fimmtudagur, 18. mars 2010

Færsla nr. 999

Þetta er færsla númer 999 á þessari bloggsíðu. Það er engin frétt í sjálfu sér en fyrir þennan bloggara markar hún ákveðin tímamót. Eitt af markmiðum með þessu bloggi hefur verið frá upphafi að halda þessari síðu úti a.m.k. þar til eitt þúsund innslög væru komin á síðuna eða sjö ár liðin frá opnun hennar. Nú liggur fyrir að eitt þúsundasti pistillinn gæti verið nær í tíma en árin sjö. Efni síðunnar hefur byggt á hugleiðingum bloggarans í daglegu lífi. Tæplega fjögur hundruð færslur falla undir fréttir af fjölskyldunni. Vel á annað hundrað segja frá ýmsum ferðum. Veðrið í Fossvogsdal hefur verið hugleikið, menning, tónlist, kórfréttir, hagfræði, sjávarútvegur, íþróttir og ýmis pæling. Líklega hafa um fjörtiu þúsund síður verið skoðaðar á þessu tímabili og rúmlega tuttugu þúsund ip - tölur hafa heimsótt síðuna, ef eitthvað er að marka þessa teljara sem meta heimsóknir á síðuna. Að meðaltali eru um tvö hundruð einstaklingar sem heimsækja síðuna í mánuði. Rúmlega helmingur þeirra hafa heimsótt síðuna oftar en tvö hundruð sinnum. Ýmsir hafa haft samband við bloggarann um efni hennar. Yfirleitt eru það einhverjir úr fjölskyldunni, vinir eða kunningjar. Ef til vill væri ráð að við mundum leggja okkur eftir því að hittast oftar í stað þess að lesa blogg og fésfærslur. Á móti kemur að bloggarinn nær til fleiri aðila en hann gerði áður. Það er uppbyggilegt að setja saman efni á bloggið. Þannig gefst tækifæri til þess að draga saman hugsun sína og forma hana og birta. Það er einhver ögrun í því að birta bloggið með þessum hætti. Auðvitað ritskoðar bloggarinn sig, velur það sem hann birtir. Allt í allt er það þó svo að þegar bloggarinn nær að vera einlægur og opinn í máli snertir hann helst við lesendum. Það er allavega reynsla þessa bloggara. Jæja þetta er nóg í bili. Enn og aftur er lesendum síðunnar þökkuð samfylgdin og jákvætt áreiti á liðnum árum. Nóg í bili. Kveðja.

Engin ummæli: