sunnudagur, 22. febrúar 2009

Spurningin og svarið sem ég fékk

Í gær spurði ég hver væri tilgangur lífins og lét þar við sitja. Í morgun hringdi vinur minn og svaraði spurningunni. Er þetta hugsanaflutningur, tilviljun eða hvað? Nú og hvern taldi hann vera tilgang lífisins, kann einhver að spyrja. Svarið sagði hann vera fólgið í hamingjunni. Maðurinn ætti að leita hamingjunnar. Tilgangurinn er að elska og vera elskaður. Hann er að eignast afkomendur. Forðast eigingirni. Hann er að finna ástæðu til að takast á við neikvæða atburði í lífinu og læra af þeim og sætta sig við það sem verður ekki breytt. Hann er að fylla tilfinningarlegt tómarúm með jákvæðri hugsun. Hann er að njóta stundarinnar því lífið er núna. Hann er að fyrirgefa og sleppa takinu. Hér með er þessu komið áleiðis, ef vera kynni að einvher annar sem hér lítur við væri að hugsa eitthvað svipað. Nú eða hefur eitthverju við þetta að bæta.

laugardagur, 21. febrúar 2009

Endurreisn og endurhæfing

Ég var mættur í Valhöll í dag til þess að taka þátt í starfi endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins. Þetta hefur verið skemmtilegt og krefjandi verkefni og ánægjulegt að taka þátt í því. Hópurinn kom saman eftir vinnu í gær og gerði sér dagamun og hlustaði á formanninn fara yfir stöðu mála. Starfnu er skipt upp í hópa og hver hópur fjallar um ákveðna málaflokka. Nálgast má upplýsingar um þetta verkefni á heimasíðu flokksins á næstu dögum. Sirrý er í helgarfrí frá Hveragerði. Hún hefur náð miklum árangri á stuttum tíma og verður búin að henda hækjunum innan skamms. Sigrún er að lesa undir próf og fer allur hennar tími og orka í það þessa dagana. Annars hefur dagurinn hjá okkur farið í helgarinnkaup og ýmislegt smálegt. Kveðja.

fimmtudagur, 19. febrúar 2009

Í fyrsta sinn norður

Göngugatan. Fyrsta skipti sem ég fór norður í land var í skólaferðalagi á vegum Gagnfræðaskóla Kópavogs árið 1969. Ég man ekki nákvæmlega hvaða mánuð var farið en það hefur verið snemma sumars líklega í lok maí. Fyrsta daginn fórum við að Hólum í Hjaltadal og sváfum í skólanum fyrstu nóttina. Ráðsmaður einn hafði gert sér dagamun og var að leita eftir félagsskap um kvöldið meðal skólasystranna við lítinn fögnuð. Umsjónakennarinn í ferðinni hann Guðmundur Oddsson stuggaði við honum. Næsta dag var farið til Akureyrar og gistum við þar eina nótt í skóla - líklega gagnfræðaskólanum upp af brekkunni. Fyrir utan ungu stúlkurnar sem sýndu okkur strákunum úr Kópavoginum nokkurn áhuga þóttu okkur brúnu mjólkurflöskurnar afar athyglisverðar. Hvolpavitið var nú ekki þroskaðra en svo. Að sjálfsögðu var borðað á Hótel KEA. Næsta dag var farið í Mýtvatnssveit. Stoppað var á hótelinu í Reynihlíð og þar var borðaður nýr silungur með kartöflum og smjöri, hvílíkt lostæti. Þá var grjótagjáin heimsótt og tekin nokkur sundtök í henni og Dimmuborgir skoðaðar áður en Mývatnssveit var kvödd. Eftir Kröflugosið hefur ekki verið óhætt að lauga sig í gjánni. þar sem hitastigið hækkaði of mikið. Rútubílstjórinn í þessari ferð var að sjálfsögðu rútubílstjóri okkar Kópavogsbúa hann Teitur Jónasson. Hann var hrókur alls fagnaðar og oft sungum við lag sem fjallaði um hann. Viðkvæði í laginu var: Teitur vildi það og Teitur skyldi það. Trallalla.... Mig minnir að það hafi verið í kaupfélaginu í Miðfirði sem fengust forláta skrautpípur með tinloki sem margir keyptu sér. Ég tímdi því ekki og sá lengi vel mikið eftir því. Þetta er það sem ég man helst.Kveðja.

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Fyrsta sinn vestur

Catalina.
Það koma tímabil að maður leggst í það að rifja upp lönguliðna atburði. Fyrsta flugferð mín var í Catalinu flugbát vestur á Ísafjörð í júní árið 1958. Tilefnið var 80 ára afmæli langafa míns Finnbjörns Hermannssonar (1878 - 1961). Þetta var í eina skiptið sem ég hitti langafa og langömmu mína Elísabetu Guðnýju Jóelsdóttur (1879 - 1963). Ég flaug vestur með föður mínum Hirti Hjartarsyni, en Stefanía systir hafði farið tveimur dögum fyrr með ömmu og afa á Baldursgötunni, þeim Jensínu Sveinsdóttur og Jóni Hirti Finnbjarnarsyni. Flugið var tíðindalítið og veður hið besta. Við millilentum á Patreksfirði á leiðinni vestur og ég man sérstaklega eftir aðfluginu að Patró. Við lendinguna á Patreksfirði og Ísafirði er minnisstæður hvítfyssandi sjórinn sem æddi upp eftir vélinni og sást ekki út um glugga við lendingu. Síðan var farið í lítinn vélbát, sem kom að flugvélinni. Ég man ekki hvar við bjuggum þarna fyrir vestan en pabbi telur að það hafi verið hjá langafa og langömmu að Skipagötu 7.
Skipagata 7
Ég man óljóst eftir afmælinu og því þegar við hittum langafa og annað frændfólk, sérstaklega dóttur Grétu sem er á sama reki og ég, en pabbi og hún eru systkinabörn Ég sofnaði snemma í afmælinu á einhverjum bekk. Ég man eftir göngutúr um bæinn þar sem við gengum fram á tvo stráka sem voru að sigta sand. Pabbi kenndi þeim að nota stein í sigtið til þess að flýta fyrir sigtuninni. Þetta ráð festist mér í minni og oft notaði maður það í byggingarvinnu hér á árum áður. Mér hefur verið tjáð síðar að í afmælisveislunni hafi verið allir þekktustu verslunarmenn á Ísafirði frá fyrri árum. Þá voru þarna tveir bræður langafa þeir Guðmundar Luther Hermannsson bóndi á Sæbóli og Jón Sigfús Hermannsson bóndi á Læk í Aðalvík. Veislan var haldinn eins og áður segir hjá Margréti Finnbjarnardóttur í Hafnarstræti 6. Eiginmaður hennar var Kristján Tryggvason, sem var klæðskeri á Ísafirði. Margar ræður voru fluttar og mikið sungið.Kveðja.

þriðjudagur, 17. febrúar 2009

Úr dagsins önn

Endaði daginn á söngæfingu með Sköftunum. Þar voru bæði sungnir slagarar og sálmar enda mikið sem stendur til í mars og apríl. Annars tíðindalítill dagur til þess að gera. Fór á rótarýfund í hádeginu og hlustaði á fangelsisstjórann á Litla Hrauni halda erindi um fangelsið, sem ég gerði að umtalsefni í síðasta bloggi. Þetta er kannski ekki jafn hræðilegur staður og ég hafði ímyndað mér. Allavega lýsti hún því svo vel hvernig reynt er að koma til móts við þarfir fanganna að maður fékk það á tilfinninguna þarna væri bara nokkuð gott að vera miðað við aðstæður. Svo vel er búið að þeim að útlendingarnir fást ekki til þess að láta framselja sig. Þeir vilja heldur dvelja hér á landi en fara til síns heima. Kveðja.

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Í fyrsta sinn austur

Það var í júlí árið 1958 sem við fórum austur á Eyrarbakka með Jóni Höskuldssyni leigubílstjóra að hitta frændfólkið í Gunnarshúsi. Þetta rifjaðist upp í dag þegar ég var staddur austur í Hveragerði og stoppaði við kaffiskálann, sem ég man ekki lengur hvað er nefndur. Þá var leiðin svo löng og ströng á Bakkann að það þótti eðlilegt að stoppa og fá sér kaffisopa í Hveragerði. Ég man eftir því stoppi þegar ég kom inn í stóra veitingasalinn og fékk appelsín. Næst man ég eftir mér þegar við keyrðum fram hjá Hælinu eins og Litla Hraun var kallað. Það var einhver út í glugga og vínkaði okkur er við keyrðum framhjá. Það fór hrollur um mig þegar ég keyrði þarna sem barn og gerir það enn hálfri öld síðar. Af heimsókn minni í Gunnarshús man ég eftir gömlu blindu konunni sem sat og réri sér á bekk í eldhúsinu. Hún mun hafa heitið Helga og verið skjólstæðingur langömmu minnar sem tók hana upp á sína arma. Einnig man ég eftir flatkökunum sem Ásta afasystir mín bakaði á kolaeldavélina. Þær voru ekkert sérstakar nýjar en er þær höfðu jafnað sig voru þær mikið lostæti. Ég man eftir að hafa skoðað forlátann vörubíl ala Ford T módel, sem Gunnar afabróðir minn átti, held hann hafi ekki einu sinni verið gangfær.Þetta er í fyrsta skipti sem ég man eftir að hafa farið í bílferð út fyrir bæinn. Ég hafði þetta sama sumar mánuðinn áður farið í 80 ára afmæli langafa míns vestur á Ísafjörð í flugvél.

laugardagur, 14. febrúar 2009

Grasrótarstarf

Eins og síðasta föstudag endaði ég vinnuvikuna á því að taka þátt í grasrótarstarfi á vegum endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins. Var svo mættur aftur fyrir hádegi í morgun áður en ég fór austur í Hveragerði að sækja Sirrý, en hún er þar í endurhæfingu. Þannig að segja má að við séum bæði í uppbyggingarstarfi þessar vikurnar. Hún að styrkja sig eftir slæmt fótbrot og ég að velta fyrir mér endurreisn hagkerfisins í góðum hópi fólks. Grasrótarstarf er afskaplega gefandi starf. Þetta er tilfallandi vekefni þar sem þú leggur þín lóð á vogarskálarnar og aðir gera slíkt hið sama og staðan í fortíðinni, núinu og framtíðinni krufin. Ég var reyndar búinn að ákveða fyrir margt löngu að þátttaka mín í pólitísku starfi væri svona meginatriðum lokið. Það átti ekki að verða - í bili allavega og þetta er orðið töluvert starf sem hefur farið í umfjöllun um ESB, sjávarútveginn og efanahagsmál almennt. Á þessa fundi hafa mætt fjölmargir kunningjar úr ólíkum áttum sem eru líka tilbúnir að leggja sitt að mörkum til þess að sinna uppbyggilegum verkefnum. Þannig að þetta hefur verið ágætis tilbreyting undanfarnar vikur og mánuði. Í dag fékk ég símhringingu frá félaga mínum í London sem var þar á fundi og hafði hann miklar áhyggjur af efnahagsástandinu í Bretlandi. Enn eru nýjar fréttir af slæmri útreið banka þar í landi og aðstæður fara ört versnandi í evrulandi. Við megum hinsvegar ekki gleyma því að við erum "aðeins" enn í efnahagslægð/samdrætti (recession) en ekki kreppu (depression) sem er enn dýpra og alvarlegra ástand. Ég hef trú á því að við munum vinna okkur upp úr lægðinni markvisst og örugglega, þótt enginn viti það nákvæmlega hvað það taki langan tíma. "We shall never surender" eða uppgjöf er ekki valkostur eins og Churchill gamli sagði hérna um árið. Kveðja.

fimmtudagur, 12. febrúar 2009

Ströng yfirheyrsla

Hardtalk Hlustaði tvisvar á Geir Haarde í kvöld fyrst í endurtekningu á BBC NEWS og svo í RUV nú í kvöld. Enn er mörgu ósvarað varðandi ófarir okkar og enn vantar svör til þess að hægt sé að byggja traust að nýju. Auðvitað var það grafalvarleg staða þegar skuldastaða bankanna var orðin tíföld landsfarmleiðsla. Auðvitað gat viðverðandi viðskiptahalli ekki talist "góður" í yfirgengilegri neyslu og kaupæði og var ávísun á gríðarlega gengisfellingu þegar straumkastið breyttist. BBC spyrjandinn velti því að vísu ekki fyrir sér hvernig stóð á því að bankarnir gátu fengið svona mikið af lánum erlendis. Var það ekki vegna þess að þar var talið að við værum áhugaverðir, frumlegir og duglegir vinnuþjarkar sem rétt væri að veðja á? Það held ég verði nú að hafa í uppgjörinu við þessa aðila. Hafði það á tilfinningunni að BBC spyrjandinn væri að gera lítið úr því að við vorum með drauma um að byggja hér upp fjármálastarfsemi sem ætti glæsta framtíð fyrir sér. Ýmsar smáþjóðir starfa á þessu sviði og hafa af því drjúgar tekjur. Slík starfsemi er að vísu byggð upp á lögum tíma, jafnvel á öldum. Við ætluðum að taka þetta með stæl eins og svo oft áður, en þetta sprakk í andlitið á okkur. Við verðum því að vinna fram úr þessu markvisst og fumlaust og endurheimta traust okkar í milli og við umheiminn. Dægurumræðan í þjóðfélaginu er ekkert sérstaklega uppbyggileg þegar maður er að velta þessu þætti fyrir sér. Auðvitað tapaði maður einhverjum peningum við þetta eins og margir aðir. Þv miður er það reynsla margra sparifjáreiganda í gegnum tíðina á Íslandi að sparifé hefur tilhneigingu til þess að gufa uppa á Íslandi. Svo erum við ekki heldur vön því að stjórnmálamenn eða bankamenn biðjist afsökunar. Hvað var að manninum heldur hann að við séum Bretar?

laugardagur, 7. febrúar 2009

Fyrir austan fjall

Var fyrir austan fjall og fór um eitt uppáhaldssvæðið mitt, Eyrarbakka og Stokkseyri. Á Bakkanum var fáni við hálfa stöng víða í þorpinu vegna jarðarfarar. Samfélagið var í vetrarbúningi og okkur fannst að mörg hús þyrftu málingu. Keyrðum fram hjá gamla ættarhúsinu, Gunnarshúsi. Það virðist nú vera tómt eftir að veitingastaðurinn flutti í annað hús. Á Stokkseyri var einhver svo vinsamlegur að hafa skafið snjóinn af hundaþúfunni hans Páls Ísólfssonar sem sjá má nálægt Ísólfsskála. Við stoppuðum bílinn til þess að hlusta á öldurótið við Stokkseyri. Það brýtur á hrauninu sem liggur út í sjóinn á þessu svæði - gamalt Þjórsárhraun ef ég man rétt. Síðan fórum við Holtaveg nr.413 og komum upp á þjóðveginn fyrir austan Selfoss. Keyrðum fram á nokkur hestastóð á veginum sem voru í vetrarbúningi. Drukkum jurtaseið á Náttúrulækningaheimilinu í Hveragerði með hunangi og kruðurí. Þetta "heimili" er rekið af myndarskap og þangað leitar fjöldi fólks þjónustu. Gott að koma inn á hlýtt heimilið eftir útiveruna. Það var bjart yfir austurfjöllunum séð úr Flóanum en blikur á lofti í suðri. Líklega styttist í það að veður fari hlýnandi og þessum miklu frostdögum með allt að 12 °c frosti sé lokið í bili. Engar sáum við austantórurnar að þessu sinni en það munu vera rauðleit ský yfir austurfjöllum séð úr Flóanum.

föstudagur, 6. febrúar 2009

Endurreisn atvinnulífs

Ég endaði vinnudaginn á að fara á Nordica á fund hjá nýrri endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins. Þarna var margt manna og kvenna kominn til þess að ræða um endurreisn í íslensku samfélagi. Það var athyglisvert að hlusta á fólkið tjá sig stutt og hnitmiðað. Fólki var tíðrætt um helstu grunngildi í viðskiptum s..s gott siðferði, ábyrgð samfara frelsi, hagsýni, mikilvægi nýsköpunar og staðinn yrði vörður um atvinnulífið. Vonandi að þessi nefnd skili góðu starfi. Það var auðfundið að það fólk sem komið var á þennan fund var áhugasamt um að leggja gott til þjóðmálaumræðunnar og hjálpa til við þá miklu atvinnuuppbyggingu sem er nauðsynleg til þess að skapa a.m.k. 20 þúsund ný störf í náinni framtíð.

mánudagur, 2. febrúar 2009

Vaxandi atvinnuleysi.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir hvert okkar að hafa atvinnu - eiga möguleika á að framfleyta okkur og fjölskyldu. Í atvinnunni speglast stór hluti af sjálfsmyndinni og atvinna er sá hvati sem heldur okkur í daglegri rútínu. Þetta eru svona grunnatriði sem koma fyrst upp í hugann. Ég hef einnig verið þeirrar skoðunar að þau stjórnvöld sem ekki vinna markvisst að því að skapa fulla atvinnu eigi ekki margra lífdaga auðið. Nálegðin í íslensku samfélagi, almennt viðhorf til atvinnunnar sé einmitt eins og hér hefur verið lýst. Viðunandi atvinnustig er mikilvægasta verkefni sem stjórnvöld standa frammi fyrir hverju sinni. Full atvinna næst ekki nema fyrirtæki fái þrifist og til þess þarf efnahagslega umgjörð til þess að orða það almennt að vera til staðar. Vextir af lánsfé verða að vera sanngjarnir, verðlag stöðugt og verðbólga lítil. Fjárlög og peningastefnan þurfa að vinna saman að því að skapa efnahagslegan stöðugleika. Við megum hvergi eyða meira en við öflum. Það þarf góðan skammt af bjartsýni, samstöðu og trausti í samfélaginu. Það verður að efla eftirspurn á samdráttartímum og hafa nægt framboð af verkefnum fyrir vinnufúsar hendur. Þannig komust við fram úr þessum vandræðum. Nóg í bili. Kveðja

sunnudagur, 1. febrúar 2009

Ný stjórn

Var að horfa á kynningu á nýrri ríkisstjórn, stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og svo verða kosningar í apríl. Það er mikilvægt að stjórnarkreppunni hafi verið eytt og landsmálin verði tekin föstum tökum. Það vekur óblandna ánægju mína að hvalveiðar skuli hafnar að nýju og hægt verði að bjóða upp á hvalkjöt. Kveðja.