sunnudagur, 11. febrúar 2018

Höfnun er sár

Höfnun er sár í hverri mynd sem hún birtist. Öll eigum við væntanlega minningar um atvik, þar sem við upplifðum höfnun. Minntist þess þegar ég upplifði höfnun í fyrsta skipti. Það eru nú komnir um sex áratugir síðan, þannig að eitthvað hefur þetta sett sitt mark á sálarlifið. Þannig var að fullorðin kona í hverfinu var með tímakennslu fyrir nokkur börn. Það atvikaðist þannig einn daginn slóst ég í hópinn, man ekki lengur á hvaða forsendum. 
Þegar nýneminn mætir með tösku og nesti á staðinn gerist það að ein stúlkan í hópnum fær óstöðvandi grátur yfir nærveru minni, en hún var óttasleginn við ókunnuga, líka jafnaldra sína. Niðurstaðan varð sú að mér var vísað úr tímakennslunni til þess að róa stúlkuna. Þar sem ég er kominn miðja leiðina heim kemur „amma“ hlaupandi á eftir mér og segir að nú sé stúlkan búin að jafna sig og ég megi koma aftur. Ég man að niðurlútur, volandi strákur þurkaði tárin og tók gleði sína að nýju og fór með konunni til baka. Þarna átti maður síðan nokkur ánægjuleg skipti við lestur, leik og sögustundir. Lengst hefur þó reynslan af höfnuninni lifað í minningunni.