laugardagur, 13. mars 2010

Austurferð

Loksins gafst tækifæri til að skjótast austur í Skaftártungu. Lagt var af stað úr bænum strax eftir vinnu klukkan sex í gær og vorum við komin austur rétt fyrir níu. Kvöldhimininn var stjörnubjartur og við vörðum dágóðri stund við stjörnuskoðun og reyndum að ráða í heiti stjarnanna. Því miður valda borgarljósin því að maður missir oft af stjörnubjörtum kvöldum. Setið var fram eftir með rauðvínsdreitil og franska osta og spjallað um glaðar og góðar stundir. Í dag var svo skotist yfir í bústað Höllu, Kambsgil og borðaður þar hádegisverður. Við lögðum af stað áleiðis í bæinn um tvö leytið með viðkomu í hér og þar. Yndislegur dagur og góð tilbreyting að skjótast út fyrir borgarmörkin í þessu sannkallaða vorveðri. Hitastigið í Skaftártungu var um níu gráður í plús um hádegisbilið, stilla og hið fallegasta veður. Kveðja.

Engin ummæli: