þriðjudagur, 30. desember 2008

Gleðilegt ár með þökk fyrir það gamla.

Särö - uppáhaldsstaður Við óskum ykkur öllum gleðilegs ár og þökkum það gamla. Árið 2008, árið okkar, eins og það hefur verið nefnt á þessari bloggsíðu síðastliðina tólf mánuði er á enda runnið. Þetta hefur verið gott og viðburðarríkt ár. Það var leikfimistjórinn minn sem gaf árinu fyrirheit í fyrsta leikfimitíma ársins með því að segja að þetta yrði "árið okkar" og ég hef haldið því sem einkunnarorðum. Framan af árinu mætti ég vel í leikfimina en mætingar versnuðu eftir því sem leið á árið af ýmsum ástæðum. Í júlí skilaði ég rótarýkeðjunni til viðtakandi forseta. Þar með lauk þriggja ára setu minni við stjórnarborðið í rótarýklúbbnum mínum. Sá tími hefur verið afar gefandi og mótandi og ég kynntist góðum félögum betur. Ég var útnefndur Poul Harris félagi í klúbbnum á þessu ári og þykir mikið til þess heiðurs koma. Þriðja áhugamálið sem ég hef stundað hefur verið söngurinn með Söngfélagi Skaftfellinga. Ég hef haft mikla ánægju af kórstarfinu á þessu ári. Að vísu missti ég af vortónleikunum að þessu sinni þar sem fór til Montreal í Kanada. Hljóðfærið mitt hef ég einnig lagt nokkra rækt við svo og nótnasafnið. Náði að skrá niður íslensku nóturnar minar í þeim eru vel á fjórða þúsund lög. Bloggið talar að mestu fyrir sig sjálft. Ég hef markvisst bloggað í hverjum mánuði. Ég hef haft gaman af þessu pári þótt bæði sé það sjálfhvert og æði sundurlaust. Nýjasta dellan er að sjálfsögðu Facebook og hefur tíminn þar á stundum verið meiri en góðu hófi gegnir. Ferðalög á árinu 2008 hafa aðallega verið til Svíþjóðar eða alls þrisvar sinnum. Við vorum tíu daga síðastliðið sumar í Svíþjóð og rifjuðum upp gamla tíma m.a. í Gautaborg. Það hefur gengið vel í vinnunni síðastliðið ár og verkefnin verið fjölbreytt. Andskotalaust hefur árið ekki verið. Ég lenti í fyrsta sinn á ævinni inn á sjúkrahúsi vegna veikinda og Sirrý braut fótinn illa nú í desember, en hún kemst yfir það áður en varir. Þeir efnahagslegu erfiðleikar sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir er áfall sem snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti um langa framtíð. Allflestir hafa með beinum eða óbeinum hætti orðið fyrir barðinu á kreppunni eða eiga eftir að kenna á henni. Þetta er eitt stærsta sameiginlega verkefnið sem þessi þjóð hefur staðið frammi fyrir á síðari tímum. Það sagði við mig reynslubolti nýlega, sem hefur marga fjöruna sopið að fjármálaerfiðleikarnir væru mannanna verk og þau væru ekki vandamál heldur verkefni sem hægt væri að leysa. Þetta samtal hreif mig og ég trúi því að þetta sé hið rétta viðhorf sigurvegarans við svona aðstæður. Jæja þetta er orðið lengra en til stóð. Bestu kveðjur til ykkar allra.

mánudagur, 29. desember 2008

Jólin komin og farin

Hvanneyrarkirkja Það er við hæfi að birta mynd af þessari fallegu mynd af Hvanneyrarkirkju í tilefni jólahátíðarinnar. Jólin búin og maður er varla farinn að átta sig á því. Svíþjóðafararnir okkar fóru til síns heima í morgun. Heyrði í Hirti í kvöld. Ferðin hjá þeim gékk vel og þau voru komin heim til sín um þrjú leytið. Nú eru tveir og hálfur vinnudagur eftir til áramóta. Þannig að tíminn til þeirra verka sem áttu að klárast árið 2008 ferð óðum að styttast. Hingað komu í kvöld Valdimar,Stella og Lilja. Kveðja.

