í dag hérna í Fossvogsdal. Það kom smá sólarglenna tilvalin til að hreyfa mig í. Ég lagði mig eftir hljóðum á göngunni þegar ég kom út og taldi upp þau hljóð sem heyrðust á göngunni. Fyrsta hljóðið var klikk, klakkið í "city walker" skónum mínum. Næsta hljóð var í regndropunum, dripp, dripp, sem lentu á úlpunni minni. Þriðja var fuglasöngurinn allt um kring svolítið stressað, kvakk, kvakk vegna þess að vindur var að herðast. Fjórða hljóðið var fjarlægt drunn, drunnið í umferðinni. Fimmta var eigin andardráttur sem fór hækkandi eftir því sem hraðinn á göngunni jókst, uh uh uh. Sjötta hljóðið var gnauðið í fölnandi trjálaufinu, sju, sju, sju. Þá sendi vindurinn mér hugskeyti um að þetta væri ekki hljóðið í laufinu, heldur væri þetta hvíslið hans. "Heyrðu góði," þú ert hljóðlaus sagði ég upphátt. Þú nýtir bara umhverfið til þess að gera vart við þig. Blæst á laufið, gnauðar í þaki, lurkar mann í andlitið til þess að gera vart við þig, en þú ert hljóðlaus gerðu þér grein fyrir því. Eitthvað hef ég komið við auman blett hjá Kára því allt í einu heltist rigningin yfir mig eins og úr fötu þegar vindurinn jók á úrhellið. Gnauðið eitt jókst en fuglarnir þögnuðu, skóhljóðið heyrðist ekki, hljóðið í umferðinni hvarf. Ég var orðinn holdvotur og dropahljóðið drukknaði. Það er vissara að storka ekki Kára gamla. Ég hljóp inn og hélt að ég væri kominn í öruggt skjól. Fór úr buxunum til að þurrka þær. Þá hringdi Sirrý á Skype úr rútu á E4 á leiðinni til Jönköping. Ég svaraði en í miðju samtalinu þurfti ég að standa upp til að loka glugganum vegna vindhviðu. Þá var ég upplýstur um að ég væri á nærbuxum í beinni Skypesendingu í rútu á sænskum þjóðvegi og sessunaut hennar stæði ekki á sama. Það er meira hvað þetta eintal mitt við vindinn hefur sett hann úr jafnvægi.

Á tónleikum með The Lame Dudes

The Lame Dudes.
The Lame Dudes héldu styrktartónleika til stuðnings rannsóknum brjóstakrabbameins á Veitingahúsinu Kryddlegnum hjörtum í kvöld þann 16. október. Á efnisskránni voru lög eftir J.J. Cale. Þetta voru einu orði sagt mjög góðir tónleikar, flott lög, ljúf stemmning og flutningur laganna með ágætum. Ég verð að viðurkenna það að ég hef ekki fylgst meðvitað með þessum lagasmiði, en mörg lögin hljómuðu kunnuglega. Flutningur hljómsveitarinnar skilaði sér mjög vel. Þegar flæði tónlistarinnar er þannig að þeir sem flytja trufla ekki upplifun áheyrandans með flutningi sínum hafa tónlistarmennirnir náð góðum árangri sem flytjendur. The Lame Dudes hafa náð þessu stigi. Hannes Birgir Hjálmarsson er orðinn mjög þekkilegur bluessöngvari, Snorri Björn Arnarson er hin íslenska útgáfa af E. Clapton og ferst það vel úr hendi. Þá undanskil ég ekki Björgvin Gíslason eða Gunnar Þórðarson til að nefna tvo góða. Með hljómsveitinni spilaði í kvöld trommari, Nils kölluðu þeir hann og var hann mjög góður. Takk fyrir mig.

sunnudagur, 10. október 2010

"Tharna á horninu"

Hlíðargarður Við krakkarnir í hverfinu vorum að leika okkur í skrúðgarðinum í Hvömmunum og svo áttum við það til að laumast í skjóli myrkurs í nálæga garða til að "ná" okkur í gómsæt jarðarber, gulrófur eða næpur. Í minningunni var slíkt góðgæti ræktað í mörgum görðum. Við vorum þó alltaf á varðbergi gagnvart Kópavogslögreglunni og illum garðeigendum sem eðli máls voru ekki hrifnir af þessu hnupli. Einu sinni kom Ingólfur lögga að okkur í garðinum og Dóri í Birkihvammi kom fyrstur auga á hann. "Löggan er að koma," stundi hann upp úr sér og þegar einhver spurði hann hvar, svaraði hann að bragði:"Tharna á horninu." Þetta "Th" var svo sérstakt að allir sem ekki voru við það að gera í brækurnar fóru að hlæja. Þetta svar hefur lifað í minni mínu í um hálfa öld. Ingólfur lögga náði okkur sem sé þetta tiltekna kvöld öllum hópnum einsamall. Við höfum örugglega verið á þriðja tug barna sem vorum þarna. Við fengum valdsmannslega og föðurlega ræðu um að bannað væri að taka jarðarber, gulrætur eða næpur ófrjálsri hendi og spila fótbolta á túnbleðlunum í garðinum. Einn í hópum vogaði sér að vera með smá derring við yfirvaldið og fékk hann nafn sitt skráð í bók lögreglumannsins. Þessi gamla minning vaknaði í kvöld við það að kvöldstillan, hlýindin og myrkrið minnti mig á þessa gömlu góðu daga í Hvömmunum á þessum árstíma. Mikið óskaplega er veðrið annars fallegt þessa dagana. Annað var það ekki. Kveðja.

sunnudagur, 3. október 2010

Kristianstad í október.

Höfum átt hér góða daga í Kristianstad með Hirti, Ingibjörgu og strákunum okkar, Sveini Hirti og Jóhannesi Erni. Veðrið á Skåne er til þess að gera milt en það er þó heldur að kólna. Fórum til Kivíkur í dag og vorum þar á markaðsdegi eplanna. Enduðum á "hippakaffihúsi" út í skógi sem áður var brugghús, framleitt alkohól úr kartöflum og korni til 1970. Nú þá var farið á dótamarkað í morgun. Þar var selt allt milli himins og jarðar. Þetta er svona það helsta úr ríki Svía. Á morgun kemur í ljós hvernig meirihlutamálum Reinfelt í pólitíkinni verður háttað. Í framhaldi fórum við til Jönköping og var ég þar fram á miðvukdaginn 6. október. Við leigðum okkur bíl í Malmö og keyrðu m.a. til Bostad á leiðinni til Jönköping og komum við í nokkrum minni bæjum á leiðinni. Höfum átt fína daga í Jönköping.

mánudagur, 27. september 2010

Um frelsi.

Spurt var: Frelsi leiðir ekki endilega til hamingju. Samt vilja fæstir afsala sér frelsi sínu. Er frelsið þá eftirsóknarvert í sjálfu sér?
Svar mitt er já, en frelsi þitt má ekki vera helsi mitt. En hugleiðum þetta:
Við berumst áfram eins og safn af fjalli. Mitt í þvögunni dásömum við grasið græna sem líður framhjá á göngunni og hve gott væri að geta staldrað við og gætt sér á því - teljum að þar í liggji hamingja okkar. Leiðin liggur þó ýmist í sláturhúsið eða fjárhúsið, enginn veit sín örlög fyrr en þar að kemur. Erum við ekki bara eins og hin hjarðdýrin. Er frelsið kannski jafnvægispunkturinn á pendúlnum, nauðsynlegur punktur til að telja slögin - hlutlaust augnablik í endalausum slætti gangverksins? Meira og minna huglægt ástand fremur en áþreifanlegt fyrirbæri? Frelsið er eins og lýðræðið, brothætt, sagði einu sinni frómur maður. Við brjótum það stundum en lofum það eigi að síður á tillidögum. Ég held mig áfram við hjarðhegðun mannsins eins og sauðasafn af fjalli. Það telur sig ráða för en þegar betur er að gáð eru það hundar og menn sem ráða. Já líklega er frelsið huglægt fyrirbæri og erfitt, ef ekki vonlaust að skilgreina það.

sunnudagur, 26. september 2010

Íslandsmeistarabærinn Kópavogur.

Blikar í baráttunni. Ég veit ekki hvort fólk almennt skilur það af hverju við gamlir Kópavogsbúar gleðjumst svo mikið yfir góðum sigri Breiðabliks í úrvalsdeild karla í fótbolta. Við sem erum alin upp í þessum bæ höfum lengst af verið í ákveðinni "underdog" stöðu gagnvart grönnum okkar á höfuðbólinu Reykjavík. Við vorum frumbyggjar, göturnar okkar framan af lélegar. Lífsbaráttan var harðari í Kópavogi. Við höfum líklega öll upplifað það að Reykvíkingar hafi horft til okkar með nebbann upp í loftið bara fyrir það að búa í Kópavogi. Viðleitni okkar hefur verið að sanna okkur og sýna þeim að við værum ekki síðri samferðarfólkinu hinum megin við lækinn. Okkur hefur tekist það á öllum sviðum og jafnvel gengið betur í sumu. Mikil uppbygging á sviði íþróttamála er að skila sér. Þótt kvennalið Breiðabliks hafi náð frábærum árangri stóð það alltaf upp á okkur karlana að ná sama árangri. Núna hefur ný kynslóð ungra manna tekist þetta verkefni með miklum sóma. Enn einn sigurinn í sigurgöngu Kópavogs er í höfn. Fallega bænum milli voganna tveggja.

mánudagur, 13. september 2010

Hæ, hvernig hefur þú það?

Það er farið að hausta og framundan bíður vetarstarfið. Þetta er tíminn sem maður setur sig í stellingar og fer yfir verkefnalistana og hristir af sér værukærð sumarsins. Ég byrjaði að auka hreyfinguna strax síðsumars í ágúst byrjun. Það veitir víst ekki af auknu úthaldi og þreki til þess að hefja leikinn. Eftir því sem á líður gerir maður sér betur og betur grein fyrir því hversu nauðsynleg holl hreyfing er bæði fyrir sál og líkama.
Þetta er líka tíminn sem maður laumast til að dusta rykið af sjálfshjálparbókunum. Ég gerði mér grein fyrir því nú um helgina þegar verið var að flokka bókaskruddur að ég hef augljóslega mikinn áhuga á slíkum bókum. Þegar flokkuninni var lokið stóð heima að ég átti fullan kassa. Mest eru þetta amerískar bækur, ýmist þýddar eða á ensku máli, nokkrar sænskar og svo auðvitað á íslensku. Þannig getur maður forvitnast milli menningarheima hvernig best er staðið að sjálfsstyrkingu sálartetursins. Ég minnist þess einu sinni handfjatlandi svona bók hjá Braga fornbókasala og hálft í hvoru að afsaka við hann að að ég væri hugsa um að kaupa svona bók. Bragi kom með rétta viðhorfið og sagði afslappað á sinn hátt eitthvað á það leið að hann vissi ekki til þess að það hefði skaðað neinn að lesa svona bækur. Sumar þeirra væru jafnvel alveg þess virði að lesa þær einu sinni eða svo. Ég keypti að sjálfsögðu bókina.
Uppáhaldsbækurnar mínar eru bækur Dr. Normans Vincent Peale, Vörðuð leið til lífshamingju og Bjartsýni léttir þér lífið. Líklega eru þær í mestu uppáhaldi vegna þess að ég komst í tæri við þær fyrir margt löngu við þannig aðstæður. Ein sem heitir, Inner game of Music er mjög góð til þess að styrkja sjálfstraustið. Miðar m.a. að því að berja sjálfsöryggi í skjálfandi tónlistarmenn. Sænsku bækurnar bera titlana Att leva är en konst, Vila för själen og Kompassen till ditt liv. Nú að ég tali nú ekki um Thick Face, Blach Heart, þrautreyndar asískar baráttuaðferðir til árangurs. Hugræn atferlismeðferð er eitt af því sem finna má upplýsingar um í sumum þessara bóka til þess að auka vellíðan fólks. Það er góð og einföld leið til þess að vinna í sálartetrinu.
Annað gott ráð til þess að viðhalda lífsgleðinni fyrir utan hreyfingu og lestur sjálfshjálparbóka er að syngja. Stemma lag við ljóð í góðum félagskap er jafnvel betri kostur en lestur sjálfshjálparbóka. Fátt hressir betur upp á sálartetrið á dimmu vetrarkvöldi. Nú er að byrja kórsstarf víða og óhætt að hvetja alla söngelska til þess að huga að því. Einn af þessum kórum sem nú er að hefja vetrarstarfið er kórinn minn, Söngfélag Skaftfellinga og byrja æfingar næstkomandi þriðjudag kl. 20.00 í Skaftfellingabúð. Við sjáumst ef til vill á næstu æfingu?
Nú ef ekkert af þessu dugar til að bæta sálarástandið getur verið þrautalending að takmarka hlustun á útvarp og sjónvarp og fletta hraðar í gegnum morgunblöðin. Þannig má takmarka flæði neikvæðninnar af vettvangi þjóðmálaumræðunnar, sem á örugglega stóran þátt í vaxandi vanlíðan margra.

laugardagur, 4. september 2010

Vífilsstaðir 100 ára

Helgi Sigurðsson Ég var mættur á 100 ára afmælishátið Vífilsstaða í dag. Hælið sem tók til starfa árið 1910 hefur fyrir margt löngu skilað hlutverki sínu sem berklahæli. Síðustu ár hefur þar verið rekin öldrunarþjónusta, sem nú hefur einnig verið aflögð. Þessi fornfræga glæsta bygging stendur nú tóm. Óvissa er um framtíðarnotkun hennar en vonandi fær húsið viðeigandi hlutverk. Þess var minnst að 100 ár eru síðan húsið var tekið til síns upprunalega brúks. Sýning var haldin í húsinu og fyrirlestraröð um sögu þess og sögu berklaveikinnar á Íslandi. Þá er í Morgunblaðinu í dag ítarlegt fylgiblað um Vífilsstaði þannig að hér verður sagan ekki tíunduð í smáatriðum. Ég hlustaði á nokkra fyrirlestrana þ.á.m.l. Helga Sigurðssonar læknis. Lokaorð Helga eru mér minnisstæð: Til að bæta þjóðarmein þarf vitra stjórn, velmenntaða og skynsama alþýðu. Þetta dugði í baráttu við berkla. Þetta þarf einnig til þess að koma okkur úr þeim vanda sem nú er við að glíma í efnahagsmálum. Helgi ásamt ýmsum öðrum fyrirlesurum rakti sögu berklanna og þá erfiðleika sem þeir sköpuðu þjóðinni og þeim þúsundum einstaklinga sem fengu þennan sjúkdóm. Þetta var frásögn af mikilli baráttu fólks sem seint líður úr minni þeirra sem hlustuðu á sögu fólksins og hælisins.
Vífilsstaðir Nafn Helga Ingvarssonar yfirlæknis er tengt órofa böndum sögu berklaveikinnar. Hann var yfirlæknir á Vífilsstöðum um áratugabil. Fróðlegt var að heyra frásagnir sjúklinga af mannkostum þessa merka læknis. Hann hafði gríðarlega sterka nærveru. Það get ég sjálfur vitnað um enda hitti ég hann nokkrum sinnum. Hann er afi Helga Sigurðssonar og kynni mín af Vífilsstöðum er í gegnum kynni mín og vinskap okkar. Göngur á Strandarkirkju sem fjölskylda Helga hefur staðið fyrir í áratugi eru m.a. gengnar í minningu hans, en hann stundaði þessar göngur. Frásagnir af henni er að finna á þessari heimasíðu. Þá er þess að geta að fyrstu kynni mín af Vífilsstöðum sem ungs drengs á sjöunda tug síðustu aldrar var þegar við félagarnir fórum í heimsókn til yfirlæknishjónanna á Vífilsstöðum. Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar við gengum yfir Smárahvammsmóana og heiðina og sýnin heim að Vífilstöðum opnaðist okkur, hvít glæst bygging ásamt ýmsum smærri snyrtilegum byggingum í kring. Gríðarlega mikil tún fyrir framan bygginguna og fjöldi kúa á túninu. Ég man líka eftir óttanum sem því var tendur að nálgast hælið á þessum árum, hvað þá að fara inn á svæðið og berja að dyrum hjá yfirlækninum, sem tók okkur að sjálfsögðu ljúfmannlega. En vonin um að komast í amerískt sælgæti var óttanum yfirsterkari. Á Vífilsstöðum var nefnilega von um að komast í amerískt sælgæti sem þar var selt að sögn Helga sem í dag fór yfir sögu hælisins og sjúkdómsins. Þó minnist ég þess ekki að hafa fengið slíkt sælgæti en íslenskt límonaði og malt var sótt í kjallarann hjá yfirlæknishjónunum í tilefni heimsóknarinnar.

sunnudagur, 29. ágúst 2010

Út í Eyjum.

Stafkirkjan
Okkur Sirrý var boðið í heimsókn út í Eyjar á föstudaginn. Eftir vinnu keyrðum við austur í Landeyjarhöfn og fengum okkur far með Herjólfi kl. hálf tíu um kvöldið og vorum kominn til Eyja um fjörtíu mínútum síðar. Áttum yndislega stund í Eyjum. Borðuðum góðan mat og fórum í göngutúr og bíltúr víða um Heimaey og fórum svo aftur heim í gærkvöldi. Ferðin upp á land með Herjólfi tók um hálftíma og eftir góða tvo tíma vorum við í kominn í Kópavog. Þetta er gríðarleg samgöngubót við Vestmannaeyjar og lítið mál að skella sér í heimsókn þangað. Við skildum bílinn eftir við Landeyjarhöfn. Farið yfir kostar 1000. kr á mann aðra leið.

sunnudagur, 8. ágúst 2010

Strandarkirkjuganga

Gönguhópurinn 2010 Í gær var gengið á Strandar kirkju með afkomendum Helga Ingvarssonar yfirlæknis á Vífilsstöðum. Hluti hópsins hóf gönguna við Vífilsstaðavatn og gékk því samtals um 36km að Hlíðarvatni. Stærsti hluti hópsins byrjaði gönguna við Bláfjallaveginn en sá áfangi er samtals um 18 km. Gönguveður var gott þrátt fyrir einstaka skúri og tók alls um sjö tíma lengri hlutinn en fjóra til fimm tíma styttri vegalengdin. Að göngunni lokinni var keyrt síðasta spölin að Strandarkirkju þar sem gönguforinginn Helgi Sigurðsson fór yfir annál göngunnar. Afi hans Helgi Ingvarsson stofnaði til þessarar gönguhefðar fyrir um 70 árum. Eftir gönguna var komið saman hér í Brekkutúninu. Kveðja.

sunnudagur, 1. ágúst 2010

Heimsókn að Hnausum

Halla og Sirrý hlýða á Vilhjálm á Hausum Við vorum í Skaftártungu þessa Verslunarmannahelgi eins og svo oft áður. Gestur okkar í gær var Halla Valdimarsdóttir móðursystir Sirrýjar. Við erum örugglega búin að dvelja þarna þessa helgi síðan Z var skrifuð í orðinu verslun. Allavega mun lengur en hætt var að nota þennan staf sem auðkennisstaf fyrir bifreiðar í sýslunni. Að þessu sinni heimsóttum við hann Vilhjálm Eyjólfsson á Hnausum, fjölfróðan um sögu sveitarinnar og þá sérstaklega Meðallandið. Okkur langaði að hitta þennan nafntogaða höfðinga og sjálfsmenntaða fræðimann og koma að Hnausum en þar er að finna fjörgamalt bæjarstæði. Vilhjálmur er ef til vill flestum miðaldra og eldri lesendum Mbl kunnur sem fréttarritari blaðsins í sveitinni um árabil. Á myndinni hér að ofan má sjá þær frænkur í betri stofu eldri bæjarins á Hnausum hlýða á Vilhjálm segja frá sögu staðarins. Þarna dvaldi m.a. málfræðingurinn Rasmus Christian Rask er hann ferðaðist um Meðalland. Eitt af því sem við ræddum var af hverju svo mörg býli í Meðallandi bera nöfn með fleirtöluendingunni "ar" t.d. Botnar, Feðgar, Hnausar og Lyngar. Annað sem okkur þótti merkilegt í frásögn Vilhjálms var að Meðallandið hafi verið byggt fyrir a.m.k. 2400 árum og ýmsar menjar styrki þá skoðun hans. Þá var greiðfært til Íslands og góð lending í Skaftárósi og Meðalland í alfaraleið af hafi, þótt síðar yrði þetta eitt einangraðasta svæðið á landinu. Hann tilgreindi Heklugos sem nánast eyddi Skotlandi fyrir 2400 árum og það hefði vafalaust breytt aðstæðum í sveitinni.
Elsta sjúkrastofa á landinu? Yfir fjósinu á Hnausum er baðstofuloft og sagði Vilhjálmur okkur sögu þess. Þar dvöldu oft sjúklingar og deyjandi fólk af svæðinu. Stundum var skilið að með dulu sá hluti baðstofuloftsins þar sem fólk lá banaleguna. Sá síðasti sem lést á baðstofuloftinu var gamall maður sem hét Ólafur og var það árið 1943. Í köldum veðrum flutti heimilisfólk á Hnausum sig yfir á þetta baðstofuloft vegna þess hve þar var hlýrra. Þá sagði hann okkur af reimleikum í einu horni baðstofuloftsins en þar dvelur einhver sem á erfitt með að hverfa á braut.
Skipstjóraborðið Víða getur að líta muni úr skipum sem strönduðu í Meðallandsfjöru. Þetta borð sem Vilhjálmur kallaði skipstjóraborðið er úr skipi sem endaði upp í fjöru. Borðið er rúnnað á borðbrúnum til þess að varna skaða í veltingi. Ýmsa forvitnilega muni úr skipum sýndi Vilhjálmur okkur. Eftir 1935 fækkaði til muna skipum sem strönduðu í Meðallandsfjöru, líklega vegna þess að þá voru komnir til sögunnar dýptarmælar. Skipsströnd reyndust oft mikil búbót fyrir fólk á þessu svæði, svo sem þekkt er úr frásögnum.
Gamla stofan Að lokum er hér mynd af gömlu stofunni að Hnausum en hún var gerð upp í upprunalegt horf fyrir nokkrum árum síðan.

sunnudagur, 25. júlí 2010

Guðrún Finnbjarnardóttir fimmtug

Guðrún og Finnbjörn Annállinn óskar Guðrúnu Finnbjarnardóttur til hamingju með fimmtugsafmælið. Hún bauð til mikillar veislu fyrir vini sína, frændur og fjölskyldu. Félagar úr Módettukórnum og Schola Cantorum sungu í tilefni dagsins og hún ásamt félögum sínum sungu nokkur valinkunn lög. Guðrún er sú af afabörnum Jóns Hjartar Finnbjörnssonar söngvara sem sinnt hefur mest og best sönggyðjunni og haldið uppi nafni ættarinnar á þeim vettvangi. Hún er fjölmenntuð i söng og hefur verið virkur þátttakandi í sönglífi borgarinnar um árabil. Hún hefur verið einn af máttarstólpum í þeim kórum sem Hörður Áskelsson kantor hefur stjórnað eins og í Módettukórnum og Schola Cantorum kórnum eins og hann orðaði það sjálfur í ræðu henni til heiðurs.

fimmtudagur, 22. júlí 2010

Í sumarfríi á Snæfellsnesi


Síðustu helgi vorum við Sirrý á Hellnum á Snæfellsnesi í einmuna blíðu. Vorum fyrstu tvo dagana með Valdimari, Stellu og Lilju. Borðuðum úti á túni mikla veislumáltíð. Vind hreyfði ekki allt kvöldið. Við fórum í Vatnshelli í Purkhólahrauni, skemmtilegt nafn á hrauni það og hellaferðin vel þess virði. Spölurinn milli Arnarstapa og Hellna er kjörin gönguleið og ægifögur klettótt ströndin er eitthvað sem allir verða að sjá. Fjörukráin á Hellnum er orðin vel þekkt og hana sækja margir ferðamenn heim. Síðari dagana var Hjörtur Friðrik með okkur ásamt Sveini Hirti og Jóhannesi Erni. Við Hjörtur heimsóttum þessa hverfiskrá á Hellnum og sátum á pallinum við hana í sömu bongóblíðunni. Kveðja.

þriðjudagur, 13. júlí 2010

Gengið um Elliðaárdal


Við Sirrý gengum um Elliðaárdal í fylgd Ólafs Jóhannssonar á vegum Orkuveitunnar þar sem við vorum frædd um dalinn, virkjunina og laxveiðar í þessari mögnuðu á. Virkjunin var reist á þriðja áratug síðustu aldar og er því um 90 ára gömul um þessar mundir. Laxateljarinn sagði að 1452 laxar hefðu gengið í árnar í dag og búið er að veiða um 520 laxa frá opnun 20. júní. Um sjötíu manns tóku þátt í gönguferðinni um þessa náttúruperlu okkar höfuðborgarbúanna.

sunnudagur, 11. júlí 2010

Spánn heimsmeistari 2010 á HM


Spánn vann Holland 1:0 í Suður - Afríku. Leikurinn var ekki tilþrifamikill og mikið um gul spjöld. En betra liðið vann - ja liðið sem ég hélt með að þessu sinni. Góður fílingur að vera í sigurliðinu.

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Líf á Læk

Sirrý amma með barnbörnin.
Það er líf og fjör á Læk. Á föstudagskvöldið komu Stjánastaðabræður með foreldrum sínum frá Svíþjóð. Þeir skruppu upp í Borgarnes á sunnudaginn og voru mættir aftur í til leiks í Brekkutúnið í gær ásamt föður sínum. Lilja frænka þeirra hefur verið dugleg að heimsækja þá og nýtur augljóslega félagsskaparins út í ystu æsar. Það fer ekki mínúta til spillis hjá þeim bræðrum, sannkallaðir fjörkálfar og engin lognmolla í kringum þá. Senn líður að sumarleyfi og ýmislegt á döfinni eins og vera ber. Kveðja.

sunnudagur, 4. júlí 2010

Ég fór að hjóla með......

Hjólaði í austurátt upp Elliðaárdal áfram upp í Vatnsenda með fram vatninu og áður en ég vissi var ég kominn upp í Heiðmörk. Kynntist nýrri hlið á þessu fágæta útvistarsvæði í hjarta borgarinnar. Leiðin er sérstaklega falleg meðfram ánni. Veiðimenn voru að renna fyrir lax og/eða landa fiski. Fólk á gangi eða á hjóli eftir atvikum. Ég var svolítið óöruggur á "réttu" leiðina og veit núna að ofan Vatnsveitubrúarinnar á maður að vera norðan við Elliðaár. Þar er betri hjólastígur sem leiðir mann hraðar upp eftir. Satt best að segja hélt ég að hjólreiðakaflanum í lífi mínu væri lokið en það var ekki. Lét gera við gamalt hjól sem var inn í bílskúr. Ætlaði fara að henda því en kom við hjá viðgerðarmanni áður en ég fór með það á haugana. Ja, mér þykir þú auðugur maður ef þú ætlar að henda þessu hjóli sagði viðgerðarmaðurnn og bætti við að svona hjól leggi sig ekki undir 150 þúsund krónur nýtt. Síðan hafði hann einhver fagmannleg orð um að gírarnir væru með því besta sem þekktist. Þetta var nóg fyrir mig til þess að samþykkja 15 þúsund króna viðgerð á hjólinu. Nú hef ég þetta ágæta þriggja gíra hjól til reiðu. Eitt er víst ævintýraferðir mínar hér í nágrenninu eiga eftir að verða fleiri á næstunni.

föstudagur, 2. júlí 2010

Um gengisbundin lán.

Nú er Hæstiréttur Íslands búinn að kveða upp úr um að þessi gengisbundnu lán greidd í íslenskum krónum eru ólögleg. Það ætti ekki að koma neinum á óvart sem hefur lesið lög nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu. Axel Kristjánsson lögfræðingur og sérfróður á sviði bankamála skrifaði grein í Mbl. 1. október 2009 um ólögmæti gengistryggingar. Niðurlag hennar er svona: "Á grundvelli ólöglegra lánaskilmála eru bankarnir því að sölsa undir sig milljónir og í sumum tilfellum tugi milljóna af einstaklingum og fyrirtækjum sem ráðgjafar bankanna ráðlögðu á sínum tíma að taka lán með gengistryggingu, án lagaheimildar. Nú ber ríkisstjórninni að leiðrétta þetta og láta bankana innheimta þessi lán í íslenskum krónum án gengistryggingar og gera lántakendum þannig mögulegt að greiða þau. Það á einnig að láta bankana endurgreiða lántakendum slíkra lána þann gengishagnað sem hefur þegar verið ólöglega tekinn af þeim.
Tap bankanna verður ekkert við slíka leiðréttingu annað en „tap“ ólöglegs gengishagnaðar vegna þess að bankarnir afgreiddu lánin í íslenskum krónum en ekki í erlendum gjaldmiðlum. Getur það verið að sérfræðingar hafi ekki bent ráðherrum hinnar hreinu vinstristjórnar á þessa staðreynd? Af hverju vill „hin hreina“ ríkisstjórn vinstriflokkanna ekki fara þessa leið?" Eftir lestur þessarar greinar var jafnvel ólöglærðum málið ljóst. Það er því óskiljanlegt af hverju stjórnvöld hafa ekki verið með viðbragðsáætlun við niðurstöðu Hæstaréttar. Svona er hvert málið látið rekast áfram en ómældum tíma varið í það að draga þrótt og dug úr hjólum atvinnulífsins og gera þá sem þar starfa tortryggilega. Ég segi nú bara sér grefur gröf þótt grafi.

sunnudagur, 27. júní 2010

Þýskaland versus England

Fjögur eitt Þjóðverjum í vil á HM 2010. Þetta verður eftirminnilegur leikur. Dæmt mark af Englendingum. Það var afar ósanngjarnt en þýskir kláruðu leikinn í seinni hálfleik. Þetta var "úrslitaleikur" okkar Evrópubúa það er ljóst. Nú er að sjá hvað Þjóðverjar komast langt þeir eru mjög góðir og spil þeirra yfirleitt til fyrirmyndar.

laugardagur, 26. júní 2010

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins

Fálkinn.
Ég var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær og í dag. Þetta var óvenju stuttur fundur en um margt skemmtilegur og fróðlegur. Eftir ræðu formanns hófst málefnastarf sem var með nýju sniði. Það fólst í því að skipað var í málefnanefndir og við hvert borð voru tíu félagar sem ræddu málefnin. Við hvert borð var borðstjóri sem stjórnaði umræðunni og í lok hvers áfanga skilaði hann niðurstöðu borðsins til formanns málefnanefndar sem síðan dró saman helstu niðurstöður í hópnum. Þetta var veruleg breyting frá umræðu síðustu áratuga og ágætis tilbreyting. Tilvalið að reyna þetta fundarform á þessum aukalandsfundi. Það er deginum ljósara að öflugt starf Sjálfstæðisflokksins, hvort heldur er í stjórn eða stjórnarandstöðu er forsenda þess að hjól efnahagslífisins fari að snúast aftur. Flokkurinn er brimvörn og málsvari atvinnulífsins, fyrirtækjanna og hinna vinnandi stétta. Einmitt nú í miklu atvinnuleysi og óvissu á vinnumarkaði er nauðsynlegt að efla þennan þátt á vettvangi stjórnmálanna. Andstæðingar flokksins ásaka flokinn um einangrunarstefnu. Svona fullyrðing er út í hött. Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur lagt jafn ríka áherslu á alþjóðlegt samstarf og Sjálfstæðisflokkurinn í gegnum tíðina. Aðild að Evrópusambandinu er ekki leið Íslands út úr núverandi þrengingum heldur þvert á móti. Það er verið að eyða peningum og tíma í að sækja um aðild. Hvernær ætla Evrópusambandsinnar að skilja að þeir verða að afhenda yfirráð yfir helstu auðlind þjóðarinnar. Af hverju lesa þeir ekki stofnsáttmála sambandsins og hvað þar segir um fiskstofna. Ég ætla að spara frekari stóryrði um þá sem ætla að leggja upp í þessa vegferð.

miðvikudagur, 23. júní 2010

.. með lífið að láni - njóttu þess.

Skólabróðir minn Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur er látinn. Þótt vegir okkar hafi ekki legið saman að heita geti síðan í MR var alltaf gaman að hitta hann og gamla menntaskólatengingin okkar lifði vel. Með lífið að láni - njóttu þess er titillinn á bókinni hans Sæmundar, sem hann skrifaði ásamt kollega sínum Jóhanni Inga Gunnarssyni. Uppbyggileg lesning og einnar messu virði fyrir þá sem eru að leita leiða til þess að fóta sig betur í lífinu. Síðast áttum við góða kvöldstund saman fyrir fimm árum á þrjátíu ára stúdentsafmælinu okkar. Það reyndist vera í síðasta skiptið sem við fórum yfir þetta tímabil í lífinu. Við ræddum námsleiðir okkar og val í menntaskóla. Ég fór á náttúrufræðibraut en hann eðlisfræðibraut ásamt litlum harðskeyttum kjarna. "Sveinn þú varst alltaf einn af okkur." Þessi setning lifir í minningunni úr samtali okkar. Satt best að segja hef ég oft yljað mér við þessa setningu. Í henni fólst ákveðin viðurkenning skólafélaga sem fylgdist með baráttunni á menntaskólaárunum. Blessuð sé minning Sæmundar.

sunnudagur, 20. júní 2010

Úr Skaftárdal í Skál og Skálarheiði.

Gönguhópurinn 2010
Þann 18. júní var komið að fyrri dagleið Skálmhópsins. Göngu frá Skaftárdal að Skál meðfram Skaftá í hlíðum Skálarheiði. Endastaðurinn var bærinn Skál, þar sem við höfðum góða aðstöðu á bænum. Leiðin er seinfarin og æði erfið á köflum. Sérstaklega er hún seinfarin þegar komið er að kjarrsvæði ofan Skaftár í snarbröttum hlíðum heiðarinnar. Veðrið var og gott til göngu og mikill hugur í göngufélögum. Leiðsögumaður okkar var Eiríkur Jónsson frá Skaftárdal, mikill göngugarpur. Við áðum við Á, það eru bæjartóftir eyðibýlis ofarlega í bröttum hlíðum en bærinn fór í eyði 1935. Lambahagagil Áhugaverðir og fallegir fossar og skorningar urðu á leið okkar, Lambhagagil, Drífandi. Útsýni var yfir Skaftáreldahraun yfir í Svínadal og vel sást í Hemru - Stakk. Eldklerkurinn var ofarlega í hugum fólks og saga svæðisins. Með jöfnu millibili las félagi Gísli ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur til þess að næra hugann í bland við náttúrufegurðina. Alls vorum við níu tíma á leiðinni og var það nokkuð nærri þeirri áætlun sem við fylgdum. GPS mælirinn hann Péturs upplýsti okkur um að leiðin væri 16,2 km.
Rauðhóll Seinni daginn þann 19. júní var gengið upp á Skálarheiði sem er í allt að 500 metra hæð. Upp á heiðinni var fylgt gömlum slóða lengst af. Síðan var tekinn góður hringur um heiðinna og horft í höfðuðáttirnar þar sem gat að líta mörg frægustu fjöll Íslands: Mýrdalsjökul, Sveinstind, Vatnajökul og Pálstind og svo mætti áfram telja.
Á göngu. Eftirminnilegur er brennisteinsfnykurinn sem var fyrir vitum okkar á leiðinni upp Skálarheiði. Vísbending um að Skaftárhlaup væri í vændum, þótt ekki hefðum við gert okkur grein fyrir því þá. Í dag berast fréttir af því að hlaup í Skaftá sé hafið. Gangan var alls 15 km löng og mun þægilegri en fyrri daginn. Veður til göngu var hið besta og útsýni til allra átta. Við þetta tækifæri varð til þetta vísukorn: Hreykja sér á hæsta tindi, glæstir Skálmarar. Horfa vítt til allra átta, austur, vestur, norður og suður. Drekka í sig fegurð fjalla en í dalverpi bíður kjötsúpan ljúfa, hvílíkur friður. Þannig kvað lúinn hugur vísukorn við það eitt að teyga í sig fjallaloftið. Í lok ferðar var fararstjóra, skipuleggjendum og súpukokkum þökkuð sérstaklega þjónustan við Skálmara. Um kvöldið var sameiginleg kvöldvaka þar sem kjötsúpunni voru gerð góð skil. Kristinn Kjartansson lék á harmóníku, tekið var lagið og meira að segja nokkur létt dansspor stigin og svo sagði hann Broddi okkur sögur úr sveitinni bæði nýjar og gamlar. Þar með var þessari ferð Skálmara um Út - Síðu lokið og langþráðu takmarki. Ferðafélögum þakka ég samfylgdina og félagsskapinn.

Myndir: Pétur H.R. Sigurðsson.

fimmtudagur, 17. júní 2010

Gleðilega þjóðhátið

Óska öllum lesendum annálsins gleðilega þjóðhátið. Nú er ferðinni heitið austur á Síðu til að taka þátt í árlegri Skálmgöngu félaga í Skaftfellska gönguhópnum sem kalla sig Skálmara. Þetta er tveggja daga ganga. Í dag var útvarpað þætti um ljóðið Þótt þú langförull legðir og lögin 17 sem samin hafa verið við þetta merka ljóð Stephans G Stephanssonar. Efni þáttarins byggir m.a. á samantekt minni um lögin við þetta ljóð og tónskáldin sem samið hafa lag við ljóðið.

miðvikudagur, 16. júní 2010

Arkað um Eyrarbakka

Leiðsögumaðurinn. Í gær fór ég ásamt félögum í Söngfélagi Skaftfellinga í gönguferð um Eyrarbakka. Við slógumst í för með tveimur söngfélögum sem búa á Bakkanum. Gengið var um elsta hluta bæjarins og húsin skoðuð og saga Eyrarbakka rifjuð upp enda af mörgu að taka. Má þar nefna mikilvægi staðarins fyrir verslun á öldum áður, tónlistariðkun og fleira og fleira. Enduðum þetta skemmtilega rölt söngfélaganna á veitingarstaðnum Hafið bláa við Ölfusárósa og fengum okkur þar góða humarsúpu sem óhætt er að mæla með.

mánudagur, 14. júní 2010

Dottinn í "World cup"

Úr leik Ítala og Paragvæ. Já ég ætla að "detta" ærlega í boltann að þessu sinni. Mikið er gaman að keppnin er loksins hafin og maður getur einbeitt sér að því einu að fylgjast með. Ég ætla að njóta þess í botn á meðan hún varir. Þetta er ágætis aðferð til þess að gleyma veraldlegu amstri um sinn og huga að knattspyrnunni svona góð framlenging á Frakklandsfríinu. Mitt uppáhaldslið er að sjálfsögðu Brasilía eins og alltaf. Þar næst Argentína og Þýskaland. Það eina sem truflar mig svolítið er hversu lélegir sumir leiklýsendur eru í íslensku og tala vitlaust mál. Kveðja.

sunnudagur, 13. júní 2010

Vikan í Myllunni

Sveinn og Helgi
Dagana 4. til 11. júní áttum við Sirrý yndislega daga í Myllunni í Búrgúndý í Frakklandi með vinum okkar Helga og Ingunni. Veðrið framan af vikunni var mjög gott allt að þrjátíu stiga hiti, glaða sólskin og stillt veður. Dögunum var varið í slökun heima við í Myllunni og svo farið á markaðstorgin í bæjunum í kring. Á þessum mörkuðum er aðallega boðið upp á fjölbreytilegt úrval matvöru. Við fórum m.a. í basilíkuna í Vézeley, sem helguð er minningu Maríu Magdalenu og safn Gallanna í Alesíu á mikilli hæð í Burgúndý þar sem Rómverjar knúðu þá til uppgjafar árið 57 fyrir Krist. Hver man ekki eftir bókunum um Astrix og vin hans. Ferðin byrjaði reyndar ekki vel. Ég fékk sýkingu í fótinn daginn áður en lagt var af stað og því fylgdi hár hiti og svo blóðeitrun. Það var sem betur fer ekkert sem skammtur af pensilíni gat ekki lagað. Það er svo sannarlega hægt að mæla með dvöl á þessum frábæra stað vilji fólk njóta eins frægasta vínhéraðs Frakklands og njóta dvalar á rólegum stað í franskri sveitarsælu.

laugardagur, 12. júní 2010

Útskrift úr HÍ

Í dag útskrifaðist Valdimar Gunnar Hjartarson með mastersgráðu í lögum frá Háskóla Íslands. Annállinn óskar honum til hamingju með þennan áfanga. Það ætti að vera nóg að gera á næstu árum við að greiða úr lagaflækjum í samfélaginu. Annars lítið í fréttum nema helst það að heimsmeistaramótið í knattspyrnu hófst í gær og vonandi að maður geti horft á spyrnuna næstu vikur.

föstudagur, 11. júní 2010

Heim í heiðardalinn

Við Sirrý komum heim í dag eftir mikla ævintýraferð til Frakklands. Við vorum alls í sjö daga og áttum náðuga daga í Myllunni í Búrgúndí með vinum okkur milli þess sem við skoðuðum ýmis kennileiti Búrgúndi svæðisins. Veðrið var almennt mjög gott oftast sól og hiti en síðustu tvo dagana var regn.

laugardagur, 29. maí 2010

Eurovision enn og aftur.

Hera Björk.
Nú hljótum við að draga langt með þessa flottu söngkonu Heru Björk ef Evrópa kann ekki að meta þessa dívu okkar þá geta þeir bara átt sig og hananú. Annars vorum við í Sköftunum með gig í Skaftafellsskógi í dag í lundi Skaftfellingafélagsins í Reykjavík í Heiðmörk. Þetta er síðasta framkoma kórsins á þessari vertíð. Þetta var hin besta stund og skemmtileg í góðra vina hópi við orðræður og pulsuát. Síðan var farið að kjósa í Smárann. Kveðja.

fimmtudagur, 27. maí 2010

Heillandi land

Ísland er heillandi land. Þetta hafa allir þeir fjölmörgu útlendingar sagt við mig sem ég hef hitt undanfarna daga, ja örugglega þrjátíu fjörtíu manns til að vera nákvæmur. Náttúran, höfuðborgin, Arnaldur Indriðason, Björk, Sigurrós eru nefnd meðal þess sem heillar. Þetta nærir sjálsmynd Íslendingsins í manni sem var orðin æði döpur satt best að segja. Maður finnur fyrir pínulitlu stolti sem er að laumast að nýju inn á auðan akurinn í sálartetrinu þar sem Íslendingsstoltið átti nokkuð stórar breiður áður, sérstaklega í samskiptum við þegna annarra landa. Nú er þetta að koma allt aftur með kalda vatninu. Vegurinn frá því ég ræddi við unga manninn í lestinni í Svíþjóð til Danmerkur fyrir tveimur árum hefur verið langur og strangur. Þá ætlaði ég ekki að fá mig til þess að viðurkenna hvaðan ég kæmi. Þá var stoltið verulega sært. Farið, mér fannst ég rændur því sem fólst í því að vera Íslendingur. Þeir sem töldu sig landsins bestu dætur og synir voru tekin í landhelgi reyndust hafa byggt "hús" á sandi - tómri sýndarmennsku. Þetta fólk hefur nú verið afhjúpuð. Sjálfdæmi í lífskjörum var græði og frekja sem átti aldrei að viðgangast. Samt var það látið viðgangast um tíma, þótt við vissum öll að þetta væri ekki rétt. Nóg í bili.

sunnudagur, 23. maí 2010

Yndisfagur hvítasunnudagur.

Það er komið sumar og heilagur andi hlýtur að hafa svifið yfir deginum því að hann var svo ljúfur. Grasið er orðið iðagrænt og æðir upp úr sverðinum. Deginum var varið við útiverk. Stéttin löguð, runnar klipptir og dyttað að ýmsu smálegu. Við enduðum daginn á pallinum hjá Helga og Ingunni og nutum síðustu sólargeislanna með aðstoð lifandi elds og við ilminn af brennandi íslensku birki sem logaði glatt í kvöldværðinni. Tumi sagði að gosinu í Eyjafjallajökli væri lokið í bili. Mæli hann heilastur og vonandi að því sé lokið. Annars lítið að frétta. Kveðja.

fimmtudagur, 20. maí 2010

Demantsbrúðkaup

mamma og pabbi. Foreldrar mínir héldu upp á sextíu ára brúðkaupsafmæli í dag. Hingað komu vinir þeirra, börn, barnabörn og barnabarnabörn. Áttum hér ánægjulegan eftirmiðdag í spjalli, auk þess sem hér var sungið og spilað á píanó. Veislan tókst í alla staði vel og allir fóru glaðir til síns heima fyrir kl. 9.00.

laugardagur, 15. maí 2010

Söngur, dans og ást.

Östergök kórinn.
Yfirskrift á efnisdagskrá sænska kórsins frá Lundi sem heimsótti okkur dagana kringum uppstigninardag og kom fram á tónleikum með okkur á Kirkjubæjarklaustri var: Söngur, dans og ást. Efnisskráin var byggð á lífshlaupi okkar meðaljónanna. Þegar við förum að heiman, hefjum sambúð, eignumst börn, hefjum hið veraldlega brauðstrit, peningavandræði, íþyngjandi skattbyrði, yndisleika tilverunnar, krísur í lífi okkar, villuráf og nýja möguleika. Þau vonuðu að okkur þætti flutningur þeirra ekki of yfirlætislegur. Lagaval kórsins endurspeglaði þennan þráð sem hér hefur verið rakinn í stuttu máli og voru lögin héðan og þaðan bæði sænsk og ensk. Flutningur kórsins var allsérstakur því að við flutning var beitt leikrænum tilburðurm og dansi við sönginn. Stjórnandi kórsins Karen Källen sagði að ef kórinn gæti orðið til þess að áheyrendur gætu hlegið og fengið tækifæri til umhugsunar væri markmiði flutningsins náð. Óhætt er að segja að þetta var hin besta skemmtun. Tónlistarlega séð leið söngurinn svolítið á kostnað dansins og leiksins, en það var allt í lagi þar sem tilgangurinn var skýr í upphafi. Engum leiddist og allt komst til skila.

föstudagur, 14. maí 2010

Austurför Söngfélags Skaftfellinga og Östergöka.


Við í Söngfélagi Skaftfellinga fórum austur á Klaustur á miðvikudagskvöldið ásamt sænskum gestakór, Östergök og héldum tónleika í Kirkjuhvoli á uppstigningardag. Þetta var um margt eftirminnileg ferð sem seint mun líða úr minni. Ægivald náttúrunnar var okkur ferðafélögum hugstætt strax í upphafi ferðarinnar. Þegar komið var austur að Kambabrún sást vel til öskumökksins úr Eyjafjallajökli. Stoppað var á Hellu og snæddur kvöldverður. Eftir því sem nær dró eldstöðvunum urðu áhrif eldgossins áþreifanlegri. Stórbrotnast var sjónarspilið við bæinn Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum en þar sást mökkurinn og spýjurnar úr fjallinu best. Minna var um öskufall á þessu svæði en hefur verið undanfarna daga en það ræðst af vindáttum hvernig askan dreifist. Þegar komið var á Kirkjubæjarklaustur hófust æfingar kóranna og stóðu þær fram undir miðnætti. Þá var farið að draga þrótt úr mörgum Svíanna sem höfðu verið á ferðinni frá því árla morguns. Á fimmtudeginum var farið austur að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Mikill ís var á lóninu og áhrifarík sjón að sjá þessa stórbrotnu náttúru. Síðan var haldið á Klaustur og hófust tónleikar kóranna kl. 16.00 og stóðu tvo tíma. Að venju var nokkuð góð mæting á tónleikana. Sænski kórinn bæði söng og var með leikræna tilburði í flutningi sínum og verður flutningi hans gerð betri skil síðar. Við í Söngfélagi Skaftfellinga vorum með hefðbundinn flutning og fjölbreytilegt lagaval. Næst var farið á dvalarheimilið Klausturhóla og sungin nokkur lög fyrir heimilismenn þar. Sameiginlegur kvöldverður var á hótelinu á Klaustri og síðan hófst kvöldskemmtun kóranna. Lagt var af stað til Reykjavíkur á föstudeginum með viðkomu á dvalarheimilinu Hjallatúni í Vík í Mýrdal. Þá voru þeir tenórbræður í Söngfélagi Skaftfellinga Kristinn, Kjartan og Sigurgeir Kjartanssynir frá Þórisholti heimsóttir og þegnar veitingar í sumarhúsi þeirra. Við vorum kominn til Reykjavíkur upp úr fjögur eftir stífa keyrslu úr Reynishverfi.

fimmtudagur, 6. maí 2010

Sumarið heilsar.

Fyrsta vor - eða sumarverkinu er lokið. Felldi eina stjóra ösp og trimmaði aðra vel. Tónleikarnir með Sköftunum tókust vel í alla staði en áheyrendur hefðu mátt vera fleiri. Næst á dagsrkánni er austurferð með sænskum kór sem kemur hingað um miðjan mánuðinn. Haldnir verða tónleikar á Klaustri 13. maí nk. Þeir sem misstu af tónleikunum í Seltjarnarneskirkju eiga enn möguleika á að hlusta á kórinn. Sirrý var að fá stöðuhækkun í háskólanum og er nú dósent. Valdimar var að skila inn lokaritgerðinni í lögfræðináminu og Stella í stjórnmálafræðinni. Sigrún Huld er á fullu á þriðja ári í hjúkrunarnáminu og gengur mjög vel. Hún er búin að fá vinnu í sumar sem hlýtur að teljast mikil blessun eins og atvinnuástand skólafólks er í dag. Framundan eru ýmislegt skemmtilegt sem heldur manni gangandi. Hingað eru að koma sænskir félagar Sirrýjar frá Jönköping á ráðstefnu í lok maí. Unnur og Hjörtur eiga 60 ára brúðkaupsafmæli 20. maí. Við erum að fara til Frakklands í júní ef að líkum lætur og eldgosið kemur ekki í veg fyrir það eða annað óáran sem hér hefur herjað á okkur undanfarin ár. Allt er það þó meira og minna sjálfskaparvíti og mannanna verk. Það tekur stundum á að búa í þjóðfélagi þar sem engu líkara er að "djöfullinn" sjálfur hafi farið sem eldibrandur um sviðið og sett sín illu spor á allt samneyti manna. Eina ráðið við því er að halda sig við hið smáa og fagra því engu fær maður ráðið um fortíðina eða framhaldið. Kveðja.

laugardagur, 1. maí 2010

Vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga


Á morgun sunnudag 2. maí verða haldnir í Seltjarnarneskirkju vortónleikar Söngfélags Skaftfellinga. Allir eru velkomnir á þessa tónleika. Þetta er endapunktur vetrarstarfsins í kórnum. Stjórnandi er Friðrik Vignir Stefánsson. Með kórnum leika á hljóðfæri Vignir Þór Stefánsson á píanó, Jón Rafnsson á bassa og Matthías Stefánsson á fiðlu. Einsöng með syngur Jóna G. Kolbrúnardóttir. Á dagskránni er fjölbreytileg lög þar á meðal Vorlauf eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, afskapalega fallegt lag.

miðvikudagur, 28. apríl 2010

Brynhildur fjörtíu ára


Stórviðburður gærdagsins var afmælisveislan hennar Brynhildar Björnsdóttur í Salnum í Kópavogi í gærkvöldi. Í tilefni tímamótanna bauð hún fjölskyldu sinni og vinum til söngveislu sem verður lengi í minnum höfð. Þjóð sem á að skipa jafn fjölhæfri og góðri söngkonu og leikara og þarna steig á svið þarf ekki að kvarta. Lagavalið spannaði allt frá klassískum söngstykkjum yfir í fallegan vísnasöng og dægurflugur og sungið á fimm tungumálum auk íslenskunnar - allt utanbókar. Það fór ekki milli mála að þarna fór einstaklingur sem býr yfir miklum hæfileikum. Annállinn óskar henni til hamingju með afmælið og þessa tónlistarveislu og óskar henni velfarnaðar á komandi árum í söng og leik. Meira af þessu. Kveðja.

fimmtudagur, 22. apríl 2010

Sumarið er hér að nýju.

Sumarið er komið. Þetta orð sumar vekur manni gleði og von og fyllir mann fögnuði. Veturinn hefur verið langur og strangur en eigi að síður hefur tíminn liðið hratt í starfi og leik. Líklega munu göngur mínar í vetur lifa lengst í minningunni af afrekum vetrarins. Reglulega hef ég gengið með Skálmurum í allan vetur um Elliðaárdal og Grenilund í Heiðmörk þetta fimm til sjö kílómetra í senn tvisvar í viku. Þetta er örugglega mjög heilnæmt að ganga svona fyrir utan hvað það hefur verið skemmtilegt í góðum félagsskap. Miklum tíma og líklega of miklum hefur verið varið í tölvuhangs. Það má segja að tölvan hafi tekið yfir sjónvarpsglápið. Annars berst maður með strauminum og segir lítið af öðrum afrekum en þessum göngum mínum. Nú líður að því að tónleikar Söngfélags Skaftfellinga verði haldnir sunnudaginn 2. maí í Seltjarnarneskirkju. Veturinn með kórnum hefur verið góður að venju. Nóg í bili. Sumarkveðja.

sunnudagur, 18. apríl 2010

Eyjafjallajökull stjórnar flugumferðinni í Evrópu

Maður hefur verið viðloðandi sjónvarpið og horft á SKY, bresku fréttastöðina lýsa áhrifum af þessu gríðarlega öskugosi. Það hefur vafist fyrir mörgum erlendum fréttamönnum að bera fram nafn Hvollsvallar hvað þá að segja Eyjafjallajökull. Á amerísku FOX fréttastöðinni sögðu þeir nafnið vera eins og einnhver hefði fipast á lyklaborðinu þegar nafnið var ákveðið. Þannig að húmorinn hefur ekki verið langt undan þótt alvara málsins sé mikil. Það er ótrúlegt hvernig þetta eldfjall getur komið í veg fyrir nánst alla flugumferð í Evrópu. Enginn virðist í raun hafa reiknað með að svona atburður gæti gerst. Þetta sýnir líka hversu mikilvægar flugsamgöngur eru til þess að flytja fólk og ekki síður vörur milli heimshluta.

fimmtudagur, 15. apríl 2010

Hver atburðurinn rekur annan.

Þorvaldseyri.
Eyjafjallajökull ákvað að hætta þessum túristaspýjum sem við höfum verið að mynda undanfarna daga og sýna okkur alvöru gos. Eyðilegging þjóðvegarins er töluverð og eldfjallið hefur dreift ösku sinni um okkar fallegu sveitir Skaftártungu, Álftaver og Meðalland. Askan hefur líka gert það að verki að stór hluti flugumferðar í Norður - Evrópu liggur niðri vegna hættu af ösku frá gosinu í háloftunum. Nú í vikunni kom svo skýrslan um bankahrunið sem rannsóknarnefnd Alþingis tók saman. Ég á aðeins þrjú orð um hana/þær þetta eru níu hefti: Þetta er skelfilegt. Jæja læt þetta duga í bili. Kveðja. Mynd:Óskar Sigurðsson.

laugardagur, 10. apríl 2010

Hörmulegt slys

Það var sorglegt að heyra í morgun af hörmulegu flugslysi þar sem fórust hátt í 100 Pólverjar ásamt forseta landsins, Lech Kaczynski og eiginkonu hans. Forsetinn og fylgdarlið hans voru á leiðinni til minningarhátíðar í Smolensk í Rússlandi til að minnast tuttugu þúsund liðsforingja í pólska hernum sem Rússar tóku af lífi á fimmta áratug síðustu aldar. Mannkynsagan geymir marga hryllilega atburði um mannvonsku sem aldrei hafa verið gerðir upp og líklega er ekki hægt. Það er skelfilegt að þetta hörmulega slys skuli eiga sér stað einmitt í tengslum við þessa minningarathöfn sem var liður í viðleitni pólsku þjóðarinnar til að heiðra minningu þeirra manna sem voru teknir af lífi í þessu grimmdarverki.

miðvikudagur, 7. apríl 2010

Gengið um Elliðaárdal

Í kvöld gékk ég í fínum félagsskap hringinn góða um Elliðaárdal í hlýnandi veðri. Heiðskír himinn og skýnandi sól í vestri. Við hefjum jafnan gönguna um hálfátta á miðvikudagskvöldum og erum 65 til 70 mínútur á gangi eftir atvikum. Þetta eru um 7 km ganga. Nú um nokkurra mánaða skeið hefur maður arkað þennan heilsubótarhring samviskusamlega. Það sérstaka við þessar göngur er að maður hefur kynnst árstíðunum vel og nú finnur maður að sólin fer hækkandi og það er að koma vor. Til þess að kynnast dalnum betur hefur lestur bókarinnar um Elliðaárdal verið ágætis afþreying. Það fer ekki milli mála að dalurinn og ýmis mannvirki í honum eiga sér merkilega sögu sem hér verða ekki gerð skil en óhætt að mæla með þessari bók til að glöggva sig á dalnum, sögu hans og náttúru.

þriðjudagur, 6. apríl 2010

Eftir páska

Páskafríið búið. Þurfti að púrra mig upp í gírinn að nýju. Það er verst við svona löng frí að erfitt getur verið að koma sér í gang aftur. Maður er í súkkulaði- og sykursjokki eftir ofát á þessum andskotans páskaeggjum. Ágætt að hefja "eftir páska hrotuna" á því að mæta á kóræfingu og fínslípa lögin sem verða sungin á tónleikum 2. maí næstkomandi í Seltjarnarneskirkju. Það er búið að vera mikið gaman í kórnum í vetur og góður hópur sem hefur mætt vel á æfingarnar. Afraksturinn af þessu starfi verður svo kynntur á umræddum tónleikum. Ef nafn kórsins hefur farið fram hjá einhverjum þá er ég að tala um Söngfélag Skaftfellinga.

föstudagur, 2. apríl 2010

Austurferð í samanþjöppuðu máli.

Skírdagur, nýr dagur, frí, indælt, innkaup, matur, kaffi, kökur, bíltúr. Austur, Fljótshlíð, gos, mökkur, spenna, sólin brosir, kaffisopi, kökur, frábært útsýni, áfram austur, yndislegur dagur, gos frá Skógum, meira gos frá Gatnabrún. Vík í Mýrdal aur í kassann, vinningur, tap í sömu andrá. Áfram austur, Mýrdalssandur, góð dagsbirta kl. 20.00. Skaftártunga, kólnandi veður, gasofn, upphitun, kvöldverður, "minnernas kamin", kólnandi veður, svefn, nótt, vakna, enn kólnandi veður, vaxandi norðanátt, nýstandi kuldi. Föstudagurinn langi, kaldur norðan garri, upphitun, samt kalt, morgunverður, lestur, frágangur, gestabókin geymir minninguna, gamlar minningar, gleði og sorg eru systur - boðskapur páskanna? Útvarp, hlustað, horft til jökulsins ógurlega, heimför, Mýrdalssandur, Messa í útvarpi, faðir vor, ægináttúra, maðurinn má sín ekki mikils. Vík, Reynisfjall, Gatnabrún. Gossúlan ekki eins flott og í gær, sól en gluggaveður undir Eyjafjöllum, Eyjarnar í heiðskíru, tilkomumiklar, gossúlur, vangaveltur um jarðfræði,hraungos, sprengigos, vaxandi umferð í austurátt. Eru allir að flýja höfuðborgina? Þorsmörk, Fljótshlíð, Hvolsvöllur, pulsa og kók hinum megin. Áfram í vesturátt, andstreymis við umferðaþungann. Holtin, Þjórsá nei sko snjómugga í vestri og snjór á númerum bíla. Selfoss meiri snjómugga, vaxandi umferð, eitt þúsund bílar, tvö þúsund bílar, þrjú þúsund bílar? Gæti verið. Hellisheiðin, Bláfjallaafleggjari, Lækjabotnar, græna Kópavogsskiltið - Stór Kópavogssvæðið, efri byggðir, hálka, keyra varlega, kominn heim. Þetta gékk nú bara nokkuð vel... og svo komu páskar.

Á föstudaginn langa.

Vorum að koma úr Skaftártungunni. Þar var heiðskírt en í nótt kólnaði mikið og í morgun sagði hitamælirinn að væri fjögurra stiga frost. Við ákváðum að halda heim á leið. Keyrðum í fallegu gluggaveðri áleiðis í bæinn. Á Selfossi var komin hríðarmugga og þannig var veðrið heim á hlað í Kópavoginn. Í gær fórum við aftur inn Fljótshlíðina og virtum fyrir okkur gosið sem nú er öllu kraftmeira. Mikil umferð var í austurátt frá Reykjavík á Suðurlandsvegi.

sunnudagur, 28. mars 2010

Blúshátið í Reykjavík 2010


Blúshátíðin í Reykjavík 2010 stendur nú yfir og um að gera að nýta sér það mikla framboð af tónlist sem þar er á boðstólum. Hátíðinni stýrir eins og áður blúsarinn Halldór Bragason. Við fórum í kvöld í Fríkirkjuna í Reykjavík og hlustuðum á dífurnar fjórar flytja nokkur lög. Fyrst steig á svið Brynhildur Björnsdóttir og söng nokkrar ljúfar vögguvísur. Næst söng Kristjana Stefánsdóttir jass/blús lög. Þá tók við Ragnheiður Gröndal sem bæði söng og spilaði á flygilinn, þar á meðal sín eigin lög og loks tók Deitra Farr nokkur gospel lög. Undirleikari hjá Brynhildi, Kristjönu og Deitru var Davíð Þór Jónsson sem spilaði bæði á flygilinn og á banjó í einu lagi með Deitru. Píanóleikarinn er mikill stuðbolti og átti sinn þátt í að lífga upp á stemninguna á tónleikunum. Allir lögðu listamennirnir sitt í að gera þessa stund í kirkjunni eftirminnilega, hver á sinni forsendu. Stundin var í senn gleðivekjandi og einlæg og við fórum út í hrollkalda nóttina með ljós í sinni. Takk fyrir þetta.

fimmtudagur, 25. mars 2010

Vorar í dal

Það vorar í dalnum okkar, Fossvogsdal. Sólin hækkar ört og dagurinn lengist dag frá degi. Senn líður að páskum og þess skammt að bíða að sumarið vermi okkur aftur. Við erum þegar farin að velta því fyrir okkur hvernig við verjum best þessum fáu sumardögum. Veturinn sem í raun var enginn vetur er að baki nema páskarnir færi okkur páskahretið sem getur verið illskeytt. En það varir aldrei lengur en þýsk Ardennasókn, stutt og dæmd til að tapast fyrir hækkandi sól. Vorið lífgar við gróandann í náttúrunni. Brumhnapparnir eru að sprynga út á trjágróðrinum, þótt birkið þráist aðeins við. Frost er að fara úr jörðu. Það eru komnir fuglar í dalinn. Fjær og austar er annar dalur, Elliðaárdalur sem er engu síðri og tilvalinn til útivistar. Veturinn í vetur hefur verið nýttur til reglulegrar útivistar. Í öllum afbrigðum vetrarríkisins hefur verið gengið um dalina. Það er svo merkilegt að í minningunni hefur veðrið alltaf verið gott á þessum gönguferðum. Það er sérstakt að þegar maður er búinn að klæða sig vel og lagður af stað virðist veðrið alltaf kjörið til útivistar. Það skiptir ekki máli hvort það sé kvöldstilla, frost og stjörnubjartur himinn eða slydda, snjókoma og lítið skyggni. Aðstæður eru alltaf góðar til útiveru. Þessvegna hef ég nú vingast við veturinn. Kveðja.

sunnudagur, 21. mars 2010

Eldgos í Eyjafjallajökli

Eyjafjallajökull. Á miðnætti aðfaranótt sunnudags hófst gos í Eyjafjallajökli sem kemur í raun ekki á óvart miðað við þær jarðhræringar sem verið höfðu á svæðinu um tíma. Annars hefur helginni verið varið við söng og skemmtan á vegum Skaftfellingafélagsins í Reykjavík. Í gærkvöldi var sameiginlegur kvöldverður með kórum frá Vík og Klaustri. Í dag var Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju þar sem kórarnir þrír sungu saman. Að lokinni messu var haldið í félagsheimili Skaftfellingafélagsins og þar voru sungin nokkur lög í kaffisamsæti félagsins. Þetta hafa verið góðir dagar í góðum félagsskap. Fólkið að austan var komið í bæinn fyrir gos. En við vissum af fólki að austan sem var snúið við vegna eldgossins í jöklinum. Nú eru kórfélagarnir að austan á leiðinni heim og keyra framhjá Eyjafjallajökli. Vonandi að leiðin sé greiðfær og þau eigi góða heimkomu.

fimmtudagur, 18. mars 2010

Færsla nr. 999

Þetta er færsla númer 999 á þessari bloggsíðu. Það er engin frétt í sjálfu sér en fyrir þennan bloggara markar hún ákveðin tímamót. Eitt af markmiðum með þessu bloggi hefur verið frá upphafi að halda þessari síðu úti a.m.k. þar til eitt þúsund innslög væru komin á síðuna eða sjö ár liðin frá opnun hennar. Nú liggur fyrir að eitt þúsundasti pistillinn gæti verið nær í tíma en árin sjö. Efni síðunnar hefur byggt á hugleiðingum bloggarans í daglegu lífi. Tæplega fjögur hundruð færslur falla undir fréttir af fjölskyldunni. Vel á annað hundrað segja frá ýmsum ferðum. Veðrið í Fossvogsdal hefur verið hugleikið, menning, tónlist, kórfréttir, hagfræði, sjávarútvegur, íþróttir og ýmis pæling. Líklega hafa um fjörtiu þúsund síður verið skoðaðar á þessu tímabili og rúmlega tuttugu þúsund ip - tölur hafa heimsótt síðuna, ef eitthvað er að marka þessa teljara sem meta heimsóknir á síðuna. Að meðaltali eru um tvö hundruð einstaklingar sem heimsækja síðuna í mánuði. Rúmlega helmingur þeirra hafa heimsótt síðuna oftar en tvö hundruð sinnum. Ýmsir hafa haft samband við bloggarann um efni hennar. Yfirleitt eru það einhverjir úr fjölskyldunni, vinir eða kunningjar. Ef til vill væri ráð að við mundum leggja okkur eftir því að hittast oftar í stað þess að lesa blogg og fésfærslur. Á móti kemur að bloggarinn nær til fleiri aðila en hann gerði áður. Það er uppbyggilegt að setja saman efni á bloggið. Þannig gefst tækifæri til þess að draga saman hugsun sína og forma hana og birta. Það er einhver ögrun í því að birta bloggið með þessum hætti. Auðvitað ritskoðar bloggarinn sig, velur það sem hann birtir. Allt í allt er það þó svo að þegar bloggarinn nær að vera einlægur og opinn í máli snertir hann helst við lesendum. Það er allavega reynsla þessa bloggara. Jæja þetta er nóg í bili. Enn og aftur er lesendum síðunnar þökkuð samfylgdin og jákvætt áreiti á liðnum árum. Nóg í bili. Kveðja.

þriðjudagur, 16. mars 2010

Erindi dagsins

Ég var að koma af fundi í Rótarýkúbbi Kópavogs þar sem Ögmundur Jónasson alþingismaður hélt erindi dagsins og fjallaði um stjónrmál líðandi stundar og Icesave málið. Ég var ánægður með umfjöllun hans um Icesave málið og sammála honum um að þau kjör sem Bretar og Hollendingar buðu okkur eru óásættanleg, sérstaklega vextirnir. Tíminn vinnur með okkur og þjóðaratkvæðagreiðslan og viðsnúningur erlendis gagnvart sjónarmiðum okkar virðist líka vinna með okkur. Hann lagði á það áherslu að í þessu máli yrðum við að koma fram sem ein samstæð breiðfylking. Þetta væri hagsmunamál allra Íslendinga hvar í flokki sem þeir væru. Því er nauðsynlegt að stjórn og stjórnaraðstaða komi sameiginlega að þessu máli. Í stað þess að eyða öllum tímanum í að karpa innbyrðis hverjum sé um að kenna. Þetta er kosturinn við að vera í rótarý. Maður fær beinan aðgang að fyrirlesurum, fólki víða að úr samfélaginu sem í stuttu máli fjallar um það sem er efst á baugi á þeirra vettvangi hverju sinni. Kveðja.

mánudagur, 15. mars 2010

Hreyfing dagsins

Hreyfing dagsins í dag var í leikfimishópnum hjá Gauta fimmleikastjóra AGGF. Nú gildir að hafa hreyfistigin sem flest svo maður verði félögunum ekki til skammar í innbyrðis keppni milli hópa. Það sem maður lætur plata sig á gamals aldri allt til þess að halda uppi mætingunni. Til að bæta við punktum hef ég einnig verið duglegur að ganga með Skálmhópnum í skammdeginu bæði umm Elliðaárdal og Heiðmörkina. Allt telur þetta á punktaskala AGGF hópsins. Kveðja.

laugardagur, 13. mars 2010

Austurferð

Loksins gafst tækifæri til að skjótast austur í Skaftártungu. Lagt var af stað úr bænum strax eftir vinnu klukkan sex í gær og vorum við komin austur rétt fyrir níu. Kvöldhimininn var stjörnubjartur og við vörðum dágóðri stund við stjörnuskoðun og reyndum að ráða í heiti stjarnanna. Því miður valda borgarljósin því að maður missir oft af stjörnubjörtum kvöldum. Setið var fram eftir með rauðvínsdreitil og franska osta og spjallað um glaðar og góðar stundir. Í dag var svo skotist yfir í bústað Höllu, Kambsgil og borðaður þar hádegisverður. Við lögðum af stað áleiðis í bæinn um tvö leytið með viðkomu í hér og þar. Yndislegur dagur og góð tilbreyting að skjótast út fyrir borgarmörkin í þessu sannkallaða vorveðri. Hitastigið í Skaftártungu var um níu gráður í plús um hádegisbilið, stilla og hið fallegasta veður. Kveðja.

mánudagur, 8. mars 2010

Móðurbróðir 80 ára afmælisminning.

Gunnar Axelsson
Móðurbróðir minn Gunnar Axelsson píanóleikari og kennari hefði orðið 80 ára í dag. Hann dó langt um aldur fram aðeins 54 ára að aldri. Gunni frændi eins og ég kallaði hann dagsdaglega kenndi mér á píanó einn vetur í Tónlistarskóla Kópavogs. Hann var þekktur í bæjarlífinu sem píanóleikari á Mímisbar í fjöldamörg ár. Minnisstætt þegar ég kom þangað einu sinni og heilsaði upp á hann með kærustunni. Hann heilsaði mér og sagði svo: "Hvað langar þig að heyra Svenni minn?" Ég bað hann að spila þemalagið úr Love story. Hann gat spilað hvað sem var af fingrum fram. "Ég spila þetta fyrir ykkur og svo skulið þið fara. Þetta er enginn staður fyrir ykkur." Önnur samskipti eru mér líka minnisstæð. Það var þegar hann var að skamma mig fyrir að vera ekki nógu æfður í spilatíma: "Svenni minn hvernig getur þú gert mér þetta og ég sem er frændi þinn." Svona eru nú eftirminnileg gömul uppeldisáhrif þessa ágæta móðurbróður míns sem var nágranni foreldra minna í áratugi. Blessuð sé minning Gunna frænda.

laugardagur, 6. mars 2010

Viðburðarríkur dagur.

Þetta er búinn að vera viðburðarríkur dagur. Byrjaði daginn kl. 8.00 í morgun á því hjálpa einkadótturinni að flytja að heiman. Vöktum upp að því er virðist heila sendibílastöð áður en við fengum bíl. Þegar bílstjórinn mætti nuddandi stírurnar úr augunum skyldi hann ekkert í því hvað við værum árrisul. Ég spurði nú bara hvort hann hefði aldrei heyrt málsháttinn morgunstund gefur gull í mund. Þetta eru tímamót þegar síðasta barnið flýgur úr hreiðrinu. Eftir flutningana var mætt á söngæfingu hjá Sköftunum og sungið fram eftir degi. Vetrarprógram kórsins er að taka á sig skemmtilega mynd. Nú í kvöld liggja fyrir niðurstöður í þjóðaratkvæðagreiðslunni um lögin um afgreiðslu Icesave bankareikninganna. Niðurstaða þeirra kom ekki á óvart. Í fyrstu tölum voru 93,1% taldra atkvæða á móti þessum lögum. Nú liggur allavega fyrir að leita verður nýrrar og sanngjarnari niðurstöðu. Maður hefur það einhvern veginn á tilfinningunni að tíminn vinni frekar með okkur í þessu máli.

fimmtudagur, 4. mars 2010

Ég segi nei og aftur nei.

Við Sirrý fórum í dag og greiddum atkvæði utankjörstaðar í Laugardalshöll. Helgin framundan er annasöm og við drifum okkur í að kjósa.Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að segja álit okkar á þessu Icesavemáli með því að greiða atkvæði um lögin. Ég hafði miklar áhyggjur af því á sínum tíma þegar forsetinn neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin eins og fram kemur í þessum gamla pistli. Nú segja lögspekingar að í ljósi þess að hann hafi beitt þessu valdi og það hafi ekki verið véfengt á sínum tíma sé ljóst að embættið hafi ótvírætt þetta vald. Að þessu sögðu má ljóst vera að pólitískt umhverfi á Íslandi er breytt eins og við höfum þekkt það undanfarna áratugi og segir í gamla pistlinum mínum. Löggjafinn stendur frammi fyrir því að lagasetningu þess má leggja beint í dóm þjóðarinnar. Búast má við að á komandi árum verði málum vísað oftar í þjóðaratkvæði. Það á eftir að breyta pólitísku landslagi líklega í þá átt að hið flokkslega vald á eftir að minnka og þingmenn muni taka afstöðu til mála meira eftir eigin sannfæringu en flokkslegum línum. Þetta mál sýnir okkur hversu hættulegt það getur verið að afgreiða lög frá Alþingi á eingöngu grundvelli flokkspólitískra lína.

þriðjudagur, 2. mars 2010

Kóræfingar.

Þetta verður mikil kóræfingarvika. Í kvöld var venjuleg tveggja tíma æfing. Á laugardaginn er langur æfingadagur og þá verður öllum laugardeginum meira og minna varið i enn frekari æfingar. Um miðjan mánuðinn verður hin árlega Skaftfellingamessa í Breiðholtskirkju, sunnudaginn 21. mars nk. Hvet alla Skaftfellinga og vini þeirra til að mæta. Óhætt er að segja að kórinn hafi verið vel mannaður í vetur. Um þrjátíu félagar hafa mætt reglulega á æfingar og nokkuð gott hlutfall milli radda. Því miður vantaði nokkuð margar sópran raddir í kvöld en tenórar bættu það upp og voru ríflega helmingi fleiri eða ellefu talsins. Afrakstur vetrarstarfsins er alltaf að koma betur og betur í ljós og renna lögin orðið nokkuð vel í gegn á æfingum. Kveðja.

sunnudagur, 28. febrúar 2010

Bókamarkaðurinn í Perlunni.

Við erum ólík um margt. Höfum mismunandi skoðun á flestu. Aðstæður okkar eru ekki þær sömu. Væntingar okkar fjölbreytilegar og áherslur. Eitt er þó öðru framar sem sameinar okkur þrátt fyrir allt. Það er málið, íslenskan. Bókamarkaðurinn í Perlunni er óskastaður þúsunda okkar. Á meðan hann stendur yfir komum við mörg saman þar stundum oftar en einu sinni. Kliður er í lágmarki og segja má að við þegjum saman á meðan við skoðum framboð bóka. Ég er búinn að fara tvisvar sinnum og keypt allt of mikið af bókum sem ég hef takmarkað pláss fyrir. Samt fer maður á þennan markað ár eftir ár. Bókarverðinu er stillt í hóf og hægt að gera kjarakaup á mörgu bókmenntaverkinu. Ég hef gróflega flokkað það sem ég hef keypt á þessum markaði. Efst á listanum er ýmis þjóðlegur fróðleikur, mannlíf á liðnum áratugum og öldum. Bækur um sjávarútveg, vesturfara, tónlist, trúmál, heimspeki og ævisögur. Þetta eru helstu málaflokkarnir og þýðir það í raun að ég verð að fara yfir megnið af framboðinu - vandlega. Kveðja.

föstudagur, 26. febrúar 2010

Ósómi í prófkjörum.

Var upplýstur um það í dag af trúverðugum aðila með ákveðnum dæmum að svo langt væri stundum gengið í prófkjörum að þess væru dæmi að félögum í íþróttafélögum væru greiddir peningar fyrir að ganga í flokka og kjósa ákveðna frambjóðendur. Hvernig getum við vænst þess að byggja upp heilbrigt samfélag sem byggir á lýðræðislegum hefðum, þar sem hagur almennings er í fyrirrúmi, ef svona aðferðir viðgangast. Svarið liggur í augum uppi það er ekki hægt. Ég átti samtal við aðila í dag sem unnið hefur að prófkjörum og þetta dæmi kom honum ekki á óvart. Hann sagði að hann hefði komið að prófkjörum þar sem boðnir hefðu verið gemsar/símar og áfengi en að vísu aldrei beinar peningagreiðslur. Svar hans við því hvort svona aðferðir samræmist eðlilegu siðferði var að þetta væri til marks um hvað aðilar væru tilbúnir að ganga langt til þess að vera í sigurliðinu á kosningarvökunni. Sigurinn væri það eina sem skipti máli. Fólk sem er tilbúið að beita jafn siðlausum aðferðum í stjórnmálum er lýðræðinu stórhættulegt. Sagt er að lýðræðið sé brothætt en sé það besta sem við höfum. Lýðræði sem byggir á svona aðferðum er aftur á móti fársjúkt og í molum. Nóg í billi. Kveðja.

miðvikudagur, 24. febrúar 2010

Góð ummæli.

Fyrrum utanríkisráðherra USA Alexander Haig lést fyrir nokkrum dögum 85 ára gamall. Af því tilefni var haft samband við Henry Kissinger kollega hans til þess fjalla um Haig. Ummæli Kissingers eru eftirminnileg. Hann lagði á það áherslu að umfram allt hefði Alexander Haig verið maður sem bar þjóðarhag umfram eigin hagsmuni í þjónustu sinni. Ég efast um að hægt sé að fá betri ummæli fyrir þjónustu á opinberum vettvangi. Hvað skyldu margir íslenskir stjórnmálamenn uppfylla skilyrði Kissingers til að fá svona umsögn. Það fáum við víst aldrei að vita.

föstudagur, 19. febrúar 2010

Olympíuleikar í Vancouver Það er með ólíkindum hvað olympíuleikarnir í Vancouver í Kanada fara hljótt. Seint á kvöldin er sýnt frá þessum stórviðburði í ríkissjónvarpinu. Ég prísa mig sælan að vera ekki ofurseldur RÚV í þessum efnum og geta leitað á náðir erlendra stöðva. Gaman að fylgjast með íshokký og bruni kvenna. Mínir menn í Tre kornor virðast vera í nokkuð góðum gír. Hef verið að fylgjast með þeim í leik gegn Hvít - Rússum, hörkuspennandi leik. Við eigum því miður ekki afreksmenn í vetraríþróttum en það er fjöldi fólks sem hefur ánægju af að fylgjast með vetrarleikunum.

miðvikudagur, 17. febrúar 2010

Kominn úr landi snjómokaranna.

Þetta var indæl ferð til Svíþjóðar og heimsóknin til fjölskyldunnar að Hamri hin ánægjulegasta. Ferðin gékk vel fyrir sig heim á leið. Allt stóð eins og stafur á bók, lestaráætlun og flugáætlun, þannig að það er yfir engu að kvarta. Að vísu er ég svolítið syfjaður vegna þess að sænskurinn, nágrannar Hjartar og Ingibjargar hafa verið að vakna fyrir allar aldir til þess að fara út og skafa nokkrar snjóflyksur á hverjum morgni sem fallið höfðu á stéttina yfir nóttina. Konan á móti er búinn að gera þetta á hverjum morgni. Fyrst notaði hún járnskóflu, næsta dag notaði hún kúst og í morgun notaði hún plastsköfu klukkan fimm að morgni! Þetta bardús í henni vakti mig þar sem glugginn á herberginu mínu snéri út að sameiginlegum gangstíg. Hún er ekki ein um þetta því þau gera þetta fleiri nágrannarnir og þegar við vorum að fara í lestina í morgun gengum við fram á enn einn nágrannann. Mikið rétt hann var að skafa nokkrar snjóflyksur á náttslopp og berlappaður í inniskóm! Mér datt nú bara í hug blöðrubólga þarna sem við heilsuðum blessuðum manninum upp úr klukkan sjö að morgni. Talandi um að Svíar í Skåne séu óvanir snjó en fyrr má nú fyrr vera. Kveðja.

föstudagur, 12. febrúar 2010

Kristianstad

Komum til Kristianstad í dag. Sjö stiga frost og snjór yfir öllu. Í kvöld snjóaði meira. Fólk orðið þreytt á þessari kuldatíð. Hitinn í morgun var um fjórar gráður í plús á leiðinni til Keflavíkur. Þannig að það er ellefu gráða hitamunur. Sóttum Jóa og Svenna á leikskólann í dag. Mikið sem stendur til um helgina, en nafni á afmæli þann fimmtánda febrúar. Þórunn og Sveinn voru með okkur í flugvélinni út. Þau verða í Köben yfir helgina og munu jafnvel koma hingað um helgina. Kveðja.

sunnudagur, 7. febrúar 2010

Stokkseyrarfjara

Fjaran við Stokkseyri.
Við fórum austur fyrir fjall í dag og nutum fjörunnar við Stokkseyri. Það er einstakt að hafa alla þessa miklu brimströnd meira og minna fyrir sjálfan sig. Jörðin marauð og frískur svalur hafvindur blés og frískaði andlitið. Það er svo róandi að hlusta á brimið skella á svörtu Þjórsárhrauninnu sem teygir sig þarna út í Atlantshafið. Veltum því fyrir okkur hverju þetta sætti. Tilgáturnar voru m.a. þær að þetta mætti rekja til veru okkar í móðurkviði nú eða enn lengra til þeirrar stundar er við komum upp úr hafinu og gerðumst landverur. Það er ekki að undra að Páll Ísólfsson tónskáld hafi átt sitt athvarf við þessa stórbrotnu strönd. Hann hefur ekki þurft að sækja langt laglínurnar í Brennið þið vitar. Kveðja.