fimmtudagur, 19. febrúar 2009

Í fyrsta sinn norður

Göngugatan. Fyrsta skipti sem ég fór norður í land var í skólaferðalagi á vegum Gagnfræðaskóla Kópavogs árið 1969. Ég man ekki nákvæmlega hvaða mánuð var farið en það hefur verið snemma sumars líklega í lok maí. Fyrsta daginn fórum við að Hólum í Hjaltadal og sváfum í skólanum fyrstu nóttina. Ráðsmaður einn hafði gert sér dagamun og var að leita eftir félagsskap um kvöldið meðal skólasystranna við lítinn fögnuð. Umsjónakennarinn í ferðinni hann Guðmundur Oddsson stuggaði við honum. Næsta dag var farið til Akureyrar og gistum við þar eina nótt í skóla - líklega gagnfræðaskólanum upp af brekkunni. Fyrir utan ungu stúlkurnar sem sýndu okkur strákunum úr Kópavoginum nokkurn áhuga þóttu okkur brúnu mjólkurflöskurnar afar athyglisverðar. Hvolpavitið var nú ekki þroskaðra en svo. Að sjálfsögðu var borðað á Hótel KEA. Næsta dag var farið í Mýtvatnssveit. Stoppað var á hótelinu í Reynihlíð og þar var borðaður nýr silungur með kartöflum og smjöri, hvílíkt lostæti. Þá var grjótagjáin heimsótt og tekin nokkur sundtök í henni og Dimmuborgir skoðaðar áður en Mývatnssveit var kvödd. Eftir Kröflugosið hefur ekki verið óhætt að lauga sig í gjánni. þar sem hitastigið hækkaði of mikið. Rútubílstjórinn í þessari ferð var að sjálfsögðu rútubílstjóri okkar Kópavogsbúa hann Teitur Jónasson. Hann var hrókur alls fagnaðar og oft sungum við lag sem fjallaði um hann. Viðkvæði í laginu var: Teitur vildi það og Teitur skyldi það. Trallalla.... Mig minnir að það hafi verið í kaupfélaginu í Miðfirði sem fengust forláta skrautpípur með tinloki sem margir keyptu sér. Ég tímdi því ekki og sá lengi vel mikið eftir því. Þetta er það sem ég man helst.Kveðja.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf gaman að fara til Akureyrar

Kv.
Hjörtur