laugardagur, 27. desember 2008

Fréttir úr jólafríinu

María Magdalena. Veðrið er búið að vera fínt í dag. Fór í göngutúr um hádegisbilið í Fossvogsdalinn og það var mikið af fólki á göngu eins og svo oft á svona dögum. Vorum í jólaboði í Grænuhlíðinni hjá Sigurði og Laugu í gær og fórum í okkar árlegu spurningakeppni - og við unnum í þetta skipti Brekkutúnsbúar. Hjörtur og Sveinn Hjörtur yngri fóru upp í Borgarnes í dag. Annars hefur einhver flensuskítur verið að herja á stórfjölskylduna undanfarna daga og ýmsir frá í gær vegna hennar. Ég er búinn að afreka það að lesa eina jólabók. Las Maríu Magdalenu - vegastjarna eða vændiskona, eftir Þórhall Heimisson. Sérstaklega magnþrungin lýsing hans á hrikalegum aðstæðum í Júdeu fyrir hartnær 2000 árum þegar Rómverjar börðu niður með afar blóðugum hætti uppreisn Gyðinganna. Lesturinn verður enn hugstæðari í ljósi þeirra voðaverka sem Ísraelsmenn hafa unnið í dag í Palestínu með blóðugum árásum á Palestínumenn, þar sem hundruðir liggja í valnum. Það er með ólíkindum hvað saga þessa svæðis er blóði drifin í gegnum aldirnar.

miðvikudagur, 24. desember 2008

Á jólanótt

Jólabarnið 2008 Jólabarnið okkar í ár var hún yndisfríð Sigrún Ásta dóttir Hildu og Magnúsar ásamt systur sinni Valgerði Birnu. Við áttum saman að venju ljúfa kvöldstund hér í Brekkutúni. Sigrún Ásta fæddist 17. október síðastliðinn. Hingað komu einnig Valdimar og Stella með Lilju. Ég skrapp í kvöld til Þórunnar systur til að hitta foreldra og systkini. Hjörtur og Ingibjörg eru í Borgarnesi með Svein Hjört og Jóhannes Erni. Annars allt gott af okkur að frétta.






Lilja Hér má sjá aðra yndisfríði hana Lilju Vestmann Valdimarsdóttur sem heimsótti afa og ömmu í kvöld. Hún er vel með á nótunum og hafði gaman af að tæta pappírinn af pökkunum. Óskum ykkur öllum gleðilegra jóla. Kveðja.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Til móts við hátíðina.

Ég fór í skötuna á Hótel Loftleiðum í dag í hádeginu en Sirrý komst ekki vegna fótbrotsins. Þetta er orðinn árviss atburður að borða kæsta skötu á þessum degi eins og jafnan á æskuheimilinu. Ég hef gaman af því að strákarnir mínir vilja líka skötu á þessum degi. Fór með fyrra fallinu heim i dag og er búinn að vera önnum kafinn við jólaundirbúninginn. Sjóða rauðkál samkvæmt kúnstarinnar reglum að ég tali nú ekki um hangikjötið. Nú svo höfum við verið að hlusta á jólakveðjurnar í útvarpinu - alltaf jafn hlýlegar. Búinn að skreyta jólatréð þannig að þetta er allt að koma. Kveðja.

sunnudagur, 21. desember 2008

Friðsælt í Fossvogsdal

Það er friðsælt hér í Fossvogsdalnum í kvöld. Ótrúlegt að það skuli vera óveður og ófærð hér rétt fyrir ofan bæinn. Annars lítið héðan að frétta. Það er í ýmsu að snúast þessa dagana. Ég er að passa Sunnu þessa dagana og gengur það ágætlega. Farið í verslunarferðir og hitt góðan vin, sem leysti mig út með flottri gjöf. Þetta er svona það helsta héðan. Kveðja.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Kúabóndinn Persson

Hlustaði á Göran Persson í viðtali við Boga Ágústsson áðan. Hann mælti margt af skynsemi og hefur ugglaust skilað sínu sem forsætisráðherra Svía. Ég er samt ekki tilbúinn að afhenda ESB fiskimiðin okkar fyrir inngöngu. Kveðja.

sunnudagur, 14. desember 2008

Aftur á sunnudegi

Dagarnir líða fljótt. Þetta eru annasamir tímar í leik og starfi. Á fimmtudaginn var ég á jólafundi Rótarýklúbbs Kópavogs í vitlausu veðri. Turninn gékk fram og aftur í veðurofsanum. Tilfinningin var svipuð því að vera um borð í skipi út á rúmsjó. Sirrý varð fyrir því óláni í gær að fótbrjóta sig og er vonandi að hún jafni sig á því fljótt. Hjörtur og Ingibjörg komu með Svein Hjört og Jóhannes Erni í gær í jólafrí. Það eru sannarlega forréttindi að hafa sína nánustu í kringum sig á jólum. Maður fylgist með landsmálum og eftirmálum bankahrunsins af athygli.Það kemur æ betur í ljós hvað þetta áfall er alvarlegt og hversu óvarlega var farið og fífldirfskan mikil. Það er sorglegt að vita til þess að skellurinn skuli lenda svo þungt á fólki.

þriðjudagur, 9. desember 2008

Úr dagsins önn.

Í kvöld héldum við Skaftarnir okkar árlegu jólatónleika á LSH - Grensásdeild og LSH -Geðdeild. Tónleikarnir tókust ágætlega en þó er mun skemmtilegra að syngja á geðdeildinni þar sem hljómburður er afburða góður. Hinsvegar er hljómburður afleitur á Grensásdeildinni. Þá er haust önnin í kórnum fullkomnuð og við komin í jólafrí. Ég er búinn að vera duglegur að mæta það sem af er vetri og hef haft gaman af. Kórinn er skipaður góðu söngfólki og mjög gefandi að taka þátt í starfinu. Í dag fór ég til Grindavíkur í jarðarför Tómasar Þorvaldssonar útgerðarmanns þess merka athafnamanns. Tómasi kynntist ég sem ungur maður er ég hóf störf fyrir samtök útvegsmanna. Kveðja.

mánudagur, 8. desember 2008

Í afmælisveislu

Ísfirðingar Við fórum í dag í afmælisveislu pabba. Hann átti 78 ára afmæli. Á meðfylgjandi mynd má sjá tvö af systkinum hans, þau Hermann og Kolbrúnu sem heiðruðu hann á afmælisdaginn. Nú hvað gefur maður Vestfirðingi annað en Húsið hennar Hörpu þessa dagana? Annars lítið að frétta héðan. Kveðja.

sunnudagur, 7. desember 2008

Þar fór í verra....

Komst ekki til að syngja á tónleikunum með Sköftunum í dag. Eins gott að maður er í 30 manna kór og það skipti ekki sköpum þótt vanti einn. Foreldrarnir voru mættir á tónleikana ásamt rúmlega 200 öðrum. Þannig að ég dreif mig á staðinn um leið og ég losnaði og fagnaði með kórfélögum og fékk kaffi með kökum, þótt kórinn væri búinn að syngja prógrammið. Það er einu sinni svo að hin launaða vinna gengur fyrir áhugamálunum. Annars var ég að lesa Vikuna í dag. Þar eru viðtöl við tvo af uppáhaldsbloggurum mínum sem ég hef fylgst með í tvö til þrjú ár eða svo. Fyrra viðtalið var við hana Hörpu rithöfund, hannyrðakonu og hirðljósmyndara Reynisdranga í Víkurfjöru sem heldur út Vestanpóstinum frá Vík í Mýrdal og Evu ljóðskjáld,norn,samfélagsrýni og uppreisnarkonu sem heldur út blogginu Sápuóperu. Maður hélt í einfeldni sinni að maður ætti þessa bloggara fyrir sig ásamt fáum útvöldum en nú er víst búið að uppgötva þær. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig frægðarkorterið eins og Andy Warhol kallaði það mun móta skrif þeirra í kjölfarið. Vonandi að frægðin fari mjúkum höndum um þessar perlur og neistinn í skrifum þeirra verði áfram tær. Kveðja.

laugardagur, 6. desember 2008

Rembist við rútínuna.

Maður reynir eftir fremsta megni að halda sér í sinni daglegu rútínu. Það hefur gengið ágætlega í vinnu, en því miður gengið hálf illa á ýmsum öðrum sviðum. Í dag fór ég í leikfimi eftir að hafa skrópað í síðustu viku. Að vísu fór ég í mikla kraftgöngu í Elliðárdal en var þreyttur og hrakinn næstu tvo daga á eftir. Ég fór líka í Rótarý en hafði skrópað þar vikuna áður. Ekkert hefur maður bloggað í heila viku en að vísu verið duglegur að hanga á facebook eða fésinu eins og sumir kalla það. Leikfimisstjórinn minn bað mig í dag að reyna bæta úr mætingu minni í leikfiminni. "Þó ekki væri nema fyrir mig" klykkti hann út með. Maður fær náttúrulega bullandi samviskubit eftir svona samtal og lofar öllu fögru með sjálfum sér. Fátt er þó svo með öllu illt. Söngæfingar hef ég mætt á reglulega og svo eru tónleikarnir um helgina sem ég mæti á. Við höfum líka verið að gera hér eitt og annað heima við. Sett upp ljós inni og úti og svona eitt og annað. Læt þetta duga. Kveðja.