laugardagur, 6. desember 2008

Rembist við rútínuna.

Maður reynir eftir fremsta megni að halda sér í sinni daglegu rútínu. Það hefur gengið ágætlega í vinnu, en því miður gengið hálf illa á ýmsum öðrum sviðum. Í dag fór ég í leikfimi eftir að hafa skrópað í síðustu viku. Að vísu fór ég í mikla kraftgöngu í Elliðárdal en var þreyttur og hrakinn næstu tvo daga á eftir. Ég fór líka í Rótarý en hafði skrópað þar vikuna áður. Ekkert hefur maður bloggað í heila viku en að vísu verið duglegur að hanga á facebook eða fésinu eins og sumir kalla það. Leikfimisstjórinn minn bað mig í dag að reyna bæta úr mætingu minni í leikfiminni. "Þó ekki væri nema fyrir mig" klykkti hann út með. Maður fær náttúrulega bullandi samviskubit eftir svona samtal og lofar öllu fögru með sjálfum sér. Fátt er þó svo með öllu illt. Söngæfingar hef ég mætt á reglulega og svo eru tónleikarnir um helgina sem ég mæti á. Við höfum líka verið að gera hér eitt og annað heima við. Sett upp ljós inni og úti og svona eitt og annað. Læt þetta duga. Kveðja.

Engin ummæli: