fimmtudagur, 4. mars 2010

Ég segi nei og aftur nei.

Við Sirrý fórum í dag og greiddum atkvæði utankjörstaðar í Laugardalshöll. Helgin framundan er annasöm og við drifum okkur í að kjósa.Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að segja álit okkar á þessu Icesavemáli með því að greiða atkvæði um lögin. Ég hafði miklar áhyggjur af því á sínum tíma þegar forsetinn neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin eins og fram kemur í þessum gamla pistli. Nú segja lögspekingar að í ljósi þess að hann hafi beitt þessu valdi og það hafi ekki verið véfengt á sínum tíma sé ljóst að embættið hafi ótvírætt þetta vald. Að þessu sögðu má ljóst vera að pólitískt umhverfi á Íslandi er breytt eins og við höfum þekkt það undanfarna áratugi og segir í gamla pistlinum mínum. Löggjafinn stendur frammi fyrir því að lagasetningu þess má leggja beint í dóm þjóðarinnar. Búast má við að á komandi árum verði málum vísað oftar í þjóðaratkvæði. Það á eftir að breyta pólitísku landslagi líklega í þá átt að hið flokkslega vald á eftir að minnka og þingmenn muni taka afstöðu til mála meira eftir eigin sannfæringu en flokkslegum línum. Þetta mál sýnir okkur hversu hættulegt það getur verið að afgreiða lög frá Alþingi á eingöngu grundvelli flokkspólitískra lína.

Engin ummæli: