laugardagur, 6. mars 2010

Viðburðarríkur dagur.

Þetta er búinn að vera viðburðarríkur dagur. Byrjaði daginn kl. 8.00 í morgun á því hjálpa einkadótturinni að flytja að heiman. Vöktum upp að því er virðist heila sendibílastöð áður en við fengum bíl. Þegar bílstjórinn mætti nuddandi stírurnar úr augunum skyldi hann ekkert í því hvað við værum árrisul. Ég spurði nú bara hvort hann hefði aldrei heyrt málsháttinn morgunstund gefur gull í mund. Þetta eru tímamót þegar síðasta barnið flýgur úr hreiðrinu. Eftir flutningana var mætt á söngæfingu hjá Sköftunum og sungið fram eftir degi. Vetrarprógram kórsins er að taka á sig skemmtilega mynd. Nú í kvöld liggja fyrir niðurstöður í þjóðaratkvæðagreiðslunni um lögin um afgreiðslu Icesave bankareikninganna. Niðurstaða þeirra kom ekki á óvart. Í fyrstu tölum voru 93,1% taldra atkvæða á móti þessum lögum. Nú liggur allavega fyrir að leita verður nýrrar og sanngjarnari niðurstöðu. Maður hefur það einhvern veginn á tilfinningunni að tíminn vinni frekar með okkur í þessu máli.

Engin ummæli: