föstudagur, 27. ágúst 2004

Romeó og Júlía

Við fórum á leikritið Romeó og Júlíu í Borgarleikhúsinu á miðvikudaginn 25. ágúst. Ég mæli eindregið með þessu leikriti. Maður heldur athyglinni allan tímann, þótt söguþráðurinn sé öllum kunnur. Ást, hatur, valdaátök, gleði og sorg - húmor það eru öll elementin til staðar. Ég tel að þetta leikrit muni sóma sér á öllum merkilegustu leiksviðum sem þekkt eru í stóru löndunum í kringum okkur. Leikararnir fara á kostum og skila allir sínu með sóma.

fimmtudagur, 19. ágúst 2004

Happy End eða Surrabæja Johnny

Í kvöld sáum við söngleikinn Happy End í Gamla Bíó. Þetta var mjög fín skemmtun. Þar sem hið góða og fagra takast á við hið illa og ljóta. Brynhildur Björnsdóttir leikari og söngvari fór á kostum. Fór áberandi vel með textann, falleg söngröddin hefði mátt fá stærra hlutverk. Merkilegt hvað Íslendingar eiga erfitt með að skynja hversu frábærir söngvarar koma úr þessari fjölskyldu. Minni til dæmis á náfrænku hennar Ragnheiði Elfu Arnardóttir, sem var/er frábær söngvari. Þær eru ekki með kraftmiklar raddir en mjög fínlegar og hljómfagrar. Það er vonandi að við fáum að njóta þessara miklu hæfileika Brynhildar í framtíðinni. Hinsvegar er þetta húsnæði óhentugt og það hreinlega drepur allan hljóm. Að þetta skuli vera operhúsið okkar Íslendinga er nátturlega til skammar. Ekki fleiri orð um það. Guðmundur Jónsson var þarna í stóru hlutverki. Hann þarf að skerpa framburðinn en komst annars ágætlega frá þessu. Valgerður Guðnadóttir stóð sig með sóma. En salarkynnin hjálpuðu henni ekki því miður. Í stuttu máli sagt hin besta skemmtun.

fimmtudagur, 12. ágúst 2004

Veður og vinna

Sumarfríið búið í bili og mættur til vinnu. Þá kemur þessi einmuna blíða þar sem hvert hitametið af öðru er slegið. Það ætti enginn að vinna í svona veðri en því miður þá er því ekki að heilsa hjá mörgum. Það er ótrúlegt hversu mikið sálartetrið eflist í sólinni. Líklega kemur sólin einhverjum jákvæðum efnaskiptum af stað. Er þetta ekki allt ein allsherjar "kemía". Vonandi að þetta gagnist okkur þegar húmið sækir að. Jæja þetta er orðið skáldlegt hjá mér. Sátum annars lengi á pallinum í dag. Í félagsskapar Iu og Unnar. Snæddum úrvals lambalæri sem grillað var úti við.

þriðjudagur, 10. ágúst 2004

Komin heim frá Kanada og USA.


Kirkjan í Mountain í N-Dakóta
Jæja þá er þessi mikla ferð okkar til USA og Kanada afstaðin. Í einu orði sagt stórkostleg ferð. Allt gékk upp og var það merkileg upplifun að eiga þess kost að fara um þessar slóðir. Ferðin hófst Minneapolis í USA þann 31. júlí og endaði í Keflavík sunnudaginn 8. ágúst. Við fórum til Mountain í North Dakota, Winnipeg, Gimli í Manitoba og fleiri staða sem ekki er rúm til þess að nefna. Hápunktar ferðarinnar voru Íslendingadagarnir í Mountain og Gimli og hitta fólkið sem talaði reiprennandi íslensku og hafði sumt aldrei til Íslands komið. Við óðum yfir Missisippi við upptök hennar. Borðuðum góðan og ríflegan mat. Ég held ég hafi borðað nautakjöt hvern einasta dag ferðarinnar. Hvarvetna mættum við velvild og áhuga fólks fyrir heimsókn okkar hvort heldur var í USA eða Kanada. Alls lögðum við um 2800 kilómetra að baki og fundum lítt fyrir því. Rútan var með loftkælingu og veðrið var vel þolanlegt fyrir okkur. Það var hinsvegar sérstakt að horfa út yfir endalausa rennislétta sléttuna, eins langt og augað eygði, dag eftir dag. Það hlýtur að hafa verið sérstakt að ferðast þarna um fótgangandi eða í uxakerrum fyrir 100 árum eða svo eins og landar okkar gerðu. Yfirleitt var sól, gola og hiti + 20°C. Verðlag á mat og í þeim verslunum sem við komum í var mjög hagstætt